Athafnaskáldin eru svöng
Pistill
01.05.2017
Hjarnið hefur lagst yfir borgina og norðanbálið feykir smáfuglum. Bylurinn lemur gluggann og hún hefur það ekki í sér að opna augun, þó hún sé löngu vöknuð. Hreyfingin kallar fram ógleði, en hún veit að hún þarf að fara fram úr. Verð að fara á nýja einkasjúkrahúsið, því seinasti sérfræðilæknirinn hætti á Landspítalanum í gær. Búin að berjast í þessum veikindum í nokkur ár og eins og staðan hefur verið seinustu misserin á Lansanum, þá er hún ekki verr sett með silfurtryggingakort frá TR á einkasjúkrahúsinu, þó hún ætti auðvitað meiri möguleika ef hún gæti bætt við þeim peningum sem gull- eða platínukort gæfi. En það er tómt mál að tala um það, til þess hefði hún þurft að kaupa slíka tryggingu fyrir veikindin. Það var hvort sem er útilokað á hennar launum. Núna er íbúðin veðsett umfram markaðsverð vegna tekjumissis í veikindunum. Bankinn var bara ekki til í að veita lán á meðan veðrými leyfði, því engar voru tekjurnar, en einstæð dóttir hennar hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð auk veðsins. Bankinn birtir ekki myndir af veiku fólki í auglýsingum.
Hún vafði treflinum og hneppti hann í hálsmál kápunnar og barst út á strætóstöð, fann sér skjól fyrir aftan skýlið og horfði á ránfugl elta bráð sína.
Athafnaskáld er merkilegur fugl, hann krunkar ekki hátt og flýgur ekki. Fuglinn tók sér fyrst bólfestu hér í seinna stríði eða um svipað leyti og lýðveldið var stofnað og býr í bjargi sem smáfuglar hafa búið honum. Smáfuglarnir eru á þönum dag og nótt til að fóðra athafnaskáldin og taka vaktir, en mega ekki taka sér ból í bjarginu. Athafnaskáld er ólíkur öðrum fuglategundum að því leyti að hann krefst stöðugrar fæðu, langt umfram þörf og verður í raun aldrei mettur. Athafnaskáld getur flogið meðan hann er ungi, en er ekki fleygur síðar á ævinni, af fyrrgreindum sökum. Athafnaskáld tístir fallega, en lágt.
Upp úr lýðveldisstofnun þróaðist fljótt fjórflokkakerfi á landinu. Tveir flokkar hafa nánast stöðugt verið við völd og oftast saman. Þeir eru kallaðir helmingaskiptaflokkar. Því þeir skipta með sér þýfinu af þjóðinni til helminga. Þýfið getur verið ríkisfyrirtæki fyrir slikk, stöðuveitingar sem aftur tryggja svo helmingaskiptin eða aðstöðubrask. Aðstöðubraskið gefur oftast best. Þeir einir með rétt flokkskýrteini fengu að eiga viðskipti við herinn, þeir einir fengu að flytja út fisk áratugum saman, Finnur og mælarnir. Fyrirtækin sem þeir hafa skáldað í eigu sína á ljóðrænan hátt eru, svo nokkur séu nefnd, SR mjöl, Áburðarverksmiðjan, Búnaðarbanki, Kögun, VÍS, Íslenskir aðalverktakar, Landsbankinn, fasteignir varnarliðsins sem bróðir fjármálaráðherra flokksins keypti fyrir c.a. 2,5 milljónir – hverja tveggja herbergja íbúð, fjölda íbúða. Hin sísvöngu hafa forgang að auðlindum landsins og greiða fyrir það klink. Athafnaskáld flokksins eru svöng, hvað er því betra en neyð eða þörf fólksins til að græða á? Núna er það einkasjúkrahús.
Er það svo alvarlegt? Ég meina, er ekki bara besta mál eins og forsætis segir, að ef menn geta framkvæmt heilsuaðgerðir á hagkvæman hátt að þeir geti hámarkað hagnað sinn í leiðinni og tekið sér arð? Ha? Landlæknir segir reyndar að við séum slík örþjóð að við getum ekki rekið heilbrigðisþjónustu í tveimur kerfum samhliða þegar kemur að sjúkrahúsum. Það séu of fáir sérfræðilæknar á of mörgum sviðum og þegar Lsp hættir að geta veitt heildstæða þjónustu, þá molnar hann endanlega og hann er að molna nú þegar. Heilbrigðisráðherra segir: Eeeeee öööö, þegar það næst í hann. Hann er ekki reiðubúinn að ræða stefnumörkun á helbrigðissviði umfram það. Hann talaði ekki bara í sérhljóðum fyrir kosningar, heldur ræddi hann um eflingu heilbrigðiskerfisins. Er verið að skipta þýfinu í fleiri hluta en til helminga, Óttarr Proppé?
Hún kom út frá lækninum og í afgreiðsluna og greiddi fjörtíu og tvöþúsund fyrir aukaverk og velti fyrir sér til hvers hún hefði komið hingað. Þetta voru seinustu aurarnir, ekkert eftir, ekki fyrir mat, ekki húsnæði eða lyfjum. Athafnaskáld flokksins eru svöng og þau þurfa að borða. Athafnaskáld tístir fallega, en lágt.
Jón Einarsson