Kolbrún: Fólk dæmt til að lifa í fátækt undir endalausu óöryggi
28.04.2018
—Hin Reykjavík
,,Ég fæddist í Reykjavík 1967 en ólst að mestu upp í Vestmannaeyjum hjá einstæðri móður með þrjú börn sem þurfti að vinna myrkranna á milli eftir skilnaðinn við pabba. Mamma gerði sitt besta við erfiðar aðstæður.
Síðastliðinn þrjú ár hef ég búið í einu leiguherbergi inni á annarri manneskju. Áður en ég komst í þetta herbergi hafði ég búið á tíu stöðum í Reykjavík síðan ég flutti hingað frá Eyjum fyrir tíu árum. Ég var gift sjómanni, var heimavinnandi húsmóðir með þrjú börn en skildi 2008. Hann tók allar eignir okkar og skuldir, ég fór út á núlli. Það hljómaði alls ekki illa á þeim tíma en þvílík mistök. Ég festist á leigumarkaði því eg fékk ekki greiðslumat. Hafði ekkert lánstraust því ég var með of lág laun, samt gat ég borgað leigu. Þegar ég flutti svo í herbergið 2015 eftir hrakningar á leigumarkaði sótti ég um félagslega íbúð hjá borginni. Eftir þriggja ára bið fékk ég neitun núna um daginn. Tekjurnar mínar eru 80.000 kr of háar á ársgrundvelli til ég fái íbúð.
Ég hef unnið ýmis störf um ævina, var á verbúðaflakki og vann við skúringar. En þegar ég gifti mig og eignaðist mín þrjú börn varð ég heimavinnandi húsmóðir, vann ekkert utan heimilis og ávann mér því engin réttindi í lífeyrissjóðakerfinu. Eftir að börnin uxu úr grasi sá ég að ég yrði að mennta mig eitthvað til að fá sæmileg laun á vinnumarkaði. Ég valdi sjúkraliðann þar sem að umönnun var eitthvað sem ég kunni og treysti mér í og launin áttu að vera fín.
Árið 2007 kláraði ég sjúkraliðann. Ég var stolt af náminu mínu, en áttaði mig fljótlega á því að þegar að talað var um að launin væru ágæt var ekki verið að tala um dagvinnulaun heldur 100% vaktavinnu þar sem unnið er á kvöldvöktum, næturvöktum, um helgar og alla hátíðisdaga. Það var og er einfaldlega ekki hægt að lifa á dagvinnulaununum.
Mér finnst það til skammar eftir þriggja ára nám að sitja uppi með námslán og geta ekki lifað á laununum. Ég vil að fólki séu borguð mannsæmandi laun fyrir sína dagvinnu þannig að hægt sé að lifa af þeim og sinna fjölskyldu og heimili. Hitt býður bara upp á að fólk keyri sig út og það var nákvæmlega það sem gerðist hjá mér.
Ég hafði reynt að bæta stöðu mína með því að læra einnig fótaðgerðarfræði og bæta þeirri vinnu við mig. Á tímabili vann ég 100% vinnu hjá álverinu og 50% vinnu sem fótaaðgerðafræðingur og bar út Fréttablaðið til að fá smá vasapeninga fyrir dóttur mína. Þrátt fyrir að ná að vinna svona mikið dugði það ekki til. Ég fékk ekki greiðslumat.
Eftir allt þetta álag, mikla vinnu og óöryggi á húsnæðismarkaði gaf heilsan sig. Ég hreinlega brann út. Upplifði kvíða og þunglyndi og var greind með beinþynningu og vefjagigt. Skömmin var óbærileg. Ég hef alltaf verið samviskusöm og legg mikið á mig til að ná endum saman en samt er það ekki nóg þegar að kringumstæðurnar eru svona. Endurhæfingarferli tók við og ég var hjá Virk þar til að við sáum var að ég myndi ekki endurheimta fyrri starfsgetu og var sett á örorku.
Í dag vinn ég 33% vinnu sem sjúkraliði og fæ örorkubætur til viðbótar. Ég vinn eins og heilsan leyfir því bara það að tilheyra vinnustað, hitta vinnufélagana og hjálpa öðrum bætir mína andlegu heilsu. Með öllum skerðingum og ástandinu á húsnæðismarkaði er fólki eins og mér samt allar bjargir bannaðar. Innkoma utan núverandi frítekjumarks skerðist krónu á móti krónu. Fólk í þessari stöðu er dæmt til að lifa í fátækt undir endalausu óöryggi. Afleiðingarnar af því eru veikindi og niðurbrot.
Ég vil að allir hafi greiðan aðgang að góðu húsnæði og að það sé til nægt húsnæði fyrir alla hvort sem fólk vill kaupa eða leigja. Það þarf opinbera uppbyggingu á húsnæði. Ég vil endurvekja verkamannabústaðakerfið, stofna leigufélög sem eru óhagnaðardrifinn, styrkja regluverkið í kringum leigumarkaðinn og setja þak á leiguverð.
Þess vegna gekk ég til liðs við Sósíalistaflokkinn. Það verður að vera einhver von og ég get þó verið með í svona hreyfingu og reynt að breyta hlutunum með góðum hóp. Það er lágmarkskrafa að hafa öruggt húsaskjól að geta gert sér heimili til að hvílast í. Það er ekki boðlegt að fólk þurfi að húka í herbergjum inni á ókunnugum eða í óíbúðarhæfu iðnaðarhúsnæði í svona velmegandi samfélagi. “
Sigríður Kolbrún Guðnadóttir leigjandi, sjúkraliði og fótaaðgerðafræðingur á örorku býður sig fram fyrir Sósíalistaflokkinn í borginni #valdiðtilfólksins