Neyðarskýli verði opin allan sólarhringinn – tillaga Sósíalistaflokksins
Tilkynning
14.02.2022
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að neyðarskýli borgarinnar verði opin allan sólarhringinn í stað núverandi fyrirkomulags frá 17:00 til 10:00. Í Reykjavík eru þrjú neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. Einstaklingum sem glíma við heilsufarsvanda stendur til boða að fá skjól lengur og gistiskýlin eru opin lengur þegar óveðri eða kuldakasti er spáð. Mikilvægt er að fólk hafi þak yfir höfuðið alla daga ársins, á öllum tímum. Það minnsta sem hægt er að gera er að tryggja að neyðarskýli séu opin allan sólarhringinn. Tryggt verði að ávallt sé starfsfólk sem geti mætt ólíkum þörfum þeirra sem dvelja í neyðarskýlunum. Velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar.
Í svari velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, við fyrirspurn um kostnaðargreiningu á sólarhringsopnun neyðarskýla borgarinnar kemur fram að það myndi kosta 33 m.kr. á ársgrundvelli. Gera þyrfti breytingar á samningi við Rótina um rekstur Konukots og huga að breytingu á húsnæði þar sem þrengsli eru töluverð. Til að mæta sólarhringsopnun þyrfti að bæta 1,8 stöðugildi í Konukot og 1 stöðugildi í neyðarskýlið á Grandagarði (sjá svar hér). Þetta var áður en viðbótarfjármagn vegna samnings um rekstur Konukots var samþykkt.
Á fundi velferðarráðs 8. desember 2021 voru samþykktar breytingar á samningi við Rótina, félags kvenna um áföll og vímugjafa, um rekstur neyðarskýlis fyrir konur (Konukot). Samþykkt var að hætta að reiða sig á framlag sjálfboðaliða og breytingar gerðar á vaktaáætlunum því fylgjandi. Bætt var við stöðu teymisstýru og breytingar gerðar á launaröðun forstöðukonu vegna þeirrar þjónustu sem starfsmenn munu veita þeim konum sem dvelja í smáhúsum í nágrenni Konukots. Laun forstöðukonu voru hækkuð til samræmis við laun forstöðukonu í gistiskýlinu Grandagarði.
Fjallað er ítarlega um þessar breytingar sem gerðar voru í greinargerð sviðsstjóra velferðarsviðs og þar kemur fram að kostnaður við þessar breytingar sé alls um 29 m.kr. á ári. Sjá má greinargerðina hér.
Neyðarskýlin í borginni eru þrjú. Gistiskýli Lindargötu er fyrir heimilislausa karlmenn, neyðarskýlið Grandagarði er fyrir yngri heimilislausa karlmenn og Konukot er fyrir heimilislausar konur. Boðið er upp á kvöldverð og morgunmat auk stuðnings og þjónustu frá VoR-teymi (vettvangs- og ráðgjafateymi) og starfsfólki neyðarskýlanna.
VoR teymið leitast við að aðstoða heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Teymið veitir fjölbreytta aðstoð, stuðning og ráðgjöf og miðlar upplýsingum um þjónustu sem er í boði. Teymið starfar m.a. með fólki í neyðarskýlum, smáhýsum og í íbúðum þar sem þjónusta er veitt á grundvelli hugmyndafræði um húsnæði fyrst (e. Housing first).
Rótin, sem sér um rekstur Konukots, vinnur eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði þar sem áhersla er lögð á konurnar sem nýta úrræðið. Líkt og sjá má á vefsvæði Rótarinnar beinist skipulag og verkferlar að því að mæta þörfum kvennanna fyrir þjónustuna. Starfskonur líta á konurnar sem samstarfsaðila og taka mið af þörfum og viðhorfum þeirra í samræmi við leiðarljós Rótarinnar. Starfsfólk reynir að mæta hverjum og einum gesti á þeim stað sem hann er staddur og veitir þannig einstaklingsmiðaða og valdeflandi þjónustu. Starfsfólk aðstoðar einnig gesti við að hafa samband við lækni, meðferðaraðila, geðdeild eða aðra sambærilega aðila ef á þarf að halda og alltaf er reynt að vinna í málefnum gesta. Í Konukoti er boðið upp á þvott á fötum og hreinlætisaðstöðu.
Skjólið er dagsetur fyrir konur rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar og konur í Konukoti hafa aðgang að Skjólinu milli kl. 10-15 alla virka daga. Í neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karlmenn er boðið upp á kvöldmáltíð og léttan morgunverð, þvott á fötum og hreinlætisaðstöðu. Í gistiskýlinu, neyðarskýli fyrir langtíma heimilislausa karlmenn, er boðið upp á þvott á fötum og hreinlætisaðstöðu og geta einstaklingar fengið undanþágu á að dvelja innandyra utan hefðbundins opnunartíma ef um heilsubrest er að ræða og ekki er þörf á bráðaþjónustu.
Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem gildir árin 2019-2025 hefur sett fram leiðarljós og yfirmarkmið með mælikvörðum. Eitt af þeim snýr að því að enginn neyðist til að sofa úti. Þar stendur m.a. að sveitarfélögum beri skylda til að veita íbúum sínum aðstoð þegar þeir geta ekki leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir og því ber að stefna að því að enginn neyðist til að sofa úti. Í því skyni þurfi að tryggja nægan fjölda neyðarrýma og meta þörf á bráðabirgðahúsnæði fyrir fólk á meðan unnið er að varanlegri lausnum fyrir hvern og einn einstakling.
Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess að nægilegt húsnæði þurfi alltaf að vera til staðar en nefnir hér að ekki er nóg að huga að fjölda gistirýma í neyðarskýlum, gæta þarf þess að skýlin séu ávallt opin.
Mikilvægt er að huga að fjölbreyttum þörfum fólks og því er áríðandi að neyðarskýlin séu opin allan sólarhringinn og standi fólki til boða óháð tíma dags. Þá er mikilvægt að fólki sé ekki vísað út á morgnana. Hér má sjá stefnuna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir 2019-2025.