Vilja könnun á umfangi útvistunar og kjörum láglaunafólks
Frétt
19.06.2018
Í dag leggur Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, fram tillögu í nýkjörinni borgarstjórn Reykjavíkur um að könnun verði gerð á umfangi útvistunar, verktakasamninga við launafólk og starfsmannaleiga í stofnunum og fyrirtækjum á vegum Reykjavíkurborgar og félögum sem borgin á hlut að. Tilefnið er meðal annars nýleg afhjúpun á kjörum og réttarstöðu starfsfólks í Hörpu og hvernig stjórn og stjórnendur opinbers félags töldu það hlutverk sitt að berja niður kjör og réttindi verst launaða starfsfólksins.
Í greinargerð tillögunnar segir að mótmæli lægst launaða fólksins í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, hafi dregið athygli borgarbúa að því hversu algeng verktakavinna og önnur útvistun var í störfum sem áður voru unnin af fólki í fastri vinnu og með full réttindi launafólks. Þetta gefur tilefni til víðtækrar könnunar á umfangi slíkra verktakasamninga og annari útvistun á vegum borgarinnar og stofnunum og fyrirtækjum sem hún tengist. Undanfarin ár hafa einkafyrirtæki nýtt sér starfsmannaleigur og verktakasamninga til að skerða rétt launafólks, færa það frá þeim réttindum sem hinn hefðbundni vinnumarkaður tryggir og út í óvissu tímabundinna verktakasamninga. Þessi tilhögun hefur líka brotið upp starfsmannahópa, sem skiptast nú orðið oft á tíðum í betur launað fólk sem er fastráðið og lægra launað fólk sem ekki er ráðið til þess fyrirtækis eða stofnunar þar sem það sinnir verkefnum heldur vinnur ýmist hjá sjálfu sér eða hjá óskyldu fyrirtæki. Þetta hefur haft mikil áhrif á vinnustaði, búið þar til stéttaskiptingu og gert verst launaða fólkið enn verr sett á vinnustað en það áður var. Lagt er til að gerð verði könnun á öllum vinnustöðum á vegum borgarinnar og umfang verktöku, starfsmannaleiga og útvistunar mæld og starfsfólki gefin kostur á að tjá sig um þróun undanfarinna ára.
„Útvistun og starfsmannaleigur hafa stórskaðað réttindi starfsfólks, ekki bara hérlendis heldur út um allan heim. Þetta er eitt af eituráhrifum nýfrjálshyggjunnar, ein af tækjum hinna ríku til að brjóta niður samfélagið“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista og stjórnarmaður í Eflingu, stéttarfélagi. „Við þurfum að glíma við þessa óáran hjá einkafyrirtækjum, en afhjúpunin í Hörpu sýndi að þetta mein nær langt inn í opinbera geirann. Víða er búið að höggva frá fólkið sem þrífur eða sér um matinn út úr starfsmannahópnum, það er ekki lengur borgarstarfsmenn heldur vinnur hjá óskyldu fyrirtæki út í bæ. Og oft vinnur það hjá Dögum, fyrirtæki sem er í eigu fjölskyldu fjármálaráðherrans. Þetta er að sögn gert til að spara hjá hinu opinbera en sparnaður er fyrst og fremst fólginn í því að fá utanaðkomandi félag til að berja niður kjör og réttindi lægst launaða fólksins. Hið opinbera er í raun og sann að greiða eigendum þessara félaga, meðal annars eins í eigu fjölskyldu fjármálaráðherrans, fyrir að berja niður kjör verst setta launafólksins. Þetta er ekki bara spilling samfélagsins, þetta er úrkynjun.“
Sanna og Daníel segja að þessi breyting á vinnumarkaðnum hafi verið keyrð áfram án þess að afleiðingarnar lægju fyrir. „Og það er sammerkt með öllum breytingum nýfrjálshyggjunnar,“ segir Sanna. „Þær voru keyrðar í gegn án þess að afleiðingarnar væru skoðaðar. Þetta átti til dæmis við um um niðurbrot tekjuöflunarkerfis ríkis og borgar. Skattar og gjöld voru felld niður á hinum ríku án þess að óhjákvæmilegar afleiðingar þess væru ræddar; það er hækkun skatta á launafólk, niðurskurður opinberrar þjónustu og aukin gjaldtaka innan velferðar-, skóla- og heilbrigðiskerfisins. Útvistun verkefna frá hinu opinbera er sögð spara fé en fátt bendir til þess að svo sé. Það sem gerist er að vinnuálag á verst launaða fólkið eykst, kjör þess versna, fólkið býr við meira álag og verður slitið fyrr. Ætlaður sparnaður er því keyrður á baki hinna verst settu. Og hið opinbera fær ekki ávinninginn heldur eigendur fyrirtækja sem taka yfir verkefni sem áður var sinnt af borgarstarfsmönnum.“
„Nýleg könnun breska ríkisendurskoðunarinnar á hundruðum verkefna sem höfðu verið útvistað frá hinum opinbera sýndi að svo til ekkert þeirra hafi skilað skattgreiðendum ávinningi, sum sýndu engan ávinning fyrir almenning en lang flest fólu í sér aukinn kostnað fyrir skattgreiðendur og notendur og skert kjör starfsfólksins. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart,“ segir Daníel. „Nýfrjálshyggjan er vond stefna. Það er vond stefna sem setur hagsmuni hinna ríku ávallt í fyrsta sæti. Það ætti að vera flestum augljóst.“
Sanna segir að því miður sé erfitt að átta sig á umfangi útvistunar, gerviverktöku eða starfsmannaleigu hjá Reykjavíkurborg. „Þess vegna viljum við kanna þetta,“ segir Sanna. „Það er ekki hægt að bregðast við samfélagsbreytingum nema vita hvert umfang og eðli þeirra er. Og þess vegna er ekki nóg að sjá tölur á blaði. Við viljum heyra í fólkinu sem hefur upplifað þessar breytingar. Hvaða áhrif hefur það á stöðu þess að vera flutt út úr starfsmannahópnum og yfir í óskylt félag? Hver er breytingin á stöðu og kjörum ræstingarfólks í dag og frá þeim tíma að það var ráðið beint af viðkomandi stofnun? Hefur stéttskipting aukist á vinnustöðum? Má greina vaxandi fjarlægð stjórnenda frá starfsmönnum, eru þeir hrokafyllri og á starfsfólkið erfiðara með að fá áheyrn eða hafa áhrif? Allt eru þetta spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við svo við getum mótað nýja starfsmannastefnu.“
„Það er alla vega ljóst að við erum komin út í ógöngur,“ segir Daníel. „Það er alvarlegt vandamál að eigendur einkafyrirtækja beiti svona starfsmannastefnu gegn sínu launafólki en það er fullkomlega fráleitt að Reykjavíkurborg, félag okkar borgarbúa, api þetta eftir. Eru það hagsmunir borgarbúa að staða hinna verst settu á vinnumarkaði verði gerð enn veikar? Ég kannast ekki við þá kröfu eða um þetta hafi nokkru sinni verið kosið og ég efast um að fyrir þessu sé nokkurt fylgi meðal borgarbúa. Reykvíkingar vilja sanngjarnt og réttlátt samfélag. Alla vega þeir Reykvíkingar sem ég hitti og tala við.“