Umbætur eða atlaga ÖBÍ að hugmyndum nýfrjálshyggjunnar um starfsgetumat?
Pistill
24.09.2017
Ég sat fund í liðinni viku á vegum Sósíalistaflokks Íslands um skýrslu ÖBÍ eða tillögur tengdar fyrirætlunum tveggja síðustu ríkisstjórna um svokallað starfsgetumat en hægri stjórnir hafa ítrekað daðrað við slíkar hugmyndir.
Ég var reyndar búin að lesa þessa skýrslu fyrir nokkru og mynda mér skoðun á henni og breytti þessi fundur ekki miklu þar um nema ef til vill að gera mig enn meira ósammála ÖBÍ fyrir að gefa út þessa skýrslu með þessum hætti. Þrátt fyrir að vera ósammála sjálfri skýrslunni er ég innilega sammála mörgu sem þar stendur.
Af sömu ástæðu og mér finnst Samfylkingin og VG ávallt bregðast sökum óeinarðrar baráttu fyrir þá sem standa höllum fæti í samfélaginu (þrátt fyrir að gefa sig út fyrir að vera þeirra stærsti bróðir) þá finnst mér ÖBÍ bregðast á nákvæmlega sama hátt og nú eina ferðina enn með þessari skýrslugerð sinni um starfsgetumat. „Linkind“ finnst mér vera orðið yfir þetta.
Í skýrslunni er áréttað að til þess að taka upp starfsgetumat þá þurfi að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og tryggja öryrkjum mannsæmandi framfærslu án skerðinga. Þá hefur reynsla annara þjóða af starfsgetumati ekki verið góð og beinlínis má segja að það geti verið verið lífshættulegt öryrkjum. En í stað þess að nota öll þessi flottu rök sem koma fram í skýrslunni „gegn“ starfsgetumati og segja bara „Sorrý, nei við getum aldrei mælt með þessari aðferð“ þá setur ÖBÍ saman skýrslu þar sem flækjustigið er óheyrilegt og nefndir eru allskyns fyrirvarar sem aldrei verða uppfylltir. Skilaboðin frá ÖBÍ eru því þau að samþykkja starfsgetumat eða leggja blessun sína yfir það svo lengi sem einhverjir fyrirvarar verði mögulega uppfylltir. Þetta finnst mér beinlínis óheiðarlegt gagnvart bæði ríkisvaldinu og öryrkjum sjálfum.
Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort óttinn sé farinn að ráða svo miklu um athafnir og taktík ÖBÍ því eins og margir muna þá neitaði bandalagið að vera valdalaus áheyrandi þegar þeim var boðið að hliðarborði í umræðum um kjör öryrkja á undangengnu ári og kom það heldur betur í bakið á þeim með tilheyrandi tekjuskerðingu. Þetta lýsir því kannski hversu ofurseldir öryrkjar eru ríkisvaldinu. Þeir hafa ekkert samningsvald og engin verkfallstæki. Eina tækið sem þeir hafa þó er kosningaseðillinn sem hefur reynst ansi máttlítill líka.
Það mætti jafnvel ætla að Öryrkjabandalagið sé engu minna sýkt af möntrum hægrisins en almenningur sem kýs af stórum hluta Sjálfstæðisflokkinn aftur og aftur. Á sama hátt og ríkisrekið heilbrigðiskerfi er rekið á hrun fjárlögum á góðæristímum og hægri menn koma á koppinn einkareknum heilsugæslustöðvum eins og þjófar að nóttu sumum til ánægju þar sem ríkisrekna heilsugæslan er orðin svo léleg og löskuð þá er allskonar fólk farið að trúa því að starfsgetumat sé svo frábært fyrir öryrkja. Enda jú mikið jákvæðara að vera mögulega metinn til virkni í vinnu en að vera stimplaður „öryrki“ og þá jafnvel „öreigi“ því til viðbótar. Það vita það nefnilega allir í dag að öryrkjar búa jú við skertari lífsgæði og meiri fátækt en annar almenningur í landinu. Það getur ekki verið að þeir séu á nokkurn hátt virkir í samfélaginu ef þeir geta ekki stundað atvinnu.
Hagstofa Íslands og velferðarráðuneytið halda ýmsum upplýsingum þessu tengdu til haga svo sem að um 25 þúsund manns eða 10% fullorðinna hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar síðasta árið. 17% fólks í lægsta fimmtungi neitaði sér því um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar. Árið 2014 skorti 23% öryrkja efnisleg gæði og hefur sú tala eflaust hækkað ef við skoðum nýja greiðsluþáttökukerfið í heilbrigðisþjónustu sem og greiðsluþátttökukerfi lyfja auk hækkunar á almennri neysluvísitölu. Greiðsluþátttökukerfið er þannig í dag að þakið á greiðslum fyrir læknisþjónustu er 46.500 á ári fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega en 69.700 krónur á ári fyrir heilbrigða. Þetta munar um 23.200 krónur. En þakið fyrir börn er svo aftur 46.500 krónur,
Hættan er sú að öryrki þurfi að nýta sér það mikla læknisþjónustu að kostnaðurinn fari alveg upp í þetta þak. Sá hrausti fer þó ekkert endilega upp í þakið. Þar af leiðandi er þetta kerfi ávísun á að öryrkjar beri það uppi. Sérstaklega öryrkjar með mörg börn á sínu framfæri. Þannig gæti það hent að öryrki þurfi að punga út 16.400 krónum sjálfur í einni læknisheimsókn og svo gæti hann þurft að greiða sérfræðingi án tilvísunar 16.400 til viðbótar. Þetta er ansi há prósenta eða 32.800 krónur sem hæglega getur lent á einum og sama mánuðinum ef ég skil þetta rétt. Þá er nú lítið eftir í matarinnkaupin þann mánuðinn.
Tölum nú ekki um ef öryrkinn er með lyfjakostnað uppá svo og svo mikið fyrir sjálfan sig sem fer umfram það sem hann fær greitt sem lyfjauppbót með örorkunni sinni og ef hann þarf einnig að greiða lyf fyrir barnið sitt jafn vel mörg börn.
Já allir vita hvað það hlýtur að vera ömurlegt að vera á örorku svo það er mun gáfulegra að virkja fólkið frekar til vinnu eða hvað? Öryrkjabandalagið virðist alltént vera að láta kúga sig til að kvitta upp á slíkar hugmyndir nýfrjálshyggjunnar og kórinn um hvað þetta sé mikið sniðugra fyrir okkur öryrkjana og öreigana ómar víða.
Í stað þess að koma með þessar flottu og vel rökstuddu ástæður gegn starfsgetumati sem heilsuhagfræðingar og tryggingastærðfræðingar leggja fram í skýrslu ÖBÍ og segja svo bara „Af þessum orsökum sjáum við ekki ástæðu til að mæla með starfsgetumati“ þá setja þau upp líkan eins og þau myndu vilja sjá það með þessum vel rökstuddu fyrirvörum. Það er ekki ósennilegt að hægri stjórn muni reyna að koma þessu líkani nákvæmlega svona á koppinn en þó án allra fyrirvaranna sem með fylgja um að það þurfi að auka sveigjanleika á vinnumarkaði og tryggja almennilegar bótafjárhæðir án skerðinga, fjölga störfum og eyða fordómum. Svo muni ríkisstjórnin segja „Jú, jú við tókum mikið tillit til óska ÖBÍ í þessu máli“.
Í þessu líkani er möntru hægrisins fylgt svo kirfilega að lífeyrissjóðir eiga núna beinlínis að vera með puttana í heilbrigðisþjónustunni. Þannig eiga starfsendurhæfingasjóðir (sem ég skil ekki öðruvísi en ASÍ og fleiri aðilar í samkrulli við lífeyrissjóði sbr. Virk) að sinna og greiða fyrir einstaklingsáætlanir við endurhæfingu. Hefur ekki einmitt verið hamrað á því af undanförnum hægri stjórnum að fyrsti vasinn eigi að vera lífeyrissjóðirnir og svo ríkið? Nú á það bara að gerast fyrr í ferlinu. Og athugum það einnig að hér á Íslandi er ríkið nú þegar að greiða mun minna til bótaþega en Skandínavíulöndin þar sem íslenskir eldri borgarar eru bæði lengur á vinnumarkaðnum og fá mikið af sínum lífeyri í gegnum lífeyrissjóði. Það má því leiða að því líkum að Íslenska ríkið misnoti sér ævisparnað fólks nú þegar.
Í kjölfar greiningar og einstaklingsáætlunar í starfsgetumati á svo stofnun samsett af vinnumálastofnun (Velferðarráðuneytið), sveitarfélagið, lífeyrissjóðurinn, Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands að sinna endurhæfingunni eða vinnunni og áfram eiga lífeyrissjóðir og ríki að greiða þér bætur ef það er niðurstaðan að þú verðir ekki endurhæfður. Jú í því samhengi leggur ÖBÍ áherslu á að lífeyrissjóðirnir lúti reglum stjórnsýslulaga sem þau gera ekki eins og er og þarf nú eitthvað mikið að gerast til að svo verði. Ég sé það ekki alveg fyrir mér verða að veruleika.
Ég var sú eina á þessum fundi Sósíalistaflokks Íslands og Öryrkjabandalagsins sem var það mikið niðri fyrir vegna þessarar skýrslu að ég gat ekki kvittað undir ályktun fundarins um að taka undir með því sem ÖBÍ segir í skýrslunni. Ekki vegna þess að ég geti ekki kvittað uppá allan þann rökstuðning sem kemur þar fram gegn því að hægt sé að setja á starfsgetumat heldur einmitt vegna þess að sjálf skýrslan eins og hún er birt finnst mér einfaldlega vera kolrangt svar fyrir hönd öryrkja. Þannig fannst mér einnig birtast „linkind“ meðal sósíalista á fundinum og vona ég að við lærum af reynslunni.
Þá er mér ofarlega í huga maður sem tjáði sig á opnum fundi SÍ á dögunum þegar hann talaði um að hann hefði alltaf staðið í þeirri meiningu að lífeyrissjóðirnir væru hans prívat sparnaður til eldri áranna svo hann gæti átt áhyggjulaust ævikvöld. Peningur sem hann hefði lagt til hliðar í öll þessi ár og mynd leggjast ofan á ellilífeyri frá ríkinu en ekki vera frádráttarbær af ellilífeyri. Sama á að sjálfsögðu að eiga við um örorkuna. Ef þú átt réttindi í lífeyrissjóði eiga þau að bætast ofan á lífeyrinn frá ríkinu. Í staðinn er ríkið og núna með hjálp ÖBÍ farið að trúa því að lífeyrissjóðirnir eigi að notast í endurhæfingu og áætlanagerð tengdu heilbrigði í stað skattkerfisins. Hvers vegna í ósköpunum?
Getum við þá ekki allt eins lagt niður lífeyrissjóðina og hækkað bara skattana aðeins í staðinn?
María Pétursdóttir
(Myndin með pistlinum er úr kvikmynd Ken Loach, I, Daniel Blake, sem fjallar um starfsgetumat.)