Femínismi fyrir 99 prósentin – Manifestó
Frétt
18.06.2019
Feminism of the 99% er grasrótarhreyfing róttækra femínista, sem spratt upp úr Women’s March gegn stefnu og kjöri Donalds Trump, og sem eiga það sameiginlegt að telja kúgun kvenna skarast við stéttakúgun, rasisma, andúð gegn innflytjendum og aðrar birtingarmynd kúgunar og að ekki sé hægt að skýra kúgun kvenna aðeins út frá kyni. Í febrúar 2017 birtu þær Nancy Fraser, Tithi Bhattacharya og Cinzia Arruzza grein undir þessu nafni í Viewpoint Magazine, Feminism of the 99%, og síðan hefur þetta hugtak náð að sameina róttæka femínista í andstöðu við meginstraumsfemínisma samtímans, sem hefur horft fram hjá stöðu margra kvenna; láglaunakvenna, fátækra, innflytjenda og annarra kvenna sem búa við kúgun af samtvinnun kvennakúgunar og kúgunar byggðri á kynþáttahyggju, heimsvaldastefnu og kapítalisma. Í vor kom síðan út bók undir þessu nafni, einskonar ávarp til 99% kvenna um róttækari femínisma, nokkuð sem auðvelt væri að kalla sósíalískan femínisma.
Hér er formáli bókarinnar í lauslegri þýðingu:
Ljón í veginum
Vorið 2018 greindi Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri Facebook, heiminum frá því að við „hefðum það mun betur ef helmingur allra landa og fyrirtækja væri stjórnað af konum og helmingur allra heimila væri stjórnað af karlmönnum.“ Enn fremur að „við ættum ekki að linna látum þar til því markmiði er náð“. Sem einn helsti talsmaður fyrirtækja-femínismans (e. corporate feminism) hafði Sandberg þegar skapað sér orðstír (og seðla) með því að hvetja konur til að lean in á fundum í stjórnum fyrirtækja. Sem fyrrum starfsmannastjóri Larry Summers – mannsins sem afregluvæddi Wall Street – þá fékk hún ekkert óbragð í munninn við þessa ráðgjöf. Að láta til sín taka og öðlast velgengni í viðskiptalífinu væri hinn gullni vegur í átt að kynjajafnrétti.
Sama vor lokaði herskátt verkfall femínista Spáni. Ásamt yfir fimm milljónum manna sem studdu þær í gegnum kröfugöngur. Skipuleggjendur hins tuttugu og fjögurra stunda huelga femínista kölluðu eftir „samfélagi laust við kúgun kvenna, arðrán og ofbeldi…“. Þær kölluðu eftir „uppreisn og andófi gegn bandalagi feðraveldis og kapítalisma sem vill að við séum hlýðnar, undirgefnar og þögular.“ Á meðan sólin settist yfir Madríd og Barcelona, lýstu femínistarnir í verkfalli yfir að „8. mars krossleggjum við hendur, og truflum alla framleiðslu, efnahagslega og líffræðilega“. Ásamt því að þær myndu ekki „samþykkja verri vinnuaðstæður eða skilyrði, né minni laun en karlmenn fyrir sömu vinnu.“
Þessar tvær raddir eru í forsvari fyrir tvær ólíkar og ósamrýmanlegar brautir fyrir femínistahreyfinguna. Önnur brautin inniheldur lið Sandbergs: sem sjá femínisma sem þernu kapítalismans. Þær vilja heim þar sem umsjón arðránsins á vinnustaðnum og kúgunarinnar í samfélagsheildinni er deilt jafnt milli kynja hinna ráðandi stéttar. Þetta er stórmerkileg sýn á jöfn tækifæri til kúgunar. Sem biður, í nafni femínismans, venjulegt fólk að vera þakklátt vegna þess að það sé kona en ekki karl sem brýtur upp verkalýðsfélög þeirra, sendir dróna til að drepa foreldra þess, eða læsir börnin þeirra inn í búrum á landamærunum. Ólíkt frjálslyndis femínisma Sandberg, hafa skipuleggjendur huelga feminista það á stefnuskránni að binda enda á kapítalisma, kerfið sem býr til stjórana, landamærin og drónana sem vernda þau.
Við stöndum á krossgötum, frammi fyrir þessum tveimur sýnum á femínisma og val okkar mun hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir mannkynið. Ein brautin mun leiða til plánetu í rjúkandi rúst, þar sem mannlegt líf mun vera svo bágborið að það jaðrar við að vera óþekkjanlegt – ef það mun þá yfirhöfuð geta þrifist. Hin brautin liggur í átt að heimsgerð sem ávallt hefur verið fyrirferðamikil í metnaðarfyllstu draumum mannkyns: réttláts heims þar sem auð og náttúruauðlindum er deilt á milli allra, og jöfnuður og frelsi eru byrjunarreiturinn, ekki markmið.
Munurinn gæti einfaldlega ekki verið augljósari. En það sem gerir valið brýnt fyrir okkur nú er sú staðreynd að engin raunveruleg millileið er möguleg. Við getum þakkað nýfrjálshyggjunni fyrir þennan skort á valmöguleikum: þessi einstaklega árásargjarna, fjármálavædda gerð af kapítalismanum sem haft hefur tangarhald síðustu fjörutíu ár. Eftir að hafa eitrað andrúmsloftið, hæðst að öllum lýðræðistilraunum, ýtt öllu félagslegu út á bjargbrúnina, og stórskaðað lífsskilyrði langflestra, þá hefur þetta form kapítalismans gert það sem er undir í öllum félagslegum hreyfingum töluvert meira og alvarlegra – í raun umbreytt hógværri viðleitni í harða baráttu upp á líf og dauða. Undir slíkum kringumstæðum er tíminn til að sitja á hliðarlínunni liðinn, og femínistar verða einfaldlega að taka afstöðu: munum við halda áfram að leitast eftir „jöfnum tækifærum til kúgunar“ á meðan jörðin brennur? Eða munum við frekar endurhugsa réttlæti kynjanna á andkapítalískan hátt – sem leiðir okkur út úr núverandi krísu til nýs samfélags.
Þetta manifestó er til stuðnings seinni brautarinnar, leið sem við teljum bæði vera nauðsynlegan og raunhæfan möguleika. Ástæða þess að and-kapítalískur femínismi sé hugsanlegur í dag er að stórum hluta sú að trúverðugleikinn hjá elítunni er að hrynja um allan heim. Hrunið nær ekki einungis yfir mið-vinstri og mið-hægri flokka sem boða nýfrjálshyggju – nú einungis skuggi af sjálfum sér sem er mætt með andúð – heldur einnig fyrirtækja-femínistana í stíl Sandberg – „framsækna“ gríma þeirra hefur fallið. Frjálslyndur femínismi átti sitt Waterloo í forsetakosningunum 2016, þegar uppskrúfað framboð Hillary Clinton náði ekki að kveikja í kvenkyns kjósendum. Af góðri ástæðu: Clinton var holdgervingur þeirrar djúpu og víkkandi gjá milli framgangs elítukvenna í að komast í æðstu embættin og framfara í lífi hins mikla meirihluta.
Ósigur Clinton er vitundarvakning okkar. Hann afhjúpaði gjaldþrot frjálslynda femínismans og opnaði leið fyrir áskorun frá vinstrinu. Hnignun frjálslyndisins skapar tómarúm þar sem við höfum möguleika á að byggja upp annan femínisma: femínisma sem skilgreinir hvað telst femínskt málefni öðruvísi, önnur stéttaafstaða, önnur hugðarefni – sem er róttækt og miðar að breytingum.
Þetta manifestó er tilraun okkar til að boða „hinn“ femínismann sem um ræðir. Hér er ekki skissuð upp ímynduð útópía, heldur brautin lögð til réttláts samfélags. Það sem vakir fyrir okkur er að útskýra hvers vegna femínistar ættu að velja leið femínskra verkfalla, hvers vegna við þurfum að snúa bökum saman með and-kapítalískum hópum og annarra sem gagnrýna kerfið, og hvers vegna hreyfing okkar verði að vera femínismi fyrir 99 prósentin. Einungis með því að tengjast and-rasistum, umhverfissinnum, verkalýðsforingjum og baráttufólki fyrir réttindum flóttafólks getur femínismi staðist áskorun samtímans. Með því að hafna skýrt „lean in“ kreddum, og femínisma 1 prósentsins, getur okkar femínismi orðið að leiðarljósi fyrir alla.
Ný bylgja herskárra femínskra hreyfinga og aktivisma gefur okkur hugrekkið til að hefja vegferð þessa verkefnis. Þetta er ekki fyrirtækja-femínisminn sem hefur verið hörmung fyrir vinnandi konur og er nú að blæða út öllum trúverðugleika, né er þetta „smálána femínisminn“ sem heldur fram að hann „valdefli“ konur í löndum Suðursins með því að lána þeim örlítið fjármagn. Það sem gefur okkur von er öllu heldur alþjóðleg verkföll femínista og kvenna árin 2017 og 2018. Það eru þessi verkföll – og sífellt meira og betur skipulögðu hreyfingarnar sem eru að myndast í kringum þær – sem veittu innblástur sem varð svo að femínisma fyrir 99 prósentin.
Cinzia Arruzza
Tithi Bhattacharya
Nancy Fraser