Sósíalismi á tímum hamfara
Pistill
11.09.2021
Nýleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) sýnir svo ekki verður um villst að hrakspár undanfarinna ára eru að rætast: hitastig jarðar er við hættumörk, jöklar bráðna, flóð, skógareldar og stormar valda miklum usla, aldauði margra tegunda blasir við – og mannskæð plága geysar um allan heim. Allt stafar þetta af róttækum breytingum á lífríki hnattarins sem rekja má til svokallaðrar mannaldar. Mestu skiptir losun gróðurhússlofttegunda sem drifin er af hagkerfi heimsins, hömlulausum mörkuðum og ægivaldi einkahagsmuna.
Í aðdraganda alþingiskosninga hefur mörgum orðið tíðrætt um loftslagsvána. Oftar en ekki er þó staðnæmst við einfaldar tæknilegar lausnir. Engin ástæða er til að vanmeta slíkar lausna, en hitt skiptir meira máli að huga að djúpstæðum rótum umhverfisvandans og þeim stórtæku pólitísku aðgerðum sem blasa við. Erfitt er að sjá að loftslagsvandin verði leystur án mikillar eignatilfrærslu, með hagsmuni almennings í fyrirrúmi.
Covid, ósonlagið og tóbakið
Covidfárið, sem rekja má til aukinnar fábreytni dýrategunda á síðustu árum og áratugum, hefur leitt í ljós mikilvægi jafnræðis og samstöðu. Veiran spyr ekki um heimilisfang eða stéttarstöðu, við erum öll á sama báti. Þau lönd sem verst hafa komið út úr fárinu hafa yfirleitt hafnað samheldni og félagslegri ábyrgð og hallað sér að falsfréttum sem runnar eru undan rifjum þröngra einkahagsmuna, hagsmuna “greinarinnar” eins og nú er sagt. Nú þarf að setja greinaskil.
Glíman við ósonlagið í háloftunum, sem franskur eðlisfræðingur uppgötvað árið 1913, segir sína sögu. Nú eru flestir búnir að gleyma henni, en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar komst ósonlagið í hámæli. Það hafði löngum varið jörðina gegn skaðlegum sólargeislum, en nú var ljóst að það hafð rofnað. Manngerð efni, sem algeng voru í úðabrúsum og kælikerfum, eyddu ósonlaginu og tíðni húðkrabbameins margfaldaðist í kjölfarið. Nokkrar ríkisstjórnir ákváðu árið 1978 að banna notkun efnanna heima fyrir og rúmum áratug síðar var svonefnd Montreal-bókun samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og fleiri ríkja þar sem framleiðsla þeirra var bönnuð. Síðar var staðfest að bannið hægði verulega á rýrnun ósonlagsins. Vandinn var snarlega leystur með alþjóðlegri samstöðu.
Því skyldu menn ekki taka loftslagsvandann sömu tökum, standa saman og grípa til aðgerða? Það er sannarleg mun flóknara verkefni og hægara sagt en gert; olíukóngar slá ryki í augu fólks, kosta “rannsóknir” sem fullvissa almenning um að engin hætta sé á ferðum og leggja undir sig fjölmiðla sem eru sífellt á verði. Eins og tóbaksframleiðendur forðum. Lengi vel virtu men “rétt” fólks til að reykja nánast hvar sem var. Þegar ljóst var að óbeinar reykingar voru hættulegar heilsu manna, rétt eins og banvænar veirur, tóku varnirnar að bresta.
Kvótakerfið, enn og aftur
Saga tóbaksbarbaróna og olíukónga minnir um margt á sögu íslensks sjávarútvegs. Í skjóli “veiðreynslu” og nýfrjálsra vinda í stjórnmálum, sem töldu hagsmunum almennings best borgið með einkavæðingu, voru samþykkt lög um kvótakerfi í fiskveiðum árið 1983. Á örfáum árum hefur fámennur hópur útgerðarmanna nánast “eignast” auðlindir hafsins. Stjórnmálamenn töluðu um “þjófnað aldarinnar” og almenningur hneikslaðist á nýjum “kóngum” og “greifum” sem hirtu lítið um “leiguliða” og verkafólk. Endurgjald til samfélagsins var ekkert í hlutfalli við þann arð sem kóngunum hlotnaðist af þjóðarauðlindinni.
Á sama tíma hefur ofurvald kónganna tryggt þeim vald yfir samræðum landsmanna. Sumir stjórnmálamenn segja að fiskveiðkerfið sé afar gott, jafnvel fyrirmynd fyrir allan heiminn, og engin ástæða sé til að staðfesta með lögum og stjórnarskrá eignarhald þjóðar yfir auðlindinni. Aðrir líta undan og segja það of seint, eignin sé staðreynd. Í vitund almennings situr dramatískt myndband úr sjónvarpsfréttum sem sýnir erfðaprins konungsveldisins reiðubúinn að leggja hendur á fyrrverandi seðlabankastjóra sem hafði staðið í lappirnar þrátt fyrir þrýsting úr “greininni”. Nú situr það líka í vitund okkar flestra að krosstengsl í fyrirtækjum hafa falið mikinn auð kvótaeigenda, sumpart í skjóli persónuréttar, og hluti arðsins af fiskveiðum á Íslandsmiðum hefur verið notaður til að komast með vafasömum hætti inná veiðilendur í öðrum heimsálfum þar sem fátækt fólk þarf að heija sín þorskastríð. Enginn stjórnmálaflokkur á alþingi hefur roð við kóngunum. Nú er þörf á sósíalisma við Austurvöll.
Á tímum stórkostlegra náttúruhamfara og þjóðfélagsumróts, er kallað eftir róttækum lausnum sem dugi til framtíðar með hagsmuni komandi kynslóða í huga. Sósíalisminn, sem byggir á rótgrónum hugmyndum sem leggja áherslu á jöfnuð, réttlæti, samhyggð og samstöðu, er enn í fullu gildi, en nú á nýjum forsendum. Aldrei fyrr hefur verið brýnni þörf fyrir stjórnmálahreyfingu sem kennir sig við sósíalisma.
Höfundur er mannfræðingur. Greinin birtist í Morgunblaðin u 11. september 2021.