Baráttan fyrir sæmandi kjörum kvenna er sósíalísk barátta
Pistill
26.04.2017
Rúmlega helmingur þeirra sem starfa við umönnun, kennslu og uppeldi barna á leikskólum í sveitarfélögum um land allt eru ófaglærðar konur. Þær fá greidd laun langt undir því sem þarf til að komast af. Láglaunastefna er órjúfanlegur þáttur af kapítalískri samfélagsgerð og það að konur fái greidd smánarlaun fyrir dæmigerð kvennastörf er líka óaðskiljanlegur þáttur af samfélagsgerðinni. Svoleiðis hefur það verið síðan konur fóru að taka fullan þátt á vinnumarkaði. Þá færðust störf sem áður voru ólaunuð og unnin innan veggja heimilisins í hendur starfsfólks þar til gerðra stofnana. Á þeim stofnunum unnu fyrst og fremst konur.
Í dag er krafan um fulla dagvistun ungra barna krafa sem allir taka undir, kapítalistar jafnt sem femínistar. Kapítalistarnir taka undir kröfuna vegna þess að þeir þurfa jafn mikið á kvenkyns vinnuaflinu að halda og karlskyns vinnuaflinu. Femínistarnir taka undir kröfuna vegna þess að án fullrar dagvistunar fyrir ung börn er ljóst hverjar verða sendar aftur inn á heimilin til að gæta barna: konurnar. Þannig spilar kapítalískt samfélag saman við gildi feðraveldisins, þar sem gert er ráð fyrir að konur séu hæfari til barnauppeldis sökum eðlislægs kynjamunar.
Rekstur leikskólanna er ómögulegur án okkar, kvenna í umönnunarstéttum, og störf okkar eru undirstaða bæði efnahagskerfisins og velferðarkerfisins. En í stað þess að okkur séu greidd sanngjörn laun er okkur í raun refsað fyrir að dirfast að út á vinnumarkaðinn. Okkur er refsað með launum sem bera okkur skilaboð kapítalísks feðraveldis: Þið eruð einskis virði, sóttar á ruslahauga sögunnar þangað sem þið verðið svo aftur sendar. Þið ómenntaðar konur úr lágstétt ættuð að hafa vit á að þegja og taka því sem ykkur er rétt.
Við, konur í verkalýðsstétt, upplifum á eigin skinni, á hverjum degi og allan ársins hring, óbærilegt óréttlæti kerfisins sem við neyðumst til að lifa og starfa innan. Þetta er reynsla sem er sársaukafull, en hún er líka verðmæt og á erindi. Við eigum að stíga fram og lýsa ófeimnar reynslu okkar. Látum ekki draga úr okkur kjark með því að láta gera lítið úr frásögnum okkar eða frásagnarmáta. Við erum sérfræðingarnir um eigin tilveru. Við þurfum ekki viðurkenningu þeirra sem hafa hreiðrað um sig hærra í valdapíramída stéttakerfisins.
Aðeins með því að gerast virkir þátttakendur í markvissri stéttabaráttu, í okkar eigin þágu, í þágu frelsis okkar og sjálfstæðis eigum við nokkra von um að bæta kjör okkar. Við þurfum að horfast í augu við að þrátt fyrir langan og erfiðan vinnudag og þrátt fyrir að vera margar í aukavinnu til að komast af verðum við sjálfar að leiða baráttuna, sameinaðar og herskáar. Ekki síst vegna þess að tilhugsunin um að næsta kynslóð ómenntaðra kvenna lendi í sama kerfislæga óréttlætinu er óbærileg!
Barátta okkar hefst innan í maga skepnunnnar, innan í grimmu og algjörlega óforskömmuðu efnahagskerfi kapítalismans, þar sem við erum ekki aðeins kúgaðar vegna stéttastöðu okkar heldur einnig vegna kyns. Við vitum að við munum aldrei öðlast fullt jafnrétti innan þessa kerfis. Við vitum að þau sem fara með völdin vita varla af tilvist okkar. Við vitum að verkalýðsfélögin okkar vita varla af okkur heldur; í þeim sést hvorki né heyrist nema þegar að því kemur að hvetja okkur til að kjósa um óásættanlega kjarasamninga.
Fyrir ekki svo löngu síðan voru draumar kvenréttindakvenna sósíalískir draumar; draumar um efnahagslegt og félagslegt réttlæti. Draumar um lýðræðislega stýringu á vinnustöðum, um friðsamt samfélag þar sem öll börn hljóta sömu tækifæri og eru velkomin. Samfélag þar sem allt fólk hefur jafnt aðgengi að ókeypis heilsugæslu, þar sem fólk starfar saman að því að byggja samfélag fyrir alla. Samfélag þar sem allt fólk er metið jafn mikilvægt, af þeirri ósköp einföldu ástæðu að það er manneskjur.
Við, ómenntaðar láglaunakonur, höfum ekki unnið neina sigra í langan tíma. Við höfum verið jaðarsettar pólitískt svo lengi að við erum orðnar vanar því að tapa. Í því felst meðal annars vald kerfisins yfir okkur: að fá okkur til að skynja stöðu okkar sem óbreytanlega sögulega staðreynd.
En sögulega staðreyndin er sú að þegar við stöndum saman vinnum við ótrúlega sigra. Staðreyndin er líka að um alla veröld eru nú konur af verkalýðsstétt að rísa upp, tilbúnar að heyja sósíalíska baráttu fyrir réttlátu samfélagi. Þær krefjast samfélags þar sem öll búa við mannsæmandi kjör og þar sem konur, þrátt fyrir að hafa ekki haft tækifæri til að njóta menntunar eða frama, geta látið drauma um líf án arðráns og kúgunar rætast.
Sólveig Anna Jónsdóttir