Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um launagreiningu
Tilkynning
01.10.2021
Óskað er eftir greiningu á launagreiðslum Reykjavíkurborgar til starfsfólks og launagreiðslum borgarinnar til starfsfólks þeirra fyrirtækja sem Reykjavíkurborg er meirihlutaeigandi að. Greiningin nái yfir allt síðasta ár og greini grunnlaun, regluleg laun, heildarlaun og unnar stundir, þar sem launagreiðslur eru skiptar út frá starfsstétt, (og viðkomandi starfssviði borgarinnar eða fyrirtæki í eigu borgarinnar), kyni, aldri og uppruna ef slíkar upplýsingar liggja fyrir. Stuðst verði við eftirfarandi aldursskiptingu: Yngri en 18 ára (ef slíkt á við), 18-29 ára, 30-39 ára, 40-49 ára, 50-59 ára, 60 ára og eldri. Einnig verði kynjasamsetning starfsstétta sett fram sem og hlutfall fólks með erlendan bakgrunn í starfsstéttum ef slíkar upplýsingar liggja fyrir. Markmið með launagreiningunni er að varpa ljósi á það hvernig kjör eru mismunandi eftir starfsstéttum og félagslegum breytum. Mannauðs- og starfsumhverfissviði verði falið að útfæra tillöguna og leita til greiningaraðila ef þörf þykir á, líkt og Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Lagt er til að niðurstöður verði síðan kynntar í borgarráði og öllum fagráðum borgarinnar.
Samþykkt um endurskoðun á jafnlaunastefnu borgarinnar var sett fram í erindisbréfi stýrihóps þann 8. júní 2021 í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Hlutverk stýrihópsins er að gera tillögu að breytingum á stefnu í jafnlaunamálum þannig að hún taki betur til margbreytileika starfsfólks borgarinnar. Í erindsbréfi kemur fram að vinnan verði byggð á því markmiði að allt starfsfólk innan Reykjavíkurborgar fái sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og lögð verði áhersla á mikilvægi þess að skoða þætti eins og uppruna, aldur, kyn o.fl.
Stýrihópurinn um endurskoðun jafnlaunastefnu muni sérstaklega skoða niðurstöður fyrirliggjandi laungreininga um launamun með tilliti til uppruna, bæði útskýrðan og óútskýrðan launamun. Einnig er það hlutverk hópsins að afla upplýsinga um framkvæmd er varðar atvinnuauglýsingar og atvinnuviðtöl og upplýsinga sem veittar eru á þessum stigum með það að markmiði að fyrir hendi verði skýr rammi sem stuðli að auknu launajafnrétti og jafnræði í ráðningarferlum. Í vinnu stýrihópsins er tekið mið af af lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og annarri löggjöf er varðar jafnréttis- og jafnlaunamál, auk mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd og eftir atvikum öðrum stefnum borgarinnar sem gætu átt við.
Ljóst er að kjör hafa áhrif á félagslega stöðu fólks þ.m.t. hafa launatekjur áhrif á veikindatíðni. Sé litið til svars við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands um hlutfall veikinda starfsmanna Reykjavíkurborgar eftir launatekjum, má sjá samspil tekna og veikinda síðustu ára. Svo virðist vera að þar sem meðalheildarlaun eru yfir 550 þúsund á mánuði sé minna um veikindi heldur en þar sem meðalheildarlaunin eru lægri. Fyrirspurnin snéri að því hvernig veikindi skiptist eftir launabilum síðustu þriggja ára eftir tekjubilunum: 0-400 þúsund í mánaðartekjur, 400-550 þúsund í mánaðartekjur og 550 þúsund í mánaðartekjur og uppúr. Hér má sjá svar við fyrirspurninni:
Til að draga upp skýra mynd af launakjörum starfsfólks sem starfar fyrir Reykjavíkurborg er mikilvægt að fá fram hverjar tekjur eru út frá félagslegum breytum, m.a. starfsstétt. Stuðst verði við ÍSTARF95 starfaflokkunarkerfi Hagstofu Íslands sem byggir á þrepaskiptu flokkunarkerfi. Lagt er til að við umrædda launagreiningu í starfsstéttir verði byggt á a.m.k. fyrstu þremur stöfum starfaflokkunar í ÍSTARF95, fjórum stöfum ef hægt er.
Greining á kynbundnum launamun í október 2020 er heiti á skýrslu sem var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Reykjavíkurborg og var henni skilað 3. febrúar 2021. Eftirfarandi aðilar sáu um úrvinnslu og skýrslugerð: Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Guðný Bergþóra Tryggvadóttir og Sindri Baldur Sævarsson. Í skýrslunni koma fram niðurstöður um launagreiningu. Þar kemur fram að starfsheiti hjá borginni hafi verið alls 591 og fjallað er um bakgrunnsupplýsingar út frá kyni, starfshlutfalli, ríkisfangi, aldri, starfssviði og ÍSTARF flokkun. Hér er lagt til að þekkingaröflunin verði dýpkuð með launagreiningunni með því að líta á samspil þeirra þátta sem eru nefndir í ofangreindri tillögu og einnig til félaga/fyrirtækja sem eru í meirihluta eigu borgarinnar.