Uppreisn öryrkja
Áætlanir
17.09.2021
Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Þrettánda tilboð til kjósenda lagt fram 17. septemner:
UPPREISN ÖRYRKJA
Staðan í dag
Á Íslandi ríkir langvarandi og hrópandi efnahagslegt óréttlæti gagnvart veiku og fötluðu fólki. Óréttlæti sem veldur því að samfélagið okkar er laskað og hér þrífst fátækt þrátt fyrir að landið okkar sé eitt af þeim ríkustu í veröldinni. Laskað á þann hátt að tugþúsundir búa hér við fjárhagslegt ósjálfstæði og óöryggi, fordóma og einangrun, skömm og afkomuótta. Á þessu fólki eru brotin mannréttindi alla daga ársins. Ný rannsókn sem gerð var fyrir ÖBÍ af Vörðu, rannsóknarstofnun ASÍ og BSRB sýnir að 80% fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og sama hlutfall neitar sér um heilbrigðisþjónustu. Rúm 40% þurfa fjárhagsaðstoð frá vinum eða ættingjum og önnur 12% neyðast til að þiggja matargjafir hjálparsamtaka.
Öryrkjar eru allskonar fólk úr öllum mögulegum starfsstéttum, fólk sem fæddist fatlað, fólk sem veiktist, vann sér til húðar eða varð fyrir slysi en þarf nú að búa við viðvarandi afkomukvíða vegna fátæktar.
Stóra skattatilfærslan
Síðustu áratugi hefur pólitísk valdastétt framkvæmt risavaxna tilfærslu á skattbyrði þar sem álögur á hina ríku hafa færst yfir á þau fátæku, iðulega langveikt og fatlað fólk. Frá því að vera nær engin árið 1996 hefur skattbyrði öryrkja smám saman aukist og er orðin allt upp í 52% árið 2021. Framfærslukostnaður á Íslandi er í það minnsta 150 þúsundum krónum hærri en útborgaður óskertur lífeyrir eftir skatt. Samkvæmt neysluverði í reiknilíkani félagsmálaráðuneytisins í dag ætti framfærsla einstaklings að vera 198.046,- kr án húsnæðiskostnaðar og ef bætt er við húsnæðiskostnaði (t.d. leiguverði á nýrri félagslegri tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu) gerir það samtals um 348.046,- kr. með húsnæðiskostnaði en í áðurnefndum tölum er bæði fæði og lækniskostnaður verulega vanáætlaður. Hinn frjálsi og hömluleysi húsnæðismarkaður hækkar síðan hæglega þessa tölu en húsaleigubætur og barnabætur eru einnig allt of lágar miðað við núverandi ástand.
Lágar upphæðir og háar skerðingar
Íslendingar eiga heimsmet í skerðingum á örorkulífeyrisgreiðslum. Á Íslandi ná tekjutengingar og skerðingar til 70% lífeyristekna en sömu sögu er ekki að segja af hinum Norðurlöndunum því þar ná skerðingar aðeins til 5-10% af lífeyristekjum. Lífeyrissjóðir á Íslandi skila eðlilegum greiðslum til fólks en ríkið beitir niðurskurðarhnífnum af grimmd og hefur með því af fólki möguleikann á mannsæmandi tilveru.
Greiðslumeðvitund í gegnum greiðsluþátttöku
Með nýfrjálshyggjunni sem tröllriðið hefur samfélagi okkar síðustu áratugi varð hér til svokallað greiðsluþátttökukerfi, bæði innan heilbrigðisþjónustunnar og í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Að innleiða „kostnaðarvitund“ hjá veiku og fötluðu fólki varð eitt af mikilvægari verkefnum þeirra sem fóru með völd. Tilgangurinn var að gera þessu fólki sífellt erfiðara að fá þá heilbrigðisþjónustu sem það þurftu á að halda. Sú sjálfsagða hugmynd að öryrkjar væru að fullu sjúkratryggðir varð fjarlægari og þess í stað varð til kerfi hárrar og handahófskenndrar greiðsluþátttöku sem gerði það að verkum að öryrkjar hafa iðulega ekki ráð á að leysa út nauðsynleg lyf, sinna endurhæfingu eða sækja sér læknisþjónustu.
Ónýtur húsnæðismarkaður
Húsnæðiskerfið gerir líf öryrkja, líkt og annara jaðarsettra hópa, verra og erfiðara. Leigumarkaðurinn á Íslandi er hömlulaus með öllu. Ríkisstjórnin hefur svikið það loforð sem hún gaf verkalýðshreyfingunni um að innleiða leiguþak til að hægt væri að hemja græðgi leigusala. Og draumurinn um að komast í eigið húsnæði er fyrir öryrkja á strípuðum bótum eins fjarlægur og hægt er að hugsa sér. Lánaflokkur um hlutdeildarlán sem komið var á sumarið 2020 nær ekki til fyrstu þriggja tekjutíundanna. Einnig innihalda hlutdeildarlánin allskyns hömlur sem gera það að verkum að þau sem geta notfært sér lánin er beint í jaðarbyggðir Reykjavíkur og nágrennis. Þá hafa félagsleg kerfi sveitarfélaganna aðeins tryggt örfáum prósentum leigjenda húsnæði á viðráðanlegum kjörum en á bilinu 0,5 % til 8% húsnæðis er félagslegt leiguhúsnæði. Öryrkjar geta ekki leitað í neina sjóði eftir styrkjum til að framkvæma aðgengisbreytingar á húsnæði, sé þörf á þeim og komast ekki í gegnum greiðslumat til að endurfjármagna eða sinna viðhaldi ef þeir eru svo lánsamir að eiga húsnæði.
Grimmilegar tekjuskerðingar og íþyngjandi kostnaður við læknis og lyfjanotkun, hátt húsnæðis og neysluverð halda öryrkjum í fátæktargildru. Vegna efnahagslegrar kúgunnar verður þessi þjóðfélagshópur fyrir miklum fátæktarfordómum. Vert er að nefna að Brynja, hússjóður húsnæðisfélag Öryrkjabandalagsins, hefur vegna sífellt vaxandi biðlista ekki séð sér annað fært en að taka ekki við fleirum á þá.
Starfsgetumat eða kerfisbreytingar
Ríkið hefur synjað kröfu öryrkja um að hækka grunnbætur ásamt frítekjumarkinu. Sú skýring sem gefin hefur verið er að hagsmunasamtök öryrkja, ÖBÍ, hafi hafnað svokölluðu starfsgetumati. Hér er því sú staða uppi að velferð á Íslandi er einhliða samningsatriði valdastéttarinnar en ekki sjálfsagt réttlætismál. Öryrkjum er stillt upp við vegg; þeir eru látnir sæta refsingu fyrir að lúta ekki einhliða stjórn ríkisvaldsins í kjaramálum sínum, og verkalýðshreyfingunni gert ljóst að hún hafi ekki samningsrétt fyrir hönd öryrkja.
Ósanngirni gagnvart örorkulífeyrisþegum má víða finna í kerfinu. Þar má til dæmis nefna hvernig Tryggingastofnun sinnir ekki upplýsingaskyldu sinni til fólks sem á rétt á þjónustu stofnunarinnar. Veikt fólk þarf oft að fálma í blindni í gegnum kerfið og verður þar af leiðandi oft af ýmsum sjálfsögðum réttindum. Réttindi fylgja ekki fólki milli sveitarfélaga og sú skammarlega staða er uppi að þegar langveik börn verða fullorðin eiga þau að hafa náð heilsu fyrir eitthvert kraftaverk. Upphefst þá nýr kafli í lífi þeirra í baráttu fyrir sjálfsagðri aðstoð og þjónustu.
Samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Enn á eftir að lögfesta og innleiða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og innleiða samning um geðheilbrigði.
Eitt af markmiðum Sameinuðu þjóðanna með samningnum er að útrýma þeirri stofnanavæðingu sem ríkt hefur undanfarna áratugi með búsetu fatlaðra á sambýlum. Í stað þess að bjóða fólki sjálfstæða búsetu með fullnægjandi stoðþjónustu er allt of algengt að veiku fólki undir 67 ára aldri sé boðin búseta á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Enn þekkist að fólk sé flutt nokkurskonar hreppaflutningum milli hjúkrunarheimila. Margt fullorðið veikt eða fatlað fólks er einnig til heimilis hjá nánustu fjölskyldumeðlimum þar sem það nýtur umönnunar og aðstoðar án nægrar aðkomu hins opinbera. Þá er fólk í sumum tilfellum fast inn á sjúkrahúsum til margra ára án úrræða en sveitarfélög og ríki virðast bítast um ábyrgð á stoð þjónustu eins og NPA. Af þeim sökum hefur hún víða ekki verið fullfjármögnuð þrátt fyrir fögur fyrirheit. Það er til skammar að sjúklingar og fatlað fólk þurfi að þola að vera bitbein kerfisins og lifa við afleiðingar þess.
Útrýma þarf þeim fátæktar fordómum sem viðgangast í samfélaginu. Vegna skorts á stefnu stjórnvalda gagnvart öryrkjum um áratugaskeið og allskyns skerðingum innan kerfisins hafa öryrkjar verið jaðarsettir af pólitískri valdastétt. Afleiðingar þess eru vanlíðan og brotin sjálfsmynd til viðbótar við veikindi eða fötlun. Aðstæður, mótaðar af tekju-, eigna- og heilsuskorti geta valdið því að félagslegt rof verði á milli öryrkja og þeirra sem ekki eru jaðarsettir. Félagsleg og tilfinningaleg einangrun skapast sem gerir tilveru þeirra enn erfiðari
Tilboð Sósíalista til öryrkja
Sósíalistaflokkurinn er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Af þessu leiðir að það fyrsta sem hann býður örorkulífeyrisþegum er að hækka grunn lífeyri þannig að mannsæmandi líf sé mögulegt.
- Hér á landi skal reka velferðarsamfélag og vinna markvisst að réttlátri skiptingu gæða með eftirliti og skýrri upplýsingagjöf.
- Innan velferðarkerfisins skulu starfa þjónustufulltrúar sem setja sig í samband við fólk sem slasast og/eða veikist sem og foreldra sem eignast fötluð börn. Þeim skal boðin aðstoð við að sækja rétt sinn eða þá þjónustu sem þörf er á. Samhliða því skal fara fram úttekt á aðgengi fyrir þau á heimili og eða vinnustað.
- Aldrei skal skattleggja fátækt. Því skulu lægstu laun og örorkulífeyrir ekki bera skatt.
- Hækum grunn lífeyri svo örorkubætur fari aldrei niður fyrir lægstu laun á vinnumarkaði.
- Félagsmálaráðuneytið skal setja fram raunhæf neysluviðmið. Lágmarkslaun skulu því aldrei fara niður fyrir „rétt áætluð” neysluviðmið en lágmarkslaun í dag eru í kringum 350 þúsund krónur.
- Leiðrétta skal þá kjaragliðnun sem orðið hefur.
- Afnema skal skerðingar í örorkulífeyriskerfinu. Fólki skal gert kleift að stunda atvinnu við hæfi og skal skattkerfið nýtt til tekjujöfnunar en ekki lífeyriskerfið sjálft.
- Fjölgum hlutastörfum sem henta þeim sem hafa skerta starfsorku og styttum vinnuvikuna svo hér verði mannúðlegri og fjölskylduvænni vinnumarkaður.
- Tryggjum öllum sama aðgengi að menntun, fjölgum námsúrræðum meðal fatlaðra og leggjum niður skólagjöld á öllum námsstigum. Greiðum námsstyrki í stað námslána og fellum niður gömul námslán við örorku og getuskerðingu sem ekki verður endurheimt.
- Allir eiga að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu hvar sem er á landinu og skal hún rekin af hinu opinbera landsmönnum að kostnaðarlausu. Hún skal ná yfir geðheilbrigði, almenna líkamlega heilsu sem og tannlækningar. Lyf skulu einnig niðurgreidd að fullu fyrir langveikt og fatlað fólk.
- Efla skal geðheilbrigðisþjónustu með bættum bráðaúrræðum og eflingu fíknimeðferða sem og meðferða innan teymishópa eins og átröskunarteymi og transteymi. Þá skal auka fræðslu um geðræn veikindi og fíkn og standa sérstaklega vörð um geðheilbrigði barna og þeirra aðstandenda.
- Börn skulu aldrei bera kostnað af opinberri starfsemi svo sem heilbrigðisþjónustu enda hafa þau ekki laun. Biðlistum eftir greiningum barna á að útrýma og þau skulu fá þá þjónustu sem þeim ber innan heilbrigðis- og skólakerfisins.
- Koma skal á almennri fræðslu til að draga úr fordómum gegn fötluðu fólki, sér í lagi geðfötluðum en efla þarf virðingu í garð þeirra með sérstakri vísun í Lög um réttindi sjúklinga, Mannréttindasáttmála SÞ og siða- og starfsreglur þeirra fag- og starfsstétta sem helst koma að þeim málum.
- Tryggja skal að réttindi fólks minnki ekki eða falli niður við það að flytja á milli sveitarfélaga eða tímabundið erlendis og tryggja skal áframhaldandi þjónustu við ungmenni eftir að þau ná 18 ára aldri.
- Notendastýrð persónuleg aðstoð og stoðþjónusta skal alltaf standa fólki til boða sem á þarf að halda og tryggja fötluðu fólki áframhaldandi, jafnvel aukinni stoðþjónustu þegar það nær 67 ára aldri.
- Sósíalistaflokkurinn hefur lagt fram tilboð um byggingu 30 þúsund íbúða á næstu 10 árum sem yrðu bæði til leigu og kaups. Nánar má lesa um það tilboð undir yfirskriftinni „Stóra húsnæðisbyltingin”. Einnig skal tryggja að lögum um algilda hönnun sé fylgt í hvívetna og að fólk eigi kost á styrkjum til að aðlaga húsnæði sitt að þörfum sínum vegna fötlunar.
- Aðgengismál skulu ávallt vera í lagi af hendi hins opinbera. Þá þarf stafrænt aðgengi að batna til muna og styðjast við lög.
- Bæta þarf kerfi niðurgreiðslna á hjálpartækjum, þar með töldum gleraugum og heyrnartækjum og tryggja að aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum miðist við þeirra þarfir og óskir með sjálfstætt líf að leiðarljósi.
- Almenningssamgöngur og akstursþjónusta fatlaðra skal vera fólki að kostnaðarlausu sem og þjónusta sjúkraflutninga. Bæta skal þessa þjónustu um allt land.
- Fatlað fólk á að hafa val um hvernig búsetuform það kýs. Ef það velur að dvelja á hjúkrunarheimili er mikilvægt að það tapi ekki grundvallar réttindum eins og nú er raunin,
svo sem akstursþjónustu. - Innleiða skal og lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og innleiða sambærilegan samning um Geðheilbrigðismál.
- Það er sorgleg staðreynd að fatlað fólk er sá hópur sem hvað hættast er við að verða fyrir ofbeldi. Til að stemma stigu við slíku leggjum við fram tilboð um að útrýma ofbeldi með stofnun ofbeldiseftirlits en innan þess skal tryggja fræðslu og forvarnir innan allra stofnana hins opinbera svo sem þeirra sem starfa fyrir og með fötluðu fólki.
- Sósíalistaflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum nýfrjálshyggjunnar um starfsgetumat en nú þegar virðist Tryggingastofnun vinna eftir slíku mati án sjáanlegra lagastoðar. Þannig er sífellt fleirum synjað um örorkumat og þá sérstaklega yngra fólki sem glímir við veikindi. Það endar því oft á framfæri sveitarfélaga með enn lægri framfærslu.
Besta leiðin til að bæta samfélag okkar er að bæta stöðu þeirra sem harðast hafa orðið úti vegna óréttlætis, ójöfnuðar og valdaleysis. Allt fólk getur misst heilsuna eða orðið fyrir fötlun. Að útrýma fátækt úr samfélaginu er ekki aðeins réttlæti í verki heldur skapar það heilbrigðara og betra samfélag þar sem fólk fær að blómstra hvernig sem það er skapað eða hvaða getu það hefur.
Ísland er ríkt land. Okkur er ekkert að vanbúnaði; við getum haldið uppi velferð og mannúð svo allir fái notið sín.