Framboð sósíalista í borginni – Andrea Helgadóttir

Ritstjórn Sögur

„Ég er 44 ára einstæð móðir í láglaunastarfi hjá borginni, hef verið að vinna í leikskóla síðastliðin ár. Tæp tíu ár hjá borginni í allt. Það hefur verið taugatrekkjandi að reyna að draga fram lífið í þessari borg á þeim launum, enda húsnæðiskostnaður fullkomlega absúrd hérna.

Eftir framhaldsskóla fluttist ég til Danmerkur í nám í teiknimyndateiknun og bjó þar í níu ár. Vann nokkur verktakaverkefni í mínu fagi en aðallega hin og þessi verkamannastörf, náði mér í ágætis málningarvinnu í Köben sem ég sinnti í nokkur ár og var stórskemmtileg, veggfóðraði, bar út póst í miðbænum sem var reyndar óhemju skemmtilegt líka en algjör þrælavinna fyrir óvana, og vann við framreiðslustörf. Eftir að ég flyt heim geri ég mér fyrst grein fyrir hversu brjálæðislegur munur er á samfélagskerfunum á norðurlöndunum. Það er í raun algjör brandari að íslenska kerfinu sé líkt við “norrænt kerfi”.

Almenningssamgöngur, læknisþjónusta, styrkir til náms… ég fékk mjög alvarlegt kúltúrsjokk við að flytja aftur heim og átta mig á hversu aftarlega á kúnni við værum. Ég gerði mér sömuleiðis fljótt grein fyrir að það væri næstum ómögulegt fyrir mig að fá húsnæði sem ég réði við með námi, fékk að gista í herbergi á leirverkstæði mömmu í miðborginni í smá tíma gegn því að borga fyrir geymslu undir hlutina sem höfðu verið þar og reyndi að þrauka í háskólanum á nánasarlegum greiðslum frá LÍN. Svo þurfti mamma að flytja verkstæðið í Kópavog og það varð ógerningur að halda áfram í skólanum nema flytja inn til hennar þar sem ég fór allra minna ferða á hjóli eða strætó enda aldrei haft þörf fyrir bíl eða bílpróf fram að því, og ég flosnaði uppúr háskólanum án þess að klára þrátt fyrir að hafa alltaf staðið mig vel í námi. Það er jú ekki fyrir alla að búa hjá mömmu sinni eftir þrítugt.

Lengi vel greiddi ég 70-85% af laununum í húsaleigu – þangað til 2020 þegar okkur tókst að semja okkur uppúr ruslflokknum sem búið var að ákveða að við ættum heima í. Hvað eftir annað hef ég verið spurð af samferðafólki sem lukkaðist betur til í bóknáminu “ef þetta er svona lélegt/illa launað starf, af hverju færðu þér ekki bara betri vinnu?” Það er nú spurningin… Er það eðlilegt að þurfa að hafna samfélagslega mikilvægri og gefandi atvinnu því hún veitir ekki fullt lífsviðurværi? Er sanngjarnt og eðlilegt að einhver önnur manneskja eigi að vinna vinnuna þá í staðinn á sultarlaunum? Hver ákveður hvaða fólk eigi það skilið að fyllast angist yfir gluggaumslögum allt sitt líf? Hvenær á að segja stopp og hafna þeirri uppsetningu ef ekki um leið og maður verður meðvitaður um hana? Hver á að gera það – ef ekki ég og þú?

Ég kem úr eldrauðri fjölskyldu. Það voru líflegar samræður um pólitík við eldhúsborðið hjá ömmu þegar ég var barn. Systkini hennar ömmu og eiginmaður sem lést þegar pabbi var barn, voru mjög virk í verkalýðshreyfingunni, í róttæka endanum af henni flestöll. Á þeirra tíma byggðist upp velferðarkerfi, með einarðri verkalýðsbaráttu. Þessu fólki tókst síðan að koma upp börnum sem öll náðu að rísa uppúr fátækt, komast í gegnum háskóla, eignast einhverjar fasteignir og tilheyra hinni menntuðu millistétt, meira að segja ömmu sem missti manninn sinn ung frá fjórum börnum og vann í sundhöllinni á daginn og fatahenginu í Þjóðleikhúsinu á kvöldin. Það hefur komið mér vel í lífinu að alast upp í tiltölulegu fjárhagsöryggi, þó það hafi aldrei verið um neinar vellystingar að ræða, bæði sem barn og ef ég hef orðið fyrir bakslagi af einhverju tagi síðar á ævinni.

En ég horfist í augu við það reglulega nú eftir að ég varð móðir að ég mun ekki geta hlaupið undir bagga með syni mínum á sama hátt og pabbi hefur gert fyrir mig. Að ég muni líklega ekki geta veitt honum þann munað að læra listir eða stunda íþróttir, nema í einhverri mýflugumynd. Ég horfist sömuleiðis í augu við það þegar ég hitti félaga mína í Eflingu sem hafa ekki sama öryggisnet, hversu hrikalega heppin ég samt er og hversu afkáralegt það er að geta ekki búið svo um hnútana í samfélagi eins og okkar, sem státar sig á tyllidögum af því að vera einhvers konar paradís jafnréttis og sanngirnis, að allt fólk geti ekki lifað hér mannsæmandi lífi – ekki einu sinni allt fólk sem vinnur fulla vinnu, hvað þá þau sem hafa orðið fyrir skakkaföllum eða glíma við veikindi. Að börn skuli búa við mikla mismunun í sínu daglega lífi. Nú er ég og sonur minn loksins í öruggri höfn, í húsnæði hjá Bjargi, íbúðafélagi verkalýðshreyfingarinnar, sem er eina ljóstýran í húsnæðismálum hér á landi sem ég fæ séð. Loksins fer minna en helmingur ráðstöfunartekna minna í húsnæðiskostnað, þökk sé aðildarfélögum ASÍ og BSRB, og lítil þökk þeim sem hafa haldið um pólitíska tauma og stjórnað húsnæðisstefnu á landinu síðustu áratugi eða lengur.

Ef ekki hefði verið fyrir kynslóðina hennar ömmu og slagina sem hin róttæka verkalýðshreyfing og sósíalistar fyrri aldar unnu, værum við illa sett. Nú til dags má greina stöðuna þannig að án endurkomu hinnar róttæku verkalýðsbaráttu munum við eiga á hættu að missa úr höndunum allt það sem þeim tókst byggja upp. Þess vegna hef ég verið virk í mínu félagi, Eflingu, frá því skömmu eftir að ég hóf störf í leikskólanum, var í samninganefndunum, bæði hinni “stóru” í almennu samningunum 2019 og í nefndinni sem samdi við borgina 2020, og sit í trúnaðarráði félagsins.

Ég skráði mig strax í sósíalistaflokkinn þegar ég sá að til stæði að stofna hann. Gladdist innilega yfir því að til væri svona margt fólk sem vissi að það væri ekki skammaryrði heldur heiðursnafnbót að vera sósíalisti. Það er mikill heiður að fá að standa hér á þessum lista með félögum mínum og geta vísað í skynsama og réttláta stefnu í sveitarstjórnarmálum, rétt eins og ég er stolt af því að standa með félögum mínum í Eflingu í baráttu okkar. Þetta er sama verkefnið – að koma samfélagi fyrir manneskjur á dagskrá á Íslandi á ný – allar manneskjur.

Andrea Helgadóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram