Lýðræðið hefur verið aflagt, þykir of mikið vesen
Pistill
14.04.2020
Ég renndi yfir fjölmiðlana í morgun í leit að umfjöllun um boðaðar efnahagsaðgerðir stjórnvalda. Fann ekkert. Sem er skrítið. Miðað við yfirlýsingar stjórnvalda um stærð þeirra, fyrirsjáanlega dýpt kreppunnar og umfang og eðli aðgerða stjórnvalda í öðrum löndum hljóta að vera á leiðinni stærstu pólitísku og efnahagslegu tíðindi lýðveldissögunnar, í það minnsta að umfangi. Og ef einhver hugsun verður sett í þennan pakka, þ.e. ef ríkisstjórnin ætlar ekki að blekkja sig og aðra með úr sér gegnum nýfrjálshyggjufrösum, má gera ráð fyrir að þessi pakki muni af eðli aðgerðanna hafa langvarandi afleiðingar fyrir pólitík framtíðarinnar. Samt er ekkert að frétta. Og eins og enginn hafi áhuga á málinu. Engar fréttir af óskalistum Alþýðusambandsins eða BSRB og engar fréttir af rannsóknum verkalýðshreyfingarinnar á stöðu eða afstöðu sinna félagsmanna. Engar fréttir af gagnsleysi fyrri aðgerða, fjölda eigenda smærri fyrirtækja sem hafa reynt að fá aðstoð innan bankakerfisins en enga fengið. Engar fréttir um mat á tekjufalli ríkis og sveitarfélaga vegna samdráttar í samfélaginu, auknu atvinnuleysi og lækkandi launatekjum. Engar fréttir af hugmyndum um hvernig ríkið mun vinna sig út úr auknum skuldum eftir kreppu; er planið að auka skattheimtu af almenningi eftir kreppu, leggja skatta á hin ríkustu eða eru plön um að láta þessar skuldir hverfa í Seðlabankanum með einum eða öðrum hætti? Engar fréttir af umræðu um hvers kyns framkvæmdir muni gagnast samfélaginu best; fleiri vegir og fleiri göt í fjöll; uppbygging heilbrigðis- og menntakerfis og átak í húsnæðismálum; orkuskipti og aukin matvælaframleiðsla. Engar fréttir af umræðu um hvers konar fyrirtæki er mikilvægast að vernda; eru það stórfyrirtækin sem skilgreind eru sem samfélagslega mikilvæg og lífvænleg eða eru það smáfyrirtækin sem eru sannarlega samfélagslega mikilvægust allra fyrirtækja og sem byggja upp mun lífvænlegra samfélag en þær verbúðir sem stórfyrirtækin skapa, samfélög þar sem hin fáu hafa öll völd en fjöldinn enginn.
Hvað veldur þessum doða. Eru fjölmiðlarnir ónýtir, ófærir að fjalla um málið sjálft en gleyma sér við að miðla kynningarefni frá stórfyrirtækjunum, sem lögðu fáeinar milljónir í púkk til að kaupa öndunarvélar og grímur? Eru stofnanir samfélagsins; háskólinn, stjórnmálaflokkarnir, almannasamtök; ónýtar og ófærar um að halda uppi lýðræðislegri umræðu? Er samfélagið sjálft ónýtt, í raun tilbúið að fela efnahags- og fjármálaráðherra að greina ástandið, finna lausnirnar, kynna þær og framkvæma?
Það viðhorf heyrist að ráðherrarnir hafi verið kosnir til að stjórna og því beri að gefa þeim svigrúm til þess. Þetta viðhorf er rangt í öllum grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi var Alþingi kosið til að stjórna, ekki ráðherrarnir. Kjósendur velja Alþingi en stjórnmálafólkið semur sig að ráðherrastólum. Umboð þess byggir á stjórnarsáttmála sem samþykktur er í stjórnarflokkunum en í honum er ekkert sem minnir á þær aðgerðir sem nú eru í undirbúningi, ekki einu sinni það sem þegar hefur verið kynnt. Í þeim vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir verður ríkisstjórnin því að sækja sér nýtt umboð til þingsins, með víðtæku samráði við alla flokka. Það er gert í þeim ríkjum sem eru betri í lýðræði en við. Í öðru lagi var Alþingi ekki kosið til að mæta þeirri kreppu sem við erum að ganga inn í, hún var ekki á matseðli kjósenda. Alþingi þarf því að efna til umfangsmikils samráðs og samtals um allt samfélagið til að draga fram ólíka stöðu fólks, ólíkt mat á vandanum og ólíka afstöðu til hans. Það er ljóst að lausnin verður á kostnað almennings. Í samanburði við þær milljónir sem fyrirtækin gáfu í formi öndunarvéla verður framlag almennings til bjargar fyrirtækjunum eins og Hallgrímskirkja við hliðina á legókubbi. Þær aðgerðir sem hafa verið kynntar, og enn frekar þær sem enn eru í smíðum, er framlag samfélagsins til bjargar sjálfum sér. Það er ekki framlag einstakra ráðherra til bjargar samfélaginu. Það þarf því að tryggja þessum aðgerðum víðtækan stuðning í samfélaginu, ríkisstjórnin þarf að sækja sér umboð til þeirra með því að segja satt um ástandið, segja satt um valkostina og segja satt þegar hún útskýrir val sitt á milli kostanna. Það hefur hún ekki gert hingað til og að óbreyttu er ljóst að hún ætlar sér ekki að gera það í framtíðinni.
Með því að taka ákvarðanir á bak við luktar dyr og án undangenginni umræðu er Alþingi og ríkisstjórnin að fella lýðræðið. Og við megum ekki við því. Ekki bara vegna þess að lýðræðið er réttur allra í samfélaginu heldur vegna þess að lýðræðið kemur með bestu lausnirnar. Ég veit að það er ekki vinsælt að segja þetta á þessum síðustu og verstu tímum, þegar það er í tísku að hallmæla stjórnmálunum og upphefja frumkvæði og mannkosti einstaklinga; en ástæðan fyrir vantrú almennings á stjórnmálunum er ekki lýðræðið heldur það að stjórnmálin hafa látið ólýðræðislega hagsmunabaráttu hinna fáu ríku og valdamiklu spilla lýðræðinu. Og lausnin við því er ekki að fella lýðræðið heldur styrkja það. Lýðræðið er tæki fjöldans gagnvart ofurvaldi hinna fáu auðugu.
Og ofurvald hinna fáu auðugu blómstrar í bakherbergjum, líkum þeim þar sem ráðherrar og aðstoðarfólk þeirra sitja nú og fara yfir óskalista hinna ríku um björgunaraðgerðir þeim til handa. Verkefni ráðherranna í bakherbergjunum er ekki að bæta hagsmuni almennings inn í þessa lista, heldur að útbúa þá svo að almenningur sætti sig við risaframlög úr almannasjóðum til hinna fáu valdamiklu og auðugu. Það er óhjákvæmileg niðurstaða þegar lýðræðið hefur verið aflagt og aðeins haldið í það að forminu til, aðgerðir alræðis auðvaldsins eru kynntar sem lýðræðisleg niðurstaða.
Við erum þar. Höfum gefist upp á lýðræðinu. Fjölmiðlarnir, háskólarnir, stjórnarandstaðan, almannasamtök … allar stofnanir samfélagsins sem ættu að vera viðspyrna almennings gagnvart valdi hinna fáu, hafa í raun fallist á að þegar mikið liggur við sé lýðræðið of mikið vesen. Látum ríka karlinn bara um þetta. Kannski gefur hann okkur öndunarvél að launum fyrir milljarðana sem við færum honum.