Fjölbreytt störf – Jöfn tækifæri, jöfnuður og réttlæti

Árni Múli Jónasson Pistill

Meginástæða þess að margar byggðir og ekki síst hefðundnar sjávarbyggðir eiga undir högg að sækja er að þar skortir fjölbreytt atvinnutækifæri.

Ef byggðirnar eiga að hafa einhverja möguleika til að vera eftirsóknarverðir búsetukostir fyrir ungt fólk verða þær að geta boðið því fjölbreytt og áhugaverð störf. Ef þeim tekst það ekki munu þær glata þeim mikla mannauð sem býr í ungu fólki, atvinnulífið nýtur ekki starfskrafta þess og samfélagið allt fer á mis við þann kraft og sköpun sem í því býr.

Fjölmörg dæmi eru um að útgerðarmenn, sem hafa fengið einkarétt frá ríkinu til að nýta fiskveiðiauðlindina okkar og hafa gert út skip og rekið fiskverkun í sjávarbyggðum, selji kvótann hæstbjóðanda fyrir margar milljónir og oft marga milljarða og kaupandinn nýti kvótann til að gera út frá öðru byggðarlagi. Eigendur útgerðanna geta líka hvenær sem þeim þóknast og sjá í því gróðavon ákveðið að fara með skipin, sem kvótinn er bundinn við, burt úr byggðarlaginu eða að landa aflanum og láta verka hann einhvers staðar annars staðar.

Og fólkið sem hefur unnið við að veiða fiskinn og verka hann situr eftir slyppt og snautt, í fullkomnu óöryggi um framfærslu sína og barna sinna og neyðist oft til að flytjast burt úr byggðarlaginu til að finna atvinnu. Það getur jafnvel ekki selt húsnæði sitt eða neyðist til að selja það fyrir lítið því að fáir vilja kaupa fasteignir í byggð þar sem litla eða enga atvinnu er að hafa.

Er þetta ekki í raun eignaupptaka í boði ríkisins?

Ef ekkert verður að gert er mikil hætta á að atvinnutækifærin í mörgum hefðbundnum sjávarbyggðum verði enn þá færri og fábreyttari en nú er. Maður þarf ekki annað en að fara í næsta stórmarkað til að sjá og finna að sjálfvirknivæðing starfa er þegar farin að hafa mjög mikil áhrif á störfin. Þeim fjölgar mjög hratt sem ákveða að afgreiða sig sjálfir í stað þess að láta starfsfólkið sjá um það. Og svona er tækniþróunin á mjög mörgum öðrum, sviðum, ekki síst í sjávarútvegi. Sú þróun er mjög hröð og mun verða það áfram.

Eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna sjálfvirknivæða störfin til þess að draga úr launakostnaði og auka þannig arð sinn af rekstrinum og til að þurfa að deila enn minna af honum en áður með starfsfólkinu. Þannig fer, ef ekkert er að gert, meira og meira af gróðanum beint í vasa eigenda og stjórnenda fyrirtækjanna.

Spurningarnar sem við verðum öll að svara eru því þessar:

Ætlum við að sætta okkur við þetta augljósa og ömurlega óréttlæti og þann mikla ójöfnuð sem þetta leiðir til og fylgjast aðgerðalaus með þegar þeir ríku verða ríkari og valdameiri og þeir efnaminni enn þá fátækari og valdlausari?

Eða.

Ætlum við að gera það sem gera þarf til að sá gríðarmikli arður, sem fiskveiðiauðlind þjóðarinnar skilar, verði nýttur til að gera fólki í sjávarbyggðum kleift að gera atvinnulíf í heimabyggðum sínum fjölbreyttara og öflugra og tryggja þannig afkomu sína og barna sinna og framtíð byggðanna?

Og ætlum við að gera það sem gera þarf til að tryggja að sá arður sem sjálfvirknivæðing starfa getur skapað lendi fyrst og fremst hjá fólkinu í landinu og mest hjá því fólki sem þarf svo bráðnauðsynlega á honum að halda til að bregðast við breytingum sem sjálfvirknivæðingin mun valda á störfum þess?

Ef þú vilt vera í liði með þeim sem ætla ekki að fylgjast aðgerðalaus með þessari þróun í átt til enn þá meira óréttlætis og ójöfnuðar, heldur berjast af alefli fyrri breytingum, réttlæti, frelsi og mannsæmandi framtíð fyrir þig og börnin þín getur þú gert það með mjög einföldum og áhrifaríkum hætti:

Kjóstu Sósíalistaflokkinn!

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram