Í dag erum við öll sósíalistar!
Pistill
01.05.2017
Eftir mestu uppsveiflu í sögu íslenska hagkerfisins situr helmingur þjóðarinnar uppi með fáránlega lág laun og býr við verra félagslegt öryggi heldur en sést hefur í marga áratugi. Heilsukerfinu er haldið í svelti — að virðist til þess að gera hrægömmum einkavæðingarinnar auðveldara um vik að eignast það. Fátækir ellilífeyris- og örorkuþegar eru bókstaflega sveltir á meðan riddarar vinavæðingarinnar og klíkukapítalismans soga til sín ótrúleg auðævi. Endar nást ekki saman hjá mörgum sem starfa fullan vinnudag á meðan laun toppanna hafa hlutfalslega margfaldast á síðustu áratugum.
Spillingin er víða og kvótagreifarnir eru sérstakur kapítuli. Hvar annars staðar í heiminum fær stór atvinnugrein allt að því ókeypis hráefni sem aðrir eiga? Hugsið ykkur hve auðvelt það væri fyrir t.d. verksmiðju sem framleiðir matrétti að græða á tá og fingri ef allt hráefnið væri nær frítt. Andvirði gjafakvótans kemur best í ljós þegar greifarnir selja hann (og rústa oft um leið heilu byggðarlögunum) og frjáls uppboð á veiðiheimildum færu langleiðina að bjarga t.d. heilbrigðiskerfinu.
Kjarabarátta síðustu áratuga hefur mistekist hrapalega hjá öllum nema ríkasta broti þjóðarinnar. Það er hægt að jarða verkalýðsforystuna nærri því eins og hún leggur sig — þetta eru mest jeppastrákar í boði lífeyrissjóða — um leið dysja alla íslenska stjórnmálaflokka sem kenna sig við vinstristefnu. Þetta fólk hefur í áratugi bablað heil ósköp, en árangurinn hefur verið minni en enginn. Verkalýðsbarátta venjulegs fólks er að vissu leyti komin á sama stað og hún var árið 1938. Misskiptingin í þjóðfélaginu er að ná svipuðum hlutföllum og þá tíðkaðist, þótt fátækt hafi vissulega verið meiri 1938.
Íslensk stjórnmál eru komin á endastöð. Grímulaus hagsmunagæsla veður uppi og ráðamenn hika ekki við að afhenda vinum og vandamönnum ómæld verðmæti. Falin hagsmunagæsla grasserar líka innan svokallaðra vinstri flokka og það voru líklega hagsmunir kvótaeigenda sem komu í veg fyrir að þessir flokkar gætu myndað ríkisstjórn í síðustu umferð.
Stéttaskiptingin er óþolandi fyrir land sem kennir sig við norræna velferð. Það er nóg komið af þessu helvítis fokking fokk og þjóðin verður að setja hnefann í borðið. Strax.
Gerumst öll sósíalistar í dag!
Jóhannes Björn