Daníel vill hækka lágmarkslaun í Reykjavík
Frétt
17.05.2018
„Það sem kom í ljós í Hörpu er ekki einsdæmi heldur því miður vanaleg framkoma hjá stjórnendum fyrirtækja og stofnana borgarinnar gagnvart lægst launaða starfsfólkinu,“ segir Daníel Örn Arnarsson, stjórnarmaður í Eflingu og annar maður á lista sósíalista í Reykjavík. „Undanfarna áratugi hefur verið gengið á réttinda verkafólks, launum hinna lægst launuðu haldið niðri, það skorið frá starfsmannahópnum með útvistun og samningum við starfsmannaleigur, verkfallsréttur þess skertur og dregið með öðrum hætti úr kjörum, réttindum og völdum launafólks. Allt í anda nýfrjálshyggjunnar. Og þessar hugmyndir hafa skotið rótum í fyrirtækjum og stofnunum borgarinnar. Þær rætur þarf að rífa upp.“
Daníel segir að nauðsynlegt sé að drepa nýfrjálshyggjuna en það verkefni sé margþætt, eyðilegging þessa hugmyndakerfis sé svo víða og skemmdirnar svo miklar. „Tökum bara starfsmannahópinn,“ segir Daníel. „Hvað er eðlilegt við það að stjórnendur og fólkið sem skúrar skrifstofurnar hjá þeim tilheyri ekki sama starfsmannahópi? Fólkið sem þrífur skrifstofurnar vinnur hjá fyrirtæki út í bæ, oft hjá fyrirtæki í eigu fjölskyldu fjármálaráðherra. Það fer ekki á árshátíð með öðrum af vinnustaðnum, það er ekki haft með í ráðum um neinar ákvarðanir, það fær ekki að borða í mötuneytinu og er í huga stjórnendanna algjörlega annars eða þriðja flokks, ekki bara í launum heldur menningarlega. Láglaunafólkið tilheyrir ekki vinnustaðnum, það er búið að höggva það frá. Stéttaskiptingin er orðin algjör, eins og fólk sem lifir í algjörlega aðgreindum heimum, sitthvorri Reykjavíkinni.“
Daníel segir það ömurlega þróun að Reykjavíkurborg elti einkafyrirtæki, sem rekin eru fyrst og síðast til að skila eigendum sínum gróða, í að brjóta niður kjör og réttindi launafólks. „Reykjavíkurborg er félagið okkar allra, samfélagið okkar. Af hverju rekur Reykjavíkurborg sína starfsemin eins og hún sé grimmur kapítalisti sem vill kreista sem mest út úr starfsfólkinu, fá það til vinna eins mikið og mögulegt er fyrir eins lág laun og mögulegt er? Til hvers er það? Misstum við ekki sjónar af tilganginum? Ekki er þetta leiðin til að búa til gott samfélag? Var það ekki tilgangurinn?“ spyr Daníel.
Daníel segir að inn á borð stjórnar Eflingar – stéttarfélags komi fjölmörg dæmi um ömurlega framkomu við launafólk. Fyrirtæki brjóti á rétti fólksins, greiði því smánarlaun og hlunnfari það svo með leigu á húsnæði líka. „Samfélagið okkar er að breytast hratt. Innflytjendur fylla æ stærri hluta af láglaunastörfunum og því miður er það svo að margir fyrirtækjaeigendur nýta sér að innflytjendur hafa oft veikari félagslega stöðu, er óvissir um rétt sinn og veigra sér við að sækja hann af ótta við að missa húsnæði, landvistarleyfi eða koma sér á annan hátt í bobba. Í slíku ástandi á Reykjavíkurborg að vera til fyrirmyndar og standa með hinum verr stæðu. Og alls ekki að éta upp aðferðir einkafyrirtækja og framkomu þeirra við starfsfólkið. Reykjavík er félagið okkar allra, ekki bara þeirra sem fljóta ofan á,“ segir Daníel.
„Borgarmálin eru kjaramál og verkalýðsmál,“ segir hann. „Reykjavíkurborg er stór vinnustaður og líklega með allra stærstu láglaunavinnustöðum landsins. Er það það sem við viljum? Að félagið okkar sé meðal þeirra fyrirtækja sem borga lægstu launin og útvisti verkefnum til undirverktaka til að fría sig ábyrgð á starfsfólkinu, fólkinu sem vinnur erfiðustu og verst launuðu störfin?“
Daníel bendir á að í Bandaríkjunum hafi stærstu borgirnar samþykkt að hækka lágmarkslaun upp í 15 dollara á tímann þótt þau lágmarkslaun sem þingið hafi samþykkt séu aðeins 7,25 dollarar. „Aðstæður eru ekki þær sömu í Reykjavík, borgarstjórn getur ekki ákveðið lágmarkslaun hjá einkafyrirtækjum. En Borgin getur hækkað lægstu launin sem hún sjálf greiðir, tryggt að þau dugi fyrir framfærslu. Það gengur ekki að félagið okkar borgi fólki minna en það kostar að lifa. Borgin getur líka sett sér reglur um að kaupa ekki vöru og þjónustu af fyrirtækjum sem borga starfsfólkinu lægri laun en duga fyrir fæði, klæði og húsnæði. Það ætti að vera fyrsta skilyrði, að laun fólks dugi til að halda sér á lífi,“ segir Daníel.
Og hver ættu lágmarkslaun borgarinnar að vera?
„Það mætti stefna á 400 þúsund krónur á mánuði sem fyrst,“ segir Daníel, „og hækkað viðmiðunina ef það dugar ekki. Við verðum að komast út úr láglaunastefnunni. Hún er eitur sem grefur undan samfélaginu. Og eitt er að eiga í þessari baráttu við einkafyrirtæki, en það bara gengur ekki að okkar sameiginlega félag, sveitarfélagið okkar allra, taki þátt í hernaði hinna ríku gegn lægst launaða fólkinu. Það er algjörlega geggjað ástand. Við verðum að stoppa þetta. Strax.“