Auðvald og elíta: Skilið valdinu!
Pistill
13.05.2018
Maður skammast sín fyrir að benda á hið augljósa. Allt sem er einhvers virði í samfélaginu okkar náðist með baráttu hinna verr settu. Almannatryggingar, ókeypis heilbrigðisþjónusta, dvalarheimili aldraðra, skóli fyrir alla, átta stunda vinnudagur, veikindaleyfi, sumarleyfi, atvinnuleysisbætur, örorkubætur og svo áfram endalaust. Það eru hin verr settu sem vilja bæta samfélagið. Hin betur settu sjá enga ástæðu til þess. Þau hafa það fínt. Hin ríkustu telja sig ekki þurfa á samfélaginu að halda. Þau eru á móti því og vilja brjóta það niður.
Ef við ættum að velja fólk til að marka stefnu samfélagsins ættum við því að kalla á þau sem standa verst. Þau þekkja annmarka samfélagsins, vita hvernig gallar þess grafa undan kjörum og mannvirðingu og upplifa óréttlæti samfélagsins frá morgni til kvölds. Alla daga, allan ársins hring.
Hin ríku vilja brjóta samfélagið
Það vitlausasta sem við gerðum væri að fela hinum ríku stjórn samfélagsins. Þau eru afætur á öðrum og meta það hag sinn að samfélagið sé sem veikast. Hin ríku vilja lækka skatta, fyrst og síðast sína eigin skatta. Þau vilja að vald peningana, þeirra vald, hafi meira vægi en vald almennings í gegnum almannasamtök, verkalýðshreyfingu og lýðræðisvettvang ríkis og sveitarfélaga. Markmið hinna ríku eru að veikja það vald sem byggir á samstöðu fjöldans, lýðræðislegt vald þar sem einn maður hefur eitt atkvæði. Markmið hinna ríku er að hér ríki peningavaldið eitt, ólýðræðisleg vald markaðarins þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Þar sem hin fátækari og valdalausu hafa ekkert um það að segja hvernig samfélagið þróast.
Þetta eru andstæður samfélagsins. Fjöldinn sem á lítið sem ekkert og hin fáu sem eiga mikið, og sífellt meira. Stjórnmál snúast um hvor hópurinn fái völdin. Fjöldinn, sem hefur hag af uppbyggingu samfélagsins, eða hin fáu og ríki, sem telja það hagsmuni sína að brjóta niður samfélagið; grafa undan velferðarkerfinu og réttindum launafólks, berja niður laun, skerða lífeyrisgreiðslur, leggja gjald á sjúklinga og nemendur, siga okrurum á fólk í húsnæðisvanda og grafa með öðrum hætti undan lífskjörum almennings, öryggi hans og hamingju. Þetta eru valkostir stjórnmálanna.
Hin kúguðu vilja byggja upp samfélag
Ástæða þess að í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands er fyrst og fremst fólk sem hefur upplifað óréttlæti samfélagsins af eigin raun, byggir á þessum einföldu sannindum: Að þau sem þekkja vandann af sárri reynslu hafa í sér baráttuþrek til að breyta samfélaginu. Þau hinna fátæku sem ekki brotna undan kúgun heldur rísa upp; það er fólkið sem við ættum að láta leiða uppbyggingu borgarinnar.
Þess vegna eru í framboði fyrir sósíalista fátækt fólk, láglaunafólk, fátækt eftirlaunafólk, innflytjendur, leigjendur og baráttufólk fyrir hagsmunum hinna verr settu. Þau sem þekkja óréttlætið fyrst og fremst af afspurn eða telja sig sloppin undan miskunarlausasta óréttlætinu, eru ekki verra fólk. Þau eru einfaldlega ólíklegri til að berjast fyrir breytingum. Það sýnir sagan. Við sem viljum bæta samfélagið ættum að gefa fólkinu valdið sem skynjar best nauðsyn þess að breyta.
Það þarf hugsjón til að breyta heiminum
Þegar verkalýðsbaráttan spratt fram á nítjándu öld og sprakk svo út á fyrri hluta síðustu aldar; var hún knúin áfram af fátæku fólki, fólki sem var að berjast fyrir lífi sínu. Við getum þakkað þessu fólki að hafa fengið að búa á seinni hluta síðustu aldar í skástu samfélögum sögunnar. Afrakstur baráttu þessa fólks var viðurkenning á ábyrgð samfélagsins á hinum veiku, öldruðu, fötluðu og verr settu. Af þeirri ábyrgð spratt velferðarkerfið, heilbrigðis- og menntakerfið, félagslega íbúðakerfið, atvinnuleysisbætur, réttindi launafólks og margt annað.
Þessi barátta var knúin áfram af þörf, en lituð af hugsjón, samkennd og kærleika. Án slíkra leiðarljósa er ekki hægt að breyta samfélaginu. Það spurði enginn hvað kostaði að gefa fólki færi á að taka sumarfrí. Það spurði enginn hvað kostaði að bjóða öllum börnum skólavist? Það spurði enginn hvað kostaði að lækna alla jafnt, óháð efnahag? Hin fátæku og veiku, þreyttu og lúnu vissu allt um hvað það kostaði að láta hagsmuni hinna ríku stjórna samfélaginu. Það kostaði þau sjálf, hin fátæku og valdalausu allt; allt sem þau höfðu að gefa, allan tíma, alla orku; lífið sjálft.
Stéttabaráttan stofnanavædd
Hinum fátæku tókst að lyfta samfélaginu upp á síðustu öld. Þau unnu gegn stéttskiptingu og tryggðu fólki jafnari tækifæri til náms og mennta og tókst að draga úr niðurdrepandi afleiðingum fátæktar, veikinda og valdaleysis. Hin fátæku bjuggu til millistéttina, menntaðist sjálf og menntaði börnin sín og fólkið sem það hafði valið til forystu. Stéttabaráttan bjó því ekki aðeins til samfélagslega sigra heldur líka persónulega sigra fólks sem vann sig upp, eins og það var kallað; hífði sig upp um stétt, yfirgaf lágstéttina og gekk inn í veröld millistéttarinnar, hugmyndaheim hennar, samfélags- og manngildishugmyndir.
Seinni hluti tuttugustu aldar einkenndist ekki af baráttu hinna fátæku. Þvert á móti einkenndist hann af æ minnkandi völdum hinna fátæku. Baráttutæki þeirra; verkalýðshreyfingin, almannasamtök og stjórnmálaflokkar; voru ekki lengur drifin áfram af hugsjón, samkennd og kærleika. Persónulegir sigrar einstaklinga, sem þeim voru færðir vegna hinna mikilvægu samfélagslegu sigra; mótuðu æ meir hugmyndir hreyfingarinnar. Við tók verðleikaræði, meritocracy, drifið áfram af aðdáun á þeim kynslóðum sem menntuðu sig upp um stétt, börnum lágstéttafólks sem vildi sanna sig jafnoka þeirra sem höfðu einokað æðstu völd samfélagsins öldum saman.
Í stað hugsjóna komu því áform sem metin voru raunhæfari, í stað samkenndar sannfæring um yfirburði forystunnar og í stað kærleika fagleg úrvinnsla umkvartana og formlegra beiðna. Hugsjónaeldur hinna fátæku var slökktur. Hið brahmíska vinstri, svo vitnað sé til Thomas Piketty, tók yfir og stofnanavæddi stéttabaráttu fátæks fólks. Það fólst í verðleikaræðinu að hin fátæku og valdalausu var ekki treystandi til að stýra eigin baráttu.
Tveir andstæðingar hinna fátæku
Eflaust má benda á margt gott sem náðist í gegn á hinu brahmíska tímabili verkalýðsbaráttunnar, innan hreyfingarinnar sjálfrar og í gegnum þá stjórnmálaflokka sem spruttu af henni. En smátt og smátt drap hin brahmíska elíta hreyfinguna. Drift hinna fátæku, valdalausu og kúguðu knúði hana ekki áfram, þeim var haldið frá mótun stefnunnar og það var ekki kallað á þau til aðgerða. Fyrir láglaunafólki urðu verkalýðsfélögin eins og hver önnur ríkisstofnun, stjórnað af fólki sem leit ekki á félagana sem yfirboðara sem þau ættu að þjóna heldur sem viðfang vinnunnar, verknúmer. Og stjórnmálaflokkarnir, sem sprottið höfðu af stéttabaráttu fátækra á síðustu öld, náðu ekki lengur eyrum hinna verr stæðu, snertu ekki hjörtu þeirra, stefna þeirra kom þeim sáralítið við.
Að lokum stóðu hin fátæku og kúguðu, valdalausu og afskiptu, frammi fyrir tveimur andstæðingum. Fólkið hafði auðvaldið sjálft á aðra hönd og hina brahmísku elítu, sem hafði tekið yfir baráttutæki þess, á hina.
Og það má vart á milli sjá hvorn andstæðinginn hin kúguðu fyrirlíta meir. Og það er ekki vegna þess að þau þekki ekki aðstæður sínar eða séu illlæs á samfélagið. Þvert á móti þekkja þau of vel grimmd auðvaldsins á eigin skinni og sjá of vel í gegnum fagurgala elítunnar, sem þjónar ætíð sínum hagsmunum og hagsmunum hinna ríku og valdamiklu, þótt hún í orði kveðnu þykist vera skjaldborg hinna snauðu.
Skilið okkur valdinu
Þessi er staðan í dag. Við vitum að aðeins hin fátæku og kúguðu geta knúið á um breytingar í samfélaginu. En þar sem baráttutækin hafa verið tekin af þeim, verkalýðshreyfingin, almannasamtök og stjórnmálaflokkarnir, hafa þau ekki getað beitt sér á liðnum áratugum. Þau hafa ekki getað varið sig í stéttastríðinu, hin ríku og valdamiklu hafa án mótspyrnu getað mótað samfélagið að eigin hagsmunum. Hin fátæku eru í dag valdalausari í dag en þau hafa verið í meira en heila öld. Þau hafa misst baráttutækin, misst talsmenn sína, á þau er ekki hlustað, þau eru ekki ávörpuð og þau hafa enga aðkomu að borðum þar sem ákvarðanir eru teknar.
Til að ná völdum þurfa hin fátæku og valdalausu ekki aðeins að glíma við auðvaldið, heldur þurfa þau fyrst að endurheimta baráttutæki sín úr höndum hinnar brahmísku elítu áður en þau snúa sér að auðvaldinu.
Þau átök eru hafin innan verkalýðshreyfingarinnar. Það má heyra brestina af þeirri baráttu um allt samfélagið. Sú barátta sem þar er hafin mun taka langan tíma. Verkalýðshreyfingin er illa farin eftir forystuna sem drap hana. Það þarf að vekja aftur upp baráttuafl hinn fátæku og kúguðu, því aðeins það afl getur knúið fram umtalsverðar breytingar á högum hinna verr settu og samfélaginu öllu.
Framboð sósíalista í Reykjavík og Kópavogi er af þeim sama meiði. Það er upprisa hinna kúguðu og uppreisn hinn afskiptu. Framboðunum er stefnt gegn auðvaldinu, helsta andstæðing almennings. En þau beinast líka gegn elítunni sem rændi hin snauðu og valdalausu baráttutækjum sínum.
Fátækt fólkið, valdalausa og afskipta sem tók sér sæti á listum sósíalista í Reykjavík og Hafnarfirði hefur þetta að segja við auðvaldið og elítuna: Skilið okkur valdinu! Ekki bara vegna þess að við eigum það og viljum það. Heldur líka vegna þess að við erum miklu betri í að byggja upp samfélag en þið. Þið hafi fengið að stjórna nógu lengi. Verið þið sæl og blessuð. Við munum kannski hringja í ykkur á næstu öld.
Gunnar Smári