Enhedslisten og baráttan fyrir sósíalískum stjórnmálum í Danmörku
Frétt
17.07.2017
Þar sem ég bý í Kaupmannahöfn og kemst sjaldan til Íslands er afar takmarkað hversu virkan þátt ég get tekið í spennandi starfi Sósíalistaflokks Íslands. Hér í Danmörku er þó einnig mjög spennandi sósíalísk barátta í gangi sem ég tel að íslenskir sósíalistar ættu að fylgjast vel með. Til þess að skilja stöðuna á vinstri vængnum í Danmörku þarf fyrst að ræða stuttlega Sósíaldemókrata og þá sterku stöðu sem þau hafa tekið sér. Í Danmörku er hefð fyrir blokkapólitík þar sem blokkirnar skiptast í bláa og rauða. Á bláa vængnum er það Venstre (sem er ekki til vinstri heldur er hann hægri-nýfrjálshyggjuflokkur) sem leiðir blokkina. Í rauðu blokkinni eru Sósíaldemókratar langstærstir og fara með forystuna.
Nýfrjálshyggja í boði Sósíaldemókrata
Ríkisstjórn Sósíaldemókrata, Radikale Venstre og SF (Socialistisk Folkeparti) tók við völdum af Venstre og hægrinu í kosningunum 2011. Sú stjórn hélt hins vegar í öllum meginatriðum áfram nákvæmlega sömu nýfrjálshyggjustefnu. Sérstaklega niðurskurði velferðarkerfisins sem hægri stjórnin var þó komin langt á leið með. Þær aðgerðir sem vöktu hvað mest mótmæli og andspyrnu var t.d. fyrirhuguð skerðing námsstyrkja, niðurskurður á framlagi til Kaupmannahafnarháskóla, og sérstaklega salan á 18% hlut í Dong Energy – ríkisorkufyrirtæki Danmerkur – til Goldman Sachs. Þessi sala ríkisins á svo stórum hlut til hins alræmda fjárfestingarbanka fór ekki vel í flesta og leiddi til svo harðra mótmæla og deilna að SF dró sig út úr ríkisstjórnarsamstarfinu og formaður flokksins, Anette Vilhelmsen, sagði af sér.
Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi Sósíaldemókrata, náði þó að halda stjórn sinni saman til kosninganna 2015 en þar tapaði rauða blokkin og Thorning-Schmidt sagði af sér. Lars Løkke Rasmussen, leiðtogi Venstre, varð aftur forsætisráðherra, og Mette Frederiksen tók við formannsstóli Sósíaldemókrata.
Úr ösku nýfrjálshyggjunnar í eld hægripopúlismans
Eftir það hafa Sósíaldemókratar tekið snögga beygju í átt til öfgahægrisins. Það er þó ekki endilega þróun sem kom alfarið uppúr þurru. Í kosningunum 2015 döðruðu Sósíaldemókratar mjög áberandi við útlendingahatur og meðvirkni þeirra nær auðvitað enn lengra aftur. En Sósíaldemókratar undir Mette Frederiksen hafa hætt öllum látbragðsleik um jafnaðarmennsku og félagsleg gildi. Þau eru dyggir þjónar auðvaldsins og til þess að afla sér fylgis á annan hátt reka þau nú innflytjendastefnu og stefnu gagnvart flóttafólki sem gefur fasistaflokknum DF ekkert eftir, ásamt því að finna upp nýja óvini eins og mennta- og listafólk, sem þeir kenna um ófarir samfélagsins. Á þessu kjörtímabili hafa þau komið með hverja mannfjandsamlegu tillöguna á eftir annarri þar til núna nýlega að Mette Frederiksen og Thulesen Dahl, formaður DF, komu saman fram í fjölmiðlum og töluðu um að það sé sterkur grundvöllur fyrir samstarf milli flokkanna. Stærsti flokkur vinstri vængsins er þannig kominn í sæng með öfgahægriflokki sem boðar rasíska hugmyndafræði og hreina mannvonsku.
Forysta og andlit alvöru sósíalisma
Enhedslisten – eða hin rauð-grænu – er eini sanni sósíalistaflokkurinn á danska þinginu. Hann var stofnaður 1989 úr þremur öðrum flokkum sósíalista og kommúnista. Flokkurinn er sá vinstrisinnaðasti á danska þinginu og hefur hann skýra andkapítalíska stefnu. Helstu baráttumálin eru sósíalísk bylting og efnahagskerfi, breytingar á eignarétti og útganga úr Evrópusambandinu. Það ákvæði stefnuskrárinnar sem kallar beinlínis eftir byltingu hefur þó verið til endurskoðunar, en í byrjun var ákvæði um vopnaða byltingu – eitthvað sem hinir ýmsu meðlimir hafa verið missaga um og gert hefur verið mikið úr.
Enhedslisten er þó einnig í nánu samstarfi við önnur sósíalísk samtök og virkar þannig sem eins konar forysta og andlit fyrir róttæka vinstrið. Þar má helst nefna Sosialistisk UngdomsFront sem er sjálfstæð ungliðahreyfing sósíalista og er áberandi í mótmælaaðgerðum ýmis konar. Bæði fyrrverandi og núverandi formenn Enhedslisten, Johanne Schmidt-Nielsen og Pernille Skipper, ásamt fleiri þingmönnum flokksins, byrjuðu stjórnmálaferilinn þar. Einnig er Enhedslisten fulltrúi Danmarks Kommunistiske Parti (DKP) á þinginu ásamt því að samtök trotskýista Socialistisk Arbejderpolitik – sem er einnig fulltrúi Danmerkur í fjórða alþjóðasambandinu – runnu saman við hann (núverandi formaður Enhedslisten, Pernille Skipper, kemur þaðan).
Öflugar forystukonur
Flokkurinn var í áhrifastöðu á kjörtímabili Helle Thorning-Schmidts. Þrátt fyrir að sitja ekki við ríkisstjórnarborðið studdi hann stjórnina en gagnrýndi á sama tíma harðlega áframhaldandi nýfrjálshyggjuvæðingu. Einnig verður að hafa í huga að þrátt fyrir að DF hafi rekið hvað harðasta hræðsluáróðurinn gagnvart útlendingum, þá hafa svo gott sem allir helstu stjórnmálaflokkarnir verið meðsekir, hvort sem þeir hafa stutt harða stefnu gegn innflytjendum og hælisleitendum beint eða setið þögulir hjá. Enhedslisten hefur verið langmest áberandi í þessari baráttu sem mætti jafnvel kalla andfasíska. Þau hafa einnig alltaf verið á heimavelli í gagnrýni á kapítalisma, ójöfnuð og í vörn fyrir þá lægst settu. Tveir síðustu formenn, Johanne Schmidt-Nieslen og nú Pernille Skipper eru báðar mjög öflugir ræðumenn og hættulegir andstæðingar í rökræðum. Þetta allt hefur gert það að verkum að þau hafa verið að bæta statt og stöðugt á sig fylgi, frá 2,2% í kosningunum 2007 og fram til dagsins í dag þar sem þau eru að mælast í um 9,5% fylgi.
Innri gagnrýni og spurningin um stjórnarþátttöku
En nú þegar útlit er fyrir að rauða blokkin muni sigra næstu kosningar, hafa þónokkrar deilur sprottið upp innan flokksins. Þá mun Enhedslisten líklegast vera næst stærsti flokkurinn fyrir utan Sósíaldemókrata skv. núverandi skoðanakönnunum. En ef marka má ýmsa meðlimi Enhedslisten getur Mette Frederiksen ekki gengið að stuðningi flokksins vísum – eitthvað sem telst fáheyrt í vinstri stjórnmálum í Danmörku. Hvernig sem fer er óhætt að segja að næsta tímabil verður erfitt og það mun reyna á sósíalísk prinsipp flokksins sem aldrei fyrr.
Enhedslisten hefur einnig nýlega verið undir árás og kom það úr þeirra eigin röðum. Mikkel Bolt, fræðimaður og þekktur talsmaður róttæka vinstrisins skrifaði nýlega grein í Information þar sem hann sakar Enhedslisten um að hafa í raun svikið upprunalegu stefnuna um sósíalíska byltingu. Það metnaðarfyllsta sem flokkurinn stendur fyrir núna skv. honum er einungis smávægis lagfæringar á kapítalismanum – stefnur sem duga skammt í því ástandi sem við finnum okkur í dag. Segir Bolt að það eina í stöðunni er að leggja flokkinn niður svo hann sé ekki að flækjast fyrir raunverulegri sósíalískri baráttu. Þessi gagnrýni hefur vakið upp lífleg viðbrögð og deilur og standa þær umræður enn yfir þegar þetta er skrifað.
Jóhann Helgi Heiðdal