Framboð sósíalista í borginni – Eyjólfur Guðmundsson
Sögur
29.04.2022
„Ég heiti Eyjólfur Guðmundsson og er 33 ára. Ég ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur en er nýfluttur í Norðurmýri eftir að hafa dvalist erlendis í nokkur ár við nám og störf. Fjölskylda mín er öll áhugasöm um náttúruvernd og stjórnmál og þaðan hef ég líklega áhugann á vinstri pólitík.
Ég tók þátt í því að stofna verkalýðsfélag framhaldsnema þegar ég var við nám í Chicago í Bandaríkjunum og kynntist því hversu illa stödd mörg slík félög eru vestanhafs. Slíkt ástand verður til þess að almenningur upplifir sig óöruggan og varnarlausan gegn atvinnuveitendum sínum. Ég samsvara mig því við stjórnmálaafli Sósíalista sem styður afdráttarlaust baráttu launafólks fyrir bættum kjörum. Íslensk stjórnmál eru almennt séð frekar langt til hægri, og því væri almenningur illa staddur hér á landi ef ekki væri fyrir baráttu launafólks og verkalýðsfélaga. Við eigum samt langt eftir í kjarabaráttunni og þar þarf að einblína á að bæta kjör þeirra sem hafa það verst, en einnig er mikilvægt að koma fram breytingum á skatta- og bótaumhverfinu til að leiðrétta kjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna.
Ég er í framboði fyrir Sósíalista út af því hvernig kerfið er hannað og því beitt til að soga peninga og völd upp til efri laga samfélagsins á Íslandi. Börn eiga ekki að þurfa að borga fyrir þjónustu og tómstundir, og borginni ber skylda til að reka húsnæðisstefnu sem þjónar íbúum borgarinnar, ekki fjármagnseigendum og bröskurum.
Ég er núna á leigumarkaði og væri alveg til í að leigja áfram, það er ekkert kappsmál fyrir mig að eignast húsnæði. Kerfið hérna tekur hins vegar ekkert tillit til leigjenda. Núverandi húsnæðisstefna að ungt fólk þurfi að fá aðstoð frá efnuðum foreldrum til að komast inn á fasteignamarkað er út í hött, og það er ólíðandi að þau sem ekki eigi bakland þurfi að hírast á uppsprengdum leigumarkaði. Borgin á að sjá til þess að allir komist í öruggt húsnæði á sanngjörnum kjörum. Kerfið á alltaf að setja almenning í fyrsta sæti, aldrei hagsmuni þeirra ríkustu.“
Eyjólfur Guðmundsson býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík