Sósíalistaflokkurinn styður baráttu strandveiðifólks gegn stórútgerðinni
Tilkynning
30.08.2023
Sósíalistaflokkurinn krefst þess að strandveiðar verði teknar tafarlaust upp að nýju. Það var fráleit ákvörðun matvælaráðherra að láta undan kröfu stórútgerðarinnar og auka ekki við heimildir strandveiðiflotans. Strandveiðar eru umhverfisvænasta veiðiaðferðin, þær stuðla að atvinnuuppbyggingu í sjávarbyggðum sem kvótakerfið hefur leikið illa og þær skapa sjómönnum tækifæri til atvinnu utan þrúgandi kúgunar stórútgerðanna. Strandveiðar eru líka sá hluti fiskveiða sem dregur best fram mikilvægi aðskilnaðar veiða og vinnslu með sölu afla á fiskmarkaði, sem Sósíalistaflokkurinn telur forsendu uppbyggingu heilbrigðs sjávarútvegs.
Í tillögum Sósíalistaflokksins um endurheimt auðlindanna segir:
„Kvótakerfið sem upphaflega var sett á til að vernda fiskistofnana hefur þróast í óskapnað sem hefur í reynd einkavætt fiskimið almennings. Kerfið hefur brotið niður byggðir og safnað upp auð örfárra, svo miklum að hann ógnar lýðræðinu og frelsi almennings. Sósíalistaflokkurinn hefur þá stefnu að leggja niður þetta kerfi og byggja réttlátari umgjörð utan um fiskveiðar og vinnslu. Ný umgjörð þarf að reisa við það sem kvótakerfið braut niður og brjóta upp þá auðhringi sem kvótakerfið bjó til.“
Í tillögum flokksins segir einnig:
„Handfæraveiðar verða gefnar frjálsar fimm veiðidaga í viku að eigin vali frá mars til október. Miðað er við þrjár rúllur þar sem er einn maður um borð en fjórar þar sem eru tveir. Þessar veiðar verða að lúta veðurviðvörun Veðurstofunnar.“
Strandveiðar eru aðeins örlítill hluti sjávarútvegsins í dag. Strandveiðifólk stendur veikt gegn frekju og yfirgangi stórútgerðarinnar. Sósíalistaflokkurinn styður baráttu strandveiðifólks og fordæmir hvernig stjórnvöld kjósa ætíð að verja hagsmuni stórútgerðarinnar, sem eru ekki hagsmunir almennings.