Skiljum engan eftir!
Pistill
21.04.2020
Í borgarstjórn tókum við umræðu um hættustig almannavarna vegna Covid-19 og ég ræddi um málefni tengd því sem koma upp í kjölfar þessa heimsfaraldurs. Á þessum tímum er mikilvægt að við skiljum engan eftir. Að aðgerðir okkar nái utan um alla sem þurfa á stuðningi á að halda. Að það sé enginn einn einhversstaðar að eiga við erfiðleikana sína eða sé afskiptur. Ég skynja að aðgerðir borgarinnar hingað til hafi að miklu leyti verið miðaðar að þeim sem að muni lenda í vanda vegna Covid-19 en hvað um þá sem hafa verið í viðkæmri stöðu fyrir tíma Covid?
Sumar aðgerðir borgarinnar eru strax komnar í farveg, á meðan að aðrar hafa verið sendar í ferli sem tekur mun lengri tíma og ekki er vitað hvað muni koma úr því líkt og á við um tillögu til stuðnings leigjenda Félagsbústaða. Sú tillaga hefur verið send til þeirra, í stað þess að borgin sem eigandi Félagsbústaði, grípi hér inn í, í samtali við Félagsbústaði og útfæri stuðning við leigjendur þeirra núna á tímum þar sem margir eru að mæta auka útgjöldum og voru fyrir í fjárhagslega viðkvæmri stöðu. Þá hefði líka verið nauðsynlegt að sjá viðbraðgsáætlun stjórnvalda; þ.e.a.s. sveitarfélaganna, eins og borgarinnar, og ríkisins um viðbrögð vegna lokunar góðgerðarfélaga en margir treysta þar á matarúthlutanir. Sjálfboðaliðar hafa séð um starfsemina en það er mikilvægt að sjá viðbrögð stjórnvalda við þessum málum. Sósíalistaflokkur Íslands lagði fram tillögu í borgarráði um að unnið yrði að slíkri viðbragðsáætlun vegna lokunar góðgerðarfélaga sem sjá um matarúthlutanir en hún hefur ekki hlotið afgreiðslu.
Afleiðingar kórónavírussins leggjast ekki jafnt á alla. Áhyggjur og streita aukast ef það er ekki gert ráð fyrir fólki í viðbragðsáætlunum stjórnvalda og ekki minna ef viðkomandi tilheyrir hópi sem er sjaldan gert ráð fyrir yfir höfuð. Ef við tökum fyrir stöðu fátæks fólks þá eru afleiðingar Covid-19 miklu erfiðari fyrir þá sem eru fátækir til að byrja með. Það geta ekki allir unnið heiman frá sér og einangrað sig. Margir þurfa að ferðast milli staða til að sinna ákveðnum lykilstörfum eins og þrifum og framlínustörfum og þá er mikilvægt að við tryggjum að samgöngur séu sem öruggastar, er t.d. verið að haga málum þannig að hægt sé að virða tveggja metra regluna um fjarlægðartakmörk í strætó öllum stundum?
Á tímum þar sem skólastarf og jafnvel vinna margra fer fram á heimilum getur verið erfitt að koma upp vinnuaðstöðu á heimili sem er lítið fyrir. Fyrir þau sem eru til að mynda á leigumarkaði og hafa tekið smærri, ódýrari íbúðir framyfir stærri dýrari íbúðir, getur verið erfitt að vinna að heiman og koma upp góðri vinnuaðstöðu fyrir sig og börnin sín til þess að læra. Þar að auki eru ekki endilega allir með aðgang að tölvu. Á vef Reykjavíkurborgar er gott að sjá að nokkrir skólar eru byrjaðir að lána út tölvur til nemenda sem eru ekki með aðgengi að tölvu heima hjá sér en það eru greinilega ekki allir skólar og málum er sennilega mismunandi háttað milli skóla varðandi hversu mikið er stuðst við rafrænar lausnir. Þetta er mikilvægt að við hugum að. Það hafa ekkert allir efni á tölvu eða endilega neti og ef það eru mörg börn á heimili sem deila einu snjalltæki með netaðgangi þá er þetta orðið frekar snúið. Þá eru líka margir framhaldsskólanemar sem virðast hafa flosnað upp úr námi eftir að samkomubannið var sett á og það er mikilvægt að við höldum vel utan um þá sem eiga nú í erfiðleikum. Hjá borginni eru t.d. margir á fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna náms og mikilvægt að huga að stöðu þeirra og sýna þeim stuðning.
Fyrstu aðgerðir borgarráðs í efnahagsmálum sem voru samþykktar voru kynntar á þann veg að öll borgarstjórn hafi verið sammála því. Borgarstjórn og borgarráð er ekki það sama og ekki allir borgarfulltrúar sem sitja í borgarráði og ekki allir þar með atkvæðarétt en ég taldi mikilvægt og vildi að við hefðum haldið uppi umræðuvettvangi borgarstjórnar síðasta mánuðinn. Borgarstjórn og allir borgarfulltrúar eru að koma hér til eftir um mánaðarhlé, þó að önnur ráð hafi fundað. Það er mjög villandi þegar að talað er um að borgarstjórn hafi verið sammála í aðgerðum til að bregðast við efnahagslegum aðgerðum vegna Covid-19. Þó ég vilji það besta fyrir borgarbúa, þá þýðir það ekki að ég sé sammála þeirri sýn að lækka skatta á allt atvinnulífið hér til lengdar. Það er gott að við getum hér nýtt tæknina til þess að funda saman og ræða málin og því hefði verið gott ef tillaga sósíalista um að fjölga fjarfundum borgarstjórnar síðasta mánuðinn hefði verið samþykkt, því það er mikið sem þarf að ræða og taka ákvörðun um.
Sveitarfélögin sinna gríðarlega mikilvægri nærþjónustu og núna hefur ríkið verið að kynna aðgerðarpakka og ég tel mikilvægt að leggja áherslu á það að við krefjum ríkið um fjárframlög til sveitarfélaganna. Þegar við lítum til borgarinnar þá sinnir hún mikið af grunnþjónustu sem borgarbúar treysta á. Þá hef ég sérstaklega áhyggjur af þeim sem að hafa verið að eiga við erfiðleika eins og félagslega einagrun og fátækt fyrir tíma Covid-19 og taka á sig stærra högg vegna afleiðinga þess. Við þurfum að vera viss um að aðgerðir borgarinnar nái utan um þau og þess vegna er mikilvægt að koma til móts við alla í erfiðri stöðu. Þegar við skoðum innheimtumálin þá hafa breytingar verið gerðar þar en ég get ekki séð að greiðsludreifing eða greiðslufrestun létti undir hjá þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eru í erfiðri stöðu og það er mikilvægt að mæta fólki í stað þess að senda reikninga til innheimtufyrirtækja. Slíkt getur verið mjög streituvaldandi og við viljum nú ekki verra að ýta undir streitu hjá fólki, sérstaklega ekki á tímum sem þessum.