Alþjóðasamband verkalýðshreyfinga styður hinsegin baráttu! 

Baráttuhópur sósíalískra feminista Pistill

Í dag er alþjóðlegur dagur gegn hinsegin fordómum (e. International Day Against Homophobia, Biphobia and Transphobia). Í kjölfar frétta af auknum ofsóknum og ofbeldi gagnvart trans fólki á Íslandi undanfarin ár, niðurstöðu hæstaréttar Bretlands um að ákvæði jafnréttislaga um konur, eigi ekki við um trans konur, og lagabreytingum Trumps, sem skerða mjög alvarlega þau mannréttindi sem hálfrar aldar barátta trans fólks í Bandaríkjunum hefur skilað, er mikilvægt að við, öll sem eitt, stöndum með trans fólki sérstaklega. 

Alþjóðasamband verkalýðshreyfinga sem Alþýðusamband Íslands á aðild að og telur yfir 190 milljónir verkafólks um allan heim, hefur lýst yfir samstöðu með mannréttindabaráttu hinsegin og trans fólks í ár, sem önnur ár. Auðvitað. Íslensk lög og alþjóðalög verja líka mannréttindi trans fólks.  Hinsegin fólk og trans fólk á ekki að þurfa að réttlæta tilvist sína vegna fáfræði, fordóma og vanþekkingar annarra. Afturhaldssamar lagasetningar eða popúlískar stefnur stjórnmálaflokka sem ýta undir ofbeldi og ofsóknir gegn trans fólki breyta því ekki að trans fólk er til og á rétt á að lifi í friði eins við öll.

Tölfræðin er aðeins á reiki, enda getur verið lífshættulegt að koma út sem trans, en þegar tölurnar eru teknar saman má ætla að um 1-2 % heimsbyggðarinnar sé trans. Mannfjöldi er í dag um 8 milljarðar sem þýðir að um 80 milljónir eru trans. Meðlimir Alþjóðasambands verkalýðshreyfingarinnar eru 190 milljónir sem þýðir að tæplega 2 milljónir þeirra eru trans. Íbúar á Íslandi eru í dag um 390.000 svo samkvæmt því eru tæplega 4000 trans. 1-2% af fólki í heiminum er líka rauðhært fólk, 1-2% eru með grænan augnlit, 1-2% eru með sitthvorn augnlitinn og 1-2% eru jafnfær á báðar hendur. Væri eðlilegt að þetta fólk þyrfti stöðugt að vera að réttlæta tilveru sína?

Kynjatvíhyggja varð allsráðandi á heimsvísu í kjölfar vestrænnar heimsvaldastefnu á 16. öld og efldist með uppgangi Þjóðernishyggju og Upplýsingunni (“Age of Enlightenment”) fram á 19. öld  en engu að síður eiga fjölmenn ríki og menningarheimar ríka sögu um fleiri kynverundir en bara tvær. Alþjóðlegar dómsmála- og mannréttindastofnanir, þ.m.t. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindadómstóll Evrópu og Evrópudómstóllinn eru dæmi um stofnanir sem verja rétt fólks til kynræns sjálfræðis.  Lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði standa fyrir sjálfsögð mannréttindi fólks en kynsegin skráning fólks hér á landi sem erlendis fer vaxandi eins og annarsstaðar í heiminum og sjá má á evrópska regnbogakortinu

Þrátt fyrir þetta er líf trans fólks gegnsýrt hótunum, ofsóknum og ofbeldi sem afhjúpar þá félagslegu og menningarlegu kúgun sem ríkir í samfélögum sem þó segjast kenna sig við frelsi og lýðræði. Trans fólk er hluti af samfélagi fólks um allan heim og það er til marks um vaxandi fasisma að gengið sé á rétt þeirra eins og dæmin sýna. Ef við sýnum ekki samstöðu og mótmælum ofbeldinu getum við verið viss um að við erum að samþykkja að einhver okkar verða næst í röðinni. Fasisminn mun ekki stoppa þarna. 

Sósíalískir feministar, baráttuhópur innan Sósíalistaflokksins, vill nota daginn til að lýsa yfir stuðningi við baráttu hinsegin fólks og sérstaklega baráttu trans fólks. Berjumst saman gegn óréttlætinu! Barátta fyrir félagslegu og efnahagslegu réttlæti er líka barátta fyrir sjálfsögðum mannréttindum!

F.h. Baráttuhóps Sósíalískra feminista
Sara Stef. Hildar

Halldóra Hafsteins
María Pétursdóttir

Laufey Líndal
Margrét Pétursdóttir
Þórdís Bjarnleifsdóttir 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram