Hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun
Frétt
21.03.2019
Á borgarstjórnarfundi lagði ég fram tillögu um að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun. Tillögunni var vísað frá en ég hefði viljað fá meiri umræðu um efni tillögunnar og tók fram að ef við getum ekki sammælst um þetta hlutfall, þá væri alltaf hægt að ræða hvaða launabil við gætum mögulega sammælst um, hvað okkur finnst það eiga að vera og hvernig við færum rök fyrir því. Það virðist einfaldlega ekki vera vilji til þess hjá meirihlutanum sem telur borgarstjórn ekki vera vettvanginn til að taka ákvarðanir í þessum málum. Borgarstjórn hefur þó mikið að segja um laun þeirra hæst launuðu og ef umræða um ásættanlegt launabil á milli hæstu og lægstu launin á ekki heima í borgarstjórn, hvar á hún þá heima? Ef þið eruð áhugasöm um laun borgarfulltúra þá má sjá þau hér Laun kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg
Tillaga um að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun:
Borgarstjórn samþykkir að marka stefnu í launamálum sem kveður á um að hæstu laun þeirra sem starfa fyrir Reykjavíkurborg, verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun starfsmanna borgarinnar. Tillagan nær til alls starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa borgarinnar. Í launum eru t.a.m. meðtaldar þær greiðslur sem kjörnir fulltrúar fá ofan á grunnlaun sín vegna setu í nefndum og ráðum. Með því að tengja upphæð hæstu launa við lægstu launin tryggjum við að ákveðið samhengi sé á milli launagreiðslna Reykjavíkurborgar og að launabil á milli hinna hæst launuðu og lægst launuðu verði ekki margfalt. Sem dæmi má nefna að ef lægstu mánaðarlaun miðast við 425.000 krónur eftir þrjú ár, líkt og kröfur Starfsgreinasambandsins gera ráð fyrir, yrðu hæstu mánaðarlaun ekki hærri en 1.275.000 krónur. Lagt er til að fjármálaskrifstofu verði falið að hefja undirbúning að innleiðingu í samvinnu við mannauðsdeild og kjaranefnd Reykjavíkurborgar sem komi með tillögur að útfærslu hvað varðar launabil þeirra ólíkra starfstétta sem starfa við Reykjavíkurborg. Í þeirri vinnu verði unnið með stjórnum og framkvæmdastjórum b-hluta fyrirtækja. Verði þeirri vinnu ekki lokið fyrir 1. júní n.k., þegar nýtt stjórnskipulag Reykjavíkurborgar tekur gildi og fjármálaskrifstofa verður lögð niður, er lagt til að fjármála- og áhættustýringarsvið taki við þeirri vinnu.
Greinargerð:
Umræður um tekjuskiptingu og kjör launafólks hafa verið miklar í ljósi þess að bilið á milli þeirra sem eru vel staddir fjárhagslega og þeirra sem eru það ekki fer sífellt vaxandi í samfélaginu okkar. Á sama tíma og við heyrum fregnir af gríðarlegum launahækkunum forstjóra fylgjumst við með baráttu láglaunahópa fyrir mannsæmandi kjörum. Það er gríðarlega mikilvægt að hækka laun þeirra lægst launuðu en að sama skapi er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir móti framtíðarstefnu í starfskjaramálum hvað varðar ásættanlegt launabil á milli hinna hæst launuðu og lægst launuðu.
Sé litið til Reykjavíkurborgar, sýna tölur fram á að um sexfaldur munur er á hæstu og lægstu launum, sé litið til launa borgarstjóra annarsvegar og lágmarkslauna innan borgarinnar hinsvegar. Þá má nefna að grunnlaun borgarfulltrúa eru rúmlega tvöfalt hærri en lægstu laun borgarstarfsmanna. Í september á síðasta ári höfðu grunnlaun borgarfulltrúa hækkað um 22,4% frá því að borgarstjórn ákvað í apríl 2017 að binda laun kjörinna fulltrúa við þróun launavísitölu. Sé litið til launaþróunar þeirra á lægstu laununum er ekki að sjá að þeir hafi notið sömu kjarabótar. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins og mikilvægt er að hún setji fram heildstæða stefnu í launamálum. Núverandi launastefna Reykjavíkurborgar fjallar ekki með þessum hætti um launabil á milli ólíkra starfsstétta borgarinnar. Út frá umræddri tillögu stendur valið á milli þess að lækka hæstu laun eða að hækka lægstu laun.
Áður fyrr miðuðu laun borgarstjóra við laun forsætisráðherra og laun borgarfulltrúa miðuðu við 78,82% af þingfararkaupi. Nú hækka laun borgarstjóra út frá launavísitölu og hið sama er að segja um laun borgarfulltrúa, þar sem borgarstjórn samþykkti í apríl 2017 að launin myndu fylgja launavísitölu. Jákvætt var að sjá að með því hafnaði borgarstjórn tillögu að enn frekari launahækkunum út frá úrskurði Kjararáðs en það er þó mikilvægt að auka samræmið á milli launa innan Reykjavíkurborgar. Með því að fastsetja lægstu laun við þriðjung af upphæð hæstu launa er verið að tryggja ákveðið samhengi á milli launa og að launaþróun framtíðarinnar leiði aldrei til þess að ákveðnar starfsstéttir fari langt framúr öðrum í launahækkunum. Þessi tillaga er lögð fram sem liður í átt að réttlátari tekjuskiptingu og auknum jöfnuði.
Í ræðunni í kringum tillöguna, lagði ég áherslu á hvernig við metum vinnuframlag og að nauðsynlegt væri að setja fram heildstæða stefnu sem endurspeglar að allt starfsfólk Reykjavíkurborgar er hluti af mikilvægri heild. Þar velti ég því fyrir mér hvernig getum við réttlætt það að einhver í æðstu stjórnunarstörfum fái margfalt hærri laun en manneskja í láglaunastarfi:
Með því að tengja upphæð hæstu launa við lægstu launin tryggjum við að ákveðið samhengi sé á milli launagreiðslna Reykjavíkurborgar og að launabil á milli hinna hæst launuðu og lægst launuðu verði ekki margfalt. Ég lít á þetta sem ákveðna framtíðartryggingu fyrir því að hér sé ákveðið samhengi sem byggi á heildstæðri nálgun á launamál allra starfsmanna Reykajvíkurborgar sem gangi út frá ákveðnu sanngirnissjónarmiði. Sem dæmi má nefna að ef lægstu mánaðarlaun miðast við 425.000 krónur eftir þrjú ár, líkt og kröfur Starfsgreinasambandsins og VR gera ráð fyrir, yrðu hæstu mánaðarlaun ekki hærri en 1.275.000 krónur. Mér þykir þetta ásættanlegt launabil og sé ekki afhverju launabil þurfi að vera margfalt meira. En svo er allur gangur á því hvað við teljum ásættanlegt launabil, ef við getum ekki sammælst um þetta hlutfall þá vona ég að við getum allavegana rætt þessar hugmyndir um launabil og komið okkur niður á eitthvað hlutfall í þeim málum.
Ég geri mér grein fyrir því að sum störf krefjast ákveðinnar sérþekkingar og hæfni og að sum störf eru mjög álagstengd hvað varðar til dæmis það að þurfa alltaf að vera til taks og að þurfa alltaf að svara fyrir ýmislegt sem gæti komið upp á t.d. í fjölmiðlum. En hvernig metum við mikilvægi starfa og hvernig metum við álag og mikilvægi? Út frá hverju göngum við? Ég veit að það er erfitt að mæla þetta en er raunverulega einhver aðili sem sinnir á við um þrefalt mikilvægari, sérhæfðari og þrefalt meiri vinnu í starfi sínu en einhver annar sem starfar fyrir borgina? Ég átta mig á því að sumir komast einfaldlega ekki jafnmikið frá störfum sínum eins og aðrir og eru í raun sífellt að inna af hendi vinnu og skiljanlegt að þeir fái greitt aukalega fyrir slíkt. En ef við myndum mæla mikilvægi og líta til allra þátta líkt og hæfni og sérfræðiþekkingar hvaða launabil myndum við þá tala okkur niður á?
Það er oft talað um að álag í starfi eigi að endurspeglast í launum. Segjum sem svo að álag ákveðinna einstaklinga í starfi sé orðið það mikið að hann er farinn að vinna vinnu sem telst fjórföld, fimmföld eða meira en hefðbundinn vinna í launum séð, þarf þá ekki bara að skipta þeirri vinnu niður á fleiri stöðugildi? Getum við sett allt það álag á eina manneskju? Í öllu þessu tali um styttingu vinnuvikunnar og kulnun, erum við kannski að setja of mikið álag á eitt starf, á einn starfskraft? Ég velti þessu fyrir mér í þessu samhengi. Í umræðunni um launakjör finnst manni líka oft talað um mikilvægi þess að launin séu eftirsóknarverð fyrir miklvægar stöður og oftar finnst manni sjónum almennt beint að þeim hæst launuðu og störfum sem þeir inna af hendi. Þau eru gríðarlega mikilvæg og ég er ekki að leitast við að draga úr miklvægu framlagi þeirra en velti þessu fyrir mér í stóra samhenginu. Ef við lítum til álags, er þá ekki það sama að segja um störf þeirra sem fá lægstu launin. Er ekki líka mikið álag þar, í lægst launuðu störfunum, bæði líkamlegt og andlegt álag? Finnst okkur einhvernveginn réttlætanlegt að greiða þeim hlutfallslega miklu minna af því það er hvað sem er alltaf hægt að fylla auðveldlega í þær stöður með nýju starfsfólki? Þetta er það sem ég velti fyrir mér í þessu stóra samhengi og mikilvægi þess að setja fram ákvæði um launabil. Afhverju eru sum störf sem eru jafn mikilvæg og önnur, metin neðst í virðingarstiganum hvað varðar útborguð laun, þegar við lítum t.d. til ummönnunar og þjónustustarfa?
Ef við lítum almennt til sögulega samhengisins, þá var ekki alltaf svona mikið bil á milli starfstétta eins og þekkist nú, kennarar fengu t.d. jafnmikið greitt og þingmenn, það hefur heldur betur breyst. Markmiðið með þessari launastefnu er að fyrirbyggja það að ákveðnar starfstéttir geti farið langt fram úr öðrum og ég tel að þetta sé eitthvað sem að við þurfum að skoða á þessum stærsta vinnustað landsins. Í núverandi launastefnu borgarinnar kemur fram að „launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar og málefnalegar.“ Þarna finnst mér kjörið tækifæri að bæta inn ákvæði um launabil á milli ólíkra starfa. Ég spyr mig því á hvaða málefnalegum grunni byggjum við launamun og launahækkanir? Í launastefnunnni stendur einnig „Markmið Reykjavíkurborgar er að hæfir starfsmenn veljist til starfa hjá stofnunum og fyrirtækjum hennar, þeir uni þar hag sínum og hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Launastefnu Reykjavíkurborgar er ætlað að styðja við og efla þjónustu borgarinnar að gæðum og skilvirkni. Hún skal taka mið af heildarmarkmiðum borgarinnar og starfsáætlunum stofnana og fyrirtækja. Huga skal sérstaklega að kjörum þeirra sem sinna störfum sem einungis eru á vegum almannaþjónustu sveitarfélaga.“
Ef við skoðum aðeins jákvæðar afleiðingar hófstillts launabils þá tel ég að þær geti verið margar. Launabil þar sem bilið er aldrei meira en ákveðið hlutfall getur aukið á það að starfsfólki líði frekar eins og það sé hluti af einhverri heild, það vinni saman að því að skapa góða borg þar sem allir eru með mikilvægan tilgang. Þar sem það er ekki margfaldur munur á milli þeirra sem starfa í æðstu stjórnunarstöðum í stefnumótandi starfi og þeirra sem vinna á gólfinu eins og það er kallað. Þetta eru allt gríðarlega mikilvæg störf og á framtíðina litið held ég að launastefna sem fjallar um launabil geti verið góð fyrir starfsandann í heild og auki á það að það sé eftirsóknarvert að vinna hjá Reykjavíkurborg. Hér er gríðarlega mikið af öflugu fólki og mikilvægt er að halda vel utan um það. Ég trúi því að þetta sé góður staður til að vinna á og að við getum gert hann ennþá betri með svona heildstæðri launastefnu.
Slík stefna er leið til að setja tóninn og endurspegla að Reykjavíkurborg sem vinnustaður sé með heildstæðu stefnu sem tekur tillit til alls starfsfólks síns og viðurkennir að þau séu öll mikilvægur hluti af öflugri heild. Við erum öll hérna að vinna fyrir fólkið sem býr hér í borginni, við þurfum að sýna þeim að það sé vel farið með fjármagnið þeirra. Ég tel það ekki einungis ábyrgt að fjalla um ákveðið launabil í launastefnu heldur líka fyrirbyggjandi aðgerð sem tryggir það að launaþróun framtíðarinnar sé gegnsæ, þar sem við verðum þá meðvituð um að enginn sé að fá hærri laun en eitthvað ákveðið og að launaþróun fylgi ákveðnu samhengi. Þessi tillaga er lögð fram sem liður í átt að réttlátari tekjuskiptingu og auknum jöfnuði.
Bókun meirihlutans með frávísuntartillögunni:
Almenn sátt er um það í íslensku samfélagi að samningar um kaup og kjör fari fram á milli vinnuveitenda og stéttarfélaga launafólks sem fara með samningsumboðið. Rétt er að nefna að í samstarfssáttmála meirihlutans segir: „Við ætlum að eyða launamun kynjanna hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar, móta kjarastefnu og halda áfram tilraunaverkefninu um styttingu vinnuvikunnar.“ Það er að okkar mati rétt nálgun. Þar sem ekki þykir rétt að sveitarfélag beiti sér í kjaramálum með þeim beina hætti sem mælt er fyrir um í tillögunni er lagt til að tillögunni verði vísað frá.
Bókun Sósíalistaflokks Íslands vegna frávísunnar:
Hæstu laun æðstu stjórnenda, þ.e.a.s. embættismanna, og hæstu laun kjörinna fulltrúa þarf að lækka til að halda launabili hæstu og lægstu launa innan sómasamlegra marka. Þau laun eru ekki ákveðin í samningum milli stéttarfélaga og vinnuveitenda eins og meirihlutinn heldur fram. Sem dæmi má nefna að árið 2017 ákvað borgarstjórn að breyta launaþróun borgarfulltrúa og hafnaði tillögum kjararáðs um launahækkanir og tengdu laun þess í stað við launavísitölu. Þá ákveður kjaranefnd Reykjavíkurborgar laun æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar en launakjör þeirra embættismanna sem heyra undir kjaranefnd eru að hámarki 1.500.000 krónur. Þá er rétt að nefna að borgarstjórn hefur samþykkt breytingar á fjárheimildum fagsviða vegna launahækkana samkvæmt ákvörðun kjaranefndar. Ef umræða um ásættanlegt launabil á milli hæstu og lægstu launa á ekki heima í borgarstjórn, hvar á hún þá heima? Miðað við núverandi stöðu eru laun hinna hæst launuðu innan borgarinnar margfalt hærri en lægstu launin og rúmlega sexfaldur munur er á launum borgarstjóra og lægstu launum innan borgarinnar. Meirihlutinn vísar til almennra sátta vegna núverandi samningsfyrirkomulags í launamálum en það ríkir engin sátt um ofurlaun í samfélaginu. Sé ekki vilji til að lækka hæstu laun, má alltaf hækka þau allra lægstu sem mun að öllum líkindum leiða til fagnaðar hjá mörgum.
Sanna Magdalena Mörtudóttir