Framboð sósíalista í borginni – Signý Sigurðardóttir

Ritstjórn Sögur

„Ég heiti Signý Sigurðardóttir og er 36 ára gömul mamma, börnin mín eru 15 ára og 21 mánaða. Ég á ættir að rekja bæði austur og vestur en forfeður mínir og formæður, voru allt bændur og sjómenn. Alla mína bernsku bjó ég á pósthúsum en foreldrar mínir störfuðu bæði hjá póstinum á þeim árum, fyrst í Fáskrúðsfirðinum góða, síðan á eyjunni fögru þ.e. Vestmannaeyjum, síðar lá leiðin í Kópavog þar sem ég eyddi unglingsárunum og svo loksins til Reykjavíkur þar sem ég hef búið öll mín fullorðins ár. Hjartað mitt slær í Hlíðunum og miðbænum, en nýverið flutti ég í Vesturbæinn sem venst alveg ágætlega.

Tvítug varð ég einstæð móðir en hálfgert barn sjálf, barn með barn. Það var mín lukka að verða foreldri en það var samt ekkert sem gat undirbúið mig fyrir hvað þetta þýddi að vera orðin einstæð móðir, ung einstæð móðir. Það er þannig í okkar samfélagi að einstæðir eru settir sjálfkrafa í fátæktargildruna og þú þarft að reiða þig á félagslega kerfið, sem er hannað til að halda þér þar, halda þér niðri og er mein gallað. En ég er heppin ég á sterkt bakland, svo okkur “skorti” kannski ekki svo margt, það var alltaf einhver matur í ísskápnum og við áttum oftast hlýja úlpu og skó. En hitt er annað að það er kannski ekki neitt sérstaklega hollt né hjálplegt fyrir sjálfstraustið að vera upp á ölmusu aldraðra foreldra sinna kominn og eða annara aðstandenda og fólk á auðvitað ekki að þurfa að vera heppið til að eiga sómasamlegt líf.

Í dag starfa ég á einum af leikskólum borgarinnar þar sem ég held utan um skapandi smiðju fyrir öll börnin í skólanum sem eru um 80 talsins, sú vinna er nánast ógjörningur og maður er einhvern veginn alltaf að gera hið ómögulega vegna þess hve naumt leikskólarnir eru reknir og keyrðir á skammarlega fáu starfsfólki miðað við barnafjölda. Það þarf að umbylta leikskólunum ekki seinna en í gær því börnin okkar eru að fara á mis við þá umönnun og kennslu sem þau eiga skilið, fjöltyngd börn og börn með skerðingar ég segi það hreint út, borgin er ekki að sinna skyldum sínum gagnvart þessum börnum. Starfsfólk og yfirmenn eru að brenna út, það er ástand í leikskólum borgarinnar. Uppeldi og menntun barna er ekki færibandavinna og á ekki vera hagnaðardrifið. Ég er mikil barnakona og vil sjá okkur sem samfélag gera ríkari kröfur til velferðar barna og skapa samfélag hannað að þörfum barna, því þau eru framtíðin og lífið.

Ef einhver heldur að hér sé bara allt í „okey-inu“ má þá ekki bjóða ykkur í heimsókn í leikskólana því hér er stéttaskiptingin ljóslifandi. Að þessu sögðu þá vil ég að við byggjum upp samfélag þar sem allir hafa virðingu og geta lifað lífinu, líka okkar jaðarsettustu hópar. Ég vil brauð fyrir alla en líka rósir. Ég vil sanna Reykjavík!

“þegar þú ert einu sinni orðinn sannur, þá geturðu ekki orðið þykjustu aftur. Það varir að eilífu.” “

Signý Sigurðardóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík #xJ

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram