Hlynur: Bjó undir köldu stofnanaviðmóti
17.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég ólst upp á vegum borgarinnar sem fósturbarn. Ég var settur í fóstur hjá góðri fjölskyldu 8 ára gamall eftir að hafa verið í skammtímavistunum á BUGL og Hraunbergi í Breiðholti, sem þá var starfrækt fyrir yngri börn en eru þar í dag. Þegar ég kom í fóstrið var ég í sálrænni krísu með alls konar hegðunarvandamál. Mér gekk þó einstaklega vel í skóla og íþróttum og var meðal toppnemenda skólans míns í Landakotsskóla. Ég var líka með efnilegri körfuboltamönnum og æfði bæði með KR og Val. Þetta var nauðsynleg gulrót sem hélt sjálfsálitinu nálægt heilbrigðum hæðum þrátt fyrir annars erfiðar aðstæður.
Við vorum þrjú börn á heimilinu, og mér leið eins og hluti af heilbrigðri fjölskyldu. En þegar ég var 13 ára var tekin sú ákvörðun að breyta rekstrarfyrirkomulagi heimilisins. Fósturforeldrunum mínum var sagt upp. Ég var kallaður á fund í einni af stofum hússins og mér tjáð að að loknum uppsagnarfresti myndu þau alveg hverfa úr mínu lífi og fór það svo. Hin tvö börnin voru send burt. Ég var tekinn í sálfræðimat þar sem ég lét vita að mér leið eins og annars flokks manneskju. Næstu fjögur árin bjó ég undir köldu stofnanaviðmóti. Vaktastarfsmenn komu í stað fósturfjölskyldunnar. Þegar ég fluttist þaðan sjálfráða var mér ekki boðinn neinn stuðningur til að koma undir mig fótunum.
Ég flutti úr bænum til Keflavíkur, fór í menntaskóla, fékk vinnu í Samkaup, eignaðist fullt af vinum og fór aftur að æfa körfubolta. En svo fór kvíðinn að taka völd yfir lífinu mínu.
Þegar ég leitaði til borgarinnar eftir fjárhagsstuðning fyrir sálfræðimeðferð kom ég að lokuðum dyrum. Tímarnir voru dýrir og ég var blankur, svo ég varð að hætta. Ég varð fastagestur í sjúkrabílum, fór tíu sinnum í kvíðakasti með sjúkrabíl á tólf mánuðum. Kringum tíunda skiptið var mér bent á að tala við sálfræðing á spítalanum. Þá komst ég loks í eitthvað ferli, meðferð, endurhæfingu og allskonar.
Það kom aldrei tímapunktur þar sem ég fattaði hversu langvarandi áhrif vinnubrögð barnaverndaryfirvalda höfðu á mig. Ég vissi það alltaf, og það var alltaf planið að snúa þessu í styrk. Það sem hélt mér gangandi á fósturheimilinu var fullvissan að ég ætti betra skilið, og að ég myndi nýta þessa reynslu til að hjálpa öðrum.
Undanfarin ár hef ég skoðað leiðir til að opna á umræðu og bæta úr þessum málum. Síðastliðið haust stofnaði ég barnaverndarfélagið Fósturheimilabörn. Þar getur fólk haft samband og sagt frá reynslu sinni af þessu kerfi. Ég kannast við margt í þeim, en sumt kemur mér líka á óvart. Með þessum sögum getum við svo byrjað að laga vandamálin. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn hætti að spara í velferðarkerfinu á kostnað velferðar barna og unglinga. Hvert einasta barn á skilið besta stuðning og úrræði sem til eru í þessum heimi.“
Hlynur Már Vilhjálmsson er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík#valdiðtilfólksins