Edda: Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að biðja um aðstoð
17.05.2018
—Hinn Kópavogur
Ég er fædd á Akureyri og uppalin í Reykjavík og bjó þar lengst af með smá millilendingu í Svíþjóð og seinna í Bretlandi, þar sem ég fór í nám. Ég flutti svo í Kópavoginn í kringum 2003.
Ég hef verið reið frá því fyrir hrun því mér fannst allan tímann borðleggjandi hvernig þetta endaði. Ég starfaði sem blaðamaður svo ég var í hringiðu fréttanna og horfði á útrásarvíkinga í ham. Ég vissi að það var engin innstæða fyrir partýinu. Milljarðar í laun, gullflögur í salötum, snekkjur og einkaþotur, hvaðan komu allir þessir peningar? Þetta var vont tímabil í Íslandssögunni og því er hvergi lokið. Margir misstu allt sitt og eiga enn um sárt að binda.
Það eru líka margir sem hafa það ágætt, en við megum ekki gleyma hópnum sem situr eftir, láglaunafólki, öldruðum og öryrkjum. Þetta fólk ber ekki höfuðið hátt. Ef engir peningar eru til frá og með tíunda hvers mánaðar skríður það í felur og hættir að tilheyra samfélaginu. Þeir sem eru bugaðir berjast ekki fyrir réttindum sínum.
Ég varð sjálf öryrki árið 2011, en fram að því hafði ég unnið fulla vinnu, borgað skatta og komið upp fjórum börnum. Síðan þá hef ég á tímabilum verið í felum því ég skammast mín fyrir veikindin, aðallega þunglyndið og kvíðann. Hjartaáfall var svo ekki til að bæta stöðuna.
Í morgun fékk ég sms um að lyfjaskömmtunin mín væri tilbúin, en rétt á eftir fékk ég önnur skilaboð um að ég fengi ekki lyfin af því ég skuldaði. Þegar ég hringdi til að athuga þetta kom í ljós að ég hafði fengið lánaðar rúmar sex þúsund krónur eitthvað fyrr og apótekið var búið að setja skuldina í innheimtu. Maður er allsstaðar með einhverjar smáskuldir og fer ekkert á kaffihús til að segja eina ferðina enn að maður ætli bara að fá vatn af því maður sé búinn að drekka svo mikið kaffi þann daginn. Maður vill ekki útskýra peningaleysið og er svo þreyttur á sjálfum sér og þessari tuggu að það hálfa væri meira en nóg.
Það sem ég skil ekki varðandi hrunið er að við höfum í raun ekki refsað neinum, það hefur enginn axlað ábyrgð og nú, tíu árum seinna, stefnir allt í sama farið. Hvað varð um þjóðfundarsamþykktirnar um ný og betri gildi? Og stjórnarskrána sem var hent út af borðinu með bolabrögðum? Ég held að margir séu leiðir og dofnir, fólk nennir ekki að berjast því það hefur ekki skilað neinu.
Það er skelfileg staðreynd að liðið sem fékk milljarðaafskriftirnar er komið aftur, við skiptum út Panamaprinsum í kosningum og afskriftadrottningar íhuga jafnvel að bjóða sig fram til forseta. Ef ekki það, þá ráðherra í nýjum flokki. Spillingarfréttir eru orðnar dægurflugur, það verður smá stormur í vatnsglasi, svo er það gleymt. Margt sem er að gerast núna hefði sett þjóðina á suðupunkt rétt eftir hrun, en nú er fólk dofið og virðist láta allt yfir sig ganga.
Ég er ofsalega vonsvikin með Vinstri græn í þessari ríkisstjórn, finnst þeir hafa brugðist kjósendum sínum. Ég hef alltaf verið sósíalisti og kosið sósíalista í einhverri mynd. Ég bjó í Svíþjóð á Palme-tímabilinu, sem var trúlega sósíalismi eins og hann gerist bestur. Það hefur margt breyst á Norðurlöndum síðan þá. En að líkja okkur við hin Norðurlöndin er fráleitt. Ég fór til dæmis í magaspeglun um daginn og borgaði fyrir það 24 þúsund. Vinkona mín í Svíþjóð fór í samskonar rannsókn og borgaði þar 100 krónur sænskar sem eru rúmar þúsund krónur íslenskar. Einkavæðingafíkn hægri flokkanna er bara sorgleg.
Staða aldraðra, öryrkja og láglaunafólks er svo kapítuli út af fyrir sig. Þar eru framin mannréttindabrot á stórum hópum fólks sem stjórnvöld láta viðgangast, eða öllu heldur standa fyrir. Ráðherrar fara með tóma steypu þegar þessi mál ber á góma og þreytast ekki á að segja þjóðinni að svart sé hvítt. Skerðing tekna frá Tryggingastofnun er skýlaust lögbrot.
Hægri menn vilja alltaf lækka skatta og lokka til sín fólk á því en það er eins og skorti skilning á að velferðarkerfi byggjast á að fólk borgi skatta. Hér borgum við venjulegt fólk háa skatta, en málið er að þeir peningar skila sér ekki í velferðina. Þeir sem mest eiga koma peningunum sínum í skattaskjól, og boða svo skattalækkanir.
Hvar annarstaðar, nema í bananlýðveldum gæti það gerst að forsætisráðherra segi af vegna Panamaskjalanna og við taki annar forsætisráðherra sem einnig er í Panamaskjölunum og jafn spilltur. Hér hefur heldu ekki verið umræða að ráði um Tisa-samningana, sem eru hrollvekjandi. Aðild að ESB er sunnudagaskóli í samanburði við þau ósköp.
Firran frá því fyrir hrun, stéttaskipting, himinháar bónus- og arðgreiðslur fjármálafyrirtækja og einkavinavæðing, allt þetta er í gangi fyrir framan nefið á okkur og persónulega finnst mér ég oft vanmáttug og lítil og að hér sé ekki hægt að breyta neinu. En það er hægt. Verkalýðsfélögin eru að rísa upp og vonandi er vakning í uppsiglingu.
Staðreyndin er að hér lifir fólk undir fátæktarmörkum og hafi það ekki verið þunglynt fyrir verður það veikt af áhyggjum. Og greiðslumat, hvað er það? Fólk borgar 250 þúsund í leigu fyrir ómögulegt húsnæði, en kemst þó ekki í gegnum greiðslumat til að kaupa með hagstæðari afborgunum. Þetta er algjörlega galið. Við erum líka með ofboðslega sterka hefð fyrir því að fólk þurfi að eiga húsnæði, en vantar sárlega óhagnaðardrifin leigufélög þannig að fólk geti verið á leigumarkaðnum.
Það er svo ótal margt sem þarf að gera, menntakerfið er í molum, börn sem ekki passa í normið eru úti í kuldanum þar sem vantar úrræði. Leikskólakennarar eru á smánarlaunum og þar vantar alltaf starfsfólk, þeir sem hugsa um börnin okkar eru minna virði en þeir sem passa peninga. Það er viðurstyggilegt og forgangsröðunin er kolröng.
Ég veit eiginlega ekki hvað sveitastjórnin í Kópavogi er að gera, sennilega ekkert til að bæta aðstæður og lífskjör almennings. Hér hefur til dæmis ekki verið bætt við félagslegu húsnæði að neinu marki undanfarin ár.
Það sem hefur gerst undanfarin tvö, þrjú ár er að þjóðin er þreytt. Ég hef fengið að heyra oftar en einu sinni að ég sé neikvæð, sé að tala niður góðærið. Það er gott og blessað að vera jákvæður, en að vera í afneitun er grafalvarlegt mál og þýðir einfaldlega að ekkert breytist.
Það er orðið svo miklu algengara að fólk á mínum aldri sé eitt og búi við erfiða fjárhagsstöðu og margir sem daga uppi í einsemd og einangrun. Það er náttúrulega engum hollt að skríða svo langt inn í skelina að reka helst aldrei út nefið. Við sem búum við erfið lífskjör fáum kvíðahnút í magann þegar eitthvað stendur til eins og jól, afmæli og fermingar. Það er líka afskaplega leiðinlegt að geta ekkert aðstoðað börnin sín.
Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að biðja um aðstoð, en þegar maður þarf ítrekað að sækja sér hjálp endar maður á því að loka sig af, með fáránlega skömmina og tilfinningu fyrir því að eiga ekkert gott skilið. Við sem erum í þessari stöðu eigum að rísa upp, þora að tala um jafnrétti og bræðralag, trúa því að með sameiginlegu átaki sé hægt að gera þetta samfélag lífvænlegt og gott fyrir alla. Það er nefnilega hægt.
Edda Jóhannsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Kópavogi #valdiðtilfólksins