Fátækt: Ég var bara óheppin
Sögur
05.04.2017
Stefanía María Arnardóttir er 28 ára gömul kona í Reykjavík sem stundar nám við HÍ og HA. Þrátt fyrir heilsubrest, sem má rekja til fátæktar og álags í bernsku, ætlar Stefanía ekki að láta það hafa áhrif á námsárangur sinn.
Þegar Stefanía María Arnardóttir lýsti leiðinni heim til sín, þá var það einhvern veginn svona: „Þú kemur að tveimur húsum, annað er glæný blokk og hitt er ómerkilegt hús, ég er í ómerkilega húsinu.“
Í bernsku var Stefanía vanrækt af foreldrum sínum sem gátu einfaldlega ekki betur. Stefanía bjó við fjárhagslegt óöryggi og veikindi móður sinnar og þróaði með sér tengslarof, félagsfælni og kvíða en slæmt heilsufar sitt í dag rekur hún til bágra aðstæðna í bernsku. „Ég var bara óheppin,“ segir hún og bætir við; „Foreldrar mínir eru gott fólk, en ég vissi alltaf að mamma væri eitthvað öðruvísi og að ég væri öðruvísi. Hvort það voru veikindin eða fátæktin gat ég ekki greint.“ Stefanía vill meina að þær mæðgur séu báðar á einhverfurófi, eins og fleiri í fjölskyldunni. Ég veit ekki hvort að ég hafi gert mér vitsmunalega grein fyrir því, en ég vissi bara að ég var eitthvað verri. Ekki það að ég sé slæm manneskja, ég vissi bara að ég væri minna virði.“
Stefanía og bræður hennar tveir, en hún er á milli þeirra í aldri, bjuggu hjá móður sinni í úthverfi borgarinnar. Pabbi þeirra var mikið fjarverandi og skildu foreldrar hennar að lokum þegar hún nálgaðist unglingsárin. Fjölskyldan var félagslega einangruð og var á löngu tímabili ofsótt af veikum manni úr föðurfjölskyldunni sem hafði sín áhrif á heimilislífið. Móðir Stefaníu var þunglynd og örugglega með ómeðhöndlaða áfallastreituröskun og fékk enga aðstoð, nema síður væri. Lífið var yfirþyrmandi og heimilishaldið og barnauppeldi óyfirstíganlegt verkefni. Allt sem hét siðir eða fastir þættir í heimilishaldinu, eins og matmálstímar eða að halda upp á afmæli, gufaði einfaldlega upp. Milli systkinanna og móðurinnar voru lítil samskipti, þau deildu aðeins húsnæði en annars sá Stefanía sjálf um þarfir sínar frá unga aldri. „Ég veit ekki einu sinni hvar allir voru, ég man bara að ég var þarna en hvað aðrir voru að gera, ég veit það ekki. Ég gerði allt sjálf, eldaði og bakaði, lærði heima, þvoði af mér og kom mér í skólann, vissulega varð ég þrautseig af þessu. Þegar maður er krakki þá reynir maður að láta hlutina ganga. Mamma var svo þreytt og fjarlæg. Hana vantaði stuðning og hjálp sem hún ekki fékk sem orsakaði að ég gat ekki tengst henni eins og hún og við hefðum viljað.“
Ég skal borga, mamma!
Án þess að gera sér nákvæmlega grein fyrir því hvað væri að þá hafði Stefanía áhyggjur af fjárhagsstöðu móður sinnar. Það fyrsta sem barn hugsar er hvað hef ég gert sem orsakar þetta ástand? Til dæmis þegar hún var átta og níu ára þá velti hún því fyrir sér hvort ástandið myndi batna ef hún borðaði minna eða kannski ef hún hætti í tómstundum. „Ég ákvað sjálf að hætta í frjálsum, ég sagði „mamma, ég er hætt í frjálsum!“ Og mamma svaraði bara; „ókei.“ Þetta var þegar ég var níu ára og strax þá vildi ég ekki að mamma væri að borga neitt fyrir mig. Ég fékk lánað trompet í skólanum í heilan mánuð og langaði ógeðslega til þess að fara í trompettíma í framhaldinu og læra að spila á hljóðfærið. Ég man að þá sagði ég við mömmu að ég skyldi borga hljóðfæranámið sjálf. Mamma fattaði ekki neitt og spurði ekkert frekar út í þetta og auðvitað gat ég ekki borgað, ég átti enga peninga níu ára gömul. Ég vissi bara að mamma var í vondri fjárhagsstöðu og ég vildi gera mitt besta, bjarga einhverju eins og krakkar gera og fullvissa hana um að þetta væri í lagi.“
Ritzkex í kvöldmat
Stefanía veltir fyrir sér hvort magavandræðin og meltingartruflanirnar sem hún er að kljást við í dag séu afleiðingar af fæðunni eða fæðuleysi sínu í bernsku. Stefanía er með handónýtan maga og þarf að vera á glúteinlausu sérfæði til þess að halda kerfinu gangandi. „Ég var alltaf með magaverk sem krakki. Svo ágerðist þetta með aldrinum og það er ekki skrýtið að maður sé alltaf þreyttur og lúinn ef maður nærist ekki almennilega. En það er alveg vitað að mataróöryggi hefur áhrif á börn. Það veldur streitu og fyrir mér er það óþarfa þjáning í heimi ofgnóttar. Það vantaði oft mat á mínu bernskuheimili og maður bara reddaði sér og fór inn í skáp og fann ritzkex, það var kannski dálítið sorglegur kvöldmatur. Og ef ég fann eitthvað til þess að elda þá eldaði ég mat handa mér.“ Móðurafi Stefaníu kom stundum við hjá þeim og færði fjölskyldunni frosið súpukjöt sem varð ólseigt hjá Stefaníu en hún kunni ekki að elda kjöt, aðeins tólf ára gömul. En Stefaníu þótti vænt um hugulsemi afans.
Notuð föt
„Ég fékk gefins föt frá öðrum þegar eitthvað var orðið of lítið, frá frændum og frænkum eða einhverjum í hverfinu. Var það ekki svoleiðis hjá öllum, voru ekki allir í notuðum fötum á þessum tíma?“ spyr Stefanía. „Ég man að ég keypti mér föt fyrir fermingarpeningana og ég notaði þau föt lengi.“ Án þess að hafa velt því sérstaklega fyrir sér hélt Stefanía að fyrirkomulagið væri svona hjá flestum, að allir gengju í notuðum fötum af nágrönnum eða ættingjum sínum og ekkert væri athugavert við það. Bróðir Stefaníu fékk gefins notað bleikt hjól, fór á því um hverfið og var strítt fyrir, en hann kippti sér ekki upp við það, hann bara hjólaði af öllum sínum kröftum.
Fínna heima hjá öðrum
Stefanía einangraðist félagslega og henni fannst heimilið sitt vera ljótt og fráhrindandi. Hún reyndi að þrífa heimilið sem henni fannst alltaf svo skítugt og frábrugðið öðrum heimilum sem hún þekkti til þar sem fólk safnaði í kringum sig munum og mublum. Þegar unglingsárin tóku við fór henni að líða verr, bæði félagslega og líkamlega. „Fermingin, oj bara, ég fermdist bara af því að ég vildi ekki verða fyrir óþægindum. Samfélagsfræðikennarinn spurði hverjir ætluðu að fermast og allir réttu upp hönd, nema ég. Og þau spurðu hvort ég ætlaði ekki að fermast. Og ég ákvað þá að gera það til þess að verða ekki fyrir einelti. Það var reyndar engin myndataka. Sumir leigja sal, það var ekki hjá mér, kjóllinn var á „budget“. Mér var reyndar alveg sama, ég var ekkert pirruð út í mömmu. Við vorum í þessu saman. Mér fannst kannski svolítið leiðinlegt að fara ekki í myndatöku. Það eiga allir myndir úr fermingunni sinni.“
Reyrði um sig til að lina bakverki
Upp úr 13 ára aldri byrjaði Stefanía að finna fyrir miklum verkjum og svefntruflunum. Hún fór til læknis þegar hún var 15 ára en það var ekkert gert. Henni var illt í bakinu og heima fann hún gamalt teygjubindi sem hún reyrði um líkamann sem hjálpaði til og linaði þjáningarnar.
„Ég varð ekki vör við að neinn væri að spyrja neitt. En þegar ég var í níunda eða tíunda bekk þá fréttist að ég var að mæta mjög illa í skólann og ég var send til skólasálfræðings sem var þar í einhverju afleysingarstarfi. Það eina sem ég fékk út úr því viðtali var að mamma mín væri að brjóta lög ef ég mætti ekki í skólann og að hún gæti átt yfir höfði sér fangelsisvist. Mér fannst þetta virkilega ljótt og sýna mikla vanþekkingu, það eru allskonar erfiðleikar sem geta komið upp. Ég var ekki með neina unglingaveiki og það var ekki eins og ég nennti ekki í skólann. Mér finnst þetta ennþá mjög skrýtið að það hafi enginn almennilega boðist til að hjálpa okkur, en hinsvegar fær maður á sig einhvern dóm og var hótað. Annaðhvort mætir þú eða það verður hringt í barnaverndaryfirvöld! Það breytti engu að hóta svona, það breytti ekki mínum aðstæðum, það breytti ekki álaginu, mér leið ekki betur, mér leið bara verr.“
Fegin að hafa ekki lent í barnaverndarnefndarkerfinu
„Mamma sendi mig til sálfræðings sem spurði mig hvort ég vildi vera hjá mömmu minni eða fara í fóstur. Ég svaraði því að ég vildi vera hjá mömmu minni af því að ég vildi ekki að hún væri ein í þessu. Og þegar ég lít til baka þá er ég rosalega fegin að ég hafi ekki verið tekin af mömmu minni.“ Stefanía segir að börn sem fóru í fóstur hafi oft orðið fórnarlömb ofbeldis. „Núna kemur hvert málið á fætur öðru fram í dagsljósið þar sem brotið var á börnum sem voru í umsjá ríkisins.“ Stefanía telur það betri kost fyrir barn að halda áfram að búa við vondar aðstæður sem það hefur þó lært að höndla heldur en að flytja barn inn á heimili sem er því óviðkomandi, þar sem það gæti átt á hættu að verða fyrir ofbeldi. „Ég er eiginlega fegin að hafa ekki komist inn á BUGL, ég var of þæg fyrir úrræði á þessum tíma. Ég var ekki í neyslu, ég var ekki að hanga með neinum skrýtnum vinum, ég skreið meðfram veggjum og var þess vegna ekki talin þurfa eitthvað úrræði hjá BUGL eða einhverju svoleiðis dóti. Ég er fegin að það var ekki verið að skoða heilsu mína og prófa allskonar lyf á mér á meðan ég var unglingur eins og gerðist síðar, mig hryllir við þeirri tilhugsun. En það er svo auðvelt að taka fram fyrir hendurnar á börnum sem eru ekki orðin lögráða.“
Flutti að heiman 16 ára
„Ég flutti að heiman þegar ég var 16 ára, af því að ég vildi ekki vera byrði á móður minni lengur. Maður er svo barnalegur á þessum árum. En auðvitað er fjárhagsstaðan glötuð. 16 ára krakkar eiga ekki að leika fullorðinshluti og þetta var tímabil sem ég vil ekki tjá mig um, þar sem vondir hlutir hentu mig. Ég reyndi þó að halda áfram í skóla með vinnu en átti erfitt með að mæta. Ég fékk einhverja appelsínugula miða fyrir slaka mætingu, það var auðvitað engin skilningur fyrir aðstæðum mínum.“
Í skólanum er gert ráð fyrir því að allir séu með stuðning og komi úr einhverri millistéttarfjölskyldu og stundi námið fyrir pabba og mömmu. Ég vildi mennta mig fyrir mig en gat það ekki fyrr en ég varð 18 ára þegar mér bauðst styrkur frá Reykjavíkurborg. Þá loksins gat ég stundað námið af kappi og kláraði mín 4 ár í menntaskóla. Kennararnir voru svo ánægðir með mig og hrósuðu mér á göngunum og sjálfstraust mitt jókst. Umsjónarkennarinn minn sagðist aldrei hafa séð annan eins viðsnúning á nemanda. Ég fór úr því að mæta illa og falla í öllum fögum og í það að fá áttur og níur. Auðvitað var alltaf þessi nemandi inn í mér. Ég þurfti bara að fá tækifæri og ég lærði að gefast aldrei upp, halda áfram!“
Félagsþjónustan aðstoðar ekki námsmenn
Fyrir tveimur og hálfu ári var Stefanía komin langleiðina með fjarnám sitt í sálfræði við Háskólann á Akureyri og vann ýmis þjónustustörf með náminu. En heilsa hennar versnaði og hún var alltaf þreytt. Á endanum svaf hún í fötunum með málningarfarðann síðan kvöldið áður en það var gert til þess að spara sér nokkrar mínútur og geta sofið aðeins lengur á morgnana. Einhver henni nákominn tók hana tali sagði henni að þetta gæti ekki gengið svona, hún yrði að finna bót á sínum málum. Á meðan að hún gekk á milli lækna og beið eftir úrskurði um heilsufar sitt gekk hún líka á milli stofnana, VR, Sjúkratrygginga og Féló og fékk pínulítið hér og pínulítið þar upp í þessar 160 þúsund krónur sem Félagsþjónustan reiknar skjólstæðingum sínum í framfærslu. „Í reglugerðinni hjá Félagsþjónustunni stendur skýrt að stofnunin aðstoði ekki fólk sem leggi stund á lánshæft nám. Það skiptir engu máli hvaða sögu þú hefur að baki eða hvort þú sért í einum áfanga eins og ég var. Það er svo greinilegt að kerfið er andsnúið því að fátækt fólk skuli almennt sækja sér menntun.“
Stefanía er með vefjagigt og er óvinnufær, 28 ára gömul. Talið er að sterk tengsl séu á milli langvarandi andlegs álags og vefjagigtar. Stefanía er líka slæm af mígreni og þjáist af meltingartruflunum og stríðir við fæðuóþol ýmislegt. Þegar hún fór á örorkubætur fékk hún loksins tóm til að stunda námið áhyggjulaus. „Ég stunda auðvitað ekkert svona „social economics“ líf og ég finn hvað ég er öðruvísi þegar ég er í hópi með fólki. Ég get ekki talað um utanlandsferðir eða dót sem fólk er að kaupa sér.“ Stefanía á erfitt með að sjá barneignir og fjölskyldulíf fyrir sér. Allavega ekki í bráð og hún horfir með aðdáun á námsmenn sem eiga börn og eru kannski líka að kaupa sér húsnæði. „Ég skil ekki hvernig sumt fólk gerir þetta, á fjölskyldu og er í skóla og kaupir sér húsnæði og lítur bara út fyrir að vera ánægt. En það hlýtur samt að vera að fólk fái einhvern stuðning. Allavega fyrir útborgun,“ hugsar hún upphátt.
Alda Lóa Leifsdóttir