Fjárfesting gegn húsnæðiskreppu

Sanna Magdalena Mörtudóttir Tilkynning

Reykjavíkurborg felur Félagsbústöðum að fara í fjárfestingu til að útvega húsnæði fyrir fólk sem nú bíður eftir húsnæði hjá borginni. Tæplega 900 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir húsnæði hjá borginni sé litið til félagslegs leiguhúsnæðis, húsnæðis fyrir fatlað fólk, húsnæðis fyrir heimilislausa einstaklinga og þjónustuíbúðir fyrir aldraðra. Miklu fleiri eru að bíða eftir húsnæði sem hentar þeirra þörfum ef börn þessara einstaklinga eru talin með. Samkvæmt grófri áætlun myndi það kosta um 24 milljarða að kaupa húsnæði til að vinna upp biðlista vegna húsnæðis í Reykjavík, fyrir lok kjörtímabilsins.

Það er nauðsynlegt að útrýma biðlistum eftir húsnæði og vinna gegn húsnæðiseklunni sem bitnar harðast á þeim sem verst standa í samfélaginu. Húsnæði og öruggt húsaskjól er grunnforsenda velferðar og fjárfesting í þágu húsnæðisuppbyggingar ætti að vera efst á forgangslista borgarinnar. Hver íbúð mun skila borginni leigutekjum sem getur farið í afborgun af lántöku vegna húsnæðisuppbyggingar. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar í samvinnu við Félagsbústaði og velferðarsvið.

Hjá Reykjavíkurborg eru umsóknir eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði 531. Nýjustu tölur sýna að umsóknir eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir telja 72, umsóknir eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða eru 144 og umsóknir eftir húsnæði fyrir fólk með fötlun eru 136. Samtals er um að ræða 883 umsóknir. Á bak við hverja umsókn er manneskja og á bak við manneskjur eru fjölskyldur og börn sem eru að bíða eftir húsnæði.

117 barnafjölskyldur standa að baki umsókna um almennt félagslegt leiguhúsnæði, þar af 94 einhleypir foreldrar sem bíða eftir því að komast í félagslegt leiguhúsnæði. Þörfin er því gríðarlega mikil. Hér eru vel yfir 800 heimili sem þarf að útvega. Það er nauðsynlegt að byggja upp góða borg sem nær utan um grunnþarfir allra íbúa. Nú eru margir í sárri húsnæðisþörf. Til þess að vinna gegn biðlistum er nauðsynlegt að fjárfestingaráætlun borgarinnar taki mið af veruleika fólks með það að markmiði að eyða biðlistum og tryggja að enginn verði skilinn eftir.

Húsnæði og öruggt húsaskjól er grunnforsenda velferðar og fjárfesting í þágu húsnæðisuppbyggingar ætti að vera efst á forgangslista borgarinnar. Hver íbúð mun skila borginni leigutekjum sem getur farið í afborgun af lántöku vegna húsnæðisuppbyggingar. Raunveruleg fjárútlát Reykjavíkurborgar eru því lægri en sú tala sem hér er nefnd til að útrýma húsnæðiseklunni. 24 milljarða kostnaður er að teknu tilliti til 18% stofnframlags frá ríki en án vaxtakostnaðar.

Sveitarfélögin hafa þá skyldu að tryggja nægilegt framboð af húsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Það er óboðlegt að svo margt fólk sé að bíða eftir því að komast í öruggt húsaskjól. Við því þarf Reykjavíkurborg að bregðast.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram