Framboð sósíalista í borginni – Trausti Breiðfjörð Magnússon

Ritstjórn Sögur

„Ég heiti Trausti Breiðfjörð Magnússon og er 26 ára námsmaður og vinn sem stuðningsfulltrúi í íbúðarkjarna í Breiðholti. Ég ólst upp í Grafarvogi í blokkaríbúð með foreldrum mínum og síðan skildu þau þegar ég var átta ára. Þá bjó ég mest með mömmu í íbúð sem hún gat keypt því hún fékk fyrirframgreiddan arf frá foreldrum sínum, annars hefðum við sennilega verið föst á leigumarkaði þannig að blessunarlega tókst það.

Það var alveg ströggl á heimilinu og mamma vann í mötuneyti, hún er með gigt og eldaði mat fyrir fólk, tugi manns, þegar mest var voru þau um 70 í mat. Hún var ein í þessu og kom oft heim mjög þreytt eftir vinnu, oftast með afgang af matnum. Þannig var líka hægt að spara pening. Ég man það var frekar mikið stress á þessum tíma. Mamma upplifði álag og kvíða, sem hafði auðvitað áhrif á mig líka. Að eiga ekki afslappað foreldri sem getur notið frítíma síns hefur áhrif á líðan barnsins. Hún var rosalega dugleg og vann undir allt of miklu álagi. Það hefði samt ekki þurft að vera svona. Fyrirtækið hefði getað veitt henni meiri aðstoð, en alltaf var henni neitað.

Ég var í Foldaskóla og man að hverfið var frekar blandað. Sumir vinir mínir áttu efnaða foreldra og áttu heima í stórum einbýlishúsum, svo á sama tíma var ég í lítilli blokkaríbúð með mömmu. Maður fattar eftir á hvað stéttaskiptingin hafði mikil áhrif, að skammast sín kannski fyrir að búa í lítilli íbúð og maður vildi helst ekki bjóða vinum sínum í heimsókn út af því. Ég held það hafi alveg haft áhrif á mig að sjá báðar hliðar. Að sjá hvernig aðrir lifðu líka í efri millistéttinni. Ég var ekkert að bjóða vinum í heimsókn og það var ekki oft sem þeir voru hjá manni, því það var miklu meira pláss hjá þeim.

Ég var mest hjá mömmu og pabbi bjó í Grafarholti, hann flutti reyndar fyrst upp í Breiðholt og bjó þar stutt og svo flutti hann aðeins í Grafarvoginn. Loks flutti hann í Grafarholtið og kynntist konunni sinni og þá var ég aðra hvora helgi hjá honum. Hann hefur reynst mér mjög vel og konan hans, ég var hjá þeim langar helgar, aðra hverja helgi og svo þegar eg vildi koma.

Foreldrar mínir skilja þegar ég var átta ára. Skilnaður er atburður sem hefur mjög mikil áhrif á fólk, ég held það sé alveg á topp þremur á lista yfir trauma sem fólk getur upplifað. Það hafði rosalega mikil áhrif á mig, mótaði mig og ég fór ekkert að vinna í því fyrr en ég var fullorðinn. Það sem og áhrifin af því að eiga mömmu sem var rosa kvíðin út af því og fjárhagsstöðunni líka, hún var að reyna að nurla pening saman til að geta fengið íbúð.

Á þeim tíma var fasteignamarkaðurinn skárri en hann er í dag en samt var það kraftaverk að hún gat fengið íbúð. Það var hægt þar sem hún fékk fyrirframgreiddan arf frá foreldrum og þannig höfðum við allavegana þetta skjól, að þurfa ekki alltaf að vera að flytja á milli staða endalaust. Að því leyti höfðum við það gott miðað við mjög marga en sáum samt á sama tíma að fullt af vinum og aðrir þurftu ekki að hafa áhyggjur af svona málum.

Núna er ég í sálfræði og félagsfræði, ég ákvað að taka félagsfræði sem aukagrein með og er búinn að vera í tvö ár núna en tók mér pásu í vor út af covid, ég var kominn með smá skólaþreytu. Mér finnst rosalega áhugavert að pæla í mannlegri hegðun og af hverju við erum að gera og segja það sem við gerum. Mér finnst félagsfræðin líka mjög áhugaverð af því mér finnst eiginlega ekki hægt að pæla í hegðun fólks án þess að pæla í félagslegum aðstæðum. Sálfræði einangrar hlutina frekar mikið við heilann, starfsemi, boðefni og þvíumlíkt en mér finnst svo skemmtilegt að blanda þessu tvennu saman.

Það hefur verið svolítið krefjandi að samræma nám, vinnu og félagslíf en ég er sem betur fer að vinna hjá borginni. Mjög margir tala um að það sé illa borgað hjá borginni sem er mjög satt og ég held það eigi sérstaklega við um fólk sem er í dagvinnu. Ég vinn svo mikið á kvöldin og um helgar, þannig að launin eru nógu góð, ég þarf ekki að taka námslán á meðan ég bý á Stúdentagörðunum. Þegar ég er búinn að borga leiguna mína þá á ég svona tæpan helming af laununum mínum eftir út mánuðinn, sem rétt dugar fyrir mat og öllu nauðsynlegasta.

Svo getur alveg verið krefjandi að vinna með skóla og líka eiga vini og reyna að sinna einhverjum áhugamálum og gera þetta allt en það svona venst einhvern veginn. Það koma alveg dagar þar sem maður krassar og svo bara kemur maður aftur. Sem betur fer er ég líka í vinnu sem er ekki líkamlega erfið, þetta er meira andlegt, þannig að ég er ekki líkamlega þreyttur en meira svona andlega.

Núna sé ég samt fram á að missa íbúðina á Stúdentagörðunum þar sem ég hef ekki verið að skila inn einingum. Þegar það uppgötvast, þarf ég að finna út úr því hvar ég mun búa.

Ég tók mér pásu í námi á þessari önn og hef alltaf mikið verið að pæla í pólitík og haft miklar skoðanir frá því ég var unglingur en hafði aldrei orku í að fara í starfið. Þegar ég tók mér pásu í skólanum, fann ég hvað ég hafði ótrúlega mikla orku til þess að sinna starfinu með ungliðunum, taka þátt í umræðunni og svo er ég með þætti á Samstöðinni. Það virkaði svo vel, því þar er maður alveg að berskjalda sig og þá finnst manni einhvern veginn eins og maður hafi ekki neinu að tapa lengur. Ég er búinn að segja skoðanir mínar þannig ég er ekkert feiminn eftir það.

Aðgangur að sálfræðiþjónustu og stuðningur við mig sem barn, sem var að ganga í gegnum skilnað foreldra, er eitthvað sem ég hefði viljað hafa aðgang að, þegar ég lít til baka. Kannski var mamma bara að ganga í gegnum sitt og hafði ekki tök á því að leiða hugann að þessu en ég velti því fyrir mér hvort að skólakerfið hefði geta stigið meira inn í. Maður hefði kannski geta fengið meiri andlegan stuðning í skólanum. Ég man ekki eftir því að það hafi verið neitt svoleiðis í skólanum.

Ég myndi algjörlega vilja bæta því inn í skólakerfið að börn fái andlegan stuðning. Að það sé líka talað meira við þau um að allar tilfinningar séu eðlilegar og að þér megi líða illa og þér megi líða allskonar, að það sé virkilega einhvern veginn talað um það í skólakerfinu, mér finnst það mjög mikilvægt.

Við sem samfélag þurfum að vera dugleg að tala við börn og fá á hreint hvað það er sem þau vilja. Við þurfum að hlusta miklu meira á börnin, ekki vanmeta þau. Ég man eftir því þegar ég var átta til tíu ára, ég vissi alveg hvað var að gerast, ég var ekki einhver heimskur krakki, maður var svo meðvitaður um það sem var í gangi. Ég held að margir hafi vanmetið hvernig manni leið og hugsað að það væri best að tala ekki um hlutina. Með því að ræða þá væri verið að berskjalda mig fyrir einhverju erfiðu og því væri betra að ræða ekki hlutina yfir höfuð. Það hafði þveröfug áhrif og leiddi til þess að ég tjáði mig þá ekkert um hlutina. Við megum ekki vanmeta börn, við þurfum að koma fram við þau eins og jafningja.

Fyrsta verkið mitt í borgarstjórn væri að laga húsnæðismálin, það er grunnurinn til að byggja ofan á. Um leið og þú ert komin með húsnæðismálin í lag og fólk þarf ekki að borga meira en 30% af tekjum sínum í húsnæðiskostnað þá er svo margt annað sem lagast. Góður grunnur, getur leyst svo mikið af andlegum vandamálum.“

Trausti Breiðfjörð Magnússon býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram