Framboð sósíalista í borginni – Sanna Magdalena Mörtudóttir

Ritstjórn Sögur

Ég heiti Sanna Magdalena Mörtudóttir. Ég er 29 ára, alveg að verða þrítug. Er úr Efra-Breiðholti. Það er hverfið sem ég tengi mest við þó ég hafi vissulega búið á mörgum stöðum. Tíminn hefur flogið síðustu árin í borgarstjórn. Þetta byrjaði allt saman þegar ég fór að ræða reynslu mína af barnafátækt og uppeldi hjá einstæðri móður. Mamma vann á leikskóla og á tímabili aukastarf ofan á, einu sinni við þrif í Kaupþingi. Ég tjáði mig um mína upplifun á því hvernig þetta var, skorturinn og hvernig peningurinn dugði ekki. Ég man eftir viðtali sem var tekið við mömmu í Fréttablaðinu. Fyrirsögnin var: „Mæðgur á götunni.“ Mamma talaði um það þá að langi vinnudagurinn, að vinna sem leiðbeinandi og svo að skúra leikskólann hafi bitnað á velferð minni og að hún ætlaði að hætta skúringunum þrátt fyrir tekjutap. Hún vildi hafa einhvern tíma með mér.  Eftir að viðtalið kom út man ég sterkt eftir krakka á leikvellinum í kjölfarið að benda á mig og segja „Hún býr á götunni“. Ég hugsaði með mér að hann skyldi þetta nú ekki alveg, værum ekki alveg á götunni og fengjum nú að vera hjá ömmu og sambýlismanninum hennar. Var þarna níu ára en þegar ég lít til baka velti ég því fyrir mér hvers vegna lítill krakki hafi verið með þetta svona mikið á hreinu.

Það er fast í hausnum atvik þegar við mamma vorum að flytja frá Skarphéðinsgötu. Ég var tíu ára. Frændi minn kom á sendiferðabíl til að hjálpa. Man að við vorum með kassa frá Ikea sem var hvítur með fallegum rauðum rósum á. Við vorum búin að taka allt dótið út þegar hann bakkaði á kassann og hann beyglaðist. Innst inn var ég svo fúl en ég held að frændi minn hafi ekkert tekið eftir þessu enda bara einhver kassi. Ég sé hvað ég hef sett miklar tilfinningar í hluti því það er mitt öryggisnet. Hef átt erfitt með að losa mig við hluti í gegnum tíðina. Maður var með svo mikla væntingastjórnun sem krakki og tók hluti ástfóstri, eins og þennan kassa. Síðustu árin er ég búin að vera að fara í gegnum dótið mitt og það hefur verið erfitt að taka til og losa sig við hluti. Afleiðing fátæktar er hvað við setjum mikla pressu á börn og fólk. Maður finnur sér alltaf eitthvað öryggisathvarf sem fylgir manni út í lífið. Ég held að mitt hafi verið það að eiga allskonar hluti, fann t.d. í geymslunni um daginn íspinna sem ég hafði verið að safna þegar ég var lítil og límmiðabók með límmiðum héðan og þaðan. Gat losað mig við íspinnana en ekki límmiðana enda svo litríkir og skemmtilegir. Við verðum að tryggja fólki góðan grunn; húsnæði og pening til að lifa út mánuðinn. Þannig fyrirbyggjum við vanlíðan.

Pabbi minn býr úti í Englandi og hefur aldrei komið til Íslands. Samskiptin okkar hafa verið upp og niður, gátu verið erfið en ég hef ekki heyrt í honum síðan sumarið 2015. Ég reyni reglulega að heimsækja fjölskyldu mína úti. Pabbi á tvíburasystur og aðra systur þannig ég á líka frændsystkini þar. Mamma og pabbi kynntust úti en ég fæddist á Íslandi, en þegar ég var nokkurra vikna fer mamma með mig út til Englands. Svo komum við ekki heim fyrr en ég var orðin sjö ára, jólin 1999. Þá byrja ég í Háteigsskóla í öðrum bekk. Á þeim tíma voru börn sem komu erlendis frá, send í svokallaða „nýbúadeild“ í skólanum til að læra íslenskuna. Mamma talaði ekki íslensku við mig úti þannig henni brá hvað ég var fljót að læra. Ég veit ekki í dag hvort pabbi minn viti að ég sé borgarfulltrúi og mannfræðingur. Kemur stundum skellur á mann að hugsa út í það. Erfitt að vita ekki hvort pabbi manns viti hvað dóttir hans sé að gera.

Ég myndi lýsa mér sem yfirvegaðri og rólegri, en ákveðin þegar þess þarf. Ég get látið ýmislegt yfir mig ganga en þegar ég er komin með nóg þá gjörsamlega spring ég. Mér finnst gaman að breyta mér í þekkta persónu með förðun og leikmunum. Hef verið Skari sem er vondi karlinn í Konungi ljónanna og Lína langsokkur. Mér finnst gott að hitta vini, spjalla við þau og elda. Ég er innhverf en það sést ekki alltaf. Er mannfræðingur að mennt og finnst gaman að tala við fólk og kynnast því. Hef mikið verið að tala um rasisma í samfélaginu og hef verið að gera það í borginni. Tala bæði um mína upplifun og hvernig birtingarmyndir kynþáttafordóma og kynþáttahyggju birtast í samfélaginu. Það er æðislegt að fá að tala um rasisma og fátækt, þótt það sé þreytandi. Ég hringi mikið í mömmu og við erum mjög nánar og ég segi henni oft frá borgarstjórnarfundum.  

Þegar ég lít til baka á síðustu fjögur ár rifjast upp eitt atvik sem situr í mér. Við vorum á fundi borgarstjórnar. Ég var í fundarrýminu á skrifstofunni minni og mætti á fundinn í gegnum tölvu. Við vorum að tala um uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Við sósíalistar vorum með tillögu um að eyða biðlistunum. Byggja fyrir fólkið á biðlistum. Verð að viðurkenna að viðbrögðin frá borgarstjóranum voru rosalega erfið. Það eru átta flokkar í borgarstjórn með ólíka sýn á hlutina. En skilaboðin sem ég fékk voru að það væri mitt hlutverk að skammast í hinum sveitarfélögunum fyrir að byggja ekki meira. Ég lít þannig á það að við í borginni berum ábyrgð á fólkinu í borginni. Hafandi verið á þessum biðlista og skoðað leiguíbúðir með mömmu veit ég hversu streituvaldandi þetta er. Þannig að það hafi verið öskrað á mig fyrir að hafa dirfst að leggja til lausn á húsnæðisvanda borgarinnar náði mér alveg. Þetta var mjög erfitt. Stillt upp þannig að ég væri að reyna að skora einhver stig. En ég er í alvörunni að reyna að bæta húsnæðisöryggi fólks. Það að fá þessar skammir var mjög erfitt og tók á.

Það er stundum mjög skrítið að vera komin inn í borgina að tala um biðlista hjá Félagsbústöðum. Hef sjálf verið á þessum lista með mömmu og við biðum í næstum þrjú ár. Þetta eru ennþá sömu vandamálin hjá borginni og voru til staðar fyrir mörgum árum. Sami raunveruleikinn sem fátækasta fólkið er að eiga við. Að eiga ekki pening út mánuðinn og eiga ekki húsaskjól. Það er erfitt að heyra hvernig það er ekki verið að gera nóg til að leysa þessa hluti. Þetta stingur mig mjög mikið.

Ég býð mig aftur fram til borgarstjórnar því ég finn fyrir miklu trausti frá félagsmönnum til að halda áfram. Mikil verk sem eru óunnin. Við þurfum að ná fullu efnahagslegu réttlæti og rödd fólksins sem litið hefur verið framhjá þarf að heyrast og stýra uppbyggingu í borginni. Rödd fólksins í skólakerfinu þarf að heyrast og rödd fólks sem þekkir best til. Það þarf að tryggja að allir sem vinni hjá borginni fái mannsæmandi laun. Það er ógeðslegt að upplifa það að peningurinn dugi ekki til. Sem barn leikskólastarfskrafts er það til skammar að við séum ekki að greiða fólki mannsæmandi laun. Mitt markmið er að laga það og byggja fyrir fólk í neyð. Þegar þú ert ekki með húsnæði í lagi er allt annað ekki í lagi.

Sanna Magdalena Mörtudóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

 

 

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram