Framboð sósíalista í borginni – Guðrún Fossdal

Ritstjórn Sögur

„Ég er 46 ára, fædd og uppalin í Reykjavík. Foreldrar mínir eru venjulegt verkamannafólk sem vann hörðum höndum fyrir sínu og til þess að sjá um okkur systkinin, þó þau hafi ekki verið rík þá sáu þau til þess að okkur skorti ekki neitt. Ung fór ég út í rugl sem endaði með því að ég fór í meðferð nokkru sinnum en ég náði loksins tökum á lífinu og hef verið edrú síðan ég var 24 ára.

29 ára eignaðist ég mitt fyrsta barn og tveimur árum seinna eignaðist ég tvíbura. Á sama tíma fór að bera á líkamlegum veikindum hjá mér sem öftruðu mér frá því að vera á atvinnumarkaðinum. Þó svo að veikindin væru að aukast var ég staðráðin í að fara aftur að vinna, ég fór því í Hringsjá og þaðan upp í MK til þess að ná mér í menntun sem gæti hentað mínum veikindum. Á sama tíma voru sett lög um aldur þeirra sem væru í námi í mennta- og framhaldsskólum. Þar sem ég var á örorku hafði ég ekki efni á því að borga það sem þeir skólar sem voru í boði kostuðu og setti því frekara nám á hilluna með von um að einn daginn geti ég haldið áfram.

Ég kynntist hugmyndum Sósíalista þegar flokkurinn var stofnsettur og skráði mig strax í hann enda alltaf verið frekar sósíalísk að eðlisfari. Það er margt sem ég væri til í að sjá breytast og þá sérstaklega hvernig komið er fram við láglaunafólk þegar það þarf aðstoð vegna slæmrar stöðu.“

Guðrún Fossdal býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram