Starfsgetumat: Umbætur eða atlaga?
Frétt
15.09.2017
Sósíalistaflokkur Íslands býður til opins umræðufundar um starfsgetumat. Fundurinn fer fram miðvikudaginn 20. september klukkan 16:30 í húsi Sjálfsbjargar, Hátúni 12.
Í kjölfar langs aðdraganda hefur velferðarráðuneytið undir forystu Þorsteins Víglundssonar hefur sett sér það yfirlýsta markmið að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats. Í júní á þessu ári var skipaður sérstakur starfshópur um innleiðingu þess. Öryrkjar, hagsmunasamtök þeirra og aðrir hafa sett stórt spurningamerki við starfsgetumat og bent á möguleg skaðleg áhrif þess. Má þar benda á skrif Steindórs J. Erlingssonar og hina rómuðu kvikmynd I, Daniel Blake frá 2016 sem sýnir á átakanlegan hátt hve illa starfsgetumat getur farið með einstaklinga sem búa við skerta getu.
Ljóst er að innleiðing starfsgetumats býður margvíslegum hættum heim og að sú stóra breyting sem því fylgir getur haft margar ófyrirséðar afleiðingar. Óvíst er hvort nægileg vitund um réttindi og þarfir öryrkja sé til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Einnig vaknar sú spurning hvort innleiðing starfsgetumats verði notað sem átylla til að skera niður opinberan stuðning við öryrkja, og jafnvel velta honum yfir á bótakerfi sveitarfélaga. Þá er áhyggjuefni hvort gefinn sé nægilegur gaumur að röddum öryrkja sjálfra í umræðu um mál sem varðar lífsskilyrði þeirra og grundvallarréttindi.
Á fundinum halda þrír einstaklingar sem þekkja vel til málsins framsögur:
- Ásta Dís Guðjónsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp Ísland, formaður Sjálfsbjargar á Höfuðborgarsvæðinu og meðlimur í bráðabirgðastjórn Sósíalistaflokks Íslands
- Eiríkur Smith, fötlunarfræðingur og réttindagæslumaður fatlaðs fólks
- Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi hjá Öryrkjabandalagi Íslands
Að framsögum loknum verður boðið upp á fyrirspurnir úr sal. Í lok fundar verður borin upp ályktun til samþykktar. Fundarstjóri verður Katrín Baldursdóttir, atvinnulífsfræðingur og félagi í Sósíalistaflokki Íslands.
Tími: Miðvikudagur 20. september, kl. 16:30 (dagskrá verður lokið eigi síðar en 18:00)
Staður: Félagsheimili Sjálfsbjargar, Hátúni 12, 105 Reykjavík (gengið inn sunnan-/ofanmegin á húsinu) Aðgangur ókeypis og öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Sjá viðburðinn á Facebook
Mynd: stilla úr mynd breska leikstjórans Ken Loach, I, Daniel Blake frá 2016