Valdið til fólksins!

Ritstjórn Frétt

Stefnuyfirlýsing Sósíalistaflokks Íslands fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022

Nærumhverfið er það samfélag sem við tengjumst mest. Sveitarfélagið á að vera byggt upp út frá væntingum og þörfum fólksins sem þar býr en ekki á forsendum fjármagnsins. Sósíalistaflokkurinn vill lýðræðisvæða stjórnsýsluna þannig að ákvarðanir sem hafa áhrif á líf fólks séu frekar teknar innan sveitarfélaganna og af íbúunum en af ríkinu. Byrja þarf á þörfum þeirra sem búa við verstu kjörin og byggja síðan upp, þannig búum við til gott samfélag sem er hannað fyrir okkur öll. Til þess að það sé hægt þarf að:

Tryggja tekjur sveitarfélaganna

Sósíalistar telja að í mörgum tilfellum sé þjónustu almennings betur borgið á vegum sveitarfélaga frekar en ríkisins. Til þess að slíkt virki þarf að stórauka tekjur þeirra. Allt of lengi hefur ríkisvaldið útvistað verkefnum til sveitarfélaganna án þess að nægilegt fjármagn eða tekjustofnar hafi fylgt. Sósíalistar vilja því að tekjustofnar sveitarfélaganna verði auknir og að aukið fjármagn fylgi verkefnum sem sett eru í hendur þeirra. Áhersla er lögð á að fjármagn verði veitt eftir því hvað raunverulega kostar að veita þjónustuna.

Skattleggja fjármagnseigendur

Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaganna. Í dag leggst útsvar einungis á launatekjur og bætur. Fjármagnstekjur bera aftur á móti ekkert útsvar. Tekjur hinna allra auðugustu eru að miklu leyti fjármagnstekjur og greiða þeir einstaklingar því ekki sama hlutfall af tekjum sínum til sveitarfélaganna og við hin. Fjármagnseigendur greiða því ekki sinn réttláta hlut í sameiginlegan sjóð borgar eða bæjar líkt og launafólk viðkomandi sveitarfélags.

Sósíalistar ætla að vinna gegn þessu ójafnvægi í skattlagningu og efla tekjustofna sveitarfélaganna með því að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Þetta er mikilvægt til þess að sveitarfélögin hafi burði til að sinna öllum þeim verkefnum er koma inn á þeirra borð og til að tryggja að þau geti veitt sem besta þjónustu. Sveitarfélögin verða samanlagt af mörgum milljörðum á hverju ári vegna þess að fjármagnseigendur greiða ekki útsvar þó að þeir njóti sömu þjónustu og aðrir íbúar.

Útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur nema með lögum frá Alþingi og þess vegna er mikilvægt að sveitarfélögin sameinist í því að koma þeim lagabreytingum á. Fjármagnstekjur myndu hafa 300 þúsund króna frítekjumark eins og nú er þannig að útsvar greiðist aðeins af fjármagnstekjum yfir því marki. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem ætti 60 milljónir inni á bankabók myndi ekki greiða neinn fjármagnstekjuskatt af því.

Sósíalistar fara fram á það að fjármagnstekjur verði skattlagður eins og aðrar tekjur og að skatturinn verði þrepaskiptur. Einnig myndi vera 300 þúsund króna frítekjumark á skattinum eins og nú er. Í dag er jaðarskattur launatekna 46,25% á meðan að jaðarskattur fjármagnstekna er einungis 22%.

  • Útsvarstekjur til sveitarfélaganna hefðu numið rúmum 17 milljörðum árið 2020 ef fjármagnstekjur hefðu verið skattlagðar líkt og launatekjur.
  • Reykjavík hefði geta fengið tæpa 7 milljarða í útsvar af fjármagnstekjum árið 2020 og Akureyri yfir hálfan milljarð svo dæmi séu nefnd.
  • Augljóst er að sveitarfélögin myndu geta nýtt slíkt fjármagn til stórfelldrar uppbyggingar á þjónustu við íbúana.

Aðstöðugjöld á fyrirtæki

Sósíalistar fara fram á að sveitarfélögin í landinu myndi samstöðu um að beita sér fyrir því að aðstöðugjöld verði aftur lögð á fyrirtæki þannig að þau greiði fyrir þá innviði sem rekstur þeirra byggir á. Aðstöðugjöld voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna og má líta á sem nokkurs konar útsvar á fyrirtæki og eðlilegt er að þau greiði slíkt í sameiginlega sjóði okkar íbúa.

Aðstöðugjaldið var veltutengdur skattur sem rann til sveitarfélaga. Nam hann 1,3% af veltu fyrirtækjanna. Fyrirtæki eru sjálfstæður skattaðili og eiga að greiða til síns nærumhverfis eins og einstaklingar, enda nota fyrirtæki innviði sveitarfélaga ekkert síður en einstaklingar; nota götur og veitur, hafa not af menntun starfsfólks og dagvist barna þess svo dæmi séu nefnd.  Fyrirtæki vaxa mest og dafna í vel skipulögðu samfélagi og þeim ber að greiða fyrir þann ávinning.

  • Aðstöðugjaldið verði þrepaskipt, þannig að smæstu fyrirtækin greiði lítið en hin allra stærstu mikið.
  • Nota má skattfrelsi frá aðstöðugjöldum til að örva nýsköpun, stofna sameignarfélög eða til að hvetja atvinnulaust fólk til að stofna eigin rekstur.
  • Stærð fyrirtækja endurspeglar aðstöðu þeirra í samfélaginu, því stærri sem þau eru því hagfelldari er aðstaða þeirra í samfélaginu og þá aðstöðu er eðlilegt að skattleggja.

Ríkisvaldið ákvarði aðstöðugjald svo að sveitarfélög fari ekki í skattasamkeppni um stærstu fyrirtækin og lokki þau til sín með því að fella burt aðstöðugjaldið eða lækka það umtalsvert. Skattasamkeppni milli sveitarfélaga og ríkja hefur grafið undan samfélögum í okkar heimshluta og hana ber að stöðva.

Fyrirtæki með starfsemi í mörgum sveitarfélögum, svo sem orkufyrirtæki, bankar, mörg ríkisfyrirtæki og sum stórfyrirtæki, greiði svokallað landsútsvar í stað aðstöðugjalds og útsvari þeirra verður dreift til sveitarfélaganna í takt við íbúafjölda og umfang rekstrar.

Áfengisgjald

Sveitarfélögin hefji viðræður við ríkið um að lágmarki 10% af áfengisgjaldi renni til sveitarfélaganna fyrir nauðsynlega þjónustu við þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Sveitarfélögin þurfa á auknu fjármagni að halda til að geta boðið upp á sem besta félagslega þjónustu fyrir þá einstaklinga og aðstandendur þeirra. Þar má m.a. nefna umsjón gistiskýla, skaðaminnkandi úrræði, heimili sem henta einstaklingum í mikilli áfengis- eða vímuefnaneyslu og heimili sem henta einstaklingum með tvígreiningu, þ.e.a.s. geð- og vímuefnavanda.

Afmarkaðsvæðing húsnæðis

Húsnæði er mannréttindi sem við eigum öll rétt á. Húsnæði fólks á ekki að vera leikvöllur braskara og eðlilegt að stór hluti uppbyggingar þess sé óhagnaðardrifinn. Biðlistar eftir húsnæði hjá hinu opinbera eða félagasamtökum eiga ekki að vera veruleiki. Lágtekjufólk á leigumarkaði er nú flest klemmt á milli lágra tekna og okurleigu. Til að vernda þetta fólk þar til uppbygging félagslegs húsnæðis hefur lækkað leiguverð varanlega þarf að hækka húsnæðisstuðning svo að enginn greiði meira en fjórðung tekna sinna í húsnæðiskostnað.

Ódýrt og öruggt húsnæði er forsenda allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Grunnforsenda þess að hér verði byggt upp öflugt velferðarkerfi, sem er forsenda þess að fátækt verði upprætt, er stórátak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Sósíalistar leggja til húsnæðisbyltingu þar sem 30 þúsund félagslegar íbúðir verði byggðar um allt land á næstu tíu árum.

Ríki og sveitarfélög þurfa að starfa saman að þessari uppbyggingu sem er lagt til að verði gert með eftirfarandi hætti:

  • Húsnæðissjóður almennings verður stofnaður sem mun afla 70% nauðsynlegs fjármagns með útgáfu skuldabréfa sem seld verða lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Tryggingar skuldabréfanna eru öruggar, íbúðarhúsnæði í öruggri langtímaleigu, og munu því bera sambærilega vexti og ríkisskuldabréf.
  • Um 13% kostnaðarins munu sveitarfélög og ríki leggja til í formi lóða og 17% kemur sem lán frá ríkissjóði á lægstu vöxtum, lán sem greiðist til baka á endingartíma íbúðanna. Fjármagnskostnaður verður því eins lítill og mögulegt er í dag.
  • Húsnæðissjóður almennings mun síðan leigja húsnæði til Leigufélaga almennings, sem geta verið ýmiss konar: Leigufélög sveitarfélaga, námsmannafélaga, félaga öryrkja, aldraðra, einstæðra foreldra eða hvers kyns almannasamtaka.

Valdið heim

Stór hluti þjónustu við almenning; börn, fatlað fólk, eldri borgara og viðkvæma hópa, er á verksviði sveitarfélaganna. Ríkisvaldið horfir framhjá mikilvægi sveitarfélaganna í nærþjónustu og hefur með vanfjármögnun komið í veg fyrir að sveitarfélögin geti sinnt skyldum sínum við almenning. Við krefjumst þess að þetta verði leiðrétt í samræmi við raunverulegan kostnað.

Sósíalistar vilja einnig kanna möguleikann á að koma á þriðja stjórnsýslustigi til þess að sameina kosti stærðarinnar og nærsamfélagsins. Slíkt stjórnsýslustig myndi taka yfir verkefni sem nú eru á höndum ríkisins og í sumum tilfellum sveitarfélaganna. Samvinna í gegnum þriðja stjórnsýslustigið myndi einnig gera það að verkum að hægt verði að veita þjónustu sem nú er einungis hægt að sækja til Reykjavíkur, nær íbúunum sem ekki dvelja þar. Sósíalistar vilja með þessu minnka ríkisbáknið og færa valdið og þjónustuna til íbúanna sjálfra.

Lýðræðisvæðing samfélagsins

Sósíalistar vilja auka lýðræði með því að notendur þjónustu sveitarfélaganna og starfsmenn í almannaþjónustu fái meira vald til ákvarðanatöku innan kerfisins. Notendur og veitendur almannaþjónustu eru oft í betri stöðu til ákvarðanatöku en kjörnir fulltrúar sem oft hafa ekki þá sérþekkingu sem nauðsynleg er. Til að auka þessa þátttöku almennings í ákvarðanatöku leggja Sósíalistar áherslu á eftirfarandi:

  • Notendur og veitendur almannaþjónustu komi formlega að ákvarðanatöku ásamt kjörnum fulltrúum. Með þessu fá starfsmenn og íbúar á hjúkrunarheimilum að taka þátt í stefnumótun í þeim málaflokki, notendur almenningssamgangna að þeirra málum, starfsfólk líkt og kennarar og skólaliðar, nemendur og foreldrar koma að ákvarðanatöku í skólamálum o.sv.fr.
  • Fólk með beina reynslu af því sem þarf að bæta í nærsamfélaginu sitji í nefndum og ráðum  sveitarfélaganna.
  • Beint lýðræði með íbúakosningum um málefni sveitarfélaganna. Litið verði til Sviss í þeim efnum þar sem aðkoma íbúa að málum er ríkur þáttur í stjórnkerfinu og er t.a.m. komið að með netkosningum og allsherjaratkvæðagreiðslum. Niðurstöðurnar verði bindandi.
  • Íbúar sveitarfélaganna taki formlegan þátt í veitingu fjármagns til verkefna í gegnum þátttökulýðræðislega fjárlagagerð (e. Participatory budgeting). Slík þátttaka almennings í ákvarðanatöku á rætur sínar að rekja til stjórnar brasilíska verkamannaflokksins  í Porto Alegre sem hefur stundað  þátttökulýðræðislega fjárlagagerð með góðum árangri síðan 1988 og hefur verið tekið upp í öðrum borgum og bæjum út um heimsbyggðina af stjórnum sósíalista og annarra vinstrimanna. Slíka þátttöku má framkvæma í gegnum netið og á almennum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og íbúar koma saman að fjárlagagerðinni og setja þann ramma sem íbúarnir vilja.
  • Sérfræðiþekking og reynsla starfsfólks verði nýtt til ákvarðanatöku og stjórnun á almannaþjónustu. Þannig byggjum við á þekkingu frá t.a.m. vagnstjórum og starfsfólki sorphirðu svo að dæmi séu nefnd.
  • Sósíalistar sjá fyrir sér að íbúarnir, notendur þjónustunnar og kjörnir fulltrúar komi sameiginlega að stjórnun og framkvæmd almannaþjónustunnar þannig að sameiginleg þekking nýtist sem best.
  • Almenningssamgöngur verði hannaðar af fólkinu sem reiðir sig á þær, þannig að strætó sé fyrir fólk og stýrt af fólkinu sem notar strætó. Framtíð almenningssamgangna verði mótuð út frá kröfum þeirra sem treysta á almenningssamgöngur. Fulltrúar farþega sitji í stjórn Strætó.

Gjaldfrjáls grunnþjónusta: Velferð er fyrir okkur öll

Almenningur á kröfu á að geta sótt grunnþjónustu til samfélagsins. Öll höfum við rétt á heilbrigðisþjónustu, bæði líkamlegri- og andlegri,  fæðuöryggi, menntun og öruggu húsaskjóli. Sósíalistar hafna því að líf og heilsa fólks lúti lögmálum markaðsins. Grunnstoðir samfélagsins eiga ekki að vera markaðsvara þar sem krafan er á arðbærni. Þessar grunnstoðir skulu félagsvæddar þannig að við getum öll lifað frjáls frá heilsuspillandi aðstæðum, fjárhagskvíða og afkomuótta.

  • Öll þjónusta á vegum sveitarfélaga sem lýtur að heilsu og velferð fólks skal vera gjaldfrjáls og rekin af opinberum aðilum eða af óhagnaðardrifinum félagslegum samtökum ef það á við.
  • Almenningssamgöngur eins og þjónusta strætó, borgarlína,  akstursþjónusta fatlaðs fólks og akstursþjónusta aldraðra verði gjaldfrjáls. Vegatollar verði ekki innheimtir á þjóðvegum.
  • Allt vegakerfið á að vera gjaldfrjálst, kostað af ríkisvaldinu og öllum landsmönnum tryggð frjáls för um það. Vegakerfið okkar hefur verið almannagæði að nánast öllu leyti en nú standa fyrir dyrum ákvarðanir núverandi stjórnvalda um róttæka kerfisbreytingu í anda nýfrjálshyggjunnar þar sem búast má við að allar stórframkvæmdir verði einkavæddar og vegatollar settir á. Við höfnum þeirri leið alfarið og berjumst gegn henni af öllu afli.
  • Aðgangur að opinberum söfnum verði gjaldfrjáls. Bókasöfn, menningarstofnanir og almenningsgarðar verði efld sem opin rými þar sem allir mega koma saman óháð efnahagslegri stöðu.
  • Opinberar stofnanir innheimti ekki gjöld fyrir þjónustu sína og aðgengi að gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð verði aukið fyrir þau sem þurfa að leita réttar síns gagnvart hinu opinbera og öðrum stofnunum og fyrirtækjum.

Börn eiga ekki að borga

Börn hafa engar tekjur og eiga ekki að greiða gjöld. Sveitarfélögin eiga að vera hönnuð út frá þörfum barna. Vernda þarf börn sérstaklega fyrir fátækt og tryggja að þau fái allan þann stuðning sem þau þurfa á að halda. Mikilvægt er að nægt fjármagn sé tryggt til menntastofnana svo að öll börn fái þann stuðning og aðstoð sem þau þurfa á að halda innan veggja skólans. Sá stuðningur verði veittur óháð því hvort börn séu á biðlista eftir greiningu eða ekki.

  • Menntun á öllum skólastigum verði gjaldfrjáls. Boðið verði upp á ókeypis skólamáltíðir.
  • Íþrótta- og frístundaiðkun skal vera gjaldfrjáls fyrir börn og unglinga.
  • Talmeinafræðingar og sérfræðingar sem sinna þjónustu við börn skulu starfa innan veggja skólans.
  • Tryggja þarf að skólarnir og umliggjandi svæði séu hannaðir út frá mismunandi  þörfum barnanna.
  • Börnum með erlendum uppruna verði tryggð íslenskukennsla og móðurmálskennsla.

Burt með útvistun og láglaunastefnu hjá sveitarfélögum

Láglaunastefna verði lögð af í rekstri sveitarfélaga. Allri útvistun verði hætt og starfsfólk vinni beint fyrir sveitarfélagið. Útvistanir leiða eingöngu til lægri launa, verra starfsumhverfis og verri þjónustu við íbúana.

  • Útvistun verði hætt í sveitarfélögum og í fyrirtækjum í eigu þeirra.
  • Allt starfsfólk sveitarfélaga skal vinna beint hjá því en ekki hjá starfsmannaleigum eða undirverktökum né búa á annan hátt við skert réttindi.
  • Kjör og starfsaðstæður skólastarfsfólks verði bætt fyrir börnin, ungmennin og starfsfólkið sjálft.
  • Tryggt verði að kjör og starfsaðstæður þeirra sem starfi við umönnun séu góð.
  • Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði hækkuð svo að hún dugi til að lifa mannsæmandi lífi. Fjárhæðin verði hækkuð þannig að fólk óháð búsetuformi og sambúðarformi fái mannsæmandi tekjur.

Samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram