Krísuástand undirstrikar ójöfnuð
Frétt
17.03.2020
Í borgarstjórn í dag ræddum við hættustig almannavarna vegna COVID-19. Eins og með allar krísur, þá bitna þær alltaf harðast á þeim sem eru í verstu stöðunni til að byrja með. Aðgerðir okkar þurfa að verja fólk frá áföllum vegna afleiðinga sem COVID-19 getur haft í för með sér. Ef við lítum til húsnæðis þá sjáum við t.d. að bankar bjóða upp á greiðslufrest á íbúðalánum fyrir þá sem sjá fram á tímabundna erfiðleika. Við þurfum að líta til þeirra sem eru hér í borginni í viðkvæmri stöðu, t.d. leigjendur með lítið á milli handanna og þeirra sem hafa ekki í hús að venda.
Öruggt húsnæði
Öruggt húsnæði er mikilvægur þáttur í lífinu yfirhöfuð og núna undirstrikar kórónaveiran þörfina fyrir mikilvægi þess að hafa öruggt heimili. Á tímum þegar við erum hvött til þess að gæta að hreinlæti eru ekki allir sem hafa aðgengi að húsnæði og hreinlætisaðstöðu. Ef við lítum t.d. til stöðu heimilislausra þá eru gistiskýli borgarinnar nú einungis opin yfir hluta dagsins. Þegar þú ert heimilislaus þá ertu ekki með samastað sem þú getur leitað í, þú getur ekki farið heim til þín að þvo þér reglulega um hendurnar. Ef þú býrð á götunni þá hefurðu ekki fullt aðgengi að handspritti, handsápu og hreinlætisaðstöðu. Þú getur ekki leitað á neinn stað sem er opinn allan daginn þar sem þú getur gengið að því vísu. Það er bagaleg staða sem við þurfum að bæta og ég ætla að trúa því að úr verði bætt.
Við þurfum að tryggja öllum aðgengi að öruggu húsnæði. Fyrir leigjendur þurfum við að tryggja að enginn hafi áhyggjur ef þeir geta ekki greitt leigu. Reykjavíkurborg er með eitt leigufélag, Félagsbústaði og þar er mikilvægt að leigjendur geti óskað eftir greiðslufresti, eða greiðsludreifingu með auðveldum hætti og þurfi ekki að óttast að skuldir fari til innheimtufyrirtækja ef þeir eiga í erfiðleikum með að greiða leigu.
Byggingarfélag Reykjavíkur
Margir sem eru með lítið á milli handanna verja allt of stórum hluta af ráðstöfunartekjum sínum í leiguverð, leigja á almennum leigumarkaði, t.d. hjá hagnaðardrifnum leigufélögum og eru að bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði. Núna er tíminn til þess að byggja, við verðum að geta boðið upp á nægar íbúðir á viðráðanlegu verði. Við sósíalistar í borginni höfum áður lagt fram tillögu um byggingafélag Reykjavíkurborgar og ég undirstrika hér mikilvægi þess að setja það í gang núna. Að byggja fyrir fólkið sem er í mestri þörf.
Borgin ætti að yfirtaka tóm hús og ókláraðar byggingar
Í miðborginni hafa aðilar verið að byggja svokallaðar lúxusíbúðir sem þeir hafa átt í erfiðleikum með að selja. Í þessu ástandi er eðlilegt að nefna að borgin leitaði til þeirra um hvort þau geti ekki keypt íbúðirnar á hagstæðu verði og komið þessum íbúðum upp fyrir þá sem eru í þörf fyrir húsnæði. Getur borgin ekki talað við þá aðila sem hafa komið að fjármögnun þessa verkefnis sem eru sennilega ekki að fara að koma út í plús og tekið yfir þessi íbúðarsvæði? Þarna gæti borgin til dæmis byggt upp verkamannabústaði og íbúðir sem henta tekjulágum og til að mynda einstæðum foreldrum í bráðri þörf fyrir öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.
Ferðamannastraumurinn til landsins mun að öllum líkindum vera lítill sem enginn næstu misserin og þá þarf líka að tala við þá sem hafa verið að byggja upp hótelin. Væri þá ekki hægt að breyta þeim í t.d. námsmannagarða og í íbúðir sem henta eldri borgurum og fylla þetta af lífi frekar en að þarna yrði tómleg svæði sem maður sér fram á núna miðað við stöðuna sem er líkleg til að blasa við okkur. Þá myndum við líka ná að tryggja þeim sem þurfa húsnæði, íbúðir sem henta þeim.
Reykjavíkurborg á að taka upp hagsmuni leigjenda
Við þurfum að tryggja stöðu leigjenda og hér getur það vissulega verið hlutverk Reykjavíkurborgar gagnvart ríkisvaldinu að taka upp samræður um stöðu þeirra. Þar má t.d. nefna hugmyndir um leiguþak, ákveðið verð á fermetra og að það megi ekki segja leigjendum upp íbúðarhúsnæði þar til að efnahagslægðin sem við sjáum fram á hefur gengið yfir. Íbúar eiga ekki að þurfa að lifa í óvissu eða að taka á sig áföllin sem við sjáum fram á að geti nú átt sér stað.
Erfiðara fyrir þau sem búa þröngt að virða fjarlægðarmörk
Margir neyðast til að flytja inn á aðra með fjölskyldu og börnin sín, þegar þau ráða ekki lengur við að greiða leiguverð á almennum leigumarkaði. Það er staða sem fólki kann að þykja erfið og óþægileg yfirhöfuð en hvað þá þegar fólki er ráðlagt að halda sig núna við ákveðnar fjarlægðartakmarkanir. Margar láglaunafjölskyldur og fjölskyldur með lágar tekjur neyðast til að sætta sig við það að búa þröngt og þurfa jafnvel að deila rými sínu með vinum og vandamönnum, þar sem að fleiri fermetrar þýðir hærra verð. Þá eru einnig margir sem búa í ósamþykktum íbúðum eða herbergjum og deila salernis- og eldunaraðstöðu með öðrum. Þá eru margir á milli staða og með óörugga húsnæðisstöðu og nauðsynlegt að tryggja öllum öruggt húsnæði.
Í allri umræðunni um fjarlægðartakmörk, þá er staðan vissulega erfiðari fyrir fólk sem er í þröngri stöðu bæði fjárhagslega og bókstaflega. Þeir sem búa við kröpp kjör myndu gjarnan vilja fá að dreifa úr sér í sinni eigin íbúð en hafa ekki efni á því. Þeir sem hafa litlar tekjur þurfa oft að sætta sig við minna rýma til að búa í og það er erfið staða að standa frammi fyrir því að missa íbúð og þurfa mögulega að flytja inn á annað fólk, þar sem það er ekkert annað í boði vegna fjárskorts. Þetta er þáttur sem er vert að nefna í ljósi þess að við erum að ræða mögulegar stöður sem gætu sprottið upp og hvernig við ætlum að bregðast við.
Tryggja þarf öllum mat
Nú varðandi fjárhagsaðstöðu þá getur fátækt fólk ekki byrgt sig upp af mat þar sem það hefur ekki efni á því, fátækt fólk sem er veikt heima getur ekki leyft sér að panta tilbúinn mat heim og fá hann heimsendann, það er mjög dýrt. Ef það skyldi leyfa sér slíkt þá kemur það niður á öðrum mikilvægum útgjaldaliðum. Þetta eru þættir sem við þurfum að vera meðvituð um. Það eru margir sem að treysta á matarúthlutanir frá góðgerðafélögum og þó að ég fagni því að hópur sjálfboðaliða hafi tekið að sér að tryggja að slíkt haldi áfram í kjölfar þess að kórónaveiran ógnaði starfseminni, þá á það að vera í höndum stjórnvalda. Það á að vera í höndum ríkis og sveitarfélaga að tryggja að enginn sé án matar og ég hef ekki séð nein viðbrögð sem tryggja slíkt og það er ekki í lagi.
Veiran eykur ójöfnuð
Kórónaveiran undirstrikar ójöfnuðinn í samfélaginu. Hún dregur fram ákveðna þætti sem við þurfum að bregðast við. Hvernig eiga þeir sem lifa á lægstu upphæðum fjárhagsaðstoðar til framfærslu t.d. að fjármagna næringarrík matarinnkaup fyrir sóttkví eða einangrun ef viðkomandi veikist? Það er erfitt að sjá það gerast miðað við upphæðir sem fjárhagsaðstoðin til framfærslu er, þar sem henni er einnig ætlað að ná til greiðslu leigu og annarra nauðsynja.
Þá er líka mikilvægt að nefna að fjárhæð fjárhagsaðstoðar skerðist ekki vegna aðstæðna kórónaveirunnar. Í 3. grein reglna um fjárhagsaðstoð er fjallað um það sem gæti leitt til lækkunar grunnfjárhæðar. Þar stendur t.d. „Hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, skal greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu“. Nú er ég viss um að velferðarsvið sé með þetta á hreinu og mikilvægi þess að fólk komist ekki endilega auðveldlega á milli staða nú en þetta er þáttur sem er mikilvægt að nefna svo að við séum meðvituð um stöðuna.
Fátækari háðari opinberri þjónstu
Þegar skólabyggingar loka, þá lokast einnig aðgengi að gjaldfrjálsri nettengingu sem margir nemendur nota og hafa fengið með greiðslu skólagjalda. Þetta eru þættir sem að margir leiða kannski ekki hugann að en erum við t.d. viss um að allir þeir nemendur sem eru á námsstyrk borgarinnar hafi aðgang að neti til að sinna heimanámi eftir að skólabyggingar loka og nemendur þurfa að sinna námi sínu heiman frá sér í fjarnámi? Erum við að tryggja að enginn verði skilinn eftir vegna áhrifa sem kórónaveiran hefur í för með sér? Eru alveg pottþétt allir með internet heima hjá sér? Það er alveg dýr reikningur og kannski einhverjir nemendur sem treystu algjörlega á netið í skólanum. Lokanir stofnanna og skóla líkt og framhaldsskóla getur haft ýmislegt í för með sér.
Smáir hlutir geta verið stórar hindranir
Það eru allskonar þættir sem við lítum kannski á sem litla en geta verið stórar hindranir hjá mörgum og við þurfum að verra viss um að hafa skimað yfir og náð utan um. Í viðbragðsáætlunum þurfum við að tryggja að við tölum við ólíka hópa um hvernig sé best að tryggja að enginn sé skilinn út undan.
Hér vil ég líka nefna gjöld, skuldastöðu og möguleg vanskil og að það leiði ekki til slæmrar stöðu fyrir borgarbúa. Sem dæmi má líta til Orkuveitu Reykjavíkurborgar og Veitunnar og þjónustu sem þau rukka fyrir og nefna mikilvægi þess að það verði t.d. ekki lokað á rafmagn hjá borgarbúum vegna vanskila. Ef það hefur verið gert þá ætti það ekki að kosta að koma því aftur á. Það á enginn að þurfa að vera í rafmagnslausri íbúð sinni og það er mikilvægt að huga að öllum þessum þáttum og hvernig vanskil hafa áhrif á stöðu fólks og hvernig slíkt gæti haft áhrif á stöðu þeirra sem eru jafnvel í sóttkví vegna kórónaveirunnar eða eru að jafna sig á veikindum.
Nú síðast en ekki síst er mikilvægt að koma í veg fyrir félagslega einangrun og tryggja gjaldfrjálsar leiðir að afþreyingu og hugsa aðferðir til að koma slíku á sem nær til ólíkra hópa eftir þeirra þörfum. Nú er mikilvægt að yfirfara félagslegu kerfin okkar og vera viss um að þær uppfylli þarfir hinna verr settu og tryggja að enginn verði skilinn eftir.
Sanna Magdalena Mörtudóttir