Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um áskorun til ríkisins um að koma á leiguþaki og leigubremsu
Tilkynning
30.09.2022
Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um áskorun til ríkisins um að koma á leiguþaki og leigubremsu
Borgarstjórn samþykkir að skora á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að tekið verði upp þak á húsaleiguverð og einnig að leigubremsa verði tekin upp hér á landi. Leigjendur eru oft fastir á milli lágra tekna og okurleigu og því er lagt til að Borgarstjórn Reykjavíkur skori á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu.
Greinargerð
71% aðspurðra í nýlegri skoðanakönnun Maskínu voru mjög eða frekar hlynnt því að leiguþak yrði sett á húsaleigu hér á landi. Leiguþak felur í sér að hámarksleiguverð er gefið út á húsnæði miðað við stærð, gæði og staðsetningu. 72% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því að leigubremsa yrði tekin upp. Með leigubremsu er um að ræða viðmið um hversu mikið húsaleiga megi hækka yfir ákveðið tímabil. Fulltrúar sósíalista ítreka mikilvægi þess að mæta þörfum leigjenda sem eru í erfiðri stöðu. Leiga hefur hækkað upp úr öllu valdi og leigjendur oft fastir á milli lágra tekna og okurleigu.