Je suis enn einn vinstriflokkurinn
Pistill
14.04.2017
Síðustu daga hef ég hjálpað til við að stofna Sósíalistaflokk Íslands. Í sumar mun hann berjast fyrir efldu einstaklingsframtaki, auknu frelsi og skemmtilegra lífi en áður hefur sést á Íslandi. Til að þetta geti gerst þarf að passa að fólk á landinu okkar svelti ekki, hafi stað að búa á, sé ekki skilið útundan, og að við höfum öll ráðrúm til að tjá okkur og tjónka við samfélagið. Þetta gerist ekki sisona, og allrasíst ef beðið er eftir Sjálfstæðisflokknum að gefa leyfi til þess. Þessvegna þarf mest einstaklingsframtak fyrst um sinn, til að efla ráð okkar og dáð. Vopnumst pennum og lyklaborðum, slettum skyri og skopi, föðmum stéttsvikara sem til okkar sækja og gubbum á valdið sem aftrar okkur!
Fagnaðarerindi sósíalismans hefur náð góðum undirtektum í liðnum vikum, og vinstrimenn úr hörðustu átt hafa sagt það eiga heima hjá sér — ekki í nýjum flokki. Það er tóm vitleysa. Í fyrsta lagi stefnir sósíalisminn á að almenningur stýri hagkerfinu, ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Sniðugir Karlar í langþreyttum nefndum. Í öðru lagi leynast draugar í gömlum húsum, sérstaklega ef þau voru smíðuð fyrir kreppu og jafnvel á tímum Endiloka Sögunnar. Sagan er byrjuð aftur, og hana þarf að skrifa af nýrri hreyfingu í nýtt afl.
Það þarf ekki mikla hugsnilld til að sjá hvað vakir fyrir gamla vinstrinu. Formaður Samfylkingarinnar biður fólk að ganga í Samfylkinguna. Vinstri-græn biðja fólk að ganga í vinstri-græn. Slagorð gamalla flokka er jú: Ef þið kjósið okkur, þá fáum við fleiri atkvæði! En hvers virði er kosningasigur sem ekki ber vilja okkar til verks? Hvers virði er lýðræði sem deyr í kjörkassanum?
Undirstaða stjórnmálaafls er baklandið sem gefur því úrlausnarefni, eldmóð og styrk. Flokkur sem svífur einsog loftbelgur yfir málefnum alþýðunnar er einskis nýtur. Stjórnmálin þurfa að vera af henni kominn, í þágu hennar. Þetta gerist aðeins með skipulagðri hreyfingu sem fangar hugðarefnin okkar nauðug viljug og breytir þeim í skynsamleg stefnumál.
Austurvallarmótmæli eru góð og gild, en ef ekki tekst að þýða öskrin í málefni eru þau skammlíf og lítilsnýt. Þýðingin krefst samtakamáttar og vinnu, og sú vinna verður undirstaða Sósíalistaflokks Íslands. Flokkurinn mun spretta af hreyfingunni einsog jurt af jarðveg. Ef maður slítur flokkinn lausan visnar hann og deyr. Það er til einskis að tala um “splundrun vinstrimanna” í flokka og fylkingar, þegar alþýðan sem flokkarnir eiga að standa fyrir er ekki sameinuð. Efling þeirrar samstöðu er okkar fyrsta og fremsta verk.
Mig langar ekki á þing, því mig langar ekki að sálin mín deyji fyrir aldur fram. Gatan er mitt heimili, og þaðan vil ég efla kjark minn og annarra fátæklinga og vegleysingja. Grindverk ófrelsisins sem HB Grandar, Ólar ól, Sigurjónar Einarssynir og Bjarnar Ben af öllum sortum hafa smíðað mér þarf að rífa niður. Í hafið með þá og athafnafrelsi ríka mannsins! Upp, upp og áfram með einstaklingsfrelsi alþýðunnar!