Framleitt samþykki – Öflug gagnrýni á fjölmiðla er ekki hættuleg heldur nauðsynleg
Pistill
02.03.2020
Flestir myndu segja að gagnrýni eigi ávallt við og að gagnrýni sé bæði nauðsynleg og holl svo samfélagið geti þróast áfram og lært af reynslunni. Eitt fyrirbæri í samfélaginu má hinsvegar ekki gagnrýna að mér sýnist. Það eru fjölmiðlar. Það er sérstaklega áberandi að margt frjálslynt fólk, miðjufólk, telur að þegar það kemur að fjölmiðlum sé jafnvel hættulegt samfélaginu að beita gagnrýni af of miklu mæli. Það held ég að sé þvættingur.
Það er fullkomlega eðlilegt að benda á það þegar fjölmiðlar eru ekki að standa sig. Það vita allir sem hafa horft á fréttir, Silfrið, Víglínuna eða hlustað á Vikulokin að fjölmiðlar eru langt því frá að vera óhlutdrægir, fjölmiðlafólk fylgir oft ákveðinni frjálslyndis pólitík sem þykir ásættanleg (þú sérð enga róttæklinga hérna), er mjög hliðhollt opinberum skýringum vesturveldanna þegar kemur að stríði og átökum og eru einfaldlega mjög einsleitir og velja einsleitt fólk til að tala við. Síðustu árin höfum við séð hvernig fjölmiðlar líta niður á nýja flokka eins og Pírata og Flokk Fólksins. Forystufólk þessara flokka mætir hroka og dónaskap í viðtölum á meðan Bjarni Benediktsson getur mætt í sín drottningarviðtöl, í þau fáu skipti sem hann gefur færi á sér, og fær algjöra silkihanskameðferð. Þrátt fyrir öll sín spillingarmál. Fréttamiðlar tala líka sjaldan við venjulegt fólk og þær litlu pólitísku og samfélagslegu umræður sem heyrast í fjölmiðlum eru oftar en ekki einangraðar við örfáa stjórnmálamenn og álitsgjafa sem skiptast á að koma fram. Um hverja helgi getur þú gengið að því vísu að einn af þeim fjórum sem kemur fram í Silfrinu komi úr fámennri klíku hægrimanna, valinn af Sjálfstæðisflokknum og KOM-ráðgjöf. Í gær var komið að Birgi Ármannssyni að verja valdið. Það heyrir til undantekninga ef í þættinum komi fram fólk með sósíalískt sjónarhorn, að rödd verkafólks heyrist, láglaunakvenna, eða innflytjenda. Fjölmiðlar eiga að vera gagnrýndir harðlega þegar þeir gera mistök, þegar þeir standa sig ekki og þegar þeir sinna ekki lýðræðislegu hlutverki sínu. Það er mun frekar hættulegt samfélaginu að reyna stöðugt að þagga niður gagnrýni á fjölmiðla.
Fjölmiðlar, sérstaklega þeir sem eru í eigu auðmanna eða styðjast að miklu leyti við auglýsingatekjur, hafa einfaldlega sýnt okkur undanfarin ár að þeir eru ekki í liði með almenningi heldur í liði með kerfinu. Og það er auðvitað ekkert nýtt. Svona hefur þetta alltaf verið og er útlistað rækilega í bók Noam Chomsky frá 1988, Manufacturing Consent.
Síurnar hans Noam Chomsky eiga alveg jafnt við á Íslandi eins og annarsstaðar. Fjölmiðlar sem eru reknir eins og einkafyrirtæki, í eigu valdmikilla manna og/eða styðjast við auglýsingartekjur til að fjármagna sig eru í raun ófærir um að taka sér stöðu með verkafólki og almenningi. Þessvegna er einfaldlega mikilvægt að halda uppi öflugri gagnrýni á fjölmiðla.
Síurnar fimm.
1. Eignarhald
Margir fjölmiðlar eru stór fyrirtæki, oft eru þau hluti af stærra fyrirtæki. Markmið þeirra er hagnaður. Það er þess vegna í þeirra þágu að þrýsta á það sem tryggir hagnaðinn. Eðlilega verða krítískir fjölmiðlamenn að lúffa fyrir áhuga og þörfum fyrirtækisins.
2. Auglýsingar
Fjölmiðlun kostar mikið meira en neytendur vilja eða geta borgað. Hver fyllir þá upp í gatið? Auglýsendur. Og hvað eru auglýsendur að greiða fyrir? Áhorfendur og lesendur. Fjölmiðlar eru ekki aðeins að selja vöru eða það sem þeir framleiða. Þeir eru líka að selja auglýsendum vöru – þig.
3. Fjölmiðla elíta
Fjölmiðlar geta ekki haldið uppi gagnrýni á valdið vegna þess að kerfið ýtir undir meðvirkni. Ríkisstjórnir, fyrirtæki, og stofnanir kunna að spila fjölmiðlaleikinn. Þessir aðilar kunna að hafa áhrif á frásögn fjölmiðla. Þeir mata fjölmiðla með nýjum fréttum, opinberum lýsingum, viðtölum við sérfræðinga. Þeir gera sig nauðsynlega fyrir fjölmiðla til að starfa. Þannig er valdafólk og fjölmiðlafólk í sömu sæng.
4. Bombardering
Ef þú ógnar valdinu verður þér ýtt til hliðar. Þegar fjölmiðlar – fjölmiðlafólk, flautuþyrlar (whistleblowers), heimildarmenn – halda sig ekki á línununni eru þeir bombarderaðir Þetta er fjórða sían. Þegar fréttin kemur sér illa fyrir valdið sérðu bombarderinguna fara af stað og beinast gegn trúverðugleika heimildarmanna, eyðileggja fréttir og beina samtalinu í aðrar áttir.
5. Óvinur
Til að framleiða samþykki þarftu óvin – skotmark. Óvinurinn er fimmta sían. Kommúnismi, sósíalismi, hryðjuverkamenn, innflytjendur. Óvinur, einhver til að óttast, hjálpar við að girða af almennings álitið.