Stéttaskipting ekki ávörpuð í meirihlutasáttmála
Tilkynning
09.06.2022
Yfirlýsing frá borgarstjórnarflokki Sósíalista vegna meirihlutasáttmála:
Velferð íbúa er eitt aðal hlutverk sveitarfélaga. Stéttaskipting fer vaxandi í okkar samfélagi þar sem fátækt er bláköld staðreynd. Það er orðið illmögulegt fyrir fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið þar sem einstaklingshyggjan ræður för og móttóið er að hver sé sinnar gæfu smiður. Það er litið framhjá þeim samfélagslegu þáttum sem viðhalda ójöfnuði.
Húsnæðiskrísan sem hér ríkir verður ekki leyst með því að leyfa eignafólki og fjármagnseigendum að halda áfram að sópa til sín húsnæði og byggingarlóðum. Húsnæðiskrísan mun heldur ekki leysast með því að veita einkafélögum eða verktökum völdin til uppbyggingar. Velferð borgarbúa verður ekki tryggð með markaðslausnum, þar sem fjármagn hefur úrslitavald á kostnað almennings.
Í kjölfar kosninganna töluðu Sósíalistar fyrir tillögu að nýjum meirihluta sem myndi hafa félagshyggju að leiðarljósi en þeirri tillögu var hafnað. Ekki var vilji til að vinna til vinstri og úr varð sá meirihluti sem kennir sig við miðju, meirihluti sem hefur sammælst um nær óbreytt ástand.
Meirihlutasáttmálinn er áframhald þess sem hingað til hefur ekki virkað. Hann felur ekki í sér neinar skýrar stefnubreytingar heldur er leigjendum, fátæku fólki og láglaunafólki í Reykjavík gert að búa áfram við öfgakennt ástand eftir margra ára hunsun. Þess vegna er öfgakennt að viðhalda kyrrstöðu. Kyrrstöðu sem þjónar hinum best settu og bitnar harðast á þeim verst stöddu.
Öfgarnar sjást skýrt í sinnuleysi í húsnæðis- og velferðarmálum, þar sem skyldum sveitarfélagsins er ekki sinnt eins og ber að gera. Lögmælt verkefni sveitarstjórna er að bera ábyrgð á og hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf íbúa. Þess vegna er það til skammar að 947 manns séu á biðlista eftir húsnæði hjá Reykjavíkurborg, þar sem oft er beðið til lengdar. Ekki er hugað að grunnþörfum íbúa en á sama tíma boðar meirihlutinn skattalækkanir á atvinnuhúsnæði í takt við sömu úreltu nýfrjálshyggju og hefur verið við lýði. Brauðmolunum á enn eina ferðina að rigna, yfir fátæka og yfir leigjendur, sem þurfa að lifa við sífellt meiri öfgar á leigumarkaði; hækkanir á leigu og óöryggi.
Samfélög ganga ekki út á að sinna fyrst og fremst þörfum þeirra efnuðustu. Það þýðir ekki að telja sér trú um að peningarnir flæði sjálfkrafa niður til þeirra fátæku. Sósíalistar eru meðvitaðir um stéttaskiptinguna í samfélaginu og það valdaójafnvægi sem er til staðar vegna ójöfnuðar í samfélagsgerðinni, við munum nýta þá þekkingu til að berjast fyrir jafnara og betra samfélagi.
-Borgarstjórnarflokkur Sósíalista
Sanna Magdalena Mörtudóttir
Trausti Breiðfjörð Magnússon
Andrea Helgadóttir
Ásta Þórdís Skjalddal