Framboð sósíalista í borginni – Hildur Oddsdóttir

Ritstjórn Sögur

„Ég heiti Hildur Oddsdóttir og er 43 ára gömul, ég er fædd og uppalin í Breiðholti. Ég er öryrki, umsjónarkona Peppara og stúdent í viðskipta- og hagfræði. Ég er einstæð móðir tveggja yndislegra drengja.

Ég þekki fátækt mjög vel og er sjálf að glíma við fátækt. Ég þekki hin þungu skref sem henni fylgja.

Ég hef verið ófeimin við að segja frá sögunni minni og baráttu í fjölmiðlum. Ég hef komið fram á málþingum, viðburðum og talað um mína baráttu. Ég er í samtökum sem heita Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt. Ég er búin að starfa sem sjálfboðaliði í Pepp í 7 ár. Við erum búin að vera að berjast fyrir fátæka og gera fátæka sýnilegri.

Árið 2016 stofnaði ég síðu á Facebook, ég nefndi hana Jólasveinahjálparkokkar, tilgangur síðunnar er að hjálpa með skógjafir handa börnunum frá jólasveininum. En árið 2018 bjuggjum við einnig til óskalista barnanna og fórum að hjálpa foreldrum þeirra barna sem eiga sér ósk um ákveðna jólagjöf sem foreldrar í fátækt ráða ekki við að veita þeim. Það kom þannig að ég sjálf hef reynslu að því að geta ekki gefið mínum börnum það sem var efst á óskalista þeirra, jafnvel þó ekki væri um dýrar gjafir að ræða. Sú tilfinning er mér einkar minnisstæð enda tilfinning sem ekkert foreldri vill upplifa. Verkefnið hefur stækkað það hratt að árið 2020 stofnaði ég þetta sem félagssamtök með stjórn. Þeir sem sitja í stjórn hafa allir þekkingu og reynslu af fátækt. Síðan var stofnuð í þeim tilgangi að hjálpa þeim foreldrum sem hafa lítið sem ekkert á milli handanna.

Síðustu ár hef ég hitt öryrkja, ellilífeyrisþega, einstæða foreldra og útivinnandi fólk sem er á lágum tekjum, sem ná varla endum saman. Það er svo óréttlátt og ómannúðlegt að lifa slíku lífi. Foreldrar sem eiga börn ná ekki að borga skólamáltíð, frístund né íþróttir fyrir börnin sín. Ég hef grátið, haldið utan um foreldra sem standa ekki undan þessu álagi, eða geta ekki gefið börnunum sínum gjafir, ferðast eða skapa minningar!! Ég skil hvernig þessum foreldrum líður.

Það hafa verið gerðar nokkrar skýrslur um hversu mörg börn búa við fátækt á Íslandi. Það er tilvalið að rýna í þær og endurskoða hvað má gera miklu betur fyrir börnin.

Það þarf að vinna með öðrum hópum líka, öryrkjum, ellilífeyrisþegum, þeim sem eru á skrá hjá félagsþjónustunni og svo er stór hópur láglaunafólks í fullri vinnu sem lifir við fátækt, stritandi fátækt. Það má svo ekki gleyma hópnum sem lifir við sára fátækt. Mér finnst þessi hópur gleymast. Það talar enginn um hann.

Hvað finnst mér að mætti betur gera? Jú, að hafa fríar skólamáltíðir og frístund. Hækka frístundastyrk þannig að börnin okkar geta stundað íþróttir allt árið áhyggjulaus.

Hvað finnst mér að mætti betur gera og þarf að breyta? Það þarf stórt kraftaverk í húsnæðismálum og góðar lausnir til að breyta húsnæðismarkaðinum. Fólkið er að bugast!

Það þarf að grípa til aðgerða til að vinna gegn þeirri stöðu sem hefur sést í þeim skýrslum sem hafa verið unnar um fátækt á Íslandi.

Við erum fámenn þjóð sem býr í stóru landi. Við erum rík þjóð. Við getum haft samfélagið okkar miklu betra og gert betur við þau sem eru í mestri neyð.“

Hildur Oddsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram