Stofnfundur Sósíalistaflokksins markar fyrstu skrefin
Frétt
01.05.2017
Á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands var kjörin Bráðabirgðastjórn til að undirbúa sósíalistaþing í haust. Bráðabirgðastjórn starfar eftir stofnsamþykktum Sósíalistaflokks Íslands sem innleiddar eru á stofnfundi og í anda Stefnu sem birt var á vef flokksins í apríl 2017.
Meginverkefni bráðabirgðastjórnar er að stækka Sósíalistaflokk Íslands, þróa innra starf og efla opinbera umræðu um stefnu hans. Í þessum tilgangi heldur bráðabirgðastjórn utan um félagaskrá, kemur á fót hópastarfi í kringum afmörkuð verkefni, stendur fyrir viðburðum og útgáfu, annast uppfærslu og umsjón rafrænna miðla Sósíalistaflokksins og tekur frumkvæði að öðru starfi eftir atvikum.
Bráðabirgðastjórn ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd Sósíalistaþings sem haldið verður á haustmánuðum 2017 og eigi síðar 1. nóvember 2017. Sósíalistaþing gegnir hlutverki landsfundar Sósíalistaflokks Íslands og verður hans æðsta yfirvald. Á Sósíalistaþingi afsalar bráðabirgðastjórn ábyrgð sinni til stjórnar.
Bráðabirgðastjórn tekur sér ekki leiðandi umboð til formlegrar stefnumótunar heldur skal setja á fót og styðja við hópa félagsmanna sem vinna að þróun ítarlegrar stefnu. Ítarleg stefna verður tekin verður til umræðu og borin upp til samþykktar á Sósíalistaþingi.
Bráðabirgðastjórn skiptir sjálf með sér verkum og skipar stöður formanns, varaformanns, talsmanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnenda eftir þörfum og atvikum, þó þannig að ætíð liggi fyrir hvaða stjórnarmenn annast fundarboð, rita fundargerðir og halda utan um fjármál.
Bráðabirgðastjórn heldur reglulega fundi og skulu þeir opnir félagsmönnum, enda auglýstir tímanlega. Bráðabirgðastjórn heldur utan um fundargerðir og skulu þær gerðar opinberar á heimasíðu eins fljótt og auðið er. Bráðabirgðastjórn hefur þó heimild til að takmarka aðgang að fundum sínum og halda trúnaði um fundargerð að öllu leyti eða að hluta ef ríkar ástæður koma til, svo sem persónuverndarsjónarmið.
Í bráðabirgðastjórn Sósíalistaflokks Íslands voru kjörin þau Ásta Dís Guðjónsdóttir, formaður Sjálfsbjargar á Höfuðborgarsvæðinu og samhæfingarstjóri fyrir Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, Benjamín Julian, stuðningsfulltrúi, Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður, Laufey Ólafsdóttir, varaformaður EAPN (European Anti-Poverty Network) á Íslandi, samhæfingarstjóri fyrir Pepp Ísland og stjórnarmaður í Félagi einstæðra foreldra, María Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og öryrki, Sanna Magdalena Mörtudóttir, meistaranemi í mannfræði við Háskóla Íslands, Sigurður H. Einarsson, vélvirki, Sólveig Anna Jónsdóttir, leikskólastarfsmaður og Viðar Þorsteinsson, stundakennari og stofnandi Róttæka sumarháskólans.