Áttavitinn á Pírataskipinu
Pistill
29.09.2017
Aftur berst okkur spurn af úreldingu vinstri- og hægri-stjórnmála. Að þessu sinni er það formaður Ungra Pírata, Arnaldur Sigurðarson, sem les upp dánarfregnina og heggur þar í sama knérunn og annar skipverji á Píratafleyinu, Björn Leví Gunnarsson. Mér finnst eldmóður ungliðans og einlægni þingmannsins hressandi en málflutningurinn fer svolítið í taugarnar á mér. Af því að ég er bæði sammála og ósammála. Eru vinstri og hægri úreld hugtök í stjórnmálum? Eru stjórnmál byggð á hægri og vinstri tímaskekkja? Það fer eftir því hvað þú átt við með orðunum. Ég lít á Arnald og Björn Leví sem samherja mína. Ég held að þeir vilji það sama og ég. Þess vegna finnst mér mikilvægt að ræða þetta í gegn í eitt skipti fyrir öll.
Í fyrsta lagi finnst mér mikilvægt að benda á það út frá sjónarhorni pólitískrar framsetningar að þessi dánarfregn er alls ekki ný af nálinni. Ég er að vísu ekki nógu gamall til að muna almennilega eftir kalda stríðinu en allt frá falli Berlínarmúrsins hef ég heyrt hina og þessa aðila lýsa því yfir að hægri og vinstri séu ekki lengur viðeigandi skilgreiningar í stjórnmálum samtímans. Og vinstrimenn eins og Noam Chomsky sem voru aldrei hallir undir Sovétríkin voru jafnan kallaðir „Nýja vinstrið“ (e. the New Left) á hippatímanum eða „Þriðja leiðin“ (e. the Third Way). Bill Clinton notaði reyndar það síðarnefnda á níunda áratugnum yfir viðleitni sína til að færa Demókrataflokkinn til hægri en það er önnur saga. Málið er að hér er ekkert nýtt eða frumlegt á ferðinni. Fólk er líklegra til að fá afturblik til tíma kassettutækja og túbu-skjáa við að heyra orð Arnaldar og Björns heldur en að upplifa þau sem ferskan vind í pólitíska landslaginu.
Í öðru lagi þurfum við að vera sammála um það hvað hugtök þýða áður en við getum orðið sammála um að varpa þeim fyrir róða. Þegar Björn Leví heldur því fram að jöfnuður sé ekki hægri/vinstri pólitík þá er hann að endurskrifa leikreglurnar. Færa stangirnar. Orðið vinstri-flokkur hefur enga merkingu ef það þýðir ekki að téður flokkur leggi áherslu á jöfnuð. Hann skrifar:
Hver „eðlilegur“ munur á tekju- og eignadreifingu er … það er lýðræðisleg spurning. Ekki vinstri/hægri spurning, vegna þess að markmiðið á að vera það sama, almennt jafnaðar- og velferðarsamfélag. Vinstri og hægri spurningin snýst þar um aðferðirnar til þess að ná þessum jöfnuði að mestu leyti og síst um nákvæmlega hvaða munur ætti að vera á milli þeirra ríkustu og þeirra sem eru ekki alveg eins ríkir. Þess vegna ættu í raun allir að vera jafnaðarmenn eða andsamfélagslegir.
Er nokkuð að undra þótt höfuðið á manni snúist í þrettán hringi við þessa röksemdafærslu? Hér skiptir hann um gír og segir að markmiðið eigi að vera það sama hjá öllum flokkum („almennt jafnaðar- og velferðarsamfélag“) og að allir ættu „að vera jafnaðarmenn eða andsamfélagslegir.“ Ég gæti ekki verið meira sammála. En Björn grautar saman því sem er og því sem ætti að vera. Auðvitað ætti enginn að bjóða sig fram til þings með það í huga að auka á sundrung og úlfúð í samfélaginu með því að stuðla að, og standa vörð um, ójöfnuð. Það þýðir ekki að allir flokkar séu jafnaðarsinnaðir eða að jöfnuður sé ekki vinstri/hægri pólitík. Við megum ekki við því að grugga pólitíska umræðu með því að rugla saman óskhyggju og greiningu.
Í þriðja lagi stilla bæði Arnaldur og Björn hægri/vinstri-pólitík andspænis ákvarðanatöku sem byggir á rökum og rannsóknum. Arnaldur skrifar: „Við verðum að hugsa í nýjum pólitískum lausnum og byggja ákvarðanir ríkisvaldsins á gögnum og góðum rökum í stað geðþótta einstakra stjórnmálamanna.“ Það er vandséð hvernig hægt sé að túlka þessi orð sem eitthvað nýtt í pólitík. Þetta er kall eftir auknu lýðræði og valdadreifingu. Vinstri-hreyfingin grænt framboð kallaði stanslaust eftir nákvæmlega þessu á áratuginum í stjórnarandstöðu frá 1999 til 2009 á grundvelli þess að vinstri-hugsjónin um jöfnuð næði aldrei fram að ganga ef almenningi væri haldið valdalausum. Það að hægt sé að benda á eiginhagsmunaseggi sem siglt hafi undir flaggi vinstri-hreyfinga í gegnum tíðina þýðir það ekki að lýðræði sé ekki vinstri-hugsjón. Sú var tíðin að maður heyrði orðið „valdadreifing“ aldrei koma út úr munni neins annars en Steingríms Joð, Ögmundar Jónassonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur.
Björn gengur svo langt að hlaupast undan vinstri-stimplinum eins og hann sé dauðadómur. Svo gerir hann eitt stórfurðulegt; hann dregur upprunalega fullyrðingu sína skyndilega til baka:
Ef það að sýna upplýsingar og afleiðingar ákveðinnar aðferðafræði er vinstri þá skal ég alveg gangast við því. Ákvörðunin um hvað á að gera við þessar upplýsingar á hins vegar alltaf að vera lýðræðisleg. Ef gangsæi, upplýst ákvarðanataka og lýðræði er vinstri þá kvitta ég slétt upp á að ég er vinstri.
Hann er sem sagt vinstri. Nei, bíðum… Hann er ekki búinn. Hann bætir við: „Ég er hins vegar alveg viss um að einhverjir sem merkja sig hægri vilja einnig vera með í gagnsæi og lýðræði.“ Þeirri fullyrðingu sinni til stuðnings festir hann tengil á yfirlýsingu Sjálfstæðiskvenna þess efnis að þær vilji almenn og opin prófkjör. Þarna liggur hundurinn grafinn.
Án þess að andmæla beinlínis þeirri hlandvolgu vangaveltu að „einhverjir sem merkja sig hægri [vilji] einnig vera með í gagnsæi og lýðræði“ vil ég setja fram staðhæfingu henni til höfuðs: Þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða stuðla á annan hátt vísvitandi að því að hann haldi valdastöðu sinni í þessu þjóðfélagi eru annað hvort á móti gagnsæi og lýðræði eða vita ekkert um Sjálfstæðisflokkinn. Það að Sjálfstæðiskonur vilji ekki láta Sjálfstæðiskarla einoka valdastöðurnar í þessu spillingarfeni sem kallar sig stjórnmálaflokk þýðir ekki að þær séu lýðræðissinnaðar eða vilji gagnsæi. Það þýðir að þær vilji vera með í leiknum. Þær vilja heiður meðal þjófa. Og hvað um jöfnuð? Getur Björn bent á einn hægrimann sem lítur á jöfnuð sem forgangsatriði? Hann nefnir alla vega engan slíkan í grein sinni en ég gæti bent á fjölda íslenskra hægrimanna sem finnst ójöfnuður ekki bara óhjákvæmilegur heldur beinlínis æskilegur.
Hættum þessu rugli.
Pírataflokkurinn er eitt það besta sem hefur komið fyrir Alþingi síðasta áratug. Áhersla hans á raunverulegar lýðræðisúrbætur og húmanísk gildi hefur gefið íhaldinu hvert glóðaraugað á fætur öðru. Píratar eru í stríði gegn kjaftæði; gegn skítamixi eins og Birgitta Jónsdóttir orðar það. Og stærsti köggullinn af kjaftæði í íslenskri pólitík (sem og annars staðar) er sá að auðmenn þurfi að fá allar óskir sínar uppfylltar til að almenn velsæld verði að veruleika. Þetta er hornsteinn hægristefnunnar og Björn Leví mylur hann niður í sandbing með borðleggjandi tölfræði í grein sinni. Af hverju lætur hann þá eins og hægri og vinstri skipti ekki máli? Og af hverju talar Arnaldur um að þeir sem noti þau orð séu „fastir einhvers staðar á síðustu öld“? Hvaða tilgangi þjónar þessi orðaleikfimi? Þessi skilgreiningarflótti? Kannski halda þeir að það sé v-orðið í VG sem hafi fram að þessu gert þeim flokki ókleift að sigrast á bláu ófreskjunni. Eða kannski er þetta hugsað sem markaðssetning; mörkun sérstöðu. En þetta er bla. Eintómt bla.
Orð eru bara skilti. Notagildi þeirra helgast af því einu hversu nákvæmlega þau benda í átt til einhvers sannleika. Orðin hægri og vinstri eru því ekkert heilög en þau hafa það gildi að minna okkur á það að barátta lítilmagnans gegn kúgara sínum er ekkert nýtt. Að við stöndum á herðum þeirra sem komu á undan og börðust með kjafti og klóm til að við fengjum að njóta þeirra réttinda sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki enn búinn að stela frá okkur. Réttilega mætti benda á að hugtakið róttæk rökhyggja (sem einhver vitleysingur úr Framsóknarflokknum bjó til) eigi mun betur við um Pírata en Framsókn (eða þennan svokallaða Miðflokk). En enginn stendur utan við hugmyndafræði. Sama hversu sannleikselskandi maður er þarf maður alltaf á endanum að taka móralskar ákvarðanir. Rökhugsun er ómissandi en þeir sem gera skurðgoð úr henni verða alltaf á endanum vélrænum þankagangi að bráð. Umhyggja er akkeri rökrænnar hugsunar. Og umhyggja getur af sér félagshyggju.
Það skiptir máli fyrir þingflokk að hafa ferskar hugmyndir og nýstárleg sjónarhorn. En það skiptir meira máli að hann sé alltaf meðvitaður um það fyrir hvern hann vinnur. Það er ekki hægt að sitja beggja megin borðsins; þjóna almenningi og auðvaldinu. Björt Framtíð þóttist geta það og framseldi sjálfsvirðinguna og varð fyrir slíkri fylgisblæðingu að skyndileg stjórnarslit rétt náðu að bjarga lífi hennar. Píratar munu ekki gera sömu mistök á meðan þeir falla ekki í þá gryfju að halda að stéttaátök séu liðin tíð. Ef þeir eru ekki svo barnalegir að halda að það þurfi bara sniðugar hugmyndir til að tala um fyrir eiginhagsmunaseggjum eignastéttarinnar þá er ég algjörlega á sömu blaðsíðu og þeir. Og þá mega þeir taka orðin hægri og vinstri og troða þeim í veip-tankana sína og leysa þau upp í ananas-ilmandi gufustrókum fyrir mér.
Símon Vestarr