„Hvenær munu stjórnmálamenn þora að segja: Allt í lagi, nú er kúrfan orðin nógu flöt“
Pistill
26.03.2020
Þann 25. mars 2020 birti danska dagblaðið Information viðtal við þýska félagsfræðinginn Wolfgang Streeck, einn helsta greinanda nýfrjálshyggjunnar. Hér að neðan er íslensk þýðing eftir Árna Daníel Júlíusson:
Víðtækar aðgerðir ríkisvaldsins í kórónakreppunni táknar ekki, að stjórnmálin hafi aftur tekið forystu. Ríkin eru þvert á móti rekin áfram af skelfingu, skuldum og vantrausti, að áliti þýska félagsfræðiprófessorsins Wolfgang Streeck. Hann gagnrýnir að ríkisstjórnir skuli alveg stöðva efnahagslífið, án þess að rætt sé hvort rétt er að grípa til slíkra aðgerða.
„2.500 látnir. Á einum degi! Bara í Þýskalandi einu!“
Á fáum mínutum er hinn vinstrisinnaði félagsfræðiprófessor Wolfgang Streeck búinn að ná flugi, þegar Information nær tali af honum á skype frá Köln, þar sem hann hefur stýrt samfélagsfræðastofnuninni Max Planck Institut síðastliðna tvo áratugi.
„Að meðaltali deyja 2.500 manns hér á landi á venjulegum meðaltalsdegi án þess að nokkur deyji af kórónaveiru.“
Í bili eru það faraldsfræðingarnir sem fá að tala í fjölmiðlum. Samt sem áður er réttmætt að setja þær tölur sem sífellt er verið að veifa í samhengi, er álit Wolfgangs Streeck.
„Kórónatölurnar eru hræðilegar, og það er mjög erfitt að veikjast af sjúkdómnum. En við upplifum ekki fjöldadauða, þar sem fólk dettur niður á götunum eins og í svartadauða á miðöldum. Samt fáum við það á tilfinninguna, því að ríkistjórnirnar vita vel að í næstu kosningum verðar þær mældar út frá því hversu virkar þær eru við að halda vírusnum og fjölda látinna í skefjum.“
Óviðeigandi myndir
Wolfgang Streeck er sjálfur 73 ára og eiginlega var meiningin að tala um hina djúpu efnahagskreppu og kreppu lýðræðislega auðvaldskerfisins, sem hann lýsir meðal annars í svartsýnu verki sínu Gekaufte Zeit – Die vertagte Krise des demokratischen Kapitalismus (Á tíma fengnum að láni – seinkuð kreppa kapítalismans) frá 2013 og í How will Capitalism End? (Hvernig mun kapítalismanum ljúka?) frá 2016.
En fyrst þarf Streeck að tjá sig um gremju sína – meðal annars vegna evrópskra ríkisstjórna, skelfingu þeirra og hvernig þær fara með kreppuna, að stöðva alveg efnahagslífið án nokkurrar umræðu.
„Það á að bjarga öllum: þeim öldruðu, þeim sem eru veikir fyrir. Það er erfitt að mæla því í mót. Hins vegar er staðan sú að leiðtogarnir eru hræddir við viðbrögð almennings“ segir hann.
„Það á að ná að halda kúrfunni hæfilega flatri, svo ekki fari að birtast óheppilegar myndir úr heilbrigðiskerfi, sem í stórum hlutum hins vestræna heims hefur verið snyrt og skorið niður og ´hagrætt´ á tíma nýfrjálshyggjunnar – þrátt fyrir að fyrsta SARS-plágan hefði átt að vara okkur við því að pestir af þessu tagi fyrirfinnist enn.“
Í framhjáhlaupi nefnir Streeck að bara í umferðinni einni deyji 3.500 manns í Þýskalandi og 25.000 í allri Evrópu. Á meðan á kórónakreppunni stendur munu þær tölur hrynja.
„Ef við lækkum hámarkshraða til langframa um helming, þá verða mörg sjúkrahússrúm tiltæk. En dauðinn í umferðinni er val, sem við höfum af stjórnmálaástæðum valið að lifa með í háhraðasamfélagi okkar. Litið er á hraðatakmarkið sem lið í frelsi borgaranna,“ segir Wolfgang Streeck.
Öll stjórnmál snúast þannig um að vega og meta raunsætt.
„Þess vegna verður að fara mjög varlega með algilda mælikvarða – siðferðilega og stjórnmálalega. En stjórnarstofnunum er nú einu sinni ekki stýrt bara af sérfræðingum á sviði læknisfræði, heldur einnig af spindoktorum, sem þekkja út og inn hvernig fjölmiðlarnir og stemmingin meðal almennings virkar. Þess vegna urðum við nýlega vitni að því hvernig Merkel líktist einn daginn bókhaldara, sem las upp meðaltöl, og næsta dag hélt hún skyndilega fyrstu „blóð, svita og tár“ ræðu sína fyrir þjóðina. Þeirri ræðu var hins vegar bara ætlað að halda til jafns við ræður eins og þá sem Macron hélt, um að við værum í stríði við ósýnlegan óvin.“
Fólk sem ekki sýnir samstöðu
– Hvar sérðu algildu mælikvarðana?
„En eru ekki faraldsfræðingarnir að segja, að við þurfum kannski að stöðva allt samfélagið mánuðum saman. En hversu stranglega ætla ríkin að framfylgja útgöngubanni, þegar vorið kemur og fólk er á barmi taugaáfalls og skilnaða í íbúðum sínum? Hversu mikið skyldi atvinnuleysið og sprengingin í skuldabyrði ríkissjóðanna þurfa að verða, þar til ríkisstjórnirnar heykjast á að halda samfélögunum lokuðum? Hvenær þorir einhver stjórnmálamaður að mæla þessi orð: Allt í lagi, nú er kúrfan orðin nógu flöt.“
Wolfgang dregur axlirnar upp að eyrum.
„Spennan milli faraldsfræði og efnahagslífs mun vaxa dag frá degi, og það mun færa stjórnmálamönnunum okkar nýja angist. Við þekkjum alls ekki allar hliðarverkanir af lokuninni ennþá. En það er komin upp siðferðileg stemmning, þar sem aðeins fólk sem ekki sýni samstöðu vilji taka þá áhættu, að 73 ára menn eins og ég geti dáið til þess eins að hluti samfélagsstarfseminnar geti haldið áfram.“
– Margir líta svo á að kórónakreppan sé eins og sniðin fyrir alræðiskerfi …
„Ef til vill. Mér finnst allt of snemmt að segja að Kína muni verða hin kerfislegi sigurvegari af völdum kórónakreppunnar. En það er réttmætt að spyrja: Mun verða hægt að stýra lýðræði okkar á meðan við eigum á hættu að lenda í slíkri kreppu? Og hvernig á að bregðast við næsta kreppuástandi eða faraldri?“
Á ljóshraða telur hann upp fjármálakreppuna, evrukreppuna, flóttamannakreppuna, loftslagskreppuna og nú kórónakreppuna. En hann telur einnig að það sé vitsmunalega óheiðarlegt að sitja og grufla í hvað geti gerst eftir þrjá eða fimm mánuði.
„Góð ágiskun er að við munum brátt verða vitni að nýrri kreppu, hvort sem það er stökkbreyttur vírus eða hrun í bankakerfinu, þegar í ljós kemur hversu lítið af ríkisskuldunum bankarnar ná að fá greiddar til baka. Kannski verða ríkisgjaldþrot – jafnvel án kórónaveirunnar hefur land eins og Ítalíu árum saman verið á leið í gjaldþrot, og slíkt gæti þýtt endalok evrunnar.“
Að slökkva elda
Þetta eru vangaveltur, viðurkennir hann. Á hinn bóginn er öruggt að við búum við sögulega framboðs- og eftirspurnarkreppu, sem leiðir til gífurlegrar efnahagsniðursveiflu.
„Við vitum ekki hvað gerist þegar slökkt er á allri vélinni,“ segir Streeck – og setur svo strax spurningamerki við eigin líkingu.
„Myndin af vélinni gefur til kynna, að unnt sé að setja hana óskemmda í gang á ný, en það höfum við ekki hugmynd um. Þvert á móti sjáum við nú þegar gjaldþrotabylgjur og atvinnuleysi – og skelfingu á fjármálamörkuðum.“
Til að vinna gegn slíku hefur bandaríski seðlabankinn FED og síðan evrópska hliðstæðan, ECB, prentað milljarða króna, sem nú á að dæla út í kerfið með því að kaupa skuldur, skuldir og meiri skuldir bæði af ríki og einkaaðilum.
„Hér er kórónakreppan fullkomlega ófyrirsjáanleg en samt sem áður eðlilegur hápunktur á kapítalisma skelfingarinnar – kapítalisma án vaxta, án vaxtar, og brátt án þess að nokkur beri til hans traust,“ segir Streeck.
„Allir tala um þyrlupeninga. Tæknilega séð geta þeir slökkt elda, þótt margir muni eflaust nota féð til að greiða niður skuldir fremur en að nota þá til að kaupa neysluvörur, þegar loks verður hægt að hefja neysluna aftur. En hugmyndin um þyrlupeninga er eitur fyrir traust á peningakerfinu.“
Ríki fyrir hina ríku
Á þessu sviði er Wolfgang Streeck á heimavelli. Í verkinu Gekaufte Zeit hefur hann lýst hvernig kapítalisminn hefur, allt síðan á 8. áratug 20. aldar, aðeins bara keypt sér tíma til að halda sjálfum sér gangandi: Á þeim tíma fór ríkisstýrður kapítalismi eftirstríðsáranna að fara á límingunni, og ríkin fóru að taka gríðarleg ríkislán og lyfta hömlum regluverks af fjármálamörkuðum. Það hélt vextinum í gangi, en á sama tíma uxu ríkisskuldir geigvænlega.
Eftir 1980 voru opinberar eignir og innviðir settar á brunaútsölu á meðan ríkin brugðust við afiðnvæðingu og atvinnuleysi með skattalækkunum – fyrir þá vel settu. Og opinberar skuldir – þær jukust enn.
Þar á eftir var öllum reglum um fjármálamarkaði og einkaskuldir hent út í hafsauga, og því lauk með fjármálakreppunni 2008, þar sem ríkisvaldið varð að bjarga fjármálakerfinu. Með peningum hins almenna borgara, bendir Streeck á.
Síðan hafa seðlabankarnir pumpað milljörðum út á markað til að halda ríkjunum á floti. Skuldir á heimsvísu, sem við áramót höfðu náð 320 prósentum af heimsframleiðslunni, eru æ meir fluttar frá einkaaðilum yfir til hins opinbera – og með hinum nýju risaáætlunum seðlabankanna bólgna þær enn meir.
– En er ríkisvaldið nú aftur orðið úrslitaaðili eins og það var í kreppunni á 4. áratugnum?
Svo telur Wolfgang Streeck ekki vera.
„Ríkið hefur alltaf verið það, en í ákveðnu hlutverki. Nýfrjálshyggjan lætur sem hún sé fjandsamleg ríkisvaldinu, en hún hefur alltaf haft þörf fyrir öflugt ríkisvald til að halda verkalýðsfélögunum niðri og fjármálakerfinu á floti. Hinar glórulausu upphæðir sem blómstra í heimsskuldakerfinu, eru aðeins til því að bankarnir treysta því að ríkisvaldið og seðlabankarnir komi þeim til bjargar þegar á þarf að halda.“
Skíthræddar elítur
Í núverandi kreppu hækkar skuldabyrði ríkjanna á ný. Það geta þau fengist við á tvennan hátt: Ríkisvaldið getur skattlagt hina ríku eða aukið skuldir með því að taka lán – hjá þeim ríku, er skoðun Streecks.
„Hinir ríku bregðast við með því að heimta vexti og tekjur af því fé sem þeir hafa fjárfest og það kemur ekki á óvart. Skuldsett ríki er paradís fyrir þá vel settu, sem eiga peninga til að fjárfesta, en þeir sem ekki hafa tök á að fjárfesta eiga að borga brúsann með því að greiða af skuldunum sem svo lendir hjá þeim sem nóg hafa nú þegar.“
Streeck brosir með smá uppgjafarsvip.
„Það er athyglisvert nú í kórónakreppunni að bæði stjórnmálaelítan og fjármálaelítan eru skíthræddar um hvað muni gerast. Milljónir sjálfstætt starfandi og fólks með óörugga ráðningu eru á rassgatinu og þarf að koma til bjargar með einum eða öðrum hætti, svo ekki verði til pólitískt vandamál. Þeim verður því komið til bjargar í bili. En þeir sem taka ákvarðanir eru með réttu hræddir um, að samfélagsáttin á stjórnmálasviðinu og traustið til fjármálakerfisins gufi upp. Það lá mjög nærri að það gerðist í fjármálakreppunni, og í hverri kreppu síðan þá höfum við upplifað æ fleiri uppreisnir hér og þar frá hinum svokölluðu popúlistum.“
Þetta hljómar eins og mjög neikvæður dómur frá sósíalista sem hefur orðið fyrir vonbrigðum. En þetta þarf ekki að enda illa.
„Ég er á því að við séum á einhverjum þeim stað í sögunni, sem gæti leitt til nýrra lausna eins og við hrunið allt til 1933, þegar Roosevelt hélt New Deal ræðu sína, eða um 1944, þegar menn bjuggu til nýtt efnahagskerfi á grunni hugmynda Keynes, sem gerði kleift að sameina alþjóðlega fríverslun með þjóðlegu lýðræði,“ segir félagsfræðingurinn.
„Áður en við förum að lýsa því hvernig slíkt samfélag ætti að vera, verðum við því miður að spyrja hvaða stjórnmálaöfl geti verið nærri því að framkvæma slíka breytingu. Við búum í fullkomlega alheimsvæddum heimi, þar sem kerfi okkar og markaðir eru mjög svo sjálfstýrð og aftengd stjórnmálum. Við höfum byggt upp kerfi án tryggingar, kerfi sem hrynja saman við aðeins augnabliks truflun. Það á við um fjármálakerfið, það á við um just-in-time framleiðslukeðjurnar, og svo sannarlega á það við um milljónir sjálfstætt starfandi og fólk með óörugga ráðingu,“ er álit Streecks.
„Svo ég kem ekki auga á hver ætti að stýra þessum umskiptum. Trump? Eða von der Leyen,“ spyr hann með enn einu uppgjafabrosi.
„Ég lít svo á að það sé algjör nauðsyn að skapa kerfi þar sem loksins verður endurvakið traust og ró í samfélagi okkar, sem er ásótt af kreppum og angist, og þar sem kapítalisminn hefur rúið sig öllu trausti og gildum.“
Áður en við ýtum báðir á rauða skypehnappinn sem rýfur sambandið, undirstrikar hinn 73 ára Streeck, að hann hafi ekki verulegar áhyggjur af sinni eigin kynslóð, en hann hafi mun meiri áhyggjur af kynslóð barnabarna sinna.
„Loftslagsvandinn er gríðarlegur í sjálfu sér. En ég hef jafnmiklar áhyggjur af því hvor þau muni búa í þótt ekki sé nema nokkurn veginn stöðugum heimi, sem stýrt verði með lýðræðislegum hætti – í lýðveldi þar sem stjórnmál ráða ferðinni og þar sem nokkurn veginn örugg afkoma er fyrir alla.“