Uppreisnartímar: Hvernig við enduðum uppi með ruslhagfræði

Ritstjórn Pistill

Í þessu viðtali fyrrum stríðsfréttaritarans og aðgerðarsinnans Chris Hedges á netstöðinni The Real News Network við hagfræðinginn Michael Hudson er fjallað um sögu klassískrar hagfræði og túlkun Marx á kapítalisma sem rányrkju. Samtalið fór fram í tveimur þáttum og átti fyrri hlutinn sér stað þann 22. mars 2016.

Michael Hudson heldur því fram að hinn vestræni heimur sé á hraðleið aftur til sjálfsþurftarbúskapar lénsskipulagsins, í þetta sinn undir ægivaldi nýfrjálshyggjunnar. Fjöldinn er nú þegar staddur í botnlausu skuldafeni og þjóðríkin eru flest meira eða minna komin ofan í sama pytt. Þetta er sú framtíð, hið mikla uppgjör, sem blasir við handan við hornið, eða þegar til „lengri tíma er litið“ eins og málpípum kauphalla og banka er tamt að orða það (markaðurinn getur að vísu ekki „hugsað“ lengra en til 2-3 ára í senn, vanalega aðeins í ársfjórðungsuppgjörum). Það mun ekki taka nema örfáa áratugi, segir Hudson, að reka smiðhöggið á þessa þróun nema harkalega sé spyrnt við fótum ­– og það núna strax – rétt eins og nauðsynlegt er að bregðast skjótt við hlýnun jarðar og þeirri hrikalegu mengun sem fylgir síðkapítalismanum.

Hudson er doktor í hagsögu (e. macroeconomics) og forseti Stofnunar um langtíma efnahagshorfur (Institute for the Study of Long Term Economic Trends), auk þess að vera fjármálgreinandi á Wall Street og mikilsvirtur rannsóknarprófessor í hagfræði við Missouri-háskóla í Kansas-borg. Hann er höfundur fjölmargra greina og bóka, m.a. Ofurheimsvaldastefna (Super Imperialism, 1972), sem fjallur um hvernig BNA arðrændi önnur lönd gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og Alþjóðabankann (World Bank). Eftir hann liggja einnig skrif á borð við „Goðsagan um þróunaraðstoð og hið hnattræna uppbrot“ (The Myth of Aid and Global Fracture), „Handan fjármálahrunsins; hin efnahagslega upprisa úr helvíti“ (The Bubble and Beyond; The Financial Recovery Plan from Hell, 2012), „Fjármálakapítalismi og andstæðingar hans“ (Finance Capitalism and its Discontents, 2012), „Vinnan í fornöld“ (Labor in the Ancient World, 2015) og nú síðast „Niðurlög hýsilsins“ (Killing the Host). Af nýlegum greinum eftir hann má nefna „Orwellskar mótsagnir“ (Orwellian Doublethink), „Lygavefur nýfrjálsrar hagfræði“ (The Lies of Neoliberal Economics), „Tungumál blekkinganna“ (The Language of Deception), og „Flóttaáætlun fámennisklíkunnar“ (The Oligarch’s Escape Plan).

 

Chris Hedges: Mig langar til að ræða um hina miklu Ponzi-svikamyllu, sem á ekki aðeins við um Bandaríkin heldur allt hagkerfi heimsins í dag, og hvernig þetta gat gerst. Í seinni hlutanum munum við velta fyrir okkur betur hvert stefnir. Með mér til að rýna í þessi mál er hagfræðingurinn Michael Hudson, höfundur bókarinnar „Niðurlög hýsilsins: hvernig fjármagnsafætur og skuldafjötrar rústa efnahagskerfi heimsins“ (Killing the Host: How Financial Parasites and Debt Bondage Destroy the Global Economy, CounterPunch 2015). Nú vannst þú í mörg ár á Wall Street þar sem menn ná ekki almennilegum árangri nema þeir skilji kjarnann í kenningum Marx, nefnilega að kapítalisminn gengur út á rányrkju. Mig langar til að opna þessa umræðu með tilvitnun í bók þína, sem ég dáist mjög að og snertir á því sem við ætlum að ræða um hér. Þú bendir á að Adam Smith hafi snemma veitt því athygli að gróðinn er vanalega mestur hjá þeim þjóðum sem hraðast stefna að sinni eigin tortímingu.

Hægt er að stuðla að efnahagslegu sjálfsmorði heillar þjóðar á marga vegu. Algengasta leiðin til þess hefur yfirleitt falist í því að skuldsetja efnahagslífið. Skuldirnar halda áfram að hrannast upp þar til að stór hluti samfélagsins hefur ekki lengur tök á því að greiða þær til baka. Þegar það gerist fara strangar aðhaldsaðgerðir (e. austerity measures) í gang og eignatilfærsla á fjármunum rennur að mestu leyti til eina prósentsins á kostnað allra hinna.

En svona viðamikil skuldsetning hefur hins vegar aldrei fyrr átt sér stað af ásettu ráði. Henni er meira að segja fagnað, engu líkara en að skuldararnir geti orðið ríkir með því að taka bara á sig meiri lán, í stað þess breyta þeim aðstæðum sem leiða til skuldaþrælkunar (e. debt peonage). Við skulum því byrja á klassísku hagfræðingunum sem svo sannarlega skildu við hvað var að kljást. Þeir voru að sjálfsögðu að bregðast við lénsveldinu. Hvaða gerðist í þessum svokölluðu hagfræðirannsóknum sem varð til þess að renna stoðum undir þennan alþjóðlega leikvang spákaupmanna sem nú ræður lögum og lofum?

Michael Hudson: Inntak klassískrar hagfræði snerist um umbætur á iðnaðarkapítalismanum, um það að straumlínulaga hann, og leysa efnahagskerfi Evrópu undan arfleifð lénsskipulagsins. Þetta fyrirkomulag gekk einfaldlega út á það að landeigendur rukkuð leigu af jörðum sínum sem yfirstétt án þess að framleiða nokkurn skapaðan hlut. Sömu sögu er að segja um bankana þegar iðnaðarsamfélaginu tók að vaxa fiskur um hrygg, allt frá James Watts og gufuvél hans til innreiðar járnbrautanna og þar fram eftir götum.

Hedges: Í bók þinni kemur fram að bankarnir fjármögnuðu almennt ekki iðnfyrirtækin.

Hudson: Einmitt, þeir gerðu það reyndar aldrei í fyrstu. Þegar Marx fór að láta til sín taka á seinni hluta 19. aldar voru í gangi heitar umræður, aðallega í Þýskalandi, um hvernig hægt væri á láta bankana sinna nýju hlutverki sem var með öllu óþekkt á dögum lénsskipulagsins. Núna sölsa ekki aðeins landeigendur undir sig rekstrarhagnað atvinnulífsins heldur einnig bankar og eigendur ríkisskuldabréfa. Adam Smith var eindregið á móti nýlendustefnunni vegna þess að hún leiddi til styrjalda, sem leiddu svo aftur til opniberra skulda. Hann sagði að til að koma í veg fyrir að þessi fjármálastétt ríkisskuldabréfaeiganda, sem íþyngdu efnahagslífinu með því að knýja fram stöðugt hærri skatta á nauðsynjavörur í hvert sinn sem stríð brytist út, yrði að fjármagna hernaðarbröltið eftir hendinni (e. pay-as-you-go). Í stað þess að taka lán ætti að skattleggja almenning beint. Hann hélt að þá myndu allir finna betur fyrir kostnaðinum vegna stríðsátaka í formi hærri skatta og alfarið leggjast gegn þeim.

Hvað sem því líður þá tók alla 19. öldina að berjast fyrir lýðræði og færa kosningaréttinn úr höndum þingmanna til almúgans þannig að fjöldinn, venjulegir karlar og konur, gátu greitt atkvæði en ekki einungis landeigendur sem stýrðu stjórninni, löggjafanum og skattheimtukerfinu í gegnum lávarðadeild breska þingsins. Kenningin var sú að samfélagið sem heild myndi kjósa með sína eigin hagsmuni að leiðarljósi. Það myndi kjósa 99 prósentunum í vil, ekki þessum eina hundraðshluta. Marx fylgdist grannt með því sem var að gerast í Þýskalandi. Upp úr 1870 voru þarlendir bankar farnir að búa til peninga í samvinnu við ríkisstjórnina með lánveitingum til þungaiðnaðar, einkum og sér í lagi til hergagnaiðnaðarbáknsins (e. military-industrial complex).

Hedges: Þetta var að vissu leyti samfélagssýn Bismarcks … ég veit ekki hvað ætti að kalla það, einhvers konar samfélagskapítalisma.

Hudson: Þeir kölluðu það ríkiskapítalisma. Engels velti þessu mikið fyrir sér og sagði mönnum að hafa sig hæga. Við aðhyllumst sósíalisma, sagði hann. Við erum ekki að meina ríkiskapítalisma þegar við tölum um sósíalisma …

Hedges: Mig langar til að skjóta hér inn í, að það var ákveðin snilld á bak við stjórnmálastefnu Bismarcks því hann skapaði ríkiseftirlaun og heilbrigðistryggingarsjóð og beindi bönkunum í átt að iðnaði. Þetta ýtti undir hina hröðu iðnaðaruppbyggingu sem átti sér stað í Þýskalandi, en hún var talsvert frábrugðin því sem gerðist í Bretlandi og Bandaríkjunum eins og þú bendir á.

Hudson: Þýskum bönkum vegnaði svo vel að þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á varð uppi fótur og fit í enskum efnahagstímaritum sem lýstu yfir áhyggjum af því að Þýskaland gæti hugsanlega sigrað vegna þess að það var miklu betur í stakk búið til að fjármagna iðnaðinn. Nútímahernaður getur ekki þrifist án iðnaðar. Breskir bankar lánuði aftur á móti einungis til erlendra verslunarviðskipta og nýrra landvinninga í nafni krúnunnar, braskara og lukkuriddara gróðabrallsins. Þeir vildu skjótfengin hagnað á meðan þýsku bankarnir sýndu meiri þolinmæði þótt þeir heimtuðu ekki síður hagnað frá sínum helstu viðskiptavinum, eigendum verksmiðjanna.

Þýsku bankarnir keyptu bæði hlutabréf og skuldabréf og áttu í mun nánari samvinnu við viðskiptalífið. Mestalla 19. öldina ímynduðu menn sér að heimurinn væri á góðri leið með að samfélagsvæða bankana, að færa kapítalismann úr höndum lénsskipulagsins og losna þannig við landeigendastéttina í eitt skipti fyrir öll. Þar með yrðu tvær flugur slegnar í einu höggi, leiga og vextir myndi heyra sögunni til. Að lokum snerist þetta aðeins um fjármagn og vinnu, laun og hagnað, þar sem ágóðinn yrði notaður til að endurfjárfesta í meira fjármagni. Fyrir vikið breiddust framfarir tækninnar út öllum til hagsbóta. Satt að segja héldu margir að innan tíðar myndi almenningur búa við fullkomin lífsskilyrði, lágmarks vinnuframlag og ómældar frístundir sem fólk gæti notað á skapandi hátt til að verða að betri manneskjum.

Hedges: Þar á meðal Karl Marx.

Hudson: Það var hans stærsti draumur. Í mesta lagi tíu stunda vinnuvika, hélt hann fram, fræðilega miklu minna. Marx aðhylltist ekki beinlínis „Arbeit macht frei,“ að vinnan gerði mennina frjálsa. Í hans augum átti sósíalisminn að rísa upp úr rústum endurbætts ríkiskapítalisma, eins og virtist mögulegt á þeim tíma, svo fremi að vinnuaflið flykktist saman um sína eigin hagsmuni.

Hedges: Sú von rættist að sjálfsögðu aldrei, m.a. vegna þessa að Þjóðverjar töpuðu fyrri heimsstyrjöldinni, en líka vegna þess að við gleyptum við kenningum hagfræðinga á borð við Adam Smith og John Maynard Keynes. Ég veit ekki hverja þú vilt skella skuldinni á, David Ricardo eða einhverja aðra. Útkoman var einhvers konar ímyndunarhagfræði (e. fictitious economic theory), hugmyndafræði sem vegsamar leigusalana, þennan leigu- og ávöxtunarkapítalsima sem stendur í vegi fyrir Því að atvinnulífið geti lyft mannkyninu upp á nýtt og betra plan. Hvað gerðist eiginlega?

Hudson: Í stuttu máli þá olli Marx klassískri hagfræði fjörtjóni með því að taka hugmyndir Adam Smiths, John Stuart Mills og annarra vinsælla kennismiða og leiða þær að hinni rökréttu niðurstöðu. Talsmenn framsækins kapítalisma, Ricardian-ískir sósíalistar eins og John Stuart Mills, vildu skattleggja landið úr höndum jarðeiganda eða þjóðnýta það. Marx vildi hins vegar að ríkisstjórnirnar yfirtækju þungaiðnaðinn og byggðu upp innviði samfélagsins með það fyrir augum að útvega ódýra og – þegar fram liðu stundir – algjörlega ókeypis grunnþjónustu.

Landeigendastéttin, þetta núll-komma-eina prósent, kom í veg fyrir það. Hún sneri vörn í sókn og heimtaði að markaðsvæða allt milli himins og jarðar. Hún veitti einfaldlega lán sem skilaði henni góðum leigutekjum. Enginn þessara klassísku hagfræðinga gátu gert sér í hugarlund hvernig hagsmunir lénsfyrirkomulagsins ­– þessi sterki sérhagsmunahópur sem hafði allt landið og peningana í hendi sér – myndu í rauninni berjast á móti og að lokum fara með sigur af hólmi. Þeir héldu að framtíðin tilheyrð fjármagni og vinnu, en undir lok 19. aldar komu menn eins og Ameríkaninn John Bates Clark [d. 1938] fram á sjónarsviðið með algjörlega nýja hagfræðikenningu sem hafnaði klassískum viðmiðum Adam Smiths, auðfræðingum landbúnaðarstefnunnar (e. physiocrats) og John Stuart Mill.

Hedges: Eins og þú gerir grein fyrir í bókinn tilheyrðu físiókratarnir 18. aldar hagfræði frönsku upplýsingarstefnunnar, en þeir litu á landbúnað sem uppsprettu allra verðmæta og töldu að stofnanir samfélagsins ættu að endurspegla þá náttúrulegu skipan mála.

Hudson: Einmitt. Samnefnari þessara klassísku hagfræðinga var aðgreining á milli áunninna og óáunninna tekna. Óáunnar tekjur voru leiga og vextir. Áunnar tekjur voru laun og hagnaður. En þá kom áðurnefndur John Bates Clark til skjalanna og sagði að það væri ekkert til sem hægt væri að kalla óáunnar tekjur. Hann vildi meina að landeigandinn ynni í raun og veru fyrir ávöxtun sinni með því að leggja á sig það erfiði að útvega hús og land til leigu. Hlutverk bankanna var fyrst og fremst að annast lánveitingar sem gáfu þeim ásættanlega ávöxtun. Allt tekjustreymi var þar af leiðandi áunnið og hver einasti maður vann því heiðarlega fyrir sínum tekjum. Samkvæmt þessari skilgreiningu eiga allir sem sanka að sér auðæfum velgengni sína svo sannarlega skilið, auk þess sem þakka ber auðmönnum sérstaklega fyrir að stækka þann pott sem við köllum núna verga landsframleiðslu (e. Gross Domestic Product, GDP).

Hedges: Eitt af því sem þú dregur fram í bókinni er að þeir sem höfðu tök á því að að búa til peninga með þessu sníkjudýralífi á leigu og vöxtum höfðu upphaflega næstum undantekningarlaust rænt og tekið jarðirnar með valdi, hlotið þær í arf eða eignast þær á spottprís, sbr. landnýtingarhreyfinguna í upphafi 17. aldar (e. enclosure movement).

Hudson: Laukrétt. Tekjur jarðeigenda voru með öðrum orðum óáunnar. Afleiðing þessarar andklassísku byltingar, sem átti sér stað í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldar, er sú staðreynd að næstum allur hagvöxtur síðasta áratugar hefur runnið til eina prósentsins. Hann fer til Wall Street, fasteignamógúla, vogunarsjóða.

Hedges: Og þú kennir ruslhagfræði, eins og þú kallað það, um þetta ástand.

Hudson: Ruslhagfræði er hið andklassíska andsvar.

Hedges: Útskýrðu aðeins betur hvernig þessi tilbúna aðferð til að mæla hagkerfið virkar í raun og veru.

Hudson: Gott og vel. Ekki alls fyrir löngu fór ég í banka skammt héðan, Chase Manhattan, og tók peninga út úr hraðbankanum. Þegar ég hafði lokið mér af og sneri mér við biðu mín tveir þjófar gráir fyrir járnum. Annar hrinti mér um koll og hinn greip peningana og hljóp í burtu. Öryggisvörðurinn sá til okkar og bar vitni um að árásin átti sér stað í bankanum. Ég bað þess vegna um að fá peningana endurgreidda. Ég var rændur í bankanum ykkar, sagði ég, inni í honum sjálfum og furðaði mig á því að öryggisvörðurinn hefði ekki gripið til sinna ráða. Mér var tjáð að verðirnir bæru ekki vopn vegna þess að ef þeir skytu einhvern gæti þjófurinn lögsótt þá og það vildu þeir alls ekki. Þeir gáfu mér sömu upphæð til baka.

Ímyndaðu þér núna að við tækjum alla glæpi með inn í reikninginn, alla peningana sem stolið hefur verið og bættum þeim við verga landsframleiðslu vegna þess að afbrotamennirnir hafa innt ákveðna þjónustu af hendi; þeir voru jú svo vænir að sleppa mér lifandi. Eða hugsum okkur að einhver sé króaður af við hraðbanka og ræninginn segir við hann eða hana, peningana eða lífið. Þú afhendir honum peningana. Ræninginn hefur þar með gefið þér kost á því að velja lífið. Verg landsframleiðsla er á vissan hátt reiknuð út svona. Þjófarnir starfa ekkert á ósvipuðum nótum og Wall Street sem mergsýgur peninga út úr hagkerfinu. Síðan blóðmjólka auðvitað landeigendurnir líka sínar kýr.

Hedges: Látum oss sjá, þeir sjúga peninga út úr hagkerfinu í gegnum skuldaþrælkun með því að pumpa upp vextina …

Hudson: Einfaldlega með því að sópa til sín hagnaði án þess að sinna neinu framleiðsluskapandi hlutverki.

Hedges: Einmitt, þetta gengur út á kreditkortavexti, íbúðalánsvexti, bílalán, námslán, vexti og vaxtavexti. Þannig verða hinir digru sjóðir þeirra til.

Hudson: Nákvæmlega. Peningar eru ekki partur af neinu framleiðsluferli. En til þess að fá lán, til að framkvæma eitthvað eða öðlast menntun, þá verður þú að borga bönkunum rentur. Rétt hjá New York háskóla er t.d. Citibank. Mig minnir að fólk á vegum bankans hafi setið í stjórn háskólans. Þarna nærðu nefnilega betur til nemenda sem eru að hefja sína háskólagöngu og þurfa á banka í borginni að halda. Og þegar þú ert á annað borð orðinn viðskiptavinur bankans og byrjaður að taka reglulega út peninga af reikningnum þínum fyrir rafmagni og hita eða hverju sem er, þá getur reynst erfitt að skipta um hest í miðri á enda halda flestir sig ævilangt við sama bankann.

Þannig að í stuttu máli ertu kominn með það sem klassískir hagfræðingar kölluðu leigusala (e. rentier class), þjóðfélagshópinn sem lifir á vöxtum; landeigendur, alls konar sérleyfishafa, sem geta rukkað mun meira en samkeppnisaðilarnir, og banka. Ef þú rekur lyfjafyrirtæki sem hækkar skyndilega verðið á lyfi í skjóli einkaleyfis úr 12 dollurum í 120 dollara, nú þá rýkur hagnaðurinn upp. Hækkun verðmiðans er talinn til aukinnar landsframleiðslu vegna þess að varan skilar meira af sér til efnahagskerfisins. Og því tala menn um hagvöxt enda þótt að þessi svokallaði hagvöxtur renni nánast óskiptur til eina prósentsins. En hið eiginlega efnahagskerfi er samt ekkert að stækka.

Hedges: Vegna þess að endurfjárfestingar eiga sér varla stað.

Hudson: Það er heila málið. Þetta er ekki framleiðsla heldur neysla. Auðlegð eina prósentsins byggir að mestu leyti á lánum til 99 prósentanna og vöxtunum af þeim útlánum, en þeir vextir eru svo endurnýttir til að margfalda ávöxtunina með stigvaxandi hætti (e. algorithmic multiplicity).

Hedges: Útskýrðu aðeins nánar hvers vegna það er mikilvægt fyrir hagkerfið að taka þessar tekjur leigusalanna með inn í reikninginn sem hluta af landsframleiðslunni. Hvers vegna skiptir það máli?

Hudson: Fjármálarisinn Goldman Sachs er gott dæmi. Forstjórinn, Lloyd Blankfein, lét hafa eftir sér að starfsmenn fyrirtækisins væru þeir afkastamestu í heimi. Þess vegna fengju þeir svona vel borgað. Hugmyndin um framleiðslugetu Bandaríkjanna byggist á tekjum deilt með vinnu. Þannig að ef þú starfar hjá Goldman Sach og skammtar þér 20 milljónir dollara í laun og bónusa á ári er litið svo á að þú hafir aukið verga landsframleiðslu um 20 milljónir dollara – og það þykir alveg rosalega framleiðsluskapandi. Þannig að við erum að fást við tvítekningar eða klifun (e. tautology), röksemdafærslu sem bítur í skottið á sjálfri sér.

Spurningin snýst um hvort Goldman Sachs, Wall Street og rányrkjulyfjabransinn bæti í alvöru einhverju við framleiðslugetuna eða hvort þetta lið er einfaldlega að arðræna annað fólk. Þess vegna nota ég orðið afætur í heiti bókarinnar. Fólk heldur að þessar afætur hirði aðeins af þeim peninga, sjúgi þá úr hýslum gegnum slíka fjármálagjörninga. En í sjálfri náttúrunni eru hlutirnir miklu flóknari. Afætan getur ekki allt í einu dúkkað upp og tekið eitthvað. Fyrst verður hún að deyfa hýsilinn. Hún býr yfir ensímum sem gera það að verkum að hýsillinn áttar sig ekki á því að hann er að næra afætuna. Og svo er afætan með annað ensím sem yfirtekur heilabú hýsilsins. Það hefur þau áhrif að hýsilinn ímyndar sér að afætan sé hluti af líkama hans, í raun bráðnauðsynlegur hluti af honum sjálfum, og þess vegna verður hann að vernda hana með öllum ráðum.

Þetta er í grunnatriðum það sem Wall Street hefur tekist að gera. Kauphöllin lætur í veðri vaka að hún sé hluti af efnahagskerfinu. Ekki eitthvað í kringum það, ekki eitthvað sem er fjöldanum óviðkomandi, heldur ómissandi líffæri sem hjálpar þjóðfélagslíkamanum að vaxa og dafna og ber í sjálfu sér mestu ábyrgðina á því að hann geti haldið áfram að stækka. Útkoman er viðsnúningur á klassískri hagfræði. Hún snýr Adam Smith á haus. Það sem klassísku hagfræðingarnir töldu tilheyra einskis nýtum sníkjudýrahætti er þegar öllu er á botninn hvolft hið raunverulega efnahagskerfi samkvæmt nýfrjálshyggjunni. Vinnuafl og iðnaður stendur í vegi fyrir því sem sníkjudýrið sækist eftir, sem er að fjölga sjálfu sér en ekki að hjálpa hýslinum, það er að segja vinnuafli og fjármagni.

Hedges: Klassísku hagfræðingarnir eins og Adam Smith héldu því stíft fram að væru tekjur leigusalanna – á okkar dögum t.d. hagnaður vogunarsjóða – ekki skattlagður upp í rjáfur og peningarnir settir aftur inn í hagkerfið mundi það fyrr eða síðar brotna niður. Í bókinni nefnir þú auðhringana (e. large corporations) sem fitna eins og púkar á fjósbita gegnum prettvísa (e. manipulation) sölu og endurkaup á hlutabréfum. Segðu okkur aðeins frá því.

[Innskot þýðanda: Útistandandi afleiðuviðskipti (e. derivatives) voru í kringum 530 billjarðar (e. trillions) dollara í ársbyrjun 2016, eða sem nemur sjöfaldri heimsframleiðslu. Til samanburðar er verg landsframleiðsla Bandaríkjanna núna um 16,77 billjarðar dollara og Þýskalands 3,73 billjarðar. Skuldir Bandaríkjamanna nálgast óðfluga 20 billjónir dollara ­– og eru þá margvíslegar aðrar skuldbindingar ríkisins ekki teknar með í reikninginn – sem þýðir að hvert einasta mannsbarn skuldar hátt í 50 þúsund dollara ofan á önnur persónuleg lán. Er nú svo komið að skuldir vegna námslána eru orðnar mun meiri en öll skuldasúpan í kringum kreditkortin, en námslánin ein og sér hljóða í dag upp á 1,3 billjarða dollara. Skuldir landsmanna vegna húsnæðislána tróna hins vegar ennþá í efsta sæti og halda stöðugt áfram að vaxa. Þær nema um þessar mundir í kringum 8,37 billjarða dollara. Til að setja skuldasöfnun Bandaríkjanna í örlítið sögulegt samhengi þá tvölduðust þær í forsetatíð Georg Bush yngri og næstum þrefölduðust meðan Barack Obama réði ríkjum í Hvíta húsinu, frá 5,84 billjörðum árið 2001 í núverandi stjarnfræðilegu upphæð. Árið 1835 skuldaði þjóðin hins vegar ekki krónu. Þáverandi forseti, Andrew Jackson, hafði ímugust á tveimur hlutum, bönkum og ríkisskuldum, sem hann taldi hið mesta þjóðarböl. Fyrir honum jafngiltu skuldir siðferðisbresti og það viðhorf að menn gætu eignast eitthvað með því að skuldsetja sig var að hans mati ekkert annað en argasti svartigaldur. Þessi góða staða ríkissjóðs varði þó ekki lengi. Fljótlega tóku hinir ýmsu fylkisbankar að prenta peninga á fullu sem endaði með rosalegri landareignabólu og einni verstu fjármálakreppu í sögu Bandaríkjanna.]

Hudson: Sú dilla gengur fjöllum ofar í hefðbundnum kennslubókum og fjölmiðlum (e. mainstream media) að ef fyrirtækin græði á tá og fingri þá sé það vegna þess að þau framleiði svo mikið.

Hedges: Þetta stendur ennþá í kennsluritunum, ekki satt?

Hudson: Jú, og sömuleiðis að ef verð á hlutabréfum hækkar þá sértu einungis að uppskera réttmætan hagnað. Ennfremur að verðgildi hlutabréfanna endurspegli fyrst og fremst framleiðslugetu fyrirtækjanna. En það hefur hins vegar ekki gerst í heilan áratug. Síðustu tvö árin hafa bandarísk stórfyrirtæki notað 92 prósent af hagnaði sínum til að kaupa sitt eigið hlutafé í von um að hækka verðið á bréfunum, sem síðan er greitt út sem arður.

Hedges: Hvers vegna er þetta gert?

Hudson: Sko, fyrir sirka 15 árum lýsti prófessor Michael Jensen við Harvard-háskóla því yfir að til að tryggja að fyrirtækin væru rekin með skilvirkum hætti yrðu stjórnendur þeirra að auka verðmæti hlutabréfanna. Ef þú lætur þess vegna stjórnendur fá kaupréttarsamninga (e. stock option) og greiðir þeim ekki í samræmi við hvað þeir framleiða mikið, þ.e. aukinn vöxt fyrirtækisins, heldur hversu hátt hlutabréfin eru skráð, nú þá segja menn að þér hafi tekist að reka það á skilvirkan hátt eins og fjármálkerfinu einu sæmir.

Forstjórarnir komust að því að það eru tvær leiðir til að hækka verðið á hlutabréfunum. Fyrst verður að draga úr langtíma fjárfestingum og nota peningana í staðinn til að kaupa hlutafé í eigin fyrirtæki. Að kaupa sín eigin hlutabréf þýðir að þú ert að setja peningana í myndun fjármagns (e. capital formation), ekki í uppbyggingu eða nýjar verksmiðjur. Og þú forðast að ráða fleiri starfsmenn. Þvert á móti geturðu aukið virði hlutabréfanna með því að reka þá sem fyrir eru, það sem í daglegu máli heitir að hagræða í rekstri.

Heges: Sú stjórnkænska virkar aðeins tímabundið.

Hudson: Eins og að pissa í skóinn. Að nota tekjurnar frá fyrri fjárfestingum mest megnis til kaupa á eigin hlutabréfum og hagræða endalaust í rekstri kreftst mun meira vinnuframlags frá þeim starfsmönnum sem eftir sitja. Eini tilgangurinn með svona háttalagi er að hámarka arðsemina. Þessi aðferðarfræði er sjálft ránsmódel auðhringanna. Þú notar peningana til að greiða áhættufjárfestum (e. junk bond holders) himinháa vexti, en auðvitað kemst fyrirtækið fyrr eða síðar í svakalega klípu vegna þess að það eyðir eins litlu og það getur í nýjar fjárfestingar. Markaðirnir skreppa þar af leiðandi reglulega og mjög harkalega saman.

Hver grefillinn, segja verkalýðsfélögin og starfgreinasamböndin, þetta fyrirtæki er næstum gjaldþrota. Við viljum ekki þurfa að segja þér upp störfum, fullyrða stjórnendurnir, en þú getur haldið áfram að vinna hjá okkur ef við minnkum hjá þér eftirlaunin. Í stað þess að láta þig fá það sem við lofuðum þér í upphafi, skýrt skilgreindan eftirlaunapakka, ætlum við búa til nýja aðgerðaráætlun um meðgreiðslur (e. defined contribution plan). Þú veist hvað þú borgar í hverjum mánuði, en þú veist ekki hvað þú færð út úr þeim samningi þegar upp verður staðið. Eða þú þurrkar út eftirlaunasjóðinn, kemur honum í fangið á ríkisstjórninni (e. Government’s Pension Benefit Guarantee Corporation) og notar peninga sem áttu að fara í eftirlaunin til þess að greiða hluthöfunum meiri arð. Þegar hingað er komið dregst allt hagkerfið saman. Það hefur verið holað að innan. En áður en til tíðinda dregur hverfa forstjórarnir á braut. Þeir hirða launin og leysa til sín bónusuna og reyna síðan að láta sig hverfa af radarnum.

Hedges: Mig langar til að lesa upp tilvitnun úr bók þinni í skrif prófessors David Harvey við City University í New York – „Stutt ágrip af sögu nýfrjálshyggjunnar“ (A Brief History of Neoliberalism, Oxford University Press 2005) – til að heyra þín viðbrögð: „Helsti árangur nýfrjálshyggjunnar hefur falist í endurdreifingu frekar en sköpun auðs og tekna. Þegar ég tala um auðsöfnun í skjóli eignasviptingar á ég við einkavæðingu landareigna, sem öðlast við það skiptigildi (e. commodification), og brottrekstur bænda af jörðum sínum í nafni laganna, grímulausa valdbeitingu; frá breytingum á ýmsum formum af eignarrétti (þjóðlendum o.s.frv.) yfir í brynvarið einkaleyfi á eignarréttindum; takmörkunum á sameiginlegum eignum almennings (e. commons); ólögmætum ráðstöfunum á auðlindum (m.a. vatnsbólum og veiðiheimildum) undir hatti nýlendusefnu, neó-nýlendusstefnu og heimsvaldastefnu; og síðast en ekki síst okurlán, þjóðarskuldir og – það sem skaðlegast er – notkun kredikortakerfis sem víðtækri aðferð til að safna auðæfum gegnum eignamissi annarra. Á þennan aðferðalista getum við bætt alls konar lagaflækjum til að maka krókinn eins og þóknunum vegna einkaleyfa á uppfinningum (e. patent) og hugverkaréttindum (e. intellectual property rights). Einnig má nefna skerðingu eða afnám á margskonar borgaralegum réttindum – til að mynda eftirlaunum frá ríkinu, launuðum sumarfríum, tækifærum til menntunar, heilbrigðisþjónustu – sem tekist hefur verið á um í heila kynslóð á vígvelli stéttabaráttunnar. Sú hugmynd að einkavæða allt eftirlaunakerfi ríkisins, sem Chile átti frumkvæðið að á einræðistímum Pinochets, er eitt af helstu markmiðum bandarísku repúblikanna.“

Lýsir þetta ekki býsna vel hvernig í pottinn er búið? Endanlega niðurstaðan, eins og þú kemst að í bókinni, verður sú að leigusalarnir og spákaupmennirnir muni éta allt samfélagið upp til agana uns ekki stendur lengur steinn yfir steini.

­

Hudson: Eignarréttur er ekki partur af neinni framleiðslu hvað sem líður öllu hjali um „fjármálavörur“ (e. financial products). Líttu á hvað gerðist í Chicago þar sem ég ólst upp. Borgaryfirvöld vildu ekki hækka fasteignaskatta, sérstaklega ekki á rándýrum skrifstofu- og viðskiptahöllum. Borgarsjóðurinn var því rekinn með halla. Stjórnvöld þurftu meiri peninga til að geta greitt lánadrottnum sínar rentur þannig að bílastæðaréttindin voru seld til Goldman Sachs með 75 ára einkleyfi, sem setti strax upp stöðumæla meðfram gangstéttum vítt og breitt um borgina. Kostnaðurinn við að búa og stunda viðskipti í Chicago hefur hækkað vegna tilkomu þessara stöðumæla. Vilji borgaryfirvöld halda skrúðgöngu og loka svæðinu fyrir umferð verða þau að greiða Goldman Sachs samsvarandi upphæð og fyrirtækið mundi fá í sinn vasa hefði ekki þurft að loka viðkomandi götum.

Þessi aukakostnaður, svo hægt sé að greiða meiri arð til lánadrottna, er reiknað til aukinnar vergrar landsframleiðslu vegna þeirrar „framleiðsluaukningar“ sem átt hefur sér stað með því að rukka hærra gjald vegna einkaréttar Goldman Sachs á bílastæðum. Veiti bær eða ríki einkaleyfi á veg eða göngum, sem veldur því að innheimtur er tollur fyrir þjónustuna, nú þá hækkar verg landsframleiðsla í samræmi við gjaldskrána.

Sömuleiðis, fari þjóðin í stríð og eyðir af þeim sökum meiri peningum í hernaðarbáknið er litið á það sem aukna framleiðni [Innskot: Um helmingur af skatttekjum Bandaríkjanna fer til hernaðarmála]. Þetta hefur ekkert að gera með framleiðslukerfi fjármagns og vinnuafls sem snýst um að reisa verksmiðjur og framleiða vörur sem fólk þarf á að halda til að þrífast og stunda viðskipti. Allt þetta er óþarfa kostnaður, að mati nýfrjálshyggjunnar, enda gera fulltrúar þeirra stefnu enga grein fyrir sambandinu á milli auðlegðar og útgjaldaliða (e. overhead).

Þegar enginn munur er gerður á þessum atriðum verður hýsillinn ekki var við afætuna. Efnahagsumhverfi síðkapítalismans, vistkerfi hýsilsins, skynjar ekki það sem iðnjöfrar 19. aldar voru fljótir að fatta; ef þú vilt búa við stöðugt og skilvirkt samfélag og skjóta keppinautunum ref fyrir rass þá verður að lækka verðlagið til að hið opinbera geti útvegað ókeypis vegakerfi. Ókeypis heilbrigðiskerfi. Ókeypis menntakerfi. Ef þú rukkar eins mikið og þú getur fyrir þessa þjónustu þá endarðu þar sem Bandaríkin og stærsti partur heimsins er staddur í dag, í skuldafeni ójöfnuðar, vaxandi stéttaátaka og samfélagslegrar sundrungar.

Það myndi litlu breyta þótt bandarískur almenningur fengi allan sinn neysluvarning ókeypis – allan mat, samgöngur, föt, húsgögn, allt frítt? Þeir væru samt ekki samkeppnisfærir við Asíubúa eða aðra erlenda framleiðendur vegna þess að allt að 43 prósent af tekjum þeirra fara í leigu eða niðurgreiðslu á íbúðalánum, 10 prósent eða meira af tekjunum í námslán og kreditkortaskuldir samfara því að 15 prósent af launaumslaginu er sjálfkrafa haldið eftir í sjúkratryggingar (e. Social Security) til að lækka álögur á hina ríku og greiða fyrir læknisþjónustu. Bandaríkjamenn hafa byggt upp samfélag með alla þessa útgjaldaliði. Þetta hefur gert landið svo dýrt að við erum ekki lengur samkeppnisfær þrátt fyrir alla viðskiptasamningana.

Hedges: Segja má að þessi rándýrahagfræði hafi breytt öllu kerfinu í endalausar leikfléttur. Fyrir bragðið er hægt að einkavæða lífeyrissjóðina og pína þá inn á hlutabréfamarkaðinn sem hefur verið þaninn í botn með handafli. En vegna þess með hvaða hætti fyrirtækin eru sett á markað moka framkvæmdastjórar vogunarsjóðanna til sín ágóðanum. Og það er almenningur sem tapar vegna þess að sparifé hans er að miklu leyti bundið í þessum hlutabréfum. Við ættum kannski að enda þessa lotu á því að ræða um hvernig kerfinu hefur verið hagrætt (e. rigged), ekki aðeins í ljósi vaxandi skuldaþrælkunar, heldur hvernig almenningi er þröngvað út á hlutabréfamarkaðinn til að hægt sé að féfletta hann enn og aftur [Innskot: Erlendis eru stýrivextir víðasthvar búnir að vera við núllið síðan frá bankahruninu 2008 og hjá Evrópska seðlabankanum, Svíþjóð og Sviss, er sparifjáreigendum boðið upp á neikvæða ávöxtun sem er með öllu fordæmalaust og á sér enga hliðstæðu í hagsögunni. Þeir sem vilja ekki sjá sparnað sinn étast upp í verðbólgunni eru því nauðbeygðir að taka þátt í spilavíti kapítalismans.]

Hudson: Við tölum um nýjabrumshagfræði (e. innovative economy) líkt og kenningar geti búið til peninga. Segjum að þú sért með einhverja nýjung og fyrirtækið er sett á markað. Menn fara til Goldman Sachs og fjárfestingabanka á Wall Street til að ábyrgjast hlutabréfin sem kosta 40 dollara á hlut. Það telst vel heppnuð sjósetning þegar Goldman Sachs og aðrir fara strax í kjölfarið til innherja sinna og segja þeim að kaupa þessi hlutabréf til að komast yfir skjótfenginn gróða. Takist vel til tvöfaldast hlutabréfaverðið á einum degi.

Hedges: Einmitt, þeir fá tækifæri til að kaupa hlutabréfin á undan öllum öðrum í vissu þess að undir dagslok hafa bréfin rokið upp í verði og þá geta þeir selt þau með feitum hagnaði.

Hudson: Þannig virkar þetta í grófum dráttum.

Hedges: Síðan koma lífeyrissjóðirnir og kaupa hlutabréfin á uppsprengdu verði áður en þau falla aftur.

Hudson: Já, þau lækka gjarnan snögglega aftur, en stundum er líka snuðað á fyrirtækjum frá byrjun. Viðskiptafélagið á Wall Street sem gengst í ábyrgð og kaupmangararnir sem það fær með sér í slaginn græða oftast meira á einum degi en sjálft fyrirtækið sem verið var að skrá í kauphöllinni og tók kannski mörg ár að byggja upp. Fyrirtækið fær 40 dollara og bankinn og vildarvinir hans, áhættufjárfestarnir svokölluðu, fá líka 40 dollara.

Fjármálageirinn fær þess vegna miklu meira upp úr krafsinu en þeir sem lögðu það á sig að búa eitthvað til. Leikurinn á Wall Street snýst um hagnað af sölu á fjárfestingum (e. capital gains) sem hefur ekkert með klassíska hagfræði að gera. Samkvæmt þeirri ritningu getur verð á eignum ekki hækkað án aukinnar sölu og framleiðni, en síðan frá lokum seinni heimsstyrkjöld hefur eignaverð engu að síður haldið áfram að blása upp. Eftir það eignaðist millistéttin ekki lengur sitt eigið húsnæði með langtíma sparnaði, heldur vegna stöðugrar hækkunar á fasteignaverði. Lengi vel hefur hún notið góðs af þessari fasteignabólu. Og fólk heldur að þetta hafi gert það ríkt eins og það hafi unnið þann stóra í lottóinu.

Ástæðan fyrir hækkun fasteignaverðs er sú að húsnæðið er aðeins jafnmikils virði og bankinn er reiðubúinn að lána gegn veði í því. Þegar bankarnir gera fólki auðvelt að taka lán á móti lítilli útborgun ertu kominn með ávísun á efnahagsbólu. Og núna er fasteignverðið í Bandaríkjunum líklega komið eins hátt og það getur orðið. Ég held að fólk þoli ekki að greiða meira en 43 prósent af tekjum sínum til að eignast þak yfir höfuðið. Ímyndaðu þér að þú værir að fara út á hinn fallvalta vinnumarkað. Þú hefðir ekki efni á því að kaupa þér húsnæði á núverandi markaðsverði með smá útborgun í von um að verða einhvern veginn ríkur á þessari fjárfestingu. Allir þeir peningar sem þú greiðir bankanum dragast frá þeirri upphæð sem þú hefur til ráðstöfunar til kaupa á nauðsynlegum vörum og þjónustu, til að draga fram lífið.

Við höfum snúið hagkerfi eftirstríðsáranna, sem færðu Bandaríkjunum ótrúlega velmegun og ríkidæmi, á rönguna. Margir trúðu að þeir gætu orðið efnaðir á því að skuldsetja sig með kaupum á fasteignum sem ættu aðeins eftir að hækka í verði. En þú getur aldrei orðið fjárhagslega sjálfstæður, hvað þá stórefnamaður, með eintómum lántökum þegar til lengri tíma er litið. Spilavítið vinnur alltaf að lokum. Þess vegna hafa öll samfélög frá tímum Babýloníumanna og Súmera reglulega afskrifað skuldir á stórum skala, nema Rómverjar og núna í dag við. Hinar svokölluðu myrku miðaldir hófust ekki með innrás barbaranna sem flykktust til Ítalíu úr norðri og austri í byrjun fimmtu aldar, heldur vegna þess að Rómverjar streyttust á móti skuldleiðréttingum fram í rauðan dauðann. Peningaprentun þess tíma – það sem nú kallast magnbundin íhlutin (e. quantiative easing), þ.e. útþynning gjaldmiðilsins sem allt fram til forsetatíðar Richard Nixons grundvallaðist á góðmálmum – samfara aukinni verðbólgu hafði grafið svo undan Rómvarveldi að það hrundi til grunna. Og fyrr eða síðar mun eins fara fyrir gervallri heimsbyggðinni með öllu sínu fótalausa fé (e. fiat currency), tilbúnu úr tómu lofti og viðstöðulaust dælt inn í efnahagskerfi þjóðanna, verði ekki gerðar róttækar breytingar.

Hedges: Og það er einmitt umræðuefni næsta þáttar sem fjallar betur um ástandið í dag og hvort nú þegar sé ekki of seint í rassinn gripið.

Lauslega þýtt og endursagt. Hér má hlusta á þættina óstytta.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram