Þetta er bilun
Pistill
09.09.2017
Ef starfsfólk er ekki til staðar getur atvinnurekandi ekki rekið fyrirtæki sitt og þaðan af síður grætt peninga. Það er ekkert fyrirtæki án starfsmanna. Atvinnurekandinn þarf því nauðsynlega á starfsfólki að halda. Fyrirtækjaeigandi þarf að loka sjoppunni ef hann fær ekki starfsfólk. Þrátt fyrir þetta hefur atvinnurekandinn allan rétt. Þetta er eins öfugsnúið eins og mest má vera.
Auðvitað ætti staða starfsfólksins að vera miklu sterkari því atvinnurekandinn er svo háður því að starfsmenn mæti daglega til vinnu sinnar. En nei, það er sama hvert litið er rétturinn er allur atvinnurekandans. Atvinnurekandinn getur komið fram við starfsmanninn nánast eins og honum hentar, rekið hann þegar honum sýnist án haldgóðrar ástæðu, beitt hann ofbeldi á vinnustaðnum(t.d. einelti, andlegu ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi) þannig að starfsmaðurinn hrökklast frá störfum. Hann getur krafið starfsmanninn um síaukin afköst og sett hann í önnur störf en hann er ráðinn til.
Ofan á allt þetta allt hirðir fyrirtækjaeigandinn svo allan gróðann af starfseminni. Venjulegt launafólk fær bara launin og ekkert meira jafnvel þó fyrirtækið sýni blússandi hagnað. Allur arðurinn af vinnu starfsfólksins fer til fyrirtækjaeigandans. Þetta kerfi er auðvitað bilun og alveg ólíðandi.
Rökin standast ekki
Skoðum málið betur. Í fyrsta lagi eru allt of margir á svo lágum launum að þeir geta með engu móti lifað af þeim. Sumir þurfa að vinna myrkranna á milli til að komast af. Einstæðir foreldrar eru undir miklu álagi og þurfa margir að vinna á fleiri en einum stað til að sjá fyrir sér og börnunum. Nú er ekki lengur inn í myndinni að annar sambúðaraðili starfi utan heimilis. Báðir þurfa að vinna fyrir kaupi svo hægt sé að lifa og borga skuldir. Sumir eiga ekkert nema skuldir og hafa ekki efni á að borga húsaleigu því hún er orðin svo há.
Fullvinnandi fólk er á götunni og þarf að búa hjá ættingjum eða vinum. Auðvitað er til fólk sem hefur það fínt og fær góð laun. En það ætti að sjálfssögðu að gilda um alla. Ísland er ríkt land og allir geta haft það gott ef rétt væri gefið. Mörg fyrirtæki ganga mjög vel á Íslandi. Af hverju er það ekki sjálfsagt að starfsmaðurinn fái hlut af hagnaðinum sem hann átti þátt í að skapa? Svarið hjá fyrirtækjaeigendum er að þeir hafi lagt til allt fjármagnið til rekstursins, áhættan sé þeirra, og því eðlilegt að þeir fái allan gróðann. Þessi rök standast engan veginn þegar litið er til þess hvað gerist ef fyrirtækið fer á hausinn.
Við borgum
Til þess að stofna fyrirtæki þarf fjármagn og oftar en ekki fá menn lán til að hefja rekstur. Má vera að reksturinn gangi vel um tíma og að fyrirtækjaeigandinn borgi reglulega af lánunum. Og hirðir að sjálfsögðu gróðann sem myndast af rekstrinum. Segjum nú að það fari að halla undan fæti hjá fyrirtækjaeigandanum. Hugsanlega eyðir hann um efni fram, kann sér ekki hóf og allt fer úr böndunum. Hann hættir að borga af lánunum. Fyrirtækið verður gjaldþrota en oft sleppur eigandinn við persónulegt gjaldþrot. Þetta þýðir að líklega heldur hann fína húsinu (sem nú er kannski komið á nafn makans) flotta bílnum, sumarhúsinu, varasjóðnum og mögulega feitum reikningi á einhverri aflandseyjunni.
En hver er réttur starfsfólksins þegar þetta gerist? ENGINN annar en sá að missa vinnuna og fá engin laun fyrr en eftir dúk og disk þegar búið er að taka fyrirtækið til gjaldþrotaskipta.
Kannski er skuldahalinn hjá gjaldþrota fyrirtækinu mikill og ekkert fæst upp í kröfurnar. Áætlað er að margir tugir milljarða tapist ári vegna svona gjaldþrota. Hverjir eru það þá sem borga þessa tugi milljarða? Það erum við almenningur í landinu. Að langstærstum hluta er hér um tap sameiginlegra sjóða landsmanna að ræða. Þessa peninga hefði mátt nýta til að efla fjársvelt heilbrigðis- og menntakerfið, styrkja velferðarkerfið, bjóða félagslegar lausnir í húsnæðismálum, efla stuðning við nýsköpum og sprotastarfsemi eða lækka skatta á lágtekjufólk svo dæmi séu tekin.
Nei, við megum ekki fá réttlátan skerf af gróðanum meðan fyrirtækið gengur vel en við megum hins vegar borga skuldir fyrirtækjaeigandans þegar hann fer á hausinn. Hann getur hins vegar komist upp með að halda öllu sínu eins og áður segir. Og svo getur hann stofnað nýtt fyrirtæki á nýrri kennitölu.
Éta það sem úti frýs
Hvað verður svo um starfsfólkið eftir gjaldþrotið? Það er nánast þannig að það getur étið það sem úti frýs ef það fær ekki aðra vinnu fljótt. Kannski fær það atvinnuleysisbætur sem eru auðvitað svo lágar að það er ekki hægt að lifa af þeim. Og þá er ekki að spyrja að því hvernig er að standa við fyrri skuldbindingar á bótunum. Það er ekki hægt. Launamenn geta auðveldlega fest í fátæktargildru þegar hér er komið sögu. Ef um börn er að ræða þá bitnar þetta að sjálfsögðu á þeim. Kannski þarf fyrra tómstundastarf að víkja hjá börnunum, sumarferðalög og allur aukakostnaður. Það eru ekki til peningar til að fara með börnin til tannlæknis eða sinna almennum þörfum þeirra. Það er varla til peningur fyrir mat.
En fyrirtækjaeigandinn slapp líklega við persónulegt gjaldþrot eins og áður segir. Hann á sitt og lifir góðu lífi. Þetta sjáum við alls staðar ljóslifandi fyrir framan okkur. Skýrustu dæmin um þetta eru bankamennirnir sem gerðu þjóðarbúið gjaldþrota 2008. Við borguðum en þeir lifa góðu lífi bæði hér á landi eða í útlöndum. Sumir þeirra fengu dóm. Það breytir ekki því að flestir þeirra eru enn auðjöfrar og reka fyrirtæki hér á landi og annars staðar. Þeir eiga FULLT af peningum þrátt fyrir að hafa gert mjög margt saklaust fólk gjaldþrota, venjulegt ærlegt fólk sem má ekki vamm sitt vita, hefur ætíð unnið sína vinnu samviskusamlega og borgað sínar skuldir.
Ójafn leikur
Venjulegir launamenn hafa í núverandi þjóðskipulagi vonda stöðu. Þetta er ójafn og óréttlátur leikur. Það sér hver heilvita maður að þessi formúla gengur ekki upp. Þessi formúla hefur auk þess alið af sér svo mikinn ójöfnuð í heiminum að þess eru enginn dæmi. Venjulegt launafólk veður fátækara og fátækara og fyrirtækjaeigendur, stórkapítalistar og auðjöfrar verða ríkari og ríkari. En við vitum hvernig þetta fer. Þetta kerfi verður að víkja og nýtt tekur við þar sem launamenn njóta þeirrar virðingar sem þeir eiga skilið, fá góð og mannsæmandi laun, njóta sterkra réttinda á vinnumarkaði, lifa í öflugu velferðarkerfi þar sem öllum er tryggt mannssæmandi líf og síðast en ekki síst fá réttlátan hlut af arðinum. Það er nefnilega þannig þegar upp er staðið að atvinnurekandinn þarf miklu meira á starsfólkinu að halda heldur en starfsfólkið atvinnurekandanum.
Katrín Baldursdóttir