Betra plan í ríkisfjármálum

Sósíalistaflokkur Íslands Áætlanir

Sósíalistaflokkurinn leggur höfuðáherslu á að tekjuöflun ríkissjóðs verði gerð réttlátari. Það er forsenda þess að hægt sé að stöðva skuldasöfnun ríkisins sem dregur niður lífskjör almennings bæði til lengri og skemmri tíma.

  • Sósíalistaflokkurinn leggur til skattalækkanir til almennings og smærri fyrirtæja.
  • Sósíalistaflokkurinn leggur til  að skattalækkanir undanfarinna áratuga til auðugustu fjármagnseigenda og allra stærstu fyrirtækja gangi til baka.
  • Sósíalistaflokkurinn leggur til að leiðum til skattaundanskota verði lokað og að skattaeftirlit verði eflt.
  • Sósíalistaflokkurinn leggur til að almenningur innheimti eðlilegt gjald fyrir auðlindir sínar og nýti til að byggja upp gott samfélag.
  • Sósíalistaflokkurinn leggur til að tekjustofnar sveitarfélaganna verði styrktir svo þau geti staðið undir mikilvægri þjónustu við íbúanna.

 

I. hluti — Skattleggjum hin ríku

Niðurbrot skattkerfisins á nýfrjálshyggjuárunum var gagnbylting hinna ríku, stefnt gegn hugmynd eftirstríðsáranna um velferðarríkið. Sú umbylting flutti ekki aðeins stórkostlega fjármuni úr almannasjóðum yfir til auðfólks, heldur stór jók við skattbyrði meginþorra almennings og margfaldaði gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu. Hin allra auðugustu sluppu við skatta og urðu enn ríkari. Og almenningur borgaði brúsann. 

Skattalækkanir til handa hinum auðugu voru réttlættar með því að lægri skattar á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur örvuðu svo hagkerfið að allir myndu hagnast. Þetta er hin svokallaða brauðmolakenning, dellukenning sem reynslan hefur afsannað. Til viðbótar var því haldið fram að með lágum sköttum myndu skatttekjur aukast þar sem skattaundanskot myndu minnka. Reynslan varð þveröfug, fjármagnið í skattaskjólum jókst til muna á nýfrjálshyggjuárunum. Lægri álögur á hin ríku gerðu ekkert nema auka við auð hinna ríku. Afleiðingin var veikari staða almannasjóða. Þeirri stöðu var síðan mætt með sölu eigna almennings, einkavæðingu, útvistun opinberrar þjónustu, aukinni gjaldtöku og með skattahækkun á launafólk og almenning, einkum á þau með miðlungstekjur og lægri tekjur.

Það er eðli kapítalísks hagkerfis að flytja linnulaust fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið og munu ætíð vilja eignast meira. Skattkerfi eftirstríðsáranna var ætlað að vinna gegn þessari ónáttúru, að verja samfélagið gegn alræði auðvaldsins. Tækin voru stighækkandi skattar; að skattleggja sérstaklega auð, ofurtekjur og stærð og umfang á markaði. Nýfrjálshyggjan braut þetta kerfi niður og sleppti auðvaldinu lausu á samfélagið, magnaði upp auð og völd hinna ríku og molaði niður völd almennings.

En nú er nýfrjálshyggjan fallin sem hugmyndastefna og enginn heldur fram brauðmolakenningunni kinnroðalaust. Það er því engin ástæða til að viðhalda skattakerfi sem byggir á grunni nýfrjálshyggjunnar. Grunnforsenda réttláts samfélags, sem byggt er upp af hagsmunum almennings, er að fella skattastefnu grimmdarhagkerfis hinna fáu og byggja upp skattastefnu sem hentar kærleikshagkerfi fjöldans. Fyrsta markmið þeirrar stefnu er að vinna gegn auðsöfnun og skattleggja hin ríku.

 

Auðlegðarskattur

Til að vinna gegn óréttlæti kapítalismans, sem sífellt flytur fé frá fjöldanum til hinna fáu, er nauðsynlegt að setja á auðlegðarskatt. Auðlegðarskattur er eignaskattur sem leggst á eignir umfram það sem telja má eðlilega eign vel setts millistéttarfólks í lok starfsævinnar. Auðlegðarskattur þarf að vera þrepaskiptur, frá 2% á hreina eign umfram 200 m.kr. hjá hjónum upp í 9% hjá hjónum sem eiga meira en 10 milljarða króna. Ætla má að innan við 1% skattgreiðenda muni greiða auðlegðarskatt, rúmlega 99% landsmanna munu engan slíkan skatt greiða.

Eignaskattar eru elstu skattar á Íslandi. Tíund þjóðveldisaldar var eignaskattur. Eignaskattar voru lagðir á hérlendis í rúm 900 ár, allt þar til öfgatrú nýfrjálshyggjunnar úrskurðaði þá óréttláta. Auðlegðarskattur var lagður á hér tímabundið eftir Hrun, meðal annars til að ná að skattleggja auð sem varð til í ógnargróða bóluáranna. 

Markmið auðlegðarskatts í dag væri að skattleggja þann auð sem hin ríku hafa safnað upp vegna skattaumbyltingar nýfrjálshyggjuáranna, að endurheimta hluta af þeim auði sem þau sóttu í almannasjóði. Þetta er því skattlagning á óeðlilegri auðsöfnun við annarlegar aðstæður. Ráðagerðir nýfrjálshyggjuáranna um stórfellda skattalækkun til handa fjármagns- og fyrirtækjaeigendum voru aldrei lagðar fyrir þjóðina enda hefðu kjósendur þá viljað hafna þeim. Nú er tíminn til að sýna þann vilja í verki.

 

Fjármagnstekjur og hátekjuþrep

Á nýfrjálshyggjuárunum voru fjármagnstekjur aðgreindar frá öðrum tekjum og skattar á þær lækkaðir. Í dag er jaðarskattur launatekna 46,25% en jaðarskattur fjármagnstekna meira en helmingi lægri, 22%. Lægst launaða fólkið á vinnumarkaði greiðir nánast sama hlutfall tekna sinna í skatt og allra auðugustu fjármagnseigendurnir. Launatekjur bera útsvar en fjármagnstekjur ekki. Fátæki öryrkinn og eftirlaunakonan greiða útsvar til síns sveitarfélags en allra ríkasti fjármagnseigandinn ekki krónu.

Þetta er óréttlæti sem verður að leiðrétta. Fjármagnstekjur eiga að bera sama skatt og launatekjur og skattstiginn á að vera þrepaskiptur og brattur. Hátekjuskattur á fyrst og fremst erindi þegar fjármagnstekjur og launatekjur hafa verið felldar undir sama skattkerfi og eru skattlagðar saman. Með samsköttun allra tekna myndi almenningur með litlar fjármagnstekjur njóta skattalækkunar vegna persónuafsláttar núgildandi skattareglna um fjármagnstekjuskatt.

Á eftirstríðsárunum, þeim mikla hagvaxtartíma, voru jaðarskattar þessara tekna um og yfir 90% í okkar heimshluta. Sem fyrsta skref ætti því að vera óhætt að setja inn 60% skatt á tekjur umfram 5 m.kr. á mánuði, 75% þrep á tekjur umfram 20 m.kr. á mánuði og 90% þrep á tekjur umfram 50 m.kr. á mánuði.

 

Erfðafjárskattur

Erfðafjárskattur er í grunninn tekjuskattur. Þau sem erfa fá til sín eignir og fjármuni sem ber að skattleggja eins og aðrar tekjur. Þetta er grunnreglan. Það er hins vegar samkomulag um það í samfélaginu að undanskilja eigi eðlilegan arf frá einni kynslóð til þeirrar næstu frá skattheimtu, að virða eigi stuðningskerfi innan fjölskyldnanna. Þetta er í anda skattkerfis eftirstríðsáranna. Þá var jaðarskattur erfðafjárskatts, efsta skattþrepið, sambærilegt við efstu þrep teljuskatts einstaklinga og fyrirtækja.

Lækkun erfðafjárskatts á nýfrjálshyggjuárunum hefur fyrst og síðast komið hinum ofsaríku vel, búið til erfðastétt auðfólks sem erfir ekki aðeins mikil auðæfi heldur þau völd og samfélagsstöðu sem þeim fylgir. Hækkun erfðafjárskatts er því eðlilegt varnarviðbragð lýðræðiskerfis almennings, vörn gegn því að samfélag okkar breytist aftur í lénsveldi erfðastéttarinnar.

Skattþrep erfðafjárskatts eiga að vera þau sömu og tekjuskatts. Skattleysismörk ættu hins vegar að miðast við gott íbúðaverð. Ef þú erfir 75 m.kr. þá væru 60 m.kr. skattfrjálsar og 15 m.kr. bæru venjulegan tekjuskatt. Þú greiddir þá 4,8 m.kr í erfðafjárskatt og héldir eftir 70,2 m.kr.. Sá sem erfir hins vegar 20 milljarða myndi greiða eftir sömu reglum og í skattþrepunum hér að ofan, þ.e. 17,8 milljarða króna í erfðafjárskatt og halda eftir 2,2 milljörðum króna. Í dag myndir þú borga 7 m.kr.  í erfðafjárskatt og halda eftir 68 m.kr. en sá sem erfði auðinn myndi borga rétt tæpa 2 milljarða en halda eftir rétt rúmlega 18 milljörðum, greiða aðeins um 10% skatt.

Tillögur sósíalista

Tillögur sósíalista vegna Alþingiskosninganna 2024 um endurreisn réttláts skattkerfis fela í sér aukna skattheimtu á hin ríku og snýst um að leggja á auðlegðarskatt til að endurheimta það sem auðugasta fólkið náði út úr sameiginlegum sjóðum á nýfrjálshyggjuárunum, að skattleggja fjármagnstekjur með sama hætti og launatekjur, setja á hátekjuþrep og skattleggja arf með sama hætti og aðrar tekjur ef hann er umfram verð á góðri íbúð.

Tilgangur þessa er ekki aðeins tekjuöflun fyrir ríkissjóð og sveitasjóði heldur að auka réttlæti og valddreifingu innan samfélagsins. Óheftur kapítalismi sem skattkerfið vegur ekki á móti býr til alræði auðvaldsins, samfélag óréttlætis og grimmdar. Skattkerfið er því tæki til að innleiða meiri kærleika, sátt og réttlæti.

En það er ekki nóg. Hin auðugu hafa óteljandi leiðir til að koma sér hjá skattgreiðslum, bæði innan götóttra laga og með því að fela eignir, falsa tekjur og koma sér undan skattgreiðslum með öðrum hætti. Lágir skattar á hin auðugustu er aðeins annar armur skattastefnu grimmdarhagkerfisins. Hinn er mýgrútur undanþága og slælegt skatteftirlit.


II. HLUTI — Stöðvum skattaundanskotin

Niðurbrot og veiking alls eftirlits með fyrirtækjum og fjármagni var stór þáttur í umbreytingum nýfrjálshyggjuáranna. Það byggði á þeirri hugsun sem Ronald Reagan orðaði svo: „Ríkið getur aldrei orðið lausnin því ríkið er vandamálið.“ Því var hafnað að ríkisvaldið gæti bætt atvinnulífið með því að fylgja eftir kröfum almannavaldsins og því haldið fram að markaðurinn myndi leiðrétta sig sjálfur ef þar myndaðist óeðlilegt ástand.

Og þessi vantrú á eftirlitshlutverk almannavaldsins náði inn í skattkerfið. Skattabreytingar voru ekki knúðar fram til að viðhalda réttlæti heldur til að mæta kröfum fyrirtækja- og fjármagnseigenda um lægri skattgreiðslur og minna skatteftirlit. Þetta var drifið áfram af sannfæringu um að í raun væri fénu betur komið hjá hinum ríku en í almannasjóðum. Þetta var því kerfisbundin árás á almannasjóði, gerð til að flytja völd og fjárhagslegt afl frá lýðræðisvettvanginum og út á hinn svokallaða markað, sem í reynd er valdasvæði auðvaldsins.

Niðurbrot skattkerfisins og skatteftirlits er nú alþjóðlegt vandamál. Tekjuöflun ríkissjóða hefur verið veikt með skattasamkeppni milli ríkja, sem leitt hefur til hraðra skattalækkana á fjármagns- og fyrirtækjaeigenda um allan heim. En skattalækkanir eru aðeins hluti vandans; stærsti vandinn er flótti fjár í skattaparadísir og æ götóttara skattkerfi innan ríkjanna. Íslendingar verða að taka þátt í vörnum gegn þessu á alþjóðavettvangi og vera þar í fararbroddi, en það er líka sitthvað sem við getum gert á heimavígstöðvunum.

Sósíalistar leggja einkum til þrjú atriði; að svipta eignarhaldsfélög sjálfstæðri skattalegri aðild, að takmarka heimildir til að nýta fjármagnskostnað til frádráttar áður en skattur er lagður á og að stórefla skatteftirlit, einkum með auðugustu fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum.

 

Fellum eignarhaldsfélögin

Eignarhaldsfélög án annars rekstrar en umsjónar eigna eru farvegur fyrir undanskot skatta og hafa einkum verið stofnuð í þeim tilgangi. Arður úr rekstrarfélögum, raunverulegum fyrirtækjum sem framleiða vöru eða þjónustu, er fluttur upp í eignarhaldsfélög þar sem ótal tækifæri eru til að fresta greiðslu skatta og á endanum að komast hjá öllum skattgreiðslum. Á árunum fyrir Hrunið 2008 voru stórfelldar fjárhæðir fluttar með þessum hætti í fyrirtæki í aflöndum sem borguðu enga skatta á Íslandi. Eftir Hrun var skattalögum breytt svo horft var fram hjá félögum á erlendum lágskattasvæðum og eigendur þeirra skattlagðir eins og félögin væru ekki til, væru ekki sjálfstæðir skattaðilar.

Nú er tíminn til að stíga næstu skref og gera það sama við öll eignarhaldsfélög, félög sem hafa enga starfsemi aðra en umsjón eigna, og skattleggja eigendur þeirra beint eins og félögin væru ekki til. Arðgreiðslur til eignarhaldsfélaga yrðu þá skattlagðar strax sem arður til eigendanna í sama hlutfalli og eign þeirra er í félaginu og sama ætti við um aðrar tekjur þess svo sem vexti og söluhagnað.

Eignarhaldsfélög hafa engan rekstarlegan tilgang umfram venjulegan bankareikning og alls engan samfélagslegan tilgang. Þau eru helstu verkfæri hins fjármáladrifna kapítalisma, sem hefur ekki aðeins veikt samfélagið heldur étið að innan fyrirtæki í raunverulegum rekstri, veikt þau efnahagslega og ruglað stefnu þeirra. Það hefur því engan samfélagslegan tilgang að líta á þessi félög sem sjálfstæða skattaðila. Þau eru fyrst og fremst verkfæri til að soga fé upp úr öðrum fyrirtækjum og samfélaginu og flytja til eigenda sinna með sem minnstum skattgreiðslum.

 

Drögum úr vægi frádráttar

Fyrirtæki hafa heimild til að draga útgjöld frá tekjum áður en kemur að álagningu tekjuskatts. Meðal þessara útgjalda eru fjármagnsliðir svo sem afskriftir og vextir. Þetta hefur verið misnotað með margvíslegum hætti til skattaundanskota. Við þekkjum dæmi frá álverum sem greiða móðurfélögum sínum háa vexti af öllum stofnkostnaði svo hagnaður rekstrarfélaganna er nánast enginn og þar af leiðandi skattgreiðslur litlar ef nokkrar. Við þekkjum dæmi af útgerðum sem kaupa togara sem duga munu í þrjátíu ár en sem afskrifaðir eru á átta árum til að draga sem mest úr skattgreiðslum.

Þrengja þarf allar reglur um mat á fjármagnsliðum svo skattgreiðslur endurspegli raunverulegan rekstur fyrirtækja. Veita þarf skattyfirvöldum heimild til að skattleggja rekstur fyrirtækja út frá tekjum að frádregnum útgjöldum áður en kemur að fjármagnsliðum ef grunur er um misnotkun slíks frádráttar eða ef hann er óheyrilega hár.

Ofurlaun eiga ekki að vera metin sem eðlileg útgjöld fyrirtækja. Fyrirtæki ættu að hafa heimild til að bókfæra kostnað vegna launa upp að þreföldum lágmarkslaunum en laun umfram það yrðu ekki talin til útgjalda og væru alfarið á kostnað eigenda fyrirtækjanna, en ekki að hluta til greidd með lækkun skatta eins og nú er.

Draga þarf úr endurgreiðslum á tekjuskatti fyrirtækja vegna rannsóknar og þróunar sem leyft hefur verið að vaxa eftirlitslaust á síðustu árum. Alþjóðlegar stofnanir hafa bent á veikleika þessa kerfis sem lækkað hafa tekjur ríkissjóðs um hátt í 20 milljarðar króna á ári. 

Fjölgun leiða til undanskota á nýfrjálshyggjutímanum hafa ekki aðeins minnkað tekjur ríkissjóðs heldur brenglað allt atvinnulíf. Áherslan hefur flust frá rekstri fyrirtækja með raunverulegan rekstur, framleiðslu og sölu vöru eða þjónustu, og yfir í fjármálarekstur. Það er meira fé að hafa út úr því að snúa á skattinn en að standa sig betur í rekstri eða þjóna neytendum betur. Kerfið verðlaunar svindl meira en dugnað.

 

Skattrannsóknir á stórfyrirtækjum

Skattrannsókn á stórfyrirtækjum og eignarhaldsfélögum hinna auðugu hvílir á allt of veikum stoðum í íslensku samfélagi. Það er vitað að skattsvik og skattaundanskot aukast eftir því sem fólk hefur hærri tekjur og á meiri eignir. Aðaláhersla skattrannsókna ætti því að vera á skattskil auðugustu fjármagnseigendanna og stærstu fyrirtækjanna. Fullyrða má að engin starfsemi hins opinbera muni skila jafn miklum tekjum í ríkissjóð og efling skatteftirlits með auðugasta fólkinu og fyrirtækjum þess.

Skattrannsóknir hafa nánast alla tíð verið veikar á Íslandi enda hefur það verið markmið þess flokks sem lengst af hefur stýrt fjármálaráðuneytinu að halda skattrannsóknum í lágmarki. Þessu þarf að breyta með afgerandi hætti, byggja upp öflugt embætti skattrannsóknarstjóra sem hefur burði til að byggja upp starfsmannahóp sem ræður við klæki endurskoðenda og lögfræðinga hinna ríku. Markmiðið er ekki aðeins að styrkja tekjuöflun heldur að laga samkeppnisstöðu smærri og millistórra fyrirtækja, sem greiða skatta sína að fullu, gegn stórfyrirtækjunum, sem hafa góða aðstöðu til skattaundanskota.

Líta ætti á skattrannsóknarfólk sem lykilfólk ríkisrekstrarins, fólk sem tryggir að tekjuöflun ríkissjóðs sé virk og réttlát. Halda þarf almenningi upplýstum um starf skattrannsóknarstjóra og um þær aðferðir sem notaðir eru til að komast hjá eðlilegum greiðslum í almannasjóði.

 

Tillögur sósíalista

Tillögur sósíalista til kjósenda vegna Alþingiskosninganna 2024 um varnir gegn skattsvikum felast í því að girða fyrir misnotkun eignarhaldsfélaga til skattaundanskota, skerða möguleika fyrirtækja til að draga úr skattgreiðslum með óeðlilegum fjármagnskostnaði, stöðva frádrátt vegna ofurlauna og stórefla skattrannsóknir á stórfyrirtækjum og auðugustu fjármagnseigendum.

Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt til að styrkja tekjur ríkissjóðs heldur einnig mikilvægt til að vinna gegn fjármálavæðingu atvinnulífsins sem hefur veikt það og skaðað. Skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna voru ekki bara gripdeildir úr almannasjóðum heldur skekktu þær allar leikreglur samfélagsins, færðu áherslur frá verðmætasköpun atvinnulífsins að því hvernig hin fáu ríku og valdamiklu gátu dregið að sér sem mestan auð.

 

III. HLUTI — AUÐLINDIRNAR TIL ALMENNINGS

Landsmönnum hefur löngum verið ljóst að forsendur þess að hér verði byggt upp öflugt og gott samfélag sé að þeim takist að nýta auðlindir lands og sjávar. Um þetta snerust þorskastríðin, að ná sjávarauðlindinni af erlendum útgerðarfyrirtækjum svo hún gæti orðið aflvaki nýs samfélags. Um þetta snerist líka uppbygging Landsvirkjunar á sínum tíma og þar áður rafmagnsveitna og hitaveitna. Markmiðið var alltaf að auðlindirnar yrðu grunnur að kröftugu og traustu samfélagi.

Allt fram að nýfrjálshyggjuárunum var auðlindanýtingin samfélagslegt verkefni. Sveitarfélög byggðu upp rafmagns- og hitaveitur og ríkiðvaldið síðar Landsvirkjun. Og ríkisvaldinu var beitt til að ná fiskimiðunum undir íslenska lögsögu. Markmiðin voru samfélagsleg, að færa fjölskyldum og fyrirtækjum rafmagn og hita, að skapa atvinnu til að styrkja samfélagið, útflutningstekjur til að afla gjaldeyris og að treysta byggð um allt land.

Með nýfrjálshyggjunni breytist þetta. Sjávarauðlindin var nánast einkavædd með framkvæmd kvótakerfisins. Niðurstaða þorskastríðanna varð því ekki sú að arðurinn af auðlindum hafsins hríslaðist um samfélagið og yrði undirstaða samfélagsuppbyggingar heldur rann arðurinn til örfárra fjölskyldna sem urðu á skömmum tíma að einskonar erfðastétt auðfólks sem drottnar yfir landinu. Margar sjávarbyggðir misstu kvótann frá sér í braski útgerðarmanna og hafa síðan skroppið saman, sumar eru enn í dag aðeins skugginn af sjálfum sér.

Orkuauðlindirnar voru hlutafélaga-, markaðs- og arðsemisvæddar og opinber orkufyrirtæki einkavædd eða rekstrarformi þeirra breytt og samfélagsleg markmið aflögð svo þau hegða sér í dag nákvæmlega eins og arðsækin einkafyrirtæki.

Auðlindin sem býr í náttúru landsins, sögu og mannlífi varð að peningauppsprettu með fjölgun ferðafólks. En nýting hennar hefur verið taumlaus og að mestu án eftirlits og aðhalds. Sama á við um spillingu náttúru- og loftgæða. Í stað þess að verja þessar auðlindir og náttúrugæði hefur hinum svokallaða markaði verið falið að stjórna nýtingu þeirra. Og sú nýting einkennist annar vegar af ofnýtingu og ágengni á náttúrugæði og hins vegar að arðsæknum rekstri sem hefur það eitt markmið að færa eigendum fyrirtækjanna arðinn af auðlindunum.

Sósíalistar hafna þessari stefnu. Þeir hafa ekki trú á að arðsemiskrafa markaðsfyrirtækja geti stjórnað auðlindanýtingu almennings. Auðlindirnar eru sameign og með þær á að fara sem slíkar. Auðlindirnar eru almannagæði sem hvorki á að selja hæstbjóðandi né nýta til að skapa arð fyrir hin fáu. Almannagæði og auðlindir á að nýta sem stoðir undir samfélagið allt, láta nýtingu þeirra þjóna samfélagsheildinni.

Sósíalistar munu leggja fram sérstakt tilboð til kjósenda varðandi auðlindanýtingu, loftslags- og umhverfisvernd; en hér verður ekki hjá því komist að fjalla um auðlindagjöld og nýtingu auðlinda í tengslum við sósíalíska skattastefnu.

 

Sjávarauðlindin var einkavædd

Yfirráð yfir auðlindum hafsins eru forsenda þess að hér sér hægt að byggja upp öflugt og traust samfélag. Baráttan fyrir þessum yfirráðum einkenndi fyrstu áratugi fullveldis og síðan lýðveldis, og er landhelgin og fiskveiðilögsagan án vafa stærsti sigur hins unga lýðveldis. Markmiðið þessarar sjálfstæðisbaráttu var að nýta auðlindir hafsins svo þær gætu orðið aflvaki samfélagslegrar uppbyggingar.

Framan af gekk þetta eftir. Nýting sjávarauðlindarinnar byggði upp samfélög hringinn í kringum landið og var forsenda fyrir hröðum vexti atvinnulífs, uppbyggingu innviða og grunnkerfa samfélagsins; mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfa. Fyrstu áratugi lýðveldistímans var þessi uppbygging leidd af hinu opinbera, ekki bara með forystu um útvíkkun landhelginnar heldur líka með atvinnustefnu sem gat af sér samvinnurekstur, bæjarútgerðir og annan félagslegan rekstur með samfélagsleg markmið. Á uppgangstíma sjávarútvegsins var meirihluti útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja í félagslegum rekstri.

Með tilkomu kvótakerfisins og framkvæmd þess umbreyttist greinin og þar með nýting auðlindanna og ráðstöfun arðsins af þeim. Í dag hefur sjávarauðlindin í reynd verið einkavædd. Hún er fyrst og fremst undir stjórn örfárra ofurauðugra fjölskyldna, sem drottna yfir veiðum, vinnslu og sölustarfi; allt frá óveiddum fiski að sölu afurða í útlöndum.

Þessi valdasamþjöppun hefur snúið draum hins unga lýðveldis upp í martröð. Í stað þess að auðlindin yrði aflvaki öflugs og valddreifðs samfélags siglir það nú inn í alræði ofurríkrar erfðastéttar sem fer sínu fram í krafti auðs og valda meðan almenningur hefur æ minni stjórn yfir þróun samfélagsins. Fjöldi sjávarbyggða hefur misst aðgengi sitt að fiskimiðunum sem byggðu þær upp, þær töpuðu þeim á braskborði stórútgerðarinnar. Arðurinn af auðlindunum hríslast ekki lengur um samfélagið heldur endar í vasa hinna fáu og ofsaríku, sem nýta auð sinn ekki til uppbyggingar samfélagsins heldur til að kaupa upp önnur fyrirtæki, bæði innan sjávarútvegsins og í óskyldum greinum. Í stað þess að verða aflvaki fjölbreytts og valddreifðs samfélags fullt af tækifærum og nýsköpun hefur sjávarauðlindin verið nýtt til að byggja upp ofurvald hinna örfáu.

Stærsti sigur hins unga lýðveldis varð á endanum stærsti ósigur þess. Barátta almennings fyrir að losna undan auðlindaráni útlendra útgerða og yfirráðum fjarlægs yfirvalds færði hann á endanum undir ógnarvald örfárra auðkýfinga, sem auðgast hafa stórkostlega á nýtingu auðlinda sem að nafninu til eru eign almennings.

Meginmarkmið sósíalista er að brjóta niður vald hinna auðugu yfir samfélaginu og endurheimta auðlindir almennings. Markmiðið er ekki að viðhalda óbreyttu ógnarkerfi hinna fáu heldur að færa yfirráðin yfir kvótanum aftur til byggðanna svo þær geti nýtt auðlindirnar til að byggja að nýju upp fjölbreytta atvinnustarfsemi og blómlegt samfélag.

Það er ekki markmið sósíalista að láta sjávarútveginn þróast áfram með sama hætti og hingað til, að greinin samanstandi fyrst og síðast af örfáum risafyrirtækjum sem hafi það eitt markmið að hámarka arðgreiðslur til eigenda sinna. Því var trúað á nýfrjálshyggjuárunum að þetta væri leiðin, að arðsemi fyrirtækja væri eina leiðarljós atvinnuuppbyggingar, það hversu mikið fé eigandinn gæti dregið til sín upp úr rekstrinum. Til að ná þeim árangri var stefnt að sem mestri samþjöppun og skilvirkni, að halda niðri launum starfsfólks og heildarlaunakostnaði með sjálfvirknivæðingu og að ná tökum á allri virðiskeðjunni til að geta stjórnað því hvar hagnaðurinn endaði. Þegar þessum markmiðum var náð tók rekstur félaganna að snúast um hvernig komast mátti hjá skattgreiðslum, hvernig lækka mætti hlut sjómanna, hvernig hægt væri að hámarka hag eigandans sem mest án nokkurs tillits til þess hvaða afleiðingar það hefði fyrir umhverfi, samfélag, starfsfólk eða viðskiptavini.

Það er almennt viðurkennt um allan heim að þessi stefna, að einblína á arðgreiðslur til eigenda, sé afleitt leiðarljós í fyrirtækjarekstri. Hún leiðir til lakari og veikari fyrirtækja, sem hafa í reynd snúist gegn samfélaginu. Við Íslendingar vitum allt um það. Það nægir að segja eitt orð til að skýra afleiðingar þessarar stefnu: Samherji.

Niðurbrot stórfyrirtækjanna í sjávarútvegi er því ekki bara lýðræðisleg nauðsyn, vörn gegn því að hér byggist upp alræði örfárra auðugra fjölskyldna, heldur er það líka skynsamleg atvinnustefna. Reynslan sýnir að smærri fiskvinnslufyrirtæki sem kaupa fisk á markaði fara betur með hráefnið og fá hærra afurðaverð á erlendum markaði en stórfyrirtækin sem eiga alla virðiskeðjuna og hafa aðlagað hana að því að hámarka arð eigandans. Það er ekki alltaf í hag hans að fá hæsta verð á markaði fyrir afurðina. Það má vel vera að hann auðgist meira af því að búa til ódýrari vöru með lægri launakostnaði. Eða með því að selja sjálfum sér ódýrt úr landi og ná síðan að auka arð sinn  með því að selja áfram á enn hærra verði. 

Uppbrot stórfyrirtækjanna er því líka klók leið til að hámarka arð samfélagsins af auðlindinni. Hann eykst við valddreifingu, verður meiri þegar klippt er milli veiða og vinnslu og þegar komið verður í veg fyrir að eigendur stórfyrirtækja geti falið hagnaðinn í aflöndum. 

Þróun sjávarútvegs á Íslandi undanfarna áratugi er í raun dæmi um fjármálavæðingu atvinnulífsins. Öll greinin hringsnýst um fjármálagjörninga og ávöxtun á eignum eigenda þeirra en miklu síður um hámarksnýtingu auðlindanna. Í upphafi nýfrjálshyggjunnar var því haldið fram að þetta færi ætíð saman, en því trúir ekki nokkur maður lengur. Reynslan hefur afhjúpað hvert þessi stefna leiðir. Eftir sem áður er þessi sama stefna rekin áfram hérlendis, þótt hún sé hugmyndalega gjaldþrota. Ástæðan er sú að þetta er stefna sem hámarkar hag hinna ofsaríku og auði þeirra fylgir mikið vald. Eina leiðin til að stöðva þessa helstefnu er því að taka völdin af auðvaldinu, að almenningur nái völdum yfir ríkisvaldinu og setji sjávarútveginum stefnu sem þjónar samfélaginu en ekki aðeins hinum fáu ríku og valdamiklu.

Að þessu sögðu þarf varla að taka fram að sósíalistar styðja ekki þá hugmynd að sjávarútvegurinn verði áfram rekinn með sama sniði, hafi það eitt markmið að hámarka auð örfárra fjölskyldna, en að veiðigjöld verði hækkuð. Þetta er tillaga um að almenningur verði samverkamaður hinna auðugu fjölskyldna, fái greitt fyrir að gefa þeim eftir allt vald yfir auðlindum sínum. Vandi sjávarútvegsins verður ekki leystur með stórútgerðinni því stórútgerðin er vandi sjávarútvegsins.

Tillaga sósíalista gengur út á að innleiða fjölbreytni og valddreifingu að nýju inn í nýtingu fiskimiðanna. Eins og koma mun fram í tilboði sósíalista til kjósenda um auðlindastefnu leggja sósíalistar til frjálsar handfæraveiðar og stuðning við smárekstur, uppbyggingu fiskmarkaða og uppbyggingu innviða sem þjóna smærri aðilum, bæta nýtingu, gæði og verð. En megintillagan er að færa yfirráð yfir kvótanum út í byggðirnar sem þá munu leita ólíkra leiða til að nýta auðlindina sem best fyrir samfélagið.

Sósíalistar eru því að leggja til valddreifðan, opinn, lýðræðislegan og fjölskrúðugan sjávarútveg í stað hins lokaða og ólýðræðislega kerfis stórfyrirtækjanna. Það er vert að íhuga þetta. Óheftur kapítalismi hefur nefnilega ekki fært okkur fjölbreytileika og valddreifingu eins og lofað var, heldur miðstýrt ógnarvald örfárra stórfyrirtækja, kerfi sem kalla má alræði auðvaldsins og sem er ekkert síður hættulegt en annað alræði.

Að því sögðu er rétt að taka fram að í auðlindatilboði sósíalista er gert ráð fyrir auðlindaleigu sem rennur í sameiginlega sjóði. Það gjald verður innheimt við hafnarbakkann, er gjald fyrir notkun á auðlindinni og rennur til samfélagslegrar uppbyggingar. Þótt að það gjald verði lægra en verð á leigukvóta í dag, auðlindagjald sem smáar kvótalausar útgerðir greiða kvótagreifunum, þá mun það skila margfalt meiri fjármunum í sameiginlega sjóði en veiðigjaldið gerir í dag.

 

Orkuauðlindirnar voru arðsemisvæddar

Uppbygging Hitaveitu Reykjavíkur er eitt af afrekum Íslendinga. Í stað þess að brenna kol var borað eftir heitu vatni og byggt upp nýtt hitakerfi um allan bæ og síðar í nágrannabyggðum. Þetta var samfélagslegt verkefni sem af stærð, framsýni og getu var langt umfram það sem einkafyrirtæki réðu við. Hitaveitan sparaði gjaldeyri og losaði Reykjavík við óhollustu kolaryks og kolareyks. Uppbygging Hitaveitunnar ætti að vera landsmönnum fyrirmynd um frábæra auðlindanýtingu með samfélagsleg markmið.

Samhliða Hitaveitunni voru byggðar upp vatnsveitur og rafmagnsveitur með sama hætti og sömu markmiðum. Almenningur tók sameiginlega lán og greiddi viðunandi verð fyrir orkuna svo veiturnar stæðu undir lánunum. Framtíðarsýnin var sú að með tíð og tíma væri framkvæmdakostnaðurinn greiddur niður og Reykvíkingar og nærsveitafólk gæti þá búið við ódýra, örugga og umhverfisvæna orku til allrar framtíðar.

Ævintýrið endaði ekki svona vel. Þegar komið var inn á nýfrjálshyggjuárin varð sú stefna ofan á að nýta ætti góða fjárhagsstöðu veitnanna til að fara út í nýjar virkjanir og selja orkuna stóriðjuverum. Forsendan var ekki sú að það vantaði atvinnu heldur höfðu veiturnar þarna breytt um eðli, voru ekki lengur fyrirtæki almennings sem rekin voru með samfélagslegum markmiðum heldur þátttakandi, í raun stórleikari, á kapítalískum orkumarkaði. Og sem slíkur hafði Orkuveitan aðeins eitt markmið; að stækka til að geta búið til meiri hagnað. Þetta var á þeim árum að fyrirtæki sem gat aukið hagnað sinn hlaut að vera á réttri leið. Peningar voru mælikvarði alls.

Við þekkjum öll endinn á þessari sögu. Þetta er harmsaga. Fyrrum krúnudjásn Reykjavíkur, Hitaveitan og Rafmagnsveitan, eru nú skammarblettur á borginni. Höfuðstöðvar fyrirtækisins margra milljarða minnismerki um sjálfbirgingshátt og snobb. Og svimandi skuldir fyrirtækisins eru myllusteinn um háls borgarbúa. Til að bjarga Orkuveitunni frá gjaldþroti eftir Hrun þurftu borgaryfirvöld að snarhækka gjaldskránna. Borgarbúar sem ættu í dag að búa við ofgnótt af ódýrri orku þurftu að borga orkuveituna út úr skuldafangelsi með hærri orkureikningum.

Þessi saga er hér sögð til að lýsa hvernig hugmyndir yfirvalda um orkuauðlindina snarbreyttust á nýfrjálshyggjutímanum. Sósíalistar vilja hverfa aftur til fyrri hugmynda; um að auðlindirnar séu notaðar til að byggja upp gott samfélag en séu ekki settar inn í opinber hlutafélög sem hegða sér eins og þau væru arðsemisdrifin fyrirtæki í eigu kapítalista með gróðann einan að markmiði.

Sósíalistar hafa líka markað þá stefnu að allar orkuauðlindir skuli vera almenningseign og í opinberum rekstri ef frá eru skyldar borholur og smávirkjanir sem fólk byggir til eigin þarfa. Orkukerfið er grunnkerfi samfélagsins og uppbygging þess og rekstur skal vera á samfélagslegum grunni og með samfélagslegum markmiðum.

Megin nýting orkunnar skal fara í að byggja hér upp sterkt samfélag með skýrum samfélagslegum áætlunum. Eins og til dæmis með stórfelldri matvælaframleiðslu til að skapa störf, treysta byggðir, spara gjaldeyri, draga úr mengandi flutningum landa á milli og auka lífsgæði. Eins og til dæmis með orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýtanlega hreina orku í samgöngum, flutningum, fiskveiðum og öðrum þeim atvinnugreinum sem enn nýta olíu, kol eða gas. Markmið þessa er að draga úr mengun, verjast loftslagsbreytingum, spara gjaldeyri, skapa störf og auka lífsgæði. 

Einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki, sem rekin eru eins og væru þau einkafyrirtæki, ráða ekki við svona verkefni. Helsta nýjungin í orkunýtingu á Íslandi á síðustu árum eru gagnaver sem keyra tölvur með gríðarlegri orku til að grafa eftir Bitcoin og öðrum rafmyntum, starfsemi sem er samfélagslega fullkomlega tilgangslaus og í reynd skaðleg.

Undanfarna áratugi hefur verið rekin orkustefna eins og hér sé orkuskortur. Svo er ekki. Ný orkustefna þarf að taka mið af því að óumflýjanlega munu sum af þeim stóriðjuverum sem hér eru rekin loka innan fárra ára eða áratuga. Orkustefnan þarf að taka mið af þessu. Við þurfum að sækja fé í samninga við stórkaupendur til að greiða niður allan framkvæmdakostnað og nýta síðan orkuna sem aflvaka uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra og nýrra samfélagslegra innviða, ekki með því að verðleggja orkuna upp í topp heldur þvert á móti með því að nýta okkur það að við höfum greitt niður framkvæmdakostnaðinn.

Sósíalistar hafna hugmyndum um auðlindasjóð sem ávaxti arðgreiðslur af Landsvirkjun til seinni tíma nota. Að baki er sú hugmynd að landsmenn séu eins konar kapítalískir eigendur auðlindarinnar, óvirkir á annan hátt en þann að gera kröfu um sem mestan arð af eign sinni. Almenningur er sameiginlegur eigandi að orkuauðlindunum og þær á að nýta í samfélagsleg verkefni undir stjórn almennings.

 

Aðgerðarleysisstefnan bjó til glundroða

Ferðaþjónustan byggir á sameign landsmanna; náttúru, sögu og menningu. Auk þess nýtir ferðaþjónustan innviði samfélagsins; samgöngur, heilbrigðisþjónustu, löggæslu o.s.frv. Ferðafólk kemur hingað að heimsækja og skoða Ísland, sem er margslungin hugmynd sem aftur er sameign okkar allra. Af þessum sökum er mikilvægt að uppbygging innviða við náttúruperlur og sögustaði séu undir almannastjórn og að ferðaþjónustufyrirtæki innheimti og greiði gjöld vegna álags á almenna innviði samfélagsins. 

Aðgerðarleysisstefna stjórnvalda í anda nýfrjálshyggjunnar á undanförnum árum hefur valdið því að þrátt fyrir knýjandi þörf hefur staðið á uppbyggingu innviða, reglna og eftirlits. Afleiðingin er ekki aðeins mikið álag á náttúruna heldur ofvöxtur og stjórnleysi sem birtist ekki síst í illri meðferð á starfsfólki, launaþjófnaði og kúgun. Ótti stjórnvalda við að sinna skyldum sínum, að móta stefnu og byggja upp traust umhverfi fyrir vaxandi og mikilvæga atvinnugrein, hefur leitt til glundroðauppbyggingar sem hefur skaðað náttúru og samfélag að ósekju.

Til að vinna upp aðgerðarleysi undanfarinna ára þarf opinbert átaksverkefni við uppbyggingu þjónustumiðstöðva við helstu náttúruperlur og menningarminjar. Slíka uppbyggingu má fjármagna með lánsfé sem síðar verður greitt niður með þjónustugjöldum og rekstrartekjum. Til að flýta fyrir slíkri uppbyggingu er mikilvægt að verkefnið sé undir einni stjórn og að umframtekjur frá fjölsóttum stöðum geti runnið til uppbyggingar annars staðar, uppbyggingu sem síðan mun auka aðsókn að þeim stöðum og þar með tekjur heildarinnar. Til að leita fyrirmynda má sækja til Bretlandseyja en þar hefur sjálfseignarstofnun umsjón með öllum helstu náttúru- og söguminjum og hefur staðið fyrir glæsilegri uppbyggingu við þá staði. Þessi uppbygging þarf að standast gæðakröfur, bæði mannvirki og þjónusta öll, fræðsla og veitingar, jafnt sem snyrting og öll aðstoð við ferðafólk. Markmiðið á að vera að byggja upp framúrskarandi þjónustu og ramma utan um ógleymanlega heimsókn innlends og erlends ferðafólks.

Til að standa straum af álagi ferðaþjónustunnar á almenna innviði ber að færa innheimtu virðisaukaskatts af ferðaþjónustu upp í almennt þrep þegar greinin hefur jafnað sig af kórónafaraldrinum. Sú ákvörðun að halda ferðaþjónustunni í lægra þrepi ýtti í reynd undir ofris greinarinnar og styrkingu krónunnar af þess sökum, sem þegar upp var staðið hækkaði verð á þjónustunni meira í erlendri mynt en hækkun virðisaukans hefði gert. 

Þá ber að innheimta gistináttagjald sem færi til sveitarfélaga en þau bera mikinn kostnað af ferðaþjónustunni en hafa litlar tekjur af henni. Slíkt gjald er lagt á um allan heim af þessum ástæðum og okkur er engin vorkunn að taka það kerfi upp. 

Setja ber á komugjöld á ferðafólk og kanna hvort nota megi það til að stýra ferðamannastraumnum, til dæmis með því að hækka það um hásumarið en lækka það niður í málamyndagjald yfir daufasta tímann um veturinn.

Getuleysi stjórnvalda til að stýra uppbyggingu ferðaþjónustunnar hefur skaðað náttúruna, greinina sjálfa, starfsfólkið innan hennar og samfélagið allt. Það er hlutverk stjórnvalda að búa atvinnulífinu skýran ramma og stjórna uppbyggingu innviða til að styðja við og efla starfsemina. Og það er hlutverk stjórnvalda að verja starfsfólk og viðskiptavini fyrir óprúttnum bröskurum. Það er fráleit hugmynd að ferðaþjónustan þroskist best í stjórnleysi. Það er þvert á móti reynsla allra ríkja að atvinnulíf dafnar helst undir skýrri atvinnustefnu þar sem saman fer opinber uppbygging, eftirlit og skattheimta.

Sósíalistar líta á ferðaþjónustuna sem auðlindanýtingu þar sem ríkisvaldið, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar gegna veigamiklu hlutverki við uppbygginguna. Snúa verður af þeirri braut að greinin vaxi af hendingu eftir útblásnum viðskiptahugmyndum einstakra braskara með skaðlegum afleiðingum. Samfélagsleg markmið um uppbyggingu ferðaþjónustunnar þurfa að vera skýr svo fyrirtækin geti mótað sinn rekstur innan þeirra.

 

Mengunarvaldar skattlagðir, sektaðir og bannaðir

Loftslagsváin er ein af afleiðingum ójöfnuðar og valdaójafnvægis í samfélaginu. Hin fáu ríku og valdamiklu hafa ekki þurft að svara neinum heldur komist upp með að brjóta niður samfélag manna, öryggisnet almennings og stofnanir sem ætlað er að styðja jöfnuð og réttlæti. Og þau hafa komist upp með að ganga á náttúrugæði jarðar; menga, sóa, eyða og spilla. 

Frumskilyrði þess að ná tökum á loftslagsvánni er að taka völdin af auðvaldinu, gerandanum. Hann getur aldrei orðið hluti af batanum. Til að ná árangri í loftslagsmálum þarf af beita gjaldtöku, sköttum og sektum á þau fyrirtæki sem menga mest og harðast ganga á sameiginleg gæði. 

Hættan er sú, miðað við núgildandi stefnu í loftslagsmálum, að fjármagns- og fyrirtækjaeigendur muni sækja styrki í ríkissjóð til að fjármagna sjálfsagðar breytingar á rekstri sínum. Afleiðingin verður sú að almenningur mun bera bæði skaðann af menguninni og kostnaðinn við að stöðva hana. 

Það er sjálfsagt mál og nauðsynlegt að verja almannafé til að byggja upp nýjar lausnir og tækni til að vinna gegn loftslagsvánni. En það fé á að renna inn í samfélagsleg verkefni og inn í opinberar rannsóknarstofnanir. Fyrirtækin verða að sjá um sig sjálf. Ef þau breytast ekki verður starfsemi þeirra bönnuð. Eigendur þeirra geta ekki þurrausið sjóði eigin fyrirtækja til að greiða sjálfum sér arð og sótt svo fé í opinbera sjóði til að mæta löngu fyrirsjáanlegum vanda.

Sósíalistar leggja því til stigvaxandi kolefnis- og mengunarskatta til að verja umhverfi og náttúru og umtalsverða opinbera fjárfestingu til að flýta orkuskiptum, efla innlenda matvælaframleiðslu, landgræðslu og skógrækt. 

 

Tillögur sósíalista

Tillögur sósíalista til kjósenda vegna Alþingiskosninganna 2024 um auðlindanýtingu felur í sér að yfirráðum yfir auðlindum almennings verði komið undir félagslega stjórn svo þær nýtist til að byggja upp gott, öruggt og fagurt samfélag. Markmiðið er að brjóta niður vald og yfirráð hinna fáu. Nýting auðlindanna er langtímamarkmið sem ekki aðeins á að þjóna samfélaginu í dag heldur byggja upp samfélagið og efla fyrir komandi kynslóðir. Skattar, gjöld og leiga verði notuð til að stýra uppbyggingunni og skýr atvinnustefna skapi fyrirtækjum umgjörð.

 


IV. HLUTI – TEKJUR SVEITARFÉLAGA TRYGGÐAR

Veiking tekjustofna sveitarfélaganna á nýfrjálshyggjuárunum með aflagningar aðstöðugjalda á fyrirtæki og útsvars á fjármagnstekjur hefur skert sjálfstæði sveitarfélaga og hrakið þau í eignasölu til að bæta sér tekjutapið.

Lóðasala er eitt dæmi þessa. Lækkun skatta á hin auðugu hrakti sveitarfélög til að bjóða upp lóðir í stað þess að úthluta þeim. Afleiðing þess að selja hæstbjóðandi almannagæði varð varanleg hækkun íbúðaverðs sem í sumum sveitarfélögum gat numið allt að 10 m.kr. á hverja tveggja herbergja íbúð. Með þessu er kostnaðurinn vegna skattalækkana fyrirtækja og fjármagnseigenda varpað yfir á almenning.

Annað dæmi er hækkun fasteignagjalda. Eignaskattar sem voru felldir niður upp úr aldamótum voru lagðir á hreina eign, en fasteignagjöld, sem í dag eru stærri hluti tekna sveitarfélaga en á áratugunum fyrir nýfrjálshyggju, eru lögð á heildareignir án tillits til þess hversu mikið eigandinn skuldar. Fyrir hin verr settu eru fasteignagjöld því skattur á skuldir, sem er svívirðilega ósanngjarn skattur.

 

Aðstöðugjald endurvakið

Sósíalistar leggja til að aðstöðugjald fyrirtækja verði aftur tekið upp, veltutengdur skattur sem rennur til sveitarfélaga. Fyrirtæki eru sjálfstæður skattaðili og eiga að greiða til síns nærumhverfis eins og einstaklingar, enda nota fyrirtæki innviði sveitarfélaga ekkert síður en einstaklingar; nota götur og veitur, hafa not af menntun starfsfólks og dagvistun barna þess og umönnun foreldra og annarra skyldmenna. Fyrirtæki vaxa mest og dafna í vel skipulögðu samfélagi og þeim ber að greiða fyrir þann ávinning.

Lagt er til að aðstöðugjaldið verði þrepaskipt þannig að smæstu fyrirtækin greiði lítið en hin allra stærstu mikið. Nota má skattfrelsi frá aðstöðugjöldum til að örva nýsköpun, stofnun samfélaga eða til að hvetja atvinnulaust fólk til að stofna eigin rekstur. Stærð fyrirtækja endurspeglar aðstöðu þeirra í samfélaginu, því stærri sem þau eru því hagfelldari er aðstaða þeirra í samfélaginu og þá aðstöðu er eðlilegt að skattleggja.

Þá er lagt til að ríkisvaldið ákvarði aðstöðugjald svo sveitarfélög fari ekki í skattasamkeppni um stærstu fyrirtækin og lokki þau til sín með því að fella burt aðstöðugjaldið eða lækka það umtalsvert. Skattasamkeppni milli sveitarfélaga og ríkja hefur grafið undan samfélögum í okkar heimshluta og hana ber að stöðva.

Fyrirtæki með starfsemi í mörgum sveitarfélögum, svo sem orkufyrirtæki, bankar, mörg ríkisfyrirtæki og sum stórfyrirtæki, greiði svokallað landsútsvar í stað aðstöðugjalds og útsvari þeirra verði dreift til sveitarfélaganna í takt við íbúafjölda og umfang rekstrar.

 

Útsvar á fjármagnstekjur

Þegar fjármagnstekjur voru aðgreindar skattalega frá öðrum tekjum var útsvar á þær fellt niður. Afleiðingin er sú að tekjuhæsta fólk landsins greiðir margt ekki krónu til sinna sveitarfélaga, eða sáralítið. Þetta er algjörlega tilgangslaus skattaafsláttur, að færa tekjur frá sveitarfélögum til hinna allra best settu, og ætti að afnema hann hið allra fyrsta.

Áður en nýfrjálshyggjan gróf undan skattkerfinu var útsvar í Reykjavík 6,7%. Það er í dag 14,97%. Að hluta til má skýra þessa miklu hækkun með tilflutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. En skýringin er ekki síst sú að frá 1991 hafa tekjur sveitarfélaga af fyrirtækjum og fjármagni verið felldar niður. Launafólk og allur almenningur hefur verið látinn bera kostnaðinn af þessu með auknum álögum. Munurinn á útsvari í dag og árið 1991 eru tæplega 330 þús. kr. á ári af lágmarkslaunum og 650 þús. kr. á ári af meðallaunum. Það er gríðarleg blóðtaka fyrir íbúanna, byrðar sem lagðar voru á almenning kannski fyrst og fremst svo hægt væri að lækka álögur á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur.

Þótt sósíalistar vilji fyrst og fremst tryggja tekjugrunn sveitarfélaganna svo þau geti veit íbúunum góða gjaldfrjálsa þjónustu og bætt þar með líf allra en mest lífskjör hinna tekjulægri, þá mun útsvar á fjármagnstekjur og aðstöðugjald á fyrirtæki opna möguleika á að lækka almennt útsvar eða þrepaskipta því svo fólk með lægri meðaltekjur og þar undir greiði lægri skatta.

 

Tillögur sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um endurreisn tekjukerfis sveitarfélaganna snýst um að taka aftur upp aðstöðugjald á fyrirtæki en hafa það þrepaskipt svo minnstu fyrirtækin greiði hlutfallslega minnst en þau stóru mest, að endurvekja landsútsvar stórfyrirtækja sem rennur til sveitarfélaga og leggja útsvar á fjármagnstekjur en lækka almennt útsvar.

Sterkir og sjálfstæðir tekjustofnar sveitarfélaganna eru forsenda fyrir eðlilegri valddreifingu í samfélaginu, að sveitarfélögin hafi fjárhagslega burði til að móta stefnu í þeim málum sem heyra undir þau og leiti leiða til að þjóna íbúunum sem best. Það er síðan grunnforsenda réttláts samfélags að fyrirtækja- og fjármagnseigendur greiði til síns nærumhverfis. Réttlátt samfélag byggir á því að þau sem eru helst aflögufær greiði til samfélagsins og þau sem þurfa helst á aðstoð að halda fái góða þjónustu og stuðning.

 

V. HLUTI —SKATTALÆKKUN TIL ALMENNINGS

Skilgreina má þróun ríkisfjármála undir nýfrjálshyggjunni í nokkrum þrepum. Fyrst voru skattar á fjármagnseigendur og stórfyrirtæki lækkaðir með loforði um að þetta myndi ekki leiða til tekjumissis fyrir opinbera sjóði því lækkun skatta myndi örva svo atvinnulífið að fjármagnseigendur og stórfyrirtæki myndu í raun borga hærri skatta þótt skattprósentan yrði lækkuð. Auk þess myndi lækkun skatta á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur draga úr skattsvikum og skattaundanskotum.

Þetta gekk auðvitað ekki eftir. Í fyrstu var opinber þjónusta ekki skorin niður heldur skuldum safnað í trausti þess að bráðum myndu skatttekjurnar hækka. Þegar það gerðist ekki var lagt til að eignir ríkissjóðs yrðu seldar auðfólkinu til að draga úr vaxtakostnaði og minnka skuldirnar. Auðfólkinu var sem sagt boðið að kaupa eigur almennings með sömu peningunum og það fékk vegna skattalækkana, og markmiðið var að fjármagna skattalækkanirnar. 

En þetta lagfærði auðvitað ekki rekstrarstöðu ríkissjóðs. Það var enn gat eftir skattalækkanirnar til auðfólksins. Ríkissjóður eyddi meira en hann aflaði vegna þess að aflinn hafði verið skertur. Þá var gripið til þess ráðs að rukka fyrir þjónustu sem áður var gjaldfrjáls, þjónustu sem litið hafði verið svo á að fólk greiddi fyrir með sköttunum. Þetta átti við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og síðan nánast alla opinbera þjónustu.

Með því að innleiða greiðslur inn í opinbera þjónustu var stigið skref í átt að markaðsvæðingu hennar og einkavæðing undirbúin. Ef þjónustan er ekki hluti af samtryggingunni sem við greiðum fyrir með sköttunum okkar, ef hún er eins og hver önnur þjónusta sem við greiðum fyrir; skiptir þá nokkru máli hver rekur þjónustuna? var spurt. Og auðfólkið, sem áður hafði einkum verið í atvinnulífinu, færði sig í auknu mæli inn á svið sem áður höfðu tilheyrt samfélagslegum vettvangi.

Einkavæðing dró ekki úr kostnaði ríkissjóðs, þvert á móti bættist við arður til eigenda þeirra fyrirtækja sem tóku yfir opinberan rekstur. Ríkissjóður stóð því jafn illa eftir skattalækkun til hinna ríku þrátt fyrir sölu eigna, gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu og einkavæðingu. Þá var ekkert eftir en að hækka skatta á almenning, láta hann fjármagna skattalækkun til hinna ríku með aukinni skattbyrði.

Þetta er söguþráður ríkisfjármála nýfrjálshyggjuáranna. Þetta gerðist ekki nákvæmlega í þessari röð; skattahækkanir á almenning byrjuðu fljótlega og áður en einkavæðingin var komin á fulla ferð; en þetta lýsir vel hvernig tannhjól nýfrjálshyggjunnar virkaði.

Sósíalistar ætla sér að snúa þróun nýfrjálshyggjunnar við, endurheimta völd almennings úr höndum auðstéttarinnar, fjármuni, eignir og auðlindir, og endurbyggja opinbera þjónustu. En hér viljum skýra út hvernig sósíalistar ætla að létta skattbyrði nýfrjálshyggjuáranna af almenningi.

 

Fátækt skal ekki skattlögð

Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp greiddi fólk á lágmarkslaunum enga skatta og þar með eftirlaunafólk, öryrkjar, námsfólk og fólk sem hafði lægri tekjur en lágmarkslaun. Í dag greiða þau sem eru á lágmarkslaunum um 15% af tekjum sínum í skatt, tæplega 64 þúsund krónur. Samt er vitað að fólk á lágmarkslaunum á í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman.

Fólk á lægstu örorkubótum, um 305 þús. kr. á mánuði, greiðir rétt tæpar 31 þús. kr. af þeim í skatt. Fólk sem er á framfærslu sveitarfélaga fær tæpar 240 þús. kr. á mánuði og borgar af því tæpar 11 þús. kr. í skatt. Þetta er með öllu óverjandi. 

Fyrir tíma nýfrjálshyggjunnar borgaði ekkert af þessu fólki skatta. Það er siðlaust að fjármálaráðherra gangi að allra fátækasta fólkinu, fólki sem á ekki fyrir mat út mánuðinn, og taki af því fé til að reka ríkissjóð. Ríkissjóður sem er byggður á slíku óréttlæti er siðlaus í grunninn.

Sósíalistar hafna því alfarið að fátækt sé skattlögð með þessum hætti. Setja ber í lög að óheimilt sé að innheimta tekjuskatt eða útsvar hjá fólki sem er með lægri tekjur en sem nemur eðlilegum framfærslukostnaði. Breyta þarf skattkerfinu með því að lækka lægsta skattþrepið og hækka persónuafslátt en hækka skattprósentuna í efri þrepum á móti svo skattalækkun til fólks undir fátæktarmörkum lækki ekki skattbyrðina upp eftir öllum skattstiganum.

 

Skattar á miðlungs og lægri tekjur lækkaðir

Tekjuskattur á allan almenning var hækkaður stórkostlega á nýfrjálshyggjuárunum. Það sést til dæmis á því að í fjárlögum fyrir árið 1991 var gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga yrði um 12,8 milljarðar króna eða 54,6 milljarðar króna á núvirði. Í fjárlögum fyrir árið 2021 er hins vegar gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skili 273,9 milljörðum króna í ríkissjóð.

Laun hafa auðvitað hækkað á leiðinni og landsmönnum fjölgað, en ekki svona mikið. Árið 1991 var gert ráð fyrir því að 12,6% af tekjum ríkissjóðs kæmu frá tekjuskatti einstaklinga. Í dag er þetta hlutfall 20,4% þrátt fyrir að fjármagnstekjur hafi verið teknar frá öðrum tekjum. Á þessum mælikvarða hefur skattheimtan hækkað um 105 milljarða króna. Tekjuskattur einstaklinga var 3,2% af landsframleiðslu 1991 en verður í ár um 6,0%. Það er sama hvaða mælikvarði er notaður, skattheimta af almenningi í gegnum tekjuskatt einstaklinga hefur svo gott sem tvöfaldast á nýfrjálshyggjuárunum, árunum sem Sjálfstæðisflokksfólk segist hafa lækkað skatta.

Ef við færum sjónarhornið að einstaklingunum þá voru skattleysismörk árið 1991 242 þús. kr. á núvirði en þau eru í dag rúmlega 206 þús. kr. Á þessum þrjátíu árum hafa laun hins vegar hækkað umtalsvert umfram verðlag. Sé miðað við að ef skattleysismörkin hefðu fylgt launaþróun væru þau rúmlega 390 þús. kr. í dag en eru sem fyrr segir tæplega 206 þús. kr. í dag. Munurinn er sláandi.

Í dag eru lægstu laun 426 þús. kr. á mánuði. Af þeim borgar fólk tæpar 64 þús. kr. í skatt eða um 15%. Árið 1991 var enginn skattur greiddur af lægstu launum, 0%. Lágtekjufólkið hefur misst 767 þús. kr. á ári í skattinn umfram það sem það borgaði fyrir nýfrjálshyggju.

Í dag eru miðgildi heildarlauna um 835 þús. kr. á mánuði. Af þeim greiðir fólk um 211 þús. kr. í skatt eða 25,2%. Ef við færum þessi laun aftur til 1991 með launavísitölunni og leggjum á þau skatt samkvæmt þágildandi skattalögum þá væri skatthlutfallið 19,9%. Miðlungsfólkið hefur misst 531 þús. kr. á ári í skattinn umfram það sem þau borguðu fyrir nýfrjálshyggju.

Tilboð sósíalista er að vinda ofan af skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna og lækka skattbyrði tekjuskatts á miðlungs og lægri tekna um 700 þús. kr. á ári. Þetta er ekki byltingarkenndari hugmynd en svo, að hún myndi aðeins færa okkur til þess réttlætis sem ríkti fyrir þrjátíu árum og hafði ríkt þá áratugum saman. 

 

Barnabætur hækkaðar

Eitt af einkennum nýfrjálshyggjuáranna er niðurbrot barnabóta. Og það helst í hendur við veikari efnahagslega stöðu ungs fólks, sem er aftur afleiðing af braskvæðingu alls húsnæðiskerfsins og veikari stöðu launafólks á vinnumarkaði. Þetta hefur grafið undan lífskjörum ungs fólks sem margt hvert er á jaðri húsnæðismarkaðar þar sem húsnæðiskostnaður er hár og á jaðri vinnumarkaðar þar sem laun eru lág og atvinna ótrygg. Ungt fólk á minni eignir en skuldar samt gjarnan mikið, til dæmis námslán. Og unga fólkið hefur þyngri framfærslubyrði vegna barna.

Í þessu ljósi mætti ætla að barnabætur hefðu verið auknar ríflega á nýfrjálshyggjutímanum. En því var alls ekki að heilsa. Þvert á móti voru barnabætur skornar rækilega niður.

Samkvæmt fjárlögum fyrir 2024 á að verja rétt tæpum 16 milljörðum króna í barnabætur í ár. Það eru um 188 þús. kr. á barn. Árið 1991, áður en nýfrjálshyggjan byrjaði að hola skattkerfið að innan, voru barnabætur rúmir 20,4 milljarðar á núvirði eða tæplega 283 þús. kr. á hvert barn, en þá var sjálfræðisaldurinn 16 ár en ekki 18. 

En það er eðlilegra að miða þessar stærðir við veltu hagkerfisins en verðlagsbreytingar. Barnabæturnar voru 1,2% af landsframleiðslu árið 1991 en eru í ár aðeins rúmlega 0,35%. Til að hækka barnabætur svo þær verði sama hlutfall af landsframleiðslu í ár og 1991 þyrfti að greiða börnum 54,6 milljarða króna í ár. Barnabætur hafa því í reynd lækkað um 38,6 milljarða króna á þessu þrjátíu ára tímabili, meðal annars til að fjármagna skattalækkanir fjármagns- og fyrirtækjaeigenda.

Til samanburðar myndi það kosta um 66 milljarða króna að veita öllum börnum á landinu persónuafslátt sem væri útgreiðanlegur ef foreldrarnir nýttu hann ekki. Þangað eigum við að stefna í fáum öruggum skrefum svo öll börn fái barnabætur upp á tæpar 65 þús. kr. á mánuði, sömu upphæð og fullorðnir fá í persónuafslátt. Að hluta til yrði hækkunin fjármögnuð með brattari skattstiga og hátekjuþrepum, svo foreldrar með tekjur í þriðja skattþrepi væru jafnsett á eftir en allar barnafjölskyldur með góðar miðlungstekjur og þar undir væru mun betur settar.

 

Húsnæðisbætur hækkaðar

Húsnæðisstuðningur lækkaði einnig á nýfrjálshyggjuárunum, en ekki eins mikið og barnabætur. Vaxtabætur voru 0,63 prósent af landsframleiðslu 1991 en húsnæðisstuðningur er nú 0,2 prósent af landsframleiðslu. Munurinn jafngildir því að ríkissjóður ætti að greiða út 28,7 milljarða króna í húsnæðisstuðning, 19 milljörðum krónum meira en raunin er.

Munurinn er hins vegar sá að síðustu ár hefur geisað grimmari húsnæðiskreppa en sést hefur frá stríðslokum. Hækkun húsnæðiskostnaðar hefur gengið frá heimilisbókhaldi tug þúsunda heimila með miðlungs og lægri tekjur. Þeim, sem klemmd eru milli lágra tekna og hárrar húsaleigu, hefur verið þrýst niður í djúpa fátækt eða taumlausa vinnuþrælkun. Fjölmargir eru í tveimur, jafnvel þremur vinnum til að eiga fyrir húsaleigu og mat út mánuðinn fyrir sig og börnin sín. Það ríkir neyðarástand á mörgum heimilum. Og því verður að mæta með neyðaraðgerðum.

Auðvitað ber ríkinu að leysa húsnæðiskreppuna. Annars vegar með því að byggja 30 þúsund félagslegar íbúðir á tíu árum, eins og Sósíalistar hafa lagt til, og hins vegar með aðgerðum til að hemja leigumarkaðinn, eins og sósíalistar munu leggja til í tilboði sínu til leigjenda. En þar til þessar aðgerðir slá á húsnæðisekluna og stjórnleysið á leigumarkaði ber ríkissjóði að bæta þeim skaðann sem verða fyrir barðinu á hinum óhefta húsnæðismarkaði.

Enginn ætti að þurfa að borga meira en fjórðung af tekjum sínum í húsnæðiskostnað. Það merkir að láglaunafólk með 426 þús. kr. á mánuði og tæpar 345 þús. kr. útborgaðar miðað við núgildandi skattareglur ætti ekki að greiða meira en rúmlega 86 þús. kr. í húsaleigu. Ef ástandið á leigumarkaði er slíkt, vegna aðgerðarleysis yfirvalda, að fólk með þessar tekjur þurfi að leigja litla íbúð fyrir 350 þús. kr., eins og algengt er í dag, þá þarf ríkissjóður að veita þessu fólki 264 þús. kr. í húsnæðisstyrk. Hámarksstyrkur í dag upp á tæplega 51 þús. kr. kemst ekki nærri því að leysa vanda þessa fólks.

Svona háir húsnæðisstyrkir sem renna frá ríkinu í gegnum leigjendur til leigusala eru hálfgerðir blóðpeningar. Þeir eru eins og lausnargjald greitt bröskurum til að frelsa leigjendur frá hungurmörkum. Það væri auðvitað heillavænlegra að ríkið stæði fyrir byggingu húsnæðis til að létta á húsnæðiskreppunni og frelsa fólk og setti á leiguþak til að vernda leigjendur fyrir okurleigu. En þar til það hefur verið gert verður að styðja leigjendur upp úr fátækt. Það er ekki sök leigjenda að húsnæðismarkaðurinn er eins og hann er; leigjendur eru fólkið sem verður fyrir markaðnum, ber kostnaðinn af braskvæðingu hans án þess að bera neina ábyrgð á ástandinu.

Sósíalistar munu sækja kostnaðinn af hruni húsnæðismarkaðarins til þeirra sem bera ábyrgðina, fólksins sem hefur braskvætt allt húsnæðiskerfið, og færa féð til leigjenda sem hafa þurft að þola afleiðingarnar af gjörðum braskaranna.

 

Gjaldtöku hætt

Gjaldtaka fyrir opinbera þjónustu er eitt af tækjum nýfrjálshyggjunnar til að færa völd og auð til hinna ríku. Gjaldtakan hefur þann tilgang að markaðsvæða þjónustu sem áður var utan markaðar, venja fólk við að greiða fyrir menntun og heilsugæslu eins og hverja aðra þjónustu.

Gjaldtakan hefur líka þann tilgang að gera stærri hluta íbúanna fráhverfan sköttum. Hin allra ríkustu telja sig tapa á því að borga skatta, þau borga meira inn í ríkissjóð en þau fá til baka. Á eftirstríðsárunum átti þetta við innan við 1% landsmanna. En með tekjutengingum og gjaldtöku hefur stærri hópur reiknað sig niður á sömu niðurstöðu, að það borgi meira til ríkisins en það fær til baka. Oftast er þetta misreiknað, þar sem fólk freistast til að gleyma því að það getur misst heilsuna vegna sjúkdóma, slysa eða aldurs og vanmetur stuðning samfélagsins sem oft er ill greinanlegur í einföldu reikningsdæmi. En nýfrjálshyggjan hefur náð árangri, fleira fólk metur það svo í dag að hagur þess batni meira við lækkun skatta en aukna opinbera þjónustu.

Gjaldtakan er þannig fyrst og fremst pólitísk, liður í áróðursstríði, og hefur engan samfélagslegan tilgang. Heilsugæsla sem innheimtir komugjöld verður ekki betur rekin fyrir það. Og opinber þjónusta, fyrst og fremst læknisþjónusta og menntun, er ekki þess eðlis að klókt sé að stýra eftirspurninni eftir henni með verðlagningu. Það er sáralítil hætta á að fólk ofnoti þessa þjónustu, miklu meiri hætta á að fólk vannoti hana. 

Og það er einmitt niðurstaða nýfrjálshyggjuáranna. Hin efnaminni neita sér um heilbrigðisþjónustu og menntun vegna gjaldtökunnar. Kerfin sem við byggðum upp á síðustu öld einmitt til að auka jöfnuð milli fólks ýta undir ójöfnuðinn í dag.

Ríkisvaldið og sameiginlegir sjóðir okkar eru sameign okkar. Með opinberri þjónustu virkar þetta sem samtrygging fyrir íbúana og fyrir samfélagið í heild. Það er betra fyrir alla ef við greiðum fyrir læknishjálpina meðan við erum fullfrísk á vinnumarkaði. Það er algjörlega galin hugmynd að rukka fólk þegar það er orðið veikt og á í nægum vanda með líf sitt vegna veikinda og afleiðinga þess, meðal annars tekjufall vegna minni vinnu.

Sama á við um menntun og aðra opinbera þjónustu. Það er eðlilegt að við greiðum fyrir menntun þegar við höfum notið hennar, eftir að við komum út á vinnumarkaðinn, fremur en þegar við sitjum tekjulítil í skóla.

Forsendur öflugs samfélags er gjaldfrjáls opinber þjónusta og innviðir. Það bætir lífskjör alls almennings, mest þeirra sem hafa minnstar tekjur og virkar þannig sem jöfnunartæki. Og jöfnuður er mikilvægasta markmiðið ef við viljum byggja upp traust, samkennd og kærleika innan samfélagsins. 

En gjaldfrjálsir innviðir eru líka mikilvægir fyrir atvinnulífið. Þeir ýta undir samkeppni með því að lækka stofnkostnað fyrirtækja, þar sem öll fyrirtæki hafa jafnt aðgengi að innviðum. Gjaldfrjáls opinber þjónusta útvegar fyrirtækjum menntaðra og heilsubetra starfsfólk og gætir barnanna meðan foreldrarnir eru við vinnu. Það hefur verið reynsla allra landa í okkar heimshluta að kröftug uppbygging gjaldfrjálsra opinberra innviða og þjónustu sé forsenda aukinnar velmegunar. Niðurbrot þessara innviða á tímabili nýfrjálshyggjunnar er ógn við samfélagið.

Sósíalistar hafna því alfarið öllum hugmyndum um markaðs- og einkavæðingu innviða og grunnkerfa samfélagsins og eru andsnúnir allri gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu. Þess í stað eigum við að hefja stórfellda uppbyggingu opinberra innviða til að mæta áskorunum framtíðar til að efla hér atvinnulíf og almenna velsæld. Það verður aðeins gert með samfélagsleg markmið að leiðarljósi.

Fyrsta skrefið á þessari leið væri að gera gjaldfrjálsa notkun tekjulægstu hópanna á heilbrigðisþjónustu, menntun og öðrum grunnkerfum opinberrar þjónustu; barna, námsfólks, öryrkja, eftirlaunafólks og fólks á framfærslu sveitarfélaganna. Og taka síðan næstu skref með það að markmiði að hætta alfarið gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu.

 

Tillögur sósíalista

 

Tillögur sósíalista til kjósenda vegna Alþingiskosninganna 2024 um skattalækkun til almennings felst í mikilli lækkun tekjuskatts á miðlungstekjur og þar undir, stöðva skattlagningu á fátækt, hækka umtalsvert persónuafslátt, barnabætur og húsnæðisbætur og vinda ofan af gjaldtöku nýfrjálshyggjuáranna fyrir opinbera þjónustu og innviði.

Forsendur þess að hægt sé að byggja upp réttlátt samfélag á Íslandi er að skattbyrðinni verði létt af almenningi og hún færð þangað sem hún á heima. Jafn aðkallandi verkefni er að byggja upp að nýju stuðningskerfin innan skattkerfisins, barna- og húsnæðisbætur. Slík kerfi eru forsenda aukins jöfnuðar og þess að allir íbúar landsins fái að blómstra.

En skattatilfærslan frá hinum auðugu yfir á almenning var ekki sú eina á nýfrjálshyggjuárunum. Á sama tíma var skattaumhverfi fyrirtækja breytt svo það þjónaði best auðugustu fjármagnseigendunum og allra stærstu fyrirtækjunum en miklu síður einyrkjum, smáfyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum. Skattkerfinu var í reynd beitt til að vernda stórfyrirtækin fyrir samkeppni frá þeim smærri og til að draga úr nýliðun í öllum atvinnugreinum. Afleiðingin varð fjármálavæðing atvinnulífsins sem dró afl úr framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum. Um þetta fjallar sjötti kaflinn í tilboði sósíalista til kjósenda um skattastefnu kærleikshagkerfisins, um hvernig lækka má skatta á smáfyrirtæki og efla atvinnulífið að neðan.

 

VI. HLUTI — SKATTALÆKKUN TIL SMÆRRI FYRIRTÆKJA

Skattlagningu fyrirtækja og fjármagns á nýfrjálshyggjutímanum var breytt þannig að hún þjónaði fyrst og fremst auðugustu fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum. Tekjuskattar fyrirtækja voru lækkaðir svo eigendur gátu greitt sér meiri arð, sem aftur var skattlagður minna með lækkun fjármagnstekjuskatts. Með skattaumhverfi eignarhaldsfélaga gátu eigendurnir síðan frestað skattgreiðslum von úr viti og á endanum komist hjá þeim. Á sama tíma var skattlagning á launagreiðslur hækkuð, en launakostnaður er alla jafnan hærra hlutfall útgjalda hjá smærri fyrirtækjum en stærri.

Í smæstu fyrirtækjunum sækjast eigendur fyrst og fremst eftir öruggu starfi og því að þurfa ekki að vinna hjá öðrum, vera lausir við að lifa undir verkstjórn annarra. Markmið eigenda smáfyrirtækja er fyrst og fremst að geta greitt sér sæmileg laun og hafa trygga atvinnu. Skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna unnu því gegn hagsmunum eigenda smærri fyrirtækja, þeirra sem unnu innan eigin fyrirtækja. Eigendur hlutabréfa í stærri fyrirtækjum sem unnu ekki venjulega vinnu heldur létu auðinn vinna fyrir sig og arðrændu þá sem unnu vinnuna, þeir voru verðlaunaðir með skattalækkunum.

Það skekkti síðan stöðuna enn frekar smáfyrirtækjum í óhag að stórfyrirtæki og eignarhaldsfélög gátu komist hjá skattgreiðslum með ýmsum hætti, klækjum sem endurskoðendur og lögfræðingar þessara fyrirtækja skipulögðu. Við þetta skekktist samkeppnisstaða smærri fyrirtækja, þau greiddu hlutfallslega hærri skatta og stóðu því verr að vígi í samkeppni en stórfyrirtækin sem höfðu bolmagn til að finna leiðir til undanskota frá skatti.

Ofan á þetta bætist síðan að allt reglugerðaumhverfi atvinnulífsins var aðlagað að þörfum og kröfum stærri fyrirtækja sem áttu auðvelt með að standa undir miklum kröfum frá hinu opinbera. Þungt reglugerða- og eftirlitskerfi hins opinbera þjónaði stærri fyrirtækjunum sem vörn gegn samkeppni frá smærri fyrirtækjum, sem höfðu síður bolmagn til að mæta kröfum hins opinbera.

Hagsmunasamtök fjármagns- og fyrirtækjaeigenda eru fyrst og fremst hagsmunagæsla fyrir auðugustu fjármagnseigendurna og allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna. Atkvæðamagn í Samtökum atvinnulífsins og undirfélögum þess, Viðskiptaráði og öðrum slíkum áróðursmaskínum, ræðst af stærð fyrirtækja og veltu. Það eru því allra fjársterkustu aðilarnir sem mynda meirihluta í þessum félögum og ráða alfarið ferðinni. Þessar maskínur eru þannig ekki lýðræðislegur vettvangur fyrirtækjaeigenda heldur eru þær tæki hinna stærstu og sterkustu til að aðlaga rekstrarumhverfið að sínum þörfum.

Þessi hagsmunasamtök hafa á liðnum áratugum haft mótandi áhrif á skattaumhverfi fyrirtækja og alla þá umgjörð sem ríkisvaldið markar atvinnulífinu. Þessi umgjörð er eins og stórfyrirtækin og eigendur þeirra vilja hafa hana. Og umgjörðin er þannig smíðuð að hún er erfið fyrir smá og meðalstór fyrirtæki, veikir þau svo að þau ógni ekki stærri fyrirtækjunum og séu auðveld bráð hinna stærri ef þau girnast rekstur þeirra eða markað.

Af þessum sökum hefur þróun atvinnulífsins á nýfrjálshyggjuárunum einkennst af gríðarlegri samþjöppun þar sem stærri fyrirtæki hafa ýmist gleypt hin smærri eða lagt þau í ójafnri samkeppni. Fákeppni stórfyrirtækja einkennir nú nánast alla geira atvinnulífsins, nýliðun er lítil og smærri fyrirtæki og meðalstór standa veikt. Það er stóralvarlegt mál, því nýsköpun atvinnulífsins og fjölgun starfa er lang mest meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Stærri fyrirtæki fækka störfum, kaupa upp smærri fyrirtæki og sameina reksturinn inn í það sem fyrir var; fyrst og fremst með það að markmiði að fækka störfum og draga með því úr launakostnaði, sem á að auka hagnað og þar með arðgreiðslur til hluthafa.

Samþjöppun í atvinnulífinu á nýfrjálshyggjuárunum er mein sem ríkisvaldið á að vinna gegn. Atvinnulíf sem byggir á fjölbreyttum fyrirtækjum og ólíkum stendur betur af sér áföll, ýtir undir nýsköpun og þjónar betur launafólki, viðskiptavinum og almenningi. Skattastefnan á því að ýta undir smárekstur og skattleggja fyrirtæki eftir stærð, ýta undir ráðningu starfsfólks og stofnun smárra fyrirtækja og samvinnufyrirtækja og stoppa upp í göt sem stórfyrirtæki hafa notað til lækkunar skattgreiðslna.

Þrepaskiptur tekjuskattur og aðstöðugjöld

Stærð fyrirtækja á markaði er aðstaða sem rétt er að skattleggja sérstaklega. Í geirum þar sem eru tvö til fjögur fyrirtæki í fákeppni er ávinningur þeirra af þessari aðstöðu augljós, í krafti stærðar sinnar drottna fyrirtækin yfir viðkomandi markaði og blóðmjólka hann. Markaðsstaða er þannig eins og ígildi eignar eða hlunninda sem eðlilegt er að skattleggja.

Í kaflanum um aðstöðugjöld fyrirtækja til sveitarfélaga var lagt til að þau gjöld væru þrepaskipt þannig að smæstu fyrirtækin borguðu ekkert, meðalstór fyrirtæki eitthvað en þau allra stærstu mest. Sama kerfi má viðhafa varðandi tekjuskatt fyrirtækja, bæði til að gæta réttlætis og til að vinna gegn drottnun þeirra fyrirtækja sem ná að brjóta undir sig markaðinn og ná yfirburðarstöðu í samkeppni við önnur fyrirtæki.

Lækkun tryggingargjalds á fyrsta starfsfólk

Tryggingargjald er launaskattur sem í reynd er skattur á launafólk. Gjaldið leggst þyngra á smá fyrirtæki og meðalstór þar sem launakostnaður er almennt hlutfallslega stærri hluti útgjalda þeirra en hjá stórfyrirtækjum. Til að ýta undir sköpun starfa er skynsamlegt að lækka mjög tryggingargjald hjá fyrstu starfsmönnum hvers fyrirtækis, en flest ný störf verða til hjá litlum fyrirtækjum. Slík ráðstöfun væri í reynd nýsköpunarframlag til smárra fyrirtækja og hvati til einstaklinga um að stofna sín eigin fyrirtæki.

Ýtt undir stofnun samvinnufyrirtækja

Það styrkir atvinnulífið og eykur seiglu þess að fjölga samvinnufyrirtækjum í eigu starfsfólks eða almennings. Samvinnufyrirtæki með samfélagsleg markmið styrkja samfélög og tryggja atvinnu. Og þar sem þau eru óhagnaðardrifin skilja þau meiri verðmæti eftir í samfélaginu en hagnaðardrifin einkafyrirtæki.

Samvinnufyrirtæki í eigu starfsfólks auka lýðræði í atvinnulífinu og eru farvegur fyrir nýsköpun í stjórnun fyrirtækja, réttindum starfsfólks og starfsumhverfi. Og þar sem slík fyrirtæki eru í eðli sínu skyld smáfyrirtækjum, þar sem eigendurnir sjálfir vinna verkin, er rétt að samvinnufyrirtækin njóti skattaumhverfis smáfyrirtækja.

Öflugra skatteftirlit

Byggja þarf upp öfluga skattrannsóknardeild sem ræður við eftirlit með stórfyrirtækjum og auðugustu fjármagnseigendunum. Virkt eftirlit er forsenda þess að skattkerfið sé réttlátt og réttlætið er forsenda þess að almenningur líti svo á að skattkerfið þjóni samfélaginu.

En réttlætið þarf líka að ná til smærri aðila. Vinna verður gegn misnotkun á einkahlutafélögum þar sem einkaneysla er skráð á rekstur. Slíkt veldur mismunun milli borgara og ójafnrar stöðu gagnvart skattlagningu. Enginn skattalegur munur á að vera á milli þeirra sem stunda rekstur á eigin kennitölu og þeirra sem eru með reksturinn í einkahlutafélagi. Fjöldi einkahlutafélaga á Íslandi er óeðlilegur, ein af afleiðingum breytinga á skattkerfinu á nýfrjálshyggjuárunum þar sem skattbyrði var létt af fyrirtækjum og hún flutt yfir á einstaklinga.

Tiltekt í skattkerfinu og aukið skatteftirlit á að verða átak sem þjóðin fylgist með og tekur þátt í. Markmið eiga að vera skýr og árangursmæling opinber. Almenningur á að geta fylgst með því hvernig skattgreiðslur hans lækka eftir því sem betri árangur næst í að girða fyrir skattsvik og skattaundanskot.

Einfaldari reglugerðir og eftirlit

Allar eftirlitsstofnanir ríkisvaldsins ber að aðlaga að smærri fyrirtækjum þannig að smæstu fyrirtækin geti staðið undir eftirlitinu. Kostnaður við eftirlitið þarf að sækja í almenna skattheimtu af fyrirtækjum en ekki í gjaldtöku af hverju fyrirtæki né með því að varpa kostnaði yfir á þau í formi vinnu. Stór fyrirtæki ráða auðveldlega við þennan kostnað en smærri fyrirtæki síður. Eftirlitið má því ekki verða sem aðgangshindrun smárra fyrirtækja á markað og samkeppnisvörn fyrir stærri fyrirtæki. Og álagið af eftirlitinu fyrir smærri fyrirtækin má ekki verða réttlæting til að falla frá eftirliti með stórfyrirtækjunum.

Á sama hátt og fyrirtæki dreifa með þessum hætti kostnaðinum af eftirlitinu má byggja upp sjóði fyrirtækja sem dreifa álagi af ýmsum réttindum launafólks, svo sem fæðingarorlofi, veikindalaunum og öðru slíku, kostnaði sem getur haft tímabundið mikil áhrif á smæstu vinnustaði.

Tillögur sósíalista

Tillögur sósíalista til kjósenda vegna Alþingiskosninganna 2024 um skattalækkun til smáfyrirtækja felst í því að stærð fyrirtækja verði skattlögð, að ýtt verði undir stofnun smáfyrirtækja og samvinnufyrirtækja, að rekstrarumhverfi smárra fyrirtækja verði einfaldað, að stoppað verði í göt í skattkerfinu sem stærri fyrirtæki hafa nýtt sér og að tryggingargjald á fyrstu ráðningar verði lækkað umtalsvert.

Markmið þessa tilboðs er að eyða samkeppnisforskoti stórfyrirtækja og vernda smærri fyrirtæki fyrir ásælni þeirra. Það er mikilvægt að atvinnulífið hafi seiglu og hana má byggja upp með styrkingu smárra fyrirtækja og fjölgun samvinnufyrirtækja.

 

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram