Framboð sósíalista í borginni – Guðrún Vilhjálmsdóttir

Ritstjórn Sögur

„Ég er reynslumikil 62 ára kona sem hefur þurft að hafa vel fyrir lífinu. Ég er móðir þriggja dætra og á 3 barnabörn og eitt á leiðinni. Tvær af dætrum mínum eru uppkomnar en elsta dóttirin var langveikt barn og lést á 4 ári.

Ég er lærður framreiðslumaður, en nú er ég í hlutastarfi vegna veikinda. Ég hef búið í Foldahverfi í Grafarvogi síðan 1987 og vil hvergi annars staðar búa. Ég hef verið beggja vegna borðs í húsnæðisaðstæðum. Bæði hef ég reynt að kaupa og einnig verið húsnæðislaus með 11 ára barn, það var skelfilegt. Nú hef ég loksins öruggt heimili, er leigjandi hjá Félagsbústöðum.

Húsnæðismarkaðurinn er mjög erfiður og það þarf að breyta því algjörlega. Það þarf að byggja upp fleiri óhagnaðardrifin leigufélög og setja upp regluverk um húsaleigu. Það stendur engin undir þessu oki. Að borga 55-80 % af innkomu í leigu gengur ekki upp. Sjálf borga ég um helming af innkomu minni í leigu. Þetta er fátæktargildra sem ekki er hægt að komast úr.

Það er líka mikil þörf á að bæta almenningssamgöngur og leggja meira til strætó svo að það sé fýsilegt að nota þann ferðamáta. Það þarf að hafa strætisvagna í nýju hverfunum í lagi.

Allt sem viðkemur mannúð skiptir mig gríðarlega miklu máli. Við erum öll jafnmikilvæg sama hvaðan við komum. Börnin okkar þurfa öryggi og eiga ekki að þurfa að flytja og skipta um skóla ár hvert. Það er lykilatriði til að börnin fái góð félagsleg tengsl sem mun fylgja þeim út lífið. Stuðningur við börn í skólakerfinu er líka mikilvægur ásamt því að skólamáltíðir séu fríar.

Auðvitað vil ég líka meiri jöfnuð í landinu og að okkur sé gefinn kostur á að lifa mannsæmandi lífi. Fátækt á ekki að líðast á Íslandi 🌷

Leggjum metnað okkar í það sem skilar góðu og stoppum gæluverkefni. Gerum borgina að hinni sönnu Reykjavík!“

Guðrún Vilhjálmsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík #xJ

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram