Ásdís: Eins og maður skúri eitthvað betur við það að vera með stúdentspróf
11.05.2018
—Hinn Kópavogur
„Ég er fædd í Ólafsvík árið 1981, ein af fjórum systkinum og þar ólumst við upp. Foreldrar mínir eru verkafólk en þau unnu bæði í fiski fyrstu árin mín. Pabbi vann seinna sem hafnarverkamaður og formaður verkalýðsfélagsins á staðnum og mamma skúraði, vann við heimilishjálp og var á tímabili dagmamma. Ég byrjaði ung að hjálpa mömmu að skúra á heilsugæslunni því ég sá hvað þau unnu bæði mikið og þrátt fyrir það var aldrei til neinn aukapeningur á heimilinu.
Ég var níu ára þegar ég byrjaði í bæjarvinnunni á sumrin og vann frá átta til fimm á daginn. Við krakkarnir vorum látin vinna ýmis verk. Við vorum til dæmis send á ruslahaugana til að tína ruslið í kringum brennandi ruslahaug og svo þurftum við jafnvel að labba heim í lok dags yfir smá fjalllendi. Ég man meira að segja að ég var með 88 krónur á tímann, klukkutíma í mat og tvær kaffipásur. Ég var rosalega stolt og ánægð þegar ég fékk fyrstu launin mín í umslagi frá bænum, alveg eins og eldri systur mínar. Ég gat svo ekki beðið eftir því að komast í fiskinn en þar fékk ég loks að byrja þegar ég var 14 ára og vann þar í sumar- og jólafríum. Þetta var erfið vinna, sérstaklega á frystinum þar sem mér var alltaf kalt og illt í bakinu og varð því hæstánægð þegar ég komst í pökkunina.
Það var alltaf til nóg að borða heima en enginn lúxus og ég vissi að þetta var óttalegt bras hjá mömmu og pabba þannig að þegar ég var 16 ára ákvað ég sjálf að borga fyrir menntaskólann. Ég hef séð um mig sjálf síðan. Á þessum tíma lenti ég í mjög alvarlegu bílslysi sem hafði áhrif á líkamlega heilsu mína og ég flosnaði upp úr náminu í kjölfarið. Ég flutti í bæinn og fór að vinna við verslunarstörf þar sem ég gat unnið mig upp mjög hratt.
Ég var 22 ára þegar ég eignaðist son minn en var fljótlega orðin einstæð móðir á leigumarkaði í fullri dagvinnu sem verslunarstjóri. Launin dugðu þó ekki svo ég fór að skúra með dagvinnunni og ég þurfti að taka litla strákinn minn með enda hafði ég ekki foreldra mína til stuðnings í bænum til að passa hann.
Ég missti vinnuna eftir hrun og ákvað að klára stúdentsprófið. Ég fór að vinna í heimaþjónustunni í Kópavogi samhliða námin. Þá var ég mikið í sambandi við Eflingu því ég var ósátt við margt þegar kom að launakjörunum. Ég var til dæmis á lægri taxta af því að ég var ekki með stúdentspróf. Svona eins og maður skúri betur við það að vera með stúdentspróf. Kópavogsbær var með allskyns undarlegar reglur eins og að meta ekki fyrri starfsreynslu við skúringar nema hún hafi verið unnin fyrir bæinn sjálfan. Ég hafði þá skúrað í einhver ár hjá bænum en verið á launum hjá undirverktaka svo það var ekki talið með. Það er aldrei talað um þennan þátt varðandi launakjör skúringafólks og mér brá þegar ég komst að þessu og varð frekar reið yfir þessu.
Vegna bílslyssins sem ég lenti í sem unglingur þá entist ég ekki lengur en í tæpt ár í þessu starfi enda er bara mjög erfitt að vinna við þrif og undir lokin var ég heima grátandi af verkjum. Ég reyndi samt að mæta af því ég vissi alltaf að gamla fólkið fengi hvorki þrifin sín né félagsskapinn ef ég skráði mig veika. Að lokum gafst líkaminn upp og mér var boðið að fara á endurhæfingalífeyri. Ég vildi fyrst reyna sjálf við fullt nám frekar en að fara í endurhæfingu og mér tókst að ljúka þrjátíu einingum. Ég tók svo námslán í kjölfarið og lauk BA- námi í íslensku á þremur árum.
Mér finnst það vera forréttindi að hafa komist í framhaldsnám. Ég sá það aldrei fyrir mér að ég ætti eftir að fara í háskóla enda komst ég ekki í þetta nám fyrr en ég var orðin þrítug og búin að brasa í rúman áratug. Í meistaranámi mínu í íslenskri málfræði varð ég ófrísk af seinna barninu mínu en verandi námsmaður átti ég ekki rétt á eðlilegu fæðingarorlofi. Ég varð því að halda áfram í náminu og vera á námslánum til að brúa bilið fjárhagslega. Ég var mætt í skólann viku eftir að ég fæddi dóttur mína en hún fæddist í september og ég tók hana stundum með mér í tíma enda var ég með frábæran kennara. Í dag kenni ég íslensku fyrir útlendinga og er alltaf á leiðinni að klára lokaritgerðina í málfræðinni en það er ekki einfalt að vera einstæð tveggja barna móðir í námi og vinnu. Ég hef starfað sem stundakennari undanfarið og ég er svo ósátt við réttindaleysið sem fylgir því. Ég borga til dæmis ekki í stéttarfélag þannig að ég bý við algjört starfsóöryggi og ekkert hægt að gera nema skipta um starf.
Í gegnum kennsluna umgengst ég mikið innflytjendur og ég hef orðið vör við hvernig víða er brotið á þeim í vinnu. Ég hef stundum reynt að aðstoða þá við að sækja rétt sinn svo sem við að fá laun í samræmi við menntun. Ég veit alveg að það er ekki mitt starf en mér finnst það vera samfélagsleg ábyrgð mín. Ég segi þeim frá hlutum eins og stórhátíðarkaupi og fleiru því stundum nýta vinnuveitendur sér það að þau tali ekki tungumálið. Stéttarfélögin hafa hingað til ekkert gert til að hjálpa þeim en það er örugglega að breytast eitthvað núna. Mér finnst það vera á okkar ábyrgð að kenna innflytjendum íslensku en það er ekki tekið nógu vel á þeim málum. Það er mjög miklvægt að gefa fólki tækifæri til að læra málið og valdeflandi. En það er líka okkar að tala íslensku við innflytjendur en svissa ekki alltaf yfir í ensku. Ég verð líka vör við ákveðinn rasisma er varðar tungumálið en Íslendingar skipta frekar yfir í ensku þegar þeir tala við einhvern sem er dekkri á hörund.
Ég er ennþá á leigumarkaðnum og ég næ ekkert alltaf endum saman í lok mánaðar. Yngra barnið er tveggja ára og á meðan það er svona lítið þá get ég ekki tekið að mér aukavinnu. Ég vil ekki láta 14 ára son minn þurfa að passa á meðan ég er að vinna frameftir. Hann verður að fá að vera unglingur. Dóttir mín er samt sem áður á mjög góðum leikskóla til fjögur á daginn og það er greinilegt að starfsfólk leikskólanna hér í bænum er mjög metnaðargjarnt og með það erum við bæjarbúar heppnir.
Ég hef alla tíð kallað mig sósíalista en foreldrar mínir voru mikið Alþýðubandalagsfólk og mikið í verkalýðsmálum. Kosningarnar voru skemmtilegasti tíminn því þá vorum við alltaf á kosningaskrifstofunni þar sem alltaf var eitthvað gott að borða og mikil gleði og barátta. Fjölskylda mín er hreinræktuð verkamannafjölskylda og ég er mjög stolt af því sem og uppruna mínum í Ólafsvík. Ég sá bæði hvað mamma vann mikið en fór svo sjálf í þetta basl og horfði uppá einkavæðingu á öllum þrifum og slíku og hvað þessi launakjör eru mikil bilun.
Verkafólk og annað launafólk skapar verðmætin en einhverjir aðrir fá arðinn og ég þoli það ekki. Fólkið sem býr til verðmætin á að fá sinn hluta líka en ekki bara vera þrælar í erfiðsvinnu og rústa á sér líkamanum. Þrátt fyrir að hafa menntað mig þá lagaðist ekkert. Ég fékk bara þægilegri vinnu, þannig að arðránið á sér líka stað hjá menntafólki. Núna er kominn tími til að allt launafólk standi saman því í raun og veru þá er bara til tvenns konar vinna; illa unnin og vel unnin! Lífið á heldur ekki bara að snúast um að þræla sér út í vinnu, fólk á líka að hafa tækifæri til að njóta lífsins.“
Ásdís Helga Jóhannesdóttir er í framboði fyrir sósíalista í Kópavogi. #valdiðtilfólksins