Níu nauðsynjar fyrir alþýðlega vinstrihreyfingu
Frétt
03.05.2017
Vefur Novara Media birtir áhugaverða samantekt eftir Jeremy Gilbert, breskan kennara og aktívista. Hann telur upp níu góð atriði til að hafa í huga ef vinstrið ætlar sér að ná til fólks, ná árangri, og njóta vinsælda.
1. Nýfrjálshyggjan var skipulögð 30 ára herferð gegn okkur öllum. Gilbert segir að við verðum að tala opinskátt um skaða nýfrjálshyggjunnar, hafna henni algerlega og leggja fram raunhæfar leiðið út úr þeim vandræðum sem hún hefur skapað. Gilbert skrifar með Thatcher og Blair í huga, en hér á Íslandi á þetta ekki síður við um Davíðstímann og löng eftirköst hans.
2. Við eigum aldrei að tipla á tánum í kringum þá staðreynd að við eigum óvin. Tiltekin hagsmunaöfl hafa staðið á bakvið nýfrjálshyggjuvæðinguna og halda áfram að græða á henni. Við getum kallað þennan óvin „kapítalismi,“ „gróði“ eða „gráðug stórfyrirtæki“ – og hér á landi: útgerðarauðvaldið, Engeyjarættin, fjármagnseigendur.
3. Gilbert minnir á að við erum ekki í baráttunni bara af því að við séum svo góð og bankamennirnir svo vondir. Okkur er ýtt út í þennan slag af því að lífsafkoma okkar stendur og fellur með því. Þetta er ekki spurning um að vera ósammála, þetta er spurning um hvort kerfið leyfir okkur að lifa af.
4. Að sama skapi þörfnumst við lýðræðisins ekki bara af hugsjón heldur af því að ekkert annað verndar okkur. Lýðræðið hefur alltaf verið þjakað af veikleikum, segir Gilbert, og í dag á tímum hreyfanlegs auðvalds stendur það enn hallari fæti. Vopn okkar gegn auðvaldinu er róttækt þátttökulýðræði sem fer framúr fulltrúalýðræðinu og veikleikum þess.
5. Höfnum skrípamynd fjölmiðla af hinum vinnandi stéttum og almenningi. Við erum ekki illa upplýsir rasistar sem láta blekkja sig til að kjósa niðurskurð og innflytjendaofsóknir vegna þröngsýni og nesjamennsku, líkt og halda mætti af lestri Daily Mail. Nei, segir Gilbert, við erum skynsöm og vitum hvar hagsmunir okkar liggja. Skrifum slagorðin okkar þannig og högum máli okkar þannig.
6. Notum hvert tækifæri til að vísa á bug þeirri hugmynd að það sé í eðli fólks að hugsa aðeins um sjálft sig og hvernig það geti klekkt á náunganum. Kraftur samstöðu og samlíðunar er raunverulegur, skrifar Gilbert.
7. Verum ekki feimin við að tengja við tíðarandann og róttæka menningarkima í honum. Lærum af þeim mistökum vinstrihreyfinga að vera menningarlega íhaldssamar!
8. Sumir segja að aðeins beinar aðgerðir nái árangri, aðrir segja að aðeins þátttaka í kosningum skili árangri. Nei, nei og aftur nei, segir Gilbert við þessum afarkostum, og minnir á hvernig jafn ólíkar aðgerðir og verkföll, mótmæli og kosningasigrar hafa í sameiningu skilað almenningi stórum sigrum. Fögnum því fjölbreytni í aðferðum og stillum ekki hlutum upp sem andstæðum að óþörfu.
9. Háskólar og fjölmiðlar eru ekki í góðri stöðu til að halda á lofti róttækum sjónarmiðum og þekkingarsköpun. Við getum ekki treyst á þá. Við þurfum okkar eigin vefmiðla og stjórnmálaskóla. Gilbert nefnir nokkur dæmi frá Bretlandi en kanski er hérlent dæmi Róttæki sumarháskólinn.
Lesa má pistil Gilberts í heild á vefsíðu Novara Media.