Láglaunastefnan gerir mann svangan
Pistill
20.02.2020
Núna stendur Reykjavíkurborg í stríði við starfsfólk sitt því að þau vilja ekki semja um eðlilega launaleiðréttingu í kjaraviðræðum. Samkvæmt orðabók er skilgreiningin á stríði meðal annars: barátta, deilur og ófriður. Þannig birtast aðgerðir meirihlutans mér sem hindrun gagnvart því sem láglaunafólk í borginni er að fara fram á. Að heyra fulltrúa meirihlutans neita kröfu láglaunafólks um leiðréttingu á grundvelli þess á þá gæti hærra launað fólk farið að krefjast hærri launa er með því ógeðslegasta sem ég hef heyrt. Er það þá bara eðlileg niðurstaða að lægst launaða fólkið þurfi að sætta sig við ömurlega lág laun? Nei það getur ekki verið. Hvernig væri að byrja á því að leiðrétta lægstu launin? Hvernig er það boðleg staða að fara að tala um aðra hluti þegar það á eftir að leysa þann vanda að lægstu laun Reykjavíkurborgar eru of lág?
Skilaboðin eru þau að starfsfólkinu standi nú til boða ákveðin launahækkun yfir samningstímabilið og að það hljóti nú að teljast vera alveg nóg. Ég upplifi viðhorfin í þeim skilaboðin á þann veg að það sé óbeint verið að segja: „Hér er nú um að ræða heilar 90 þúsund krónur!“ „Geta fátæklingarnir ekki bara verið ánægðir með þessa myndarlegu hækkun?“ „Getið þið ekki bara verið sátt við það?“ Nei segir láglaunafólkið og þá eigum við að hlusta. En hvenær kemur að stjórnmálafólki að hlusta? Og hætta að millistéttskýra* allt út fyrir okkur? (*Heiðarleg tilraun í nýyrðasmíð til að reyna að skapa orð sem nær utan um það þegar einstaklingar taka stéttavinkilinn ekki með inn í útskýringar sínar).
Virðingaleysi gagnvart lágtekjufólki eða skilningsleysi gagnvart stöðu lágtekjufólks er eitthvað sem við mæðgur höfum átt mörg samtöl um í gegnum tíðina. Þar höfum við reynt að skilja hvort að fólk sem hefur það efnahagslega gott sé bara sama um stöðu láglaunafólks eða skilji hana ekki. Ber fólk minni virðingu fyrir þeim sem starfa í láglaunastörfum? Telja að það sé á einhvernhátt þeim að kenna að vera í svo lágt launuðu starfi og að það sé á þeirra ábyrgð á koma sér í betra launað starf? Og nær þar með ekki að átta sig á heildarsamhenginu og þeirri brenglun að við búum í samfélagi þar sem það þykir ásættanlegt að greiða fólki svo lág laun að þau duga ekki út mánuðinn? Eða er fólk bara ekki meðvitað um að það sé hægt að vera það efnalítill að þú þurfir reglulega að neita þér og fjölskyldu þinni um hluti. Og spara fyrir hlutum líkt og heimilistækjum sem að margir telja svo sjálfsagðir inn á heimilið? Er þetta andúð í garðs fátæks fólks? Í garð þeirra sem eiga ekki pening inni á bankabók? Í garð þeirra sem hafa það ekki gott fjárhagslega? Fær fólk sem hefur gengið hinn hefðbundna mennntaveg meiri virðingu eftir því sem það hefur farið hærra upp þann stiga? Afhverju er borgarstjórn ekki að berjast af kjafti og klóm fyrir því að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu? Afhverju er búið að ákveða að hitt og þetta og Ragnarök muni eiga sér stað ef að slíkt gerist? Það sem fólk á lægstu launum hefur þurft að berjast við er miklu ógnvænlegra.
Stéttameðvitund er kannski það sem skortir til að skilja stöðu láglaunafólks og hætta að millistéttskýra allt. Kannski er fólk bara hreinlega ekki meðvitað um stöðuna. Að lægstu laun Reykjavíkurborgar duga t.d. ekki alltaf til að ná að greiða reikninga, leiguna og ná að kaupa mat fyrir alla daga mánaðarins. Að við það að alast upp við fjárskort og í fátækt aukast líkurnar á því að þurfa að eiga í brengluðu sambandi við mat það sem eftir er. Jafnvel þó að staðan þín batni síðar meir. Að vera eiginlega alltaf svangur þó þú sért búinn að borða. Líða vel af því að vita af sykruðu orkunni uppi í skáp þó þig langi ekkert í það, bara gott að vita af því (súkkulaði, kex o.s.frv.) Þurfa að fullvissa þig um að enda aldrei í stöðu þar sem það er ekki matur í kringum þig eða þú ekki nýbúinn að borða ef þú ert að fara eitthvert. Geta aldrei skilið hvernig fólk getur borðað kvöldmat um sjöleytið, svo eitthvað létt eða jafnvel ekkert meira og sofið vært í gegnum heila nótt án þess að vakna hungrað. Einu skiptin sem ég hef gleymt mér er þegar eitthvað mikið liggur við og ég set allt annað á pásu, eins og á stífum tímaramma við að skila rúmlega 100 blaðsíðna mastersritgerð. Eða á lyfjum þar sem aukaverkanir draga úr matarlyst. Annars er enginn séns að ég muni einhverntímann gleyma því að borða. Af því að öryggið sem felst í því að borða skiptir of miklu máli.
Láglaunastefnan getur haft margvísleg áhrif á fólk og ekki endilega víst að hún komi eins við alla en við vitum að það er ekkert jákvætt við hana og við þurfum að útrýma henni. Kannski er ég bara oft svona svöng út af einhverjum öðrum ástæðum en blóðprufur sýna allavegana góðar niðurstöður, þannig ég hlýt allavegana að vera að velja ágætlega næringarríkan mat. Þessi sérstöku tengsl mín við mat hljóta að stemma frá því að á tímabili var maður aldrei viss hvort að maður fengi mat sem barn. Eða jú innst inni var meðvitund um að það væri alveg pottþétt að maður fengi ekki alltaf mat. Skilaboðin sem bárust mánaðarlega í launaseðli frá Reykjavíkurborg voru skýr þá og er skýr núna: Okkur finnst þeir sem vinna á láglaunavinnustöðum okkar ekki eiga skilið að fá mannsæmandi laun til að lifa eðlilegu lífi út mánuðinn. Þannig að það er auðvitað eðlilegt að koma sér upp sjálfsvarnarbúnaði sem tryggir það að maður komist ekki aftur í þannig aðstæður, þar sem matarskortur er allsráðandi. Eins og þessi áhugaverða grein sem heitir How growing up poor affects your approach to food forever fjallar um og sýnir frá rannsóknarniðurstöðum.