Fuglabúrið mátað

Sósíalískir femínistar Frétt

Enn á ný stendur íslenskt stéttarfélag í kjarabaráttu. Sýnilegastar hafa verið kvennastéttir sem hafa strögglað við að fá endurnýjaða kjarasamninga í ár og á síðasta ári. Efling lauk nýverið kjarasamningi við sveitarfélög eftir langa baráttu. Vegferðin hefur verið að vera án samnings, svo að þurfa að ganga plankann í samtalinu við samfélagið og því næst baráttan við óbilgjarna vinnuveitendur. Hjúkrunarfræðingar eru enn að vinna að sinni baráttu og nú er komið að flugfreyjum og flugþjónum. Enn ein kvennastéttin sem vinnur erfiða en lítils metna vinnu. Og eins og upptalið er, þarf stéttin að leggja í sömu þrautagöngu og þær fyrrnefndu.

Starfsaðstæður flugfreyja/flugþjóna eru ekki á pari við aðrar starfsgreinar innan flugsins og ekki hægt að líkja við margar starfsgreinar utan fluggeirans heldur. 

Sett eru skilyrði sem eru á mörkum þess boðlega eins og um aldurstakmörk, útlit, framkomu og fatnað. 

Það er auðséð af viðbrögðum þeirra karla sem stjórna Icelandair að þeir telja fall félagsins og niðurlægingu vera á hendi starfsfólks, sérstaklega flugfreyja sem hafa frá upphafi verið fórnfúst framlínufólk. En nú eru þær orðnar að frekjum með yfirgang og stæla. -Það er í rauninni ágætt að sú sýn þeirra komi fram því það gefur stéttinni tækifæri til að sýna hrokafullum forstjóra að hann og strákarnir séu þar einungis að spegla sjálfa sig. 

Yfir stéttina rignir hrútskýringum og talað er við þær á yfirlætislegan hátt eins og þær séu kjánar sem viti ekki hvernig heimurinn virkar. 

Svo langt fóru yfirmenn félagsins í að lítilsvirða starfsfólk sitt að þeir gengu freklega fram hjá þeim vinnureglum sem gilda í kjaraviðræðum og varð til þess að ASÍ sá sig knúið til að rita bréf þar sem eftirfarandi kom fram:  „Við treystum því að bæði ríkissáttasemjari og Samtök atvinnulífsins leggi að sínu fólki að virða reglur,“. 

Á meðan stjórnendur og aðrir koma fram með klisjukennda tillögu um að lægstlaunaða fólkið skuli taka mestan skellinn hafa þó komið fram lausnamiðaðar tillögur í átt að því að aðstoða eina flugfélag landsins. Ein er sú að stofnað yrði dótturfélag en önnur gæti verið að ríkið taki alfarið að sér félagið. Flugfélagið yrði því ríkiseign sem ekki er óalgengt í nágrannalöndum okkar.

Forystu flugfélagsins væri nær að vinna að samfélagslegum lausnum frekar en að kafna í eigin hroka.

Við krefjumst þess að  samninganefnd Icelandair horfist í augu við að félagið er ekkert án þessa starfsfólks.  Fólk þetta hefur borið hag fyrirtækisins fyrir brjósti og verið stolt af sínum vinnustað. Með samningatillögum þeim sem komið hafa fram frá Icelandair er verið að fórna þessu og við viljum velta því upp hvort það sé í alvöru þess virði. 

Við hvetjum samninganefnd og félaga Flugfreyjufélagsins að standa þétt saman og gefast ekki upp. Að þið klæðist Valshamnum sem Freyja klæddist í goðafræðinni og vinnið þessa baráttu með samstöðunni.

Við, Sósíalískir femínistar, stöndum með ykkur í kjarabaráttunni. Áfram Freyjur.

F.h. sósíalískra femínista
Margrét Pétursdóttir, Ynda Eldborg, Arna Þórdís Árnadóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir, Laufey Ólafsdóttir, Katrín Baldursdóttir og Candice Michelle Goddard

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram