Húsnæðisstefnan veldur fátækt, skerðir lífsgæði og stefnir lífi fólks í hættu
Tilkynning
27.10.2023
Sósíalistaflokkur Ísland lýsir allri ábyrgð á búsetu fólks í iðnaðarhverfum og öðru ófullnægjandi íbúðarhúsnæði á hendur ríkisstjórnarinnar. Þessi staða er afleiðing afleitrar húsnæðisstefnu allra ríkisstjórna á þessari öld, stefnu sem þrýstir leigjendum niður í fátækt, kemur í veg fyrir að efnaminna fólk geti stofnað heimili, mergsýgur launafólk og skerðir kaupmátt þess og hrekur fólk til að búa í vondu húsnæði, þröngu, heilsuspillandi og lífshættulegu.
Á skömmum tíma hafa fjórir einstaklingar týnt lífi sínu í bruna í húsum sem leigð eru út sem einskonar verbúðir. Þetta eru svokölluð slömm, braggahverfi nútímans. Þau eru rekin af svokölluðum slömm-lords, fólki sem leigir ófullnægjandi húsnæði út á svívirðilega háu verði. Þau sem neyðast til að leigja herbergi eða rúmstæði í þessum verbúðum greiða oft hæstu húsaleiguna fyrir hvern fermetra. Þetta er sjúkur markaður þar sem fégráðugasta fólkið fær að níðast á hinu fátækasta og bjargarlausasta. Og með blessun ríkisstjórnarinnar.
Í erindi Sósíalista, Stóra húsnæðisbyltingin, segir meðal annars:
„Samkvæmt opinberum könnunum á meira en þriðjungur fjölskyldna á Íslandi erfitt með að ná endum saman. Veigamesta ástæða þessa er hár húsnæðiskostnaður. Lausn á viðvarandi húsnæðiskreppu er því mikilvægasta skrefið til að bæta almenn lífskjör.
Söguleg ástæða húsnæðiskreppunnar er annars vegar að íslensk stjórnvöld stigu ekki sambærileg skref og nágrannalöndin á síðustu öld í uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis og hins vegar algjör braskvæðing íbúðarhúsnæðis á nýfrjálshyggjuárunum. Eyðilegging verkamannabústaða og stórkostleg veiking félagslegs leiguhúsnæðis var líklega alvarlegasta aðförin að lífskjörum almennings á þessu sorglega tímabili.
En braskvæðing annarra hluta húsnæðiskerfisins hafði líka alvarleg áhrif á afkomu og öryggi almennings. Með uppboði lóða og yfirtöku verktaka á húsbyggingum, sem áður var að stórum hluta undir stjórn almennings, ýmist beint eða óbeint í gegnum byggingarsamvinnufélaga, hækkaði húsnæðisverð langt umfram byggingarkostnað. Fákeppnisfélögum tókst að viðhalda skorti til að hámarka okur sitt og náðu þannig að tvöfalda húsnæðiskostnað almennings á örfáum áratugum. Innkoma stórfjárfesta inn á leigumarkaðinn gróf síðan undan lífskjörum leigjenda.
Niðurstaða nýfrjálshyggjuáranna var allt of dýr húsnæðismarkaður sem saug linnulaust fé frá fjöldanum og færði hinum fáu, ríku og valdamiklu, á sama tíma og tug þúsundir heimila var haldið í fátækt og nagandi óöryggi.
Félagslega húsnæðiskerfið er þriðjungur og allt upp í helmingur íbúðarhúsnæðis í nágrannalöndum okkar. Hér er það vel innan við 10 prósent. Meginástæðan fyrir verri lífskjörum hér en í nágrannalöndunum er að stærri hluti heimila á Íslandi reynir að lifa af á óheftum húsnæðismarkaði; ofurseld lóðabröskurum, verktökum og leigusölum og miklum sveiflum á íbúðaverði og vöxtum á fjármálamarkaði.“
Árangur af húsnæðisstefnu stjórnvalda er skortur og okur. Húsnæðiskostnaður almennings hefur hækkað langt umfram verðlag og laun. Stjórnvöld sem reka stefnu með slíkri útkomu eru ekki að þjóna almenningi heldur verktökum, lóðabröskurum, leigusölum og okrurum.
Ríkisstjórnin hefur ekki tekið neitt mark á aðvörunum leigjenda, öryrkja og aldraðra, launafólks og baráttusamtaka þeirra. Hún hefur hunsað allar kröfur almennings en byggt upp kerfi sem þjónar aðeins hinum ríku. Niðurstaðan er ónýtt húsnæðiskerfi sem eykur húsnæðiskostnað, grefur undan húsnæðisöryggi, veldur fátækt leigjenda, eykur þröngbýli og sviptir fjölda fólks þeim sjálfsögðu réttindum að geta búið sér og sínum heimili. Og stefnan setur lífi fólks í hættu.
Samið og samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins